fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Þekktustu dýr Íslandssögunnar – manst þú eftir þeim?

Tómas Valgeirsson
Sunnudaginn 2. september 2018 16:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Oft eru góð ráð dýr og á Íslandi er svo sannarlega enginn skortur á hæfileikaríkum dýrum. Sum þeirra hafa rokið fram úr öðrum með glæstum orðstír og miklum hæfileikum. Önnur hafa jafnvel átt sér grípandi sögu sem hafa snert hjörtu sannra íslenskra dýravina og eiga ekki alltaf farsælan endi. En ef gullfiskaminnið er eitthvað að segja til sín þá rifjum við upp átta af frægustu dýrum Íslands.

 

Frjáls og fastur

Áður en nokkrir af þekktustu leikurum samtímans voru kenndir við stór hlutverk í Hollywood-kvikmyndum var háhyrningurinn Keikó fyrstur í mark í þeim málum. Keikó fæddist við Íslandsstrendur árið 1976 og var nokkrum árum síðar fangaður og seldur til þjálfunar sem bandaríski sjóherinn tók að sér. Árið 1993 sló háhyrningurinn síðan rækilega í gegn í titilhlutverki fjölskyldumyndarinnar Free Willy og tveimur framhaldsmyndum. Frægðin hafði þó sínar dökku hliðar, eins og oft vill verða, og Keikó fékk að kenna á þeim.

Talsmenn háhyrningsins fengu hótunarbréf um að Keikó yrði drepinn og fullyrðingar birtust í erlendum fjölmiðlum um að honum liði illa. Keikó var síðan fluttur aftur til Íslands í september árið 1998 þar sem ætlunin var að leyfa honum að lifa eins og aðrir háhyrningar. Þjálfun fór fram í Vestmannaeyjum til að reyna að draga úr tengslum hvalsins við manneskjuna og var talið að hægt væri að sleppa honum lausum sumarið 2002. Í september á því ári varð vart við hann í Noregi en almenningi var bannað að eiga samskipti við hann. Þann 10. desember 2003 greindist hann með lungnasjúkdóm og drapst nokkrum dögum síðar.

 

Tík í brennidepli

Árið 1984 kærði Rafn Jónsson fréttamaður Albert Guðmundsson, fjármálaráðherra landsins, fyrir ólöglegt hundahald. Þá dróst tíkin Lucy í sviðsljósið og varð um tíð frægasti hundur Íslands. Albert gaf ekkert eftir í kærumálinu og sagðist fyrr mundu flytja úr landi en láta Lucy frá sér. Málinu lauk svo hálfu ári seinna og var þá Albert gert að greiða 6.500 krónur í sekt. Borgarstjórn Reykjavíkur hafði þó engu að síður samþykkt að leyfa hundahald með skilyrðum fyrr um vorið. Sagan segir einnig að Albert hafi sagst hafa greitt sektina til að fá vinnufrið fyrir erlendum blaðamönnum og hringingum frá fólki sem vildi bjóða honum landvist.

 

Hinn blíði Bongó

Söngkonan Elly Vilhjálms er allflestum Íslendingum kunnug vegna einstakrar söngraddar og bræðandi persónuleika. Í ævisögu hennar greinir hún frá apa sem hún átti og náði að smygla til landsins. Apinn hlaut nafnið Bongó og varð seinna meir mjög frægur í Hveragerði. Árið 1958 fór Elly með vinkonu sinni til Spánar og þar ákvað hún að kaupa sér apa. Hermt er að Elly hafi ætlað að kaupa þann sem væri gáfulegastur til augnanna. Þegar kom að því að flytja Bongó heim fór ekki mikið fyrir honum í handtösku söngkonunnar. Bongó var búsettur hjá Elly í Vesturbænum í nokkra mánuði áður en ljóst var að hann var ekki húsum hæfur. Árið 1978 hvarf hann á brott og er þá talið að hann hafi endað á uppboði hjá tollstjóranum í Reykjavík. Hann dróg síðasta andan í blómaskála Paul Michelsen og var uppstoppaður eftir það.

 

Duglegur að dreifa

Kynbótahesturinn Orri var heygður í fæðingarstað sínum Þúfu, þar sem segja má að hann hafi alla tíð átt lögheimili og var hann þar alla tíð, fyrir utan fyrstu fimm ár ævi sinnar. Óhætt er að segja að Orri frá Þúfu hafi vakið mikla lukku og skilaði ómetanlegu framlagi til eigenda sinna og hrossaræktarinnar eins og hún leggur sig. Yfir 1.300 afkvæmi voru skráð undan hestinum og skilaði hann 25 fylfullum hryssum inn í veturinn áður en hann var felldur. Orri var þá orðinn 28 vetra gamall en var hann allur árið 2014. Veturinn áður hafði hann lent í slysi og tóku liðverkir í hálsinum á honum sinn toll.

 

Þrefaldur Íslandsmeistari

Eplið fellur sjaldan langt frá eikinni, en af mörgum afkvæmum Orra frá Þúfu hefur stóðhesturinn Suðri frá Holtsmúla náð hvað bestum árangri. Hann sló fyrst í gegn á stóðhestasýningu í Ölfushöll, þá fjögurra vetra. Hljóp þá um salinn án knapa og bræddi hjörtu margra. Hann hefur þrívegis orðið Íslandsmeistari í fjórgangi hjá hinum reynda knapa Olil Amble, sem þjálfaði hann um nokkurra ára skeið. Suðri heillaði dómara um allan hnöttinn á heimsmeistaramótum. Suðri er með 237 skráð afkvæmi, þar af níu með fyrstu verðlaun og sex til viðbótar með 7,80 í kynbótadómi og hærra.

 

Virkir í athugasemdum

Stóra Lúkasarmálið á rætur sínar að rekja til Bíladaga árið 2007. Þá týndist hundurinn Lúkas og fóru á kreik sögusagnir um að hópur drengja hefði sett hann í íþróttatösku og sparkað úr honum lífið. Málið vakti mikla at­hygli og óhug og var mikið skrifað um hið meinta hunds­dráp á spjall- og blogg­síðum. Einn meintra gerenda var nafngreindur á veraldarvefnum og bárust honum alvarlegar líflátshótanir í kjölfarið. Sögusagnirnar reyndust allar rangar því Lúkas skilaði sér síðar heill á húfi. Glymur hinna neikvæðu radda hafði verið til einskis annars en að varpa ljósi á skapgerð þeirra sem létu ljót orð falla.

 

Níðþungur og stórglæsilegur

Merkisnautið Guttormur var engin smásmíði og fangaði athygli landsmanna með sláandi stærð sinni. Gripurinn vó heil 942 kíló á seinni árum en bar þyngdina vel og þótti nokkuð geðgóður. Guttormur var orðinn þrettán vetra þegar ákveðið var að fella hann árið 2005 en aldurinn þykir nokkuð hár þegar um nautgrip er að ræða. Hann var gigtveikur og stirður en seinni hluta ævi sinnar eyddi Guttormur í Húsdýragarðinum þar sem hann var afar vinsæll meðal yngri kynslóðarinnar sem hafði aldrei barið jafn stóran nautgrip augum.

 

Schäefer í stjórn

Hundurinn Tanni, í eigu Davíðs Oddssonar, var lungann úr ævi sinni íslenski forsætisráðherrahundurinn, en gegndi því hlutverki í æsku að vera borgarstjórahundur Reykjavíkur. Tanni var af tegundinni schäefer og varð landsþekktur, bæði vegna eiganda síns og eigin verðleika. Hann var af hreinræktuðu kyni og þegar Davíð eignaðist hann var mikil umræða í þjóðfélaginu um skyldleikaræktun Schäefer-hunda á Íslandi. Mætti einnig segja að Tanni hafi oft stolið sviðsljósinu af eiganda sínum þegar þeir mátar náðust saman á mynd, en hundurinn drapst árið 1999 úr elli.

 

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Stöð 2 lækkar verð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu

Fyrrum ritari staðfestir loks að hafa verið yfirheyrð í eineltisrannsókninni alræmdu
Fókus
Fyrir 2 dögum

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision

Tekur við af Gísla Marteini sem kynnir Eurovision
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund

Fyrrverandi samskiptastjóri Sigríðar Hrundar styður núna Höllu Hrund
Fókus
Fyrir 2 dögum

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við

Fylgdi vinsælu heilsuráði og endaði á spítala – Varar aðra við
Fókus
Fyrir 4 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 4 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“

Vikan á Instagram – „Þvílíkur rússibani“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“

Varð fyrir hrottalegu ofbeldi fimm ára gömul – „Ég var á leið til vinkonu minnar, bankaði á vitlausa hurð“