fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Youtube-stjarnan Tom Vasel mætti á Midgard í Laugardalshöll

Kristinn H. Guðnason
Föstudaginn 21. september 2018 18:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Ráðstefnan Midgard Reykjavik var haldin helgina 15.–16. september og gekk vonum framar. Á sunnudeginum seldust miðarnir upp og töluvert var um erlenda ferðamenn á svæðinu. Allir „nördar“ gátu fundið eitthvað við sitt hæfi. Meðal annars var boðið upp á borðspilamót, Cosplay-keppni, víkingaslag, fyrirlestra um Star Wars og uppistand. Tölvuleikjaframleiðendur, myndlistarmenn, góðgerðarsamtök og fleiri stilltu einnig upp sölu- og kynningarbásum.

Einn af fyrirlesurum ráðstefnunnar var Tom Vasel, þekktasti borðspilagagnrýnandi heims sem rekur Youtube-rásina The Dice Tower. Vasel, sem er upprunalega frá Pennsylvaníu í Bandaríkjunum, hóf að skrifa gagnrýni árið 2002 þegar hann starfaði sem stærðfræðikennari í kristilegum skóla í Suður-Kóreu. Þetta vatt upp á sig og Vasel byrjaði með hlaðvarpsþátt og síðan Youtube-rás sem hefur sprungið út. Árið 2012 hætti hann að kenna og starfar nú alfarið við rásina.

Fjöldi einstaklinga úti um allan heim er nú með reglulega þætti en Vasel og félagar hans, Sam Healey og Zee Garcia, eru stærstu stjörnurnar. Garcia kom með Vasel til Íslands og lásu þeir upp sína víðfrægu topp 10 lista sem minna um margt á besta uppistand. Blaðamaður DV tók eitt spil við Vasel og ræddi við hann á eftir.

Bjóstu við að The Dice Tower yrði jafn stór og raunin varð?

„Já, ég ímyndaði mér það alveg. Ég ímynda mér alls konar hluti, risasórar ráðstefnur og fleira, en kannski ekki að þetta myndi vaxa svona hratt. Ég verð alltaf pirraður þegar ég sé viðtöl við einhvern sem hefur unnið America’s Got Talent eða eitthvað í þeim dúr sem segir að hann hafi ekki búist við þessu. Þá hugsa ég alltaf: Jú, þú gerðir það! Þess vegna skráðir þú þig í keppnina,“ segir Vasel og hlær.

Vasel byrjaði að skrifa fyrir síðuna Boardgamegeek, sem er í dag stærsti gagnagrunnur og samskiptaforrit fyrir spilaáhugafólk. Fólk kunni að meta skrif hans og þess vegna hélt hann áfram.

Hversu marga fasta fylgjendur hefur Youtube-stöðin dag?

„Við erum komin upp í um 200 þúsund og við erum alltaf að þróast. Fyrst skrifin, svo hlaðvarpið, svo myndbandsupptökur og nú erum við byrjuð að sjá um ráðstefnur. Ég fer á um tólf ráðstefnur á ári, um eina á mánuði, því ég vil ekki vera fjarri fjölskyldunni of lengi.“

 

Ljósmynd: DV/Hanna

Internetið er grimmur staður

Tom og eiginkona hans Laura eru kirkjurækið fólk, búsett í Flórída-fylki. Þau eiga sjö börn sem koma iðulega fyrir í myndböndunum og ein af ástæðunum fyrir vinsældum rásarinnar er sú að þau hafa hleypt áhorfendum inn í líf sitt á opinskáan hátt. Tímabilið frá 2009 til 2011 var erfitt fyrir fjölskylduna því þá greindist ein dóttirin með langvinnan sjúkdóm. Í nóvember 2010 fæddist sonurinn Jack Vasel fyrir tímann en hann lifði aðeins í tvo mánuði. Í kjölfarið stofnuðu þau minningarsjóð í hans nafni og fer ágóðinn í að styrkja spilaáhugafólk sem á við erfiðleika að stríða.

„Mér datt aldrei í hug að það yrði nokkurn tímann ráðstefna hér á Íslandi. En þegar ég heyrði af henni vildi ég auðvitað koma. Það hefði í raun ekki skipt máli hvort ráðstefnan yrði haldin eða ekki, ég hefði verið ánægður að fá að koma til Íslands. Þetta er flottur og skemmtilegur staður, þó að allt sé reyndar dýrt hérna. Ég er ekki vanur að sjá svona landslag, fjöll, kletta, goshveri. Þetta er allt svo frumstætt enda hefur landið verið notað sem bakgrunnur í svo margar kvikmyndir. Í Flórída er allt grænt. Það sem mér líkar einnig er hversu rólegt allt er. Ólíkt Bandaríkjunum er enginn að flýta sér hér.“

Snýst allt heimilislífið um borðspil?

„Nei, alls ekki. Elsta dóttir mín hefur mikinn áhuga og hefur sjálf gagnrýnt spil á stöðinni. Sú næstelsta hefur engan áhuga á spilum en hún ljósmyndar og tekur upp myndbönd. Ég vill ekki vera „öfugur-nörd.“ Pabbi hafði mikinn áhuga á íþróttum en hann neyddi mig ekki til að taka þátt. Fólk hefur ólík áhugamál og það er í fínu lagi.“

Hvað er mest gefandi við þetta starf?

„Að hitta fólk úti um allan heim sem kemur og talar við mig,“ segir Tom ákveðinn. „Það vermir mér um hjartarætur þegar ég heyri sögur frá fólki sem segir að fjölskyldur þeirra hafi orðið nánari eftir að hafa horft á rásina og farið að stunda áhugamálið.“

En það versta?

„Netið getur verið grimmur staður og fólk skrifar þar hluti sem særa. Það er til fólk sem er illa við mig af einhverri ástæðu sem ég kann ekki að nefna. Þegar ég sé þannig skrif verð ég að minna mig á að þetta skiptir í raun og veru engu máli. Það getur þó verið niðurdrepandi stundum.“

Finnur þú fyrir þrýstingi frá hönnuðum og framleiðendum?

„Já, auðvitað. Þeir vilja alltaf að ég segi eitthvað jákvætt um spilin þeirra en ég verð að segja nei. Það getur samt verið erfitt því margir af þeim eru vinir mínir. En ef spil er slæmt þá er það slæmt og ekkert sem ég get gert í því. Ég er hreinskilinn og ekki ósanngjarn og flestir kunna að meta það.“

Hvernig líst þér á íslensku senuna?

„Ég er ekki búinn að sjá mikið af henni fyrir utan þessa ráðstefnu. Það sem mér hefur fundist merkilegast er að fólk er mjög upptekið af þemum í spilunum, hvert sögusviðið sé. Ég tek ekki eftir þessu annars staðar.“

Ljósmynd: DV/Hanna
Ljósmynd: DV/Hanna
Ljósmynd: DV/Hanna
Ljósmynd: DV/Hanna
Ljósmynd: DV/Hanna
Ljósmynd: DV/Hanna
Ljósmynd: DV/Hanna
Ljósmynd: DV/Hanna
Ljósmynd: DV/Hanna
Ljósmynd: DV/Hanna
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Í gær

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti

Sjáðu senuna sem er sögð sú fyndnasta í Saturday Night Live frá upphafi – Enginn náði að halda andliti
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs

Hrím og Skrímslavinafélagið tilnefndar til barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs
Fókus
Fyrir 4 dögum

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“

Tinna er líklega búin að finna móður sína – „Ég þarf að vera tilbúin til að fara út til þegar kallið kemur“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar

Einn dáðasti leikarinn á leið í hnapphelduna eftir að unnustan fór á skeljarnar