fbpx
Þriðjudagur 23.apríl 2024
Fókus

Ævar Þór skelkaður og segir nóg komið – „Ég hef orðið hræddur í lífinu áður en aldrei í líkingu við þetta“

Auður Ösp
Föstudaginn 13. júlí 2018 19:31

Ævar Þór Benediktsson

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég er hræddur. Ég er hræddur um hvað gerist ef það kemur eitthvað uppá og það eru ekki nógu margar ljósmæður á vakt til að sinna okkur. Ég er hræddur um að stressið sem fylgir öllu þessu kjaftæði verði til þess að litli strákurinn okkar ákveði að mæta of snemma í heiminn,“ segir Ævar Þór Benediktsson leikari, einnig þekktur sem Ævar vísindamaður. Ævar Þór á von á sínu fyrsta barni í byrjun ágúst og kveðst standa heilshugar með ljósmæðrum í kjarabaráttu þeirra.

Lítið sem ekkert hefur þokast áfram í kjaradeilu ljósmæðra og íslenska ríkisins en ljósmæður höfnuðu tilboði samninganefndar í fyrradag. Fjöldi ljósmæðra hefur sagt upp störfum og þá hefur Ljósmæðrafélag Íslands boðað yfirvinnubann frá 18.júlí næstkomandi.

„Róleg, yfirveguð og með allt á hreinu“

Ævar Þór hélt ræðu á sam­stöðufund­i með ljós­mæðrum í Borg­ar­túni þann 5.júlí síðastliðinn, áður en samn­inga­fundur ljós­mæðra og rík­is­ins fór fram hjá rík­is­sátta­semj­ara. Lýsti hann meðal annars sinni upplifun af því að vera verðandi faðir og upplifa óvissu og ótta í tengslum við hugsanlegan skort á ljósmæðrum.

„Þann 5. ágúst (plús mínus nokkrir dagar til eða frá) verð ég pabbi. Í fyrsta skipti. Unnusta mín heitir Védís og við erum komin tæpar 36 vikur á leið. 9 mánuði. Þetta er spennandi tími, þetta er stressandi tími, þetta er tími sem er sífellt að kenna mér eitthvað nýtt og mér skilst á fólki að þetta sé bara rétt að byrja. ,,Barn breytir öllu,“ segja foreldrar við mig og brosa í kampinn. Og ég get ekki beðið.

Frá því að við komumst að því að Védís væri með barni hafa tvær manneskjur komið hvað mest að litla stráknum okkar. Númer eitt: Ljósmóðirin okkar. Númer tvö: Hin ljósmóðirin okkar. Við erum nefnilega svo heppin að hafa þær Ragnheiði og Gígju sem vinna úti á Seltjarnarnesi og hafa þær passað að bæði móður og barni heilsist vel.“

Ævar Þór gagnrýnir framkomu ríkisins í ljósmæðradeilunni og segir stéttina ekki eiga slíkt skilið, enda samanstandi hún af reynslumiklu fagfólki. Sjálfur fékk Ævar Þór að kynnast því þegar hann og kona hans þurftu að nauðsynlega á aðhlynningu ljósmóður að halda á meðgöngunni.

„Fyrir um þremur mánuðum síðan vakti Védís mig um miðja nótt með fjórum verstu orðum sem tilvonandi foreldrar geta heyrt: „Það er eitthvað að.“ Ég hef orðið hræddur í lífinu áður en aldrei í líkingu við þetta. Við klæddum okkur eins hratt og við gátum, hringdum í leiðinni niður á Landspítala, fengum samband við ljósmóður, lýstum því hvað væri að gerast og vorum umsvifalaust boðuð niður á kvennadeild. Ljósmóðirin á hinum enda línunnar var róleg, yfirveguð og með allt á hreinu. Þegar við mættum tók ljósmóðirin á móti okkur – og ég vildi óska að ég myndi hvað hún héti, en í öllu stressinu vissi ég varla hvað ég sjálfur héti – róaði okkur bæði niður og leiddi okkur inn í stofu. Þar vorum við í rúman klukkutíma, út af fyrir okkur, í fullkominni ró. Ljósmóðirin rannsakaði Védísi hátt og lágt, kallaði á lækni sem gerði slíkt hið sama, og vék aldrei frá okkur. Fagmennskan var slík að við tilvonandi foreldrarnir áttum ekki til orð. Eftir klukkutíma af rannsóknum varð niðurstaðan sú að allt væri í góðu og við mættum fara aftur heim.

Ég get ekki þakkað starfsfólki Landspítalans nóg. Starfsfólkið þar er hokið af reynslu, veit nákvæmlega hvað það er að gera og á ekki skilið að svona sé komið fram við það. Þess vegna stend ég með ljósmæðrum.“

Ævar Þór bendir á að þeir sem eru að fara að eignast sitt fyrsta barn þurfi að hafa greiðan aðgang að ljósmóður og geta leitað til viðkomandi með þær fjölmörgu spurningar sem koma upp í tengslum við meðgönguna og fæðinguna.

„Hlutverk þeirra er nefnilega ekki, eins og sumir vilja halda og einhver orðaði svo snilldarlega á Twitter í vikunni, „að grípa börn,“ og fara svo í kaffi. Hlutverk þeirra er svo margfalt meira og ég veit að það sem við tilvonandi foreldrarnir höfum séð á þessum níu mánuðum er bara toppurinn á ísjakanum. Þær fylgja okkur alla meðgönguna, taka á móti börnunum okkar og fylgja þeim svo eftir. Þess vegna stend ég með ljósmæðrum.“

Ævar Þór óttast að umræðan  verði til þess að færri sæki um að verða ljósmæður: að í stéttina hafi verið hoggið skarð sem seint eða jafnvel aldrei muni gróa.

„En ég er líka hræddur um að nú sé komið nóg. Eins og sagt er við litlu börnin á leikskólanum: Þetta er ekki í boði. Það er ekki í boði að vera ráðherra og svara ekki spurningum, það er ekki í boði að dreifa óhróðri og launatölum sem búið er að teygja til og frá, það er ekki í boði að semja ekki við ljósmæður.“

Ævar Þór biður einnig ráðamenn þjóðarinnar „innilegrar afsökunar á því að við skulum öll vera saman komin hér í dag að trufla sumarfríið ykkar en staðreynin er sú að þið eruð í vinnu hjá okkur.“

„Ljósmæður eru starfsstétt sem kemur við sögu í lífi okkar allra. Hvers eins og einasta. Hvort sem þér líkar betur eða verr, það er bara þannig. Þess vegna stend ég með ljósmæðrum.

Ég veit ekki hvort hæstvirtir ráðherrar stefni á það að taka sjálfir á móti börnum og barnabörnum sínum, en ég leyfi mér að efast um það. Þau geta kannski fengið forstjóra til að ganga í starfið – gvuð veit að þeir eru á nógu góðum launum – en eitthvað segir mér að þegar að því kemur að einhver tengdur þeim mun eignast sitt næsta barn verði ljósmóðir þeim innan handar; með margra ára nám á bakinu, ekki útkeyrð og – ætla ég rétt að vona – sátt við sín laun.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan

Bankarnir í Þýskalandi hata hana – Þetta er ástæðan
Fókus
Fyrir 4 dögum

Aðdáendur Taylor Swift halda ekki vatni eftir nýjasta uppátæki hennar

Aðdáendur Taylor Swift halda ekki vatni eftir nýjasta uppátæki hennar