fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

NETFLIX tryggir sér rétt á alheimsdreifingu á íslenskri sjónvarpsþáttaröð

Ragna Gestsdóttir
Laugardaginn 2. febrúar 2019 16:30

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Efnisveitan NETFLIX hefur tryggt sér alheimssýningarréttinn á íslensku sjónvarpsþáttaröðinni The Valhalla Murders. Þáttaröðin er framleidd er af íslensku framleiðslufyrirtækjunum Truenorth og Mystery í nánu samstarfi við RÚV sem er meðframleiðandi. Samningurinn við NETFLIX var gerður fyrir milligöngu RÚV sölu og DR Sales, sölufyrirtæki danska ríkisútvarpsins.

Þetta er fyrsti samningurinn sem NETFLIX gerir með þessum hætti um samstarf um leikna íslenska þáttaröð.  NETFLIX opinberaði samkomulagið formlega í gær á kvikmyndahátíðinni í Gautaborg í Svíþjóð með því að tilkynna sérstaklega að The Valhalla Murders yrði ein af væntanlegum þáttaröðum á efnisveitunni árið 2020.

Heildarkostnaður við gerð þáttaraðarinnar verður um 700 milljónir króna og tryggir samningurinn við NETFLIX að nær helmingur fjármögnunar komi að utan, í gegnum NETFLIX og frekari sölu á þáttaröðinni.

NETFLIX hefur áður keypt sýningarrétt á tilbúnum íslenskum þáttaröðum en þetta mun vera í fyrsta sinn sem efnisveiturisinn kemur með eins umfangsmiklum hætti að fjármögnun og framleiðslu íslenskrar þáttaraðar.

Tökur hafa staðið yfir undanfarnar vikur hér á landi. Þeim lýkur með vorinu og er gert ráð fyrir að þáttaröðin verði frumsýnd á RÚV í kringum næstu áramót og verði svo fljótlega aðgengileg um heim allan á NETFLIX.

The Valhalla Murders er dramatísk íslensk spennuþáttaröð í átta þáttum, sköpunarverk Þórðar Pálssonar. Þórður er jafnframt einn af leikstjórum þáttaraðarinnar ásamt þeim Davíð Óskari Ólafssyni og Þóru Hilmarsdóttur sem öll eiga það sameiginlegt að vera meðal okkar efnilegustu kvikmyndaleikstjóra. Handritshöfundar eru Margrét Örnólfsdóttir, Óttar Norðfjörð, Ottó Geir Borg og Mikael Torfason sem öll hafa umtalsverða reynslu á sínu sviði. Með burðarhlutverk fara Björn Thors og Nína Dögg Filippusdóttir. Framleiðendur þáttaraðarinnar eru Kristinn Þórðarson, Davíð Óskar Ólafsson og Leifur B. Dagfinnsson fyrir Truenorth og Mystery í samstarfi við RÚV.

The Valhalla Murders er fyrsta stóra kvikmyndaverkefni Þórðar. Hann hefur búið og starfað í London frá því að hann útskrifaðist með láði frá The National Film and Television School í Englandi. Stuttmynd hans Brothers vann til fjölda alþjóðlegra kvikmyndaverðlauna og hann fékk nýverið hin eftirsóttu Nordic Talent Pitch verðlaun.

The Valhalla Murders verður alþjóðlegur titill þáttaraðarinnar. Þættirnir verða á á íslensku en íslenskur titill liggur ekki enn fyrir. Sögusviðið er Reykjavík samtímans. Þegar þriðja manneskjan finnst myrt innan sömu vikunnar, áttar lögreglan sig á því að hún er að fást við fyrsta íslenska fjöldamorðingjann. Öll fórnarlömbin eru á einn eða annan hátt tengd hryllilegum atburðum sem áttu sér stað fyrir 35 árum. Þessir atburðir fortíðar hafa tekið sig upp í nútímanum og skyndilega er þjóðin öll í hættu og enginn óhultur.

Verkefnið er liður í stóraukinni áherslu RÚV á leikið íslenskt efni, jafnt með framboði og aukinni aðkomu að þróun og framleiðslu. Það hefur þegar skilað sér svo um munar með afar farsælum sýningum á fjölbreyttum þáttaröðum á borð við fyrstu tvær þáttaraðirnar af Ófærð, Föngum, Mannasiðum, Flateyjargátu og Ligeglad svo nokkur dæmi séu nefnd. Allt frá því The Valhalla Murders var fyrst kynnt fyrir alþjóðlegum sjónvarpsstöðvum, efnisveitum, fjárfestum og dreifingarfyrirtækjum fyrir um tveimur árum hefur verið mikill áhugi og eftirvænting í kringum þættina. Efnisveitan NETFLIX  varð á endanum fyrir valinu, ekki hvað síst vegna þess að verkefnið fellur vel að því efnisframboði sem þar er að finna, verandi ný, fersk og ögrandi nálgun á hina vinsælu norrænu glæpaseríuhefð.

„Þessi tímamótasamningur við NETFLIX og þetta mjög svo áhugaverða verkefni yfirhöfuð er stór áfangi í umfangsmikilli og markvissri vinnu okkar á RÚV sem miðar að því að auka til muna framboð, dreifingu en umfram allt gæði leikins íslensks sjónvarpsefnis,“ segir Magnús Geir Þórðarson útvarpsstjóri. „Um leið er þetta skýr vitnisburður um þann árangur sem við höfum þegar náð og afgerandi hvatning til okkar um að halda áfram á sömu braut, að gera allt sem í okkar valdi stendur, og fjárhagslegt svigrúm leyfir, til að færa þjóðinni og sjónvarpsáhorfendum um heim allan alíslenskar sögur úr íslensku umhverfi, skapaðar og framleiddar af íslensku hæfileikafólki – og það á íslenskri tungu. RÚV heldur áfram að efla íslenska framleiðslu á efni á íslenskri tungu enda tel ég fátt mikilvægara fyrir okkar menningu og sjálfsmynd þjóðarinnar.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“

„Ég var kominn á stað þar sem ég vissi að ég myndi valda mér miklum skaða ef ég myndi ekki taka í taumana“
Fókus
Í gær

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna

Jón og Hafdís selja Seltjarnarnesvilluna
Fókus
Fyrir 2 dögum

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 3 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi