fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Natalie Gunnarsdóttir (37): „Þessi stund breytti ömmu, þarna sá hún innflytjendur í réttu ljósi“

Steingerður Sonja Þórisdóttir
Laugardaginn 12. maí 2018 11:50

Natalie Gunnarsdóttir ólst upp hjá ömmu sinni og afa. Hún segist líklega aldrei fá svör við því af hverju móðir hennar vildi hana ekki.

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Natalie Gunnarsdóttir vekur athygli hvert sem hún fer. Síðasta áratuginn hefur hún verið einn þekktasti plötusnúður landsins en nú hefur hún ákveðið að venda kvæði sínu kross og hella sér út í pólitík.

Á dögunum var tilkynnt að Natalie væri í 10. sæti hjá Sósíalistaflokknum í Reykjavík og hún tekur virkan þátt í baráttunni. Steingerður Sonja hitti Natalie og ræddi við hana um tónlistina, brostið heilbrigðiskerfi, réttindabaráttu aldraðra, fordóma Íslendinga, móðurina sem hún hefur örsjaldan hitt og æxlin tvö sem breyttu öllu.

„Ég og móðir mín eigum ekki í neinu mæðgnasambandi og höfum aldrei verið.“

Natalie fæddist í Chicago í Bandaríkjunum árið 1980. Faðir hennar var bandarískur en íslensk móðir hennar var búsett þar ytra. Aðeins þriggja mánaða gömul var Natalie send í fóstur til ömmu sinnar og afa og þar ólst hún upp. Hún hefur aldrei haft nein samskipti sem heitið getur við foreldra sína. „Pabbi er látinn en mamma er  búsett hérna heima. Ég hef hitt hana örsjaldan en þekki hana voða lítið. Hún tekur ekkert þátt í lífi mínu,“ segir Natalie.

Móðir Natalie á tvær aðrar dætur, hálfsystur Natalie, en systurnar eiga ekki heldur í neinum samskiptum. „Þær vita alveg af mér og ég hef reynt að koma á samskiptum milli okkar en það hefur ekkert orðið úr því. Þetta er óneitanlega mjög sérstök fjölskyldudýnamík. Ég og móðir mín eigum ekki í neinu mæðgnasambandi og höfum aldrei verið. Við erum eins og tvær fjarskyldar hálfsystur. Þau fáu skipti sem við hittumst þá er andrúmsloftið mjög skrýtið.“

Natalie segir að hún hafi oft spurt sig af hverju hún hafi verið send í fóstur en þeirri spurningu verður líklega aldrei svarað. „Ég er búin að sætta mig við að ég muni líklega aldrei fá nein svör við því og ég veit ekki hvað var í gangi hjá móður minn á þessum tíma. En það er samt óneitanlega sérstakt að senda þriggja mánaða barn í varanlega pössun. Þegar ég sé þriggja mánaða barn í dag á ég ótrúlega erfitt með að ímynda mér þetta eða hvernig þetta kom til. Það brotnar alltaf eitthvað inni í mér þegar ég sé börn á þessum aldri.

Móðurbróðirinn barðist við ólæknandi hrörnunarsjúkdóm

Natalie kom á mjög erfiðum tíma inn í líf ömmu sinnar og afa. Móðurbróðir hennar, Þorvaldur Helgi, lá fyrir dauðanum og álagið á heimilinu var gríðarlegt. „Frændi minn, sem þá var aðeins 21 árs gamall, þjáðist af ólæknandi hrörnunarsjúkdómi. Hann fæddist eðlilegur en síðan blindaðist hann og svo byrjaði líkaminn að hrörna. Ég kom inn á heimilið síðasta árið sem hann lifði. Amma sá um að hjúkra syni sínum og þessi barátta lagðist þungt á hana,“ segir Natalie.

Þar sem amma Natalie var önnum kafin þá kom það í hlut afa hennar að taka hitann og þungann af umönnun barnsins fyrsta árið. Það hafi ekki verið neinn hægðarleikur því afi Natalie var blindur og einhentur eftir alvarlegt slys sem hann lenti í þegar hann var tíu ára gamall. „Amma og afi kynntust í gegnum Blindrafélagið. Móðurbróðir minn var í Blindarskólanum og afi vann hjá Blindrafélaginu. Amma var einstæð móðir með tvö börn, móður mína og bróður hennar, þegar þau kynntust. Þau höfðu verið lengi gift þegar ég kom til sögunnar,“ segir Natalie.

„Ég vildi óska þess að ég hefði fengið þau skilaboð fyrr á lífsleiðinni að það eru til aðrar og betri leiðir til að vinna úr hlutunum en með áfengi.“

Hún segir að mikil sorg hafi ríkt á heimilinu en að lítið barn hafi gert það að verkum að amma hennar og afi hefðu þurft að halda dampi. „Jarðarför Þorvalds Helga og eins árs afmæli mitt voru með mánaðar millibili. Þetta var ótrúlega mikil sorg og erfið reynsla en mitt í öllu því ferli þurftu þau að annast mig, hágrátandi ungbarn sem þjáðist af ónotum í maga og sárum eyrnaverkjum. Ég á stundum erfitt að ímynda mér hversu erfiður þessi tími hefur verið fyrir ömmu mína og afa. Lífið varð að halda áfram og þau stóðu sig mjög vel,“ segir Natalie.

„Það var ekkert rætt, bara reynt að strá glimmeri yfir sárin.“

Að sögn Natalie reyndi amma hennar að láta þessar sérstöku aðstæður vera sem eðlilegastar. Til dæmis reyndi hún að halda einhverjum samskiptum milli barnabarnsins og dóttur sinnar:

„Ég var í mjög sérstöku símasambandi við foreldra mína fyrstu árin. Ég fékk símtöl og á afmælisdögum og hátíðardögum með löngu millibili,“ segir hún.

Aðspurð hvernig sambandið hafi verið milli móður hennar og ömmu segir Natalie að það hafi aldrei verið rætt:

„Ég er ekki með allar upplýsingar um hvernig þetta æxlaðist allt saman. Amma var bara að reyna að gera gott úr þessu og hafa alla ánægða svona eins og týpísk íslensk húsmóðir á þessum tíma. Það var ekkert rætt, bara reynt að strá glimmeri yfir sárin.“

Natalie á barnsaldri. Hún kom inn í líf ömmu sinnar og afa á mjög erfiðum tíma. Móðurbróðir hennar lá þá fyrir dauðanum, rétt rúmlega tvítugur að aldri.

Þegar Natalie varð aðeins eldri þá segist hún hafa upplifað erfiðar tilfinningar vegna afskiptaleysis foreldra sinna:

„Ég tók þetta mjög nærri mér. Ég upplifði mikla höfnun og þessi fáu skipti sem við hittumst ýfðu upp þau sár,“ segir Natalie. Þá hafi húðlitur hennar og útlit gert að verkum að krakkar gerðu aðsúg að henni:

„Ég varð fyrir miklu áreiti þegar ég var barn. Það var endalaust verið að segja mér að ég ætti ekki heima hér og ég ætti að fara. Fara eitthvert annað, fara heim. Ég skyldi sjálf eiginlega ekki af hverju ég væri á Íslandi, en hvert átti ég að fara?“

Ég var á trommum en afi spilaði á harmonikku, einhentur og blindur.

Á Sjöunda dags aðventistum mikið að þakka

Natalie, sem verður 38 ára í sumar, hóf nám í Ísaksskóla sem barn og fór svo í Austurbæjarskóla sem var hennar hverfisskóli:

„Ég gat bara verið eitt ár þar af því ég varð fyrir svo miklu einelti. Í kjölfarið var ég send í skóla Sjöunda dags aðventista, Suðurhlíðaskóla.  Þá var hann nýstofnaður og þar átti ég yndislegan tíma. Ég upplifði þeirra trú ekki sem eitthvað öfgafulla. Hún er ótrúlega kærleiksrík og ég á aðventistum mikið að þakka, þetta er ótrúlega gott fólk. Þeir eru ekki að ganga í hús. Þeir eru bara þarna og eru ekki að þröngva neinu upp á neinn.“

Eftir frábær ár í Suðurhlíðaskóla þá tók hún tvö síðustu árin í Hagaskóla og fór síðan í Kvennaskólann. Á báðum stöðum leið henni vel og eignaðist fjölmarga vini sem hún er enn í sambandi við. Á menntaskólaárunum byrjaði hún svo að þeyta skífum og kom fyrst fram opinberlega um tvítugt.

Stofnaði hljómsveit með afa sínum

„Tónlist hefur alltaf verið stór partur af lífi mínu, hún hefur verið mitt athvarf. Alltaf þegar eitthvað bjátaði á og aðstæður urðu óbærilegar þá gat ég leitað í tónlistina,“ segir Natalie. Hún segir að afi hennar hafi leikið stórt hlutverk í að kynna þennan heim fyrir henni:

„Hann var flinkur tónlistarmaður og þegar ég var sjö ára þá stofnuðum við saman hljómsveit. Þetta var dúett og við kölluðum okkur Dúóbandið. Ég var á trommum en afi spilaði á harmoniku, einhentur og blindur,“ segir hún kímin.

Það lá þó ekki fyrir Natalie að slá í gegn með þjóðlagatónlist. „Ég heillaðist af danstónlist og byrjaði að sanka að mér plötum og nauðsynlegum tækjabúnaði. Ég hafði mikinn áhuga á því hvernig lög „mixuðust“ saman og ég byrjaði að vinna með ákveðinn hljóðheim mjög snemma,“ segir hún.

„Ég sé alltaf ótrúlega mikinn sársauka“

Natalie varð mjög fljótlega vinsæll plötusnúður og hefur æ síðan haft nóg að gera á þeim vettvangi. Einn óhjákvæmilegur fylgifiskur skemmtanalífsins er neysla áfengis og Natalie þurfti að taka slaginn við Bakkus.

Lítil fjölskylda. Natalie ásamt ömmu sinni og afa, Guðríði Jóhönnu Jensdóttur og Gunnari Guðmundssyni.

„Ég var með mikið af beygluðum hugmyndum um lífið og tilveruna eftir æskuárin. Síðan kynnist maður áfengi og þá deyfir það allt kerfið og skapar tímabundna vellíðan. Fyrst um sinn fannst mér áfengið algjör lífsbjörg og tók neysluna föstum tökum,“ segir hún.

Fljótlega hafi þó áfengið farið að vinna gegn henni en þrátt fyrir það hafi það tekið hana mörg ár að átta sig á því að áfengið myndi ekki leysa neina vandamál:

Ég vildi óska þess að ég hefði fengið þau skilaboð fyrr á lífsleiðinni að það eru til aðrar og betri leiðir til að vinna úr hlutunum en með áfengi.“

„Eins fáránlega og það hljómar var ég svo óheppin að greinast um sumartíma“

Í starfi sínu verður Natalie vör við mikla áfengis- og vímuefnaneyslu og hún segir að sársauki sé rauði þráðurinn. „Ég sé alltaf ótrúlega mikinn sársauka. Þetta er oft í raun og veru afleiðing en ekki orsök af einhverju stórkostlegu sári og vanlíðan sem er verið að deyfa. Svo er áfengi þannig að ef þú ferð að drekka mikið af því, þá ánetjastu því og þá ertu komin í eitthvert hyldýpi sem er mjög erfitt er að komast upp úr.“

Fyrir ári tók hún þá ákvörðun að nóg væri komið og að hún myndi aldrei aftur drekka. Hún var komin með nóg af þessum lífsstíl en veikindi hennar og ömmu hennar höfðu opnað augu hennar.

„Það gerðist bara eitthvað hjá mér. Ég var búin að vera svo lengi að rekast á sömu veggina að ég hugsaði með mér að þetta væri orðið gott. Núna er kominn tími til að takast á við þessa erfiðleika og gera það heilshugar og vera svolítið fullorðin í því. Það var bara ákvörðun tekin, og ég er sem betur fer með gott fólk í kringum mig sem hjálpaði mér takast á við þetta.“

Með tvö æxli í maganum

 „Ég byrjaði að finna fyrir miklum magaverkjum og fór upp á spítala. Ég var sett í einhverjar rannsóknir sem skiluðu engum árangri og mér var sagt að það amaði ekkert að mér. Á þessum tíma var sársaukinn nánast orðinn óbærilegur. Ég neitaði því að gefast upp og krafðist þess að ég yrði rannsökuð betur. Í kjölfarið var ég sett í myndatöku og þá kom í ljós að ég var með tvö æxli í maganum sem höfðu sennilega verið til staðar í mörg ár. Annað var orðið mjög stórt,“ segir Natalie.

„Allt virðist fara í eitthvert ákveðið far sem þjónar hagsmunum ótrúlega lítils hóps. Það er ekki verið að hugsa um heildina, það er bara staðreynd. “

Hún segir þetta hafa verið töluvert áfall og jafnframt hafi hún orðið fyrir vonbrigðum með íslenskt heilbrigðiskerfi:

„Eins fáránlega og það hljómar var ég svo óheppin að greinast um sumartíma og það þýddi að ég var sett á biðlista til að fá frekari greiningu. Megnið af sumrinu vissi ég ekki hverju ég ætti von á, hvort þetta væri góðkynja eða illkynja æxli. Þetta var hrikalega erfiður tími,“ segir Natalie.

Eftir langa bið og mikla óvissu hafi hún hringt miður sín á spítalann og spurt hvort að það væri virkilega eðlilegt að hún gæti ekki fengið svör um veikindi sín:

„Skilaboðin voru þau að það væru margir í sömu stöðu og ég, hringjandi grátandi í fullkominni óvissu á spítalann,“ segir hún.

Það var ekki fyrr en Natalie fór til einkalæknis á eigin vegum að hún komst loks í aðgerð.

„Sá skar mig upp og þá kom í ljós að þetta voru tvö æxli í maganum sem voru sem betur fer góðkynja,“ segir hún. Hún segir að veikindin breytt sýn hennar á lífið og tilveruna. Sérstaklega hafi þessi slæma reynsla hennar af heilbrigðiskerfinu gert að verkum að hún hafi viljað hafa áhrif á samfélagið til betri vegar og því farið að gefa stjórnmálum gaum.

Eldra fólk á miklu betra skilið

Hún segist hafa ákveðið að hella sér út í baráttu Sósíalistaflokksins þrátt fyrir að hún geti staðsett sig víða á hinum pólitíska skala:

„Ástæðan fyrir því að mig langar að leggja þeim lið er sú að þetta er fólk sem er ekkert búið að heyrast í og þetta er fólk sem er raunverulega að halda uppi samfélaginu okkar, sem er í lægst launuðu störfunum. Ég held að fólk átti sig ekki á því en þetta fólk gjörsamlega heldur uppi landinu okkar og um leið er þetta fólkið sem hefur það verst. Ef þessar stoðir fara að hrynja þá verður þetta bara eins spilaborg og ég vil ekki einu sinni ímynda mér hver afleiðingin verður.“

Natalie segist hafa staðið í miklu stappi fyrir ömmu sína og afa og þá hafi örorka afa hennar veitt henni innsýn í þann heim:

„Það er búið að vera ótrúlega erfitt  að sjá um þeirra mál og líka að sjá þau fara inn á þessar stofnanir og sjá hvernig aðbúnaðurinn er þar. Það vantar svo mikið upp á.  Það er eins og fólk átti sig ekki á því að á einhverjum tímapunkti þá verðum við öll gömul. Það vill enginn enda á einhverjum stað sem er bara geymslustaður, eldra fólk á miklu betra skilið og þetta á ekki að vera svona.“

Hroki að gera lítið úr láglaunafólki

Hún segist hafa vonað fyrir hverjar einustu kosningar að þetta stokkaðist upp og yrði betra en hún hafi alltaf orðið fyrir vonbrigðum.

„Allt virðist fara í eitthvert ákveðið far sem þjónar hagsmunum ótrúlega lítils hóps. Það er ekki verið að hugsa um heildina, það er bara staðreynd. Við sjáum hvernig þetta er með lóðaúthlutanir og við sjáum hvernig allt virkar í þessu landi. Þetta er ekki fyrir heildina. Við búum í það litlu landi að þetta á ekki að vera svona mikið mál. Með allar þessar auðlindir, það er skammarlegt að svona margir hafi ekki aðgang að mannsæmandi lífi. Mér finnst það ekki sanngjarnt.“

Hún segist hafa orðið vör við fordóma fyrir því að hún sé að leggja þessu framboði lið en ekki öðrum.

„Fólk spyr mig: „Hvað ertu að gera? Er þetta ekki bara eitthvað láglaunafólk og öryrkjar?“. Ég skynja þá fordóma sem þetta fólk er að verða fyrir og það einfaldlega svíður. Það sannfærir mig enn frekar um að ég sé að gera rétt. Ég reyni þá að útskýra fyrir því að þetta sé fólkið sem sé að hugsa um börnin þeirra, þetta sé fólkið sem er að láta hjól atvinnulífsins snúast. Ætlarðu að fara að gera lítið úr þessu fólki líka? Hversu mikill getur hrokinn verið? Ég mótmæli þessu og mig langar ekki að búa í samfélagi þar sem er litið niður á ákveðinn hóp af því hann er ekki eins og klipptur út úr einhverju tímariti. Mig langar að búa í samfélagi þar sem allir hafa það gott.“

Hún segir að forsvarsmenn Sósíalistaflokksins hafi nálgast hana að fyrra bragði og boðið henni að taka þátt í baráttunni:

„Ég fór að skoða hvað þau voru að gera og sá hvað það er algjörlega með hjartanu. Það er engin tilgerð, þetta fólk sem er að koma fram, og þú sérð það á sögunum sem það er að deila. Þetta er fólk sem er að koma fram hreint og beint, til dyranna eins og það er klætt, ekkert kjaftæði í gangi. Mér finnst það vera ferskur blær í þessa pólitík sem er í gangi núna.“

„Það er stöðugt verið að ala á hatri gagnvart innflytjendum og flóttamönnum. Amma var farin að verða mjög hrædd og fékk brenglaðar skoðanir á þessum málaflokki.“

Þarft ölmusu til að komast í gegnum veikindi

Hún veltir því fyrir sér hvernig standi á því að fólk borgi skatt alla sína ævi en svo virðist heilbrigðiskerfinu ekki vera fært að sinna fólki sem skyldi.   „Ég fór með afa í gegnum það þegar hann fékk krabbamein 2011, svo ég þekki ágætlega til. Það á ekki að þurfa einhverja samfélagssöfnun þegar við erum öll að borga okkar útsvar, okkar skatta og okkar gjöld. Það grípur þig enginn og þú þarft að biðja um ölmusu frá samborgurum þínum til að geta komist í gegnum veikindi. Þessu dæmi þarf að breyta. Ég er að vona núna að við getum breytt þessu, því þetta er skammarlegt ástand.“

Hún bendir á að oft sé það þó þannig að fólk kjósi flokka sem fari þvert gegn þeirra persónulegu hagsmunum.

„Af því að þarna kemur skömmin. Það er fólk sem þorir ekki að fara í örorkumat, þetta veit ég fyrir víst, af því það vill ekki fá þennan stimpil sem öryrki, af því að það er búið að búa til eitthvert skrímsli úr öryrkjum. Það er líka það, að ef þú ert öryrki en þig langar samt að leggja hönd á plóg þá máttu það ekki. Það er bara allt eða ekkert. Þetta fólk á ekki að þurfa skammast sín fyrir að hafa veikst á einhverjum tímapunkti í lífinu og geta ekki tekið hundrað prósent þátt í atvinnulífinu. Þetta fólk á ekki að þurfa að skammast sín.“

Hún segist vona að flokkurinn fái tækifæri til að taka þátt í því ferli sem er óumflýjanlegt til að bæta stöðu þeirra sem verst hafi það.

„Þótt ég virkilega voni að Sósíalistaflokknum gangi vel þá skiptir langmestu máli að samfélagsvitundin muni breytast. Að fólk átti sig á því að það hafi það ekki allir jafn gott. Ég er líka að vonast til þess að í kjölfar þess að fólk deilir sínum sögum að samfélagið í heild muni átta sig á því hve slæm staðan hjá sumum er.“

Útvarp Saga ýtti undir veikindi ömmu

Afi Natalie lést árið 2011 eftir erfiða baráttu við krabbamein. Hún segir að dauði hans hafi reynst litlu fjölskyldunni erfiður:

„Við vorum alltaf bara þrjú, lítil fjölskylda og því var það gríðarlegt áfall að missa hann.  Jólin fyrstu tvö árin á eftir voru mjög erfið og þá grétum við amma mikið,“ segir Natalie.

Síðan þá hefur hún annast ömmu sína samhliða starfi sínu en fyrir nokkrum árum fór að bera á elliglöpum hjá gömlu konunni.

„Ég tók eftir því að hún var orðin ringluð og utan við sig. Hún hlustaði afskaplega mikið á Útvarp Sögu og ég tel það hafa gert hana enn þá ruglaðri. Það ýtti undir veikindin og olli henni mikilli vanlíðan. Útvarp Saga fyrir heilabilað fólk er eins og að hella olíu á eld. Stöðin sendir út miskunnarlausan hræðsluáróður og þegar þú byrjar að missa tökin og fá heilabilun þá gleypirðu við öllu sem heilögum sannleika,“ segir Natalie.

„Það er stöðugt verið að ala á hatri gagnvart innflytjendum og flóttamönnum. Amma var farin að verða mjög hrædd og fékk mjög brenglaðar skoðanir á þessum málaflokki,“ segir Natalie.

„Þessi stund breytti ömmu, þarna sá hún innflytjendur og útlendinga í réttu ljósi“

Hún hafi þá dottið ofan á snjalla lausn sem tengdist því hversu erfið jólin höfðu reynst þeim eftir að afi hennar kvaddi:

„Þetta var fyrir tveimur árum þegar umræðan um flóttafólk var í hámarki. Þá sá ég fréttir um að margir flóttamenn myndu halda jólin hjá Hjálpræðishernum og að það væri mikil þörf á sjálfboðaliðum. Ég ákvað að skrá mig og skráði ömmu sem gest,“ segir Natalie.

Að sögn Natalie komst amma hennar í mikið uppnám þegar hún heyrði af fyrirætlununum:

„Amma er auðvitað af þessari kynslóð sem er ekki vön fjölmenningu. Síðan dynja á henni þessu brengluðu sjónarmið Útvarps Sögu sem gera það að verkum að fræjum fordóma er sáð,“ segir Natalie. Hún hafi þó náð að sannfæra ömmu sína um að koma með sér, ekki síst með því að segja henni frá öllum börnunum sem yrðu á staðnum og fengju þarna mögulega einu jólapakkana frá Hjálpræðishernum,“ segir hún.

Amma lét tilleiðast og við áttum ótrúlega fallega stund saman. Starfið sem Hjálpræðisherinn vinnur er stórkostlegt. Þarna sungu allir saman jólasöngva og fögnuðu þessari hátíð saman, sama hverrar trúar þeir voru. Þessi stund breytti ömmu, þarna sá hún innflytjendur og útlendinga í réttu ljósi. Hún hlustar enn á Útvarp Sögu en áhrifin af þessari stund gerðu það að verkum að fordómar hennar hurfu alveg,“ segir Natalie.

Hún segist hafa heillast af þessari upplifun, því hafi hún ákveðið að heimsækja Hjálpræðisherinn aftur síðustu jól:

„Amma kom ekki með í það skipti. Hún fékk pláss á Grund í október og því kíkti ég til hennar í kaffi eftir hátíðarhöldin. Þetta gefur mér ótrúlega mikið og gott að geta látið eitthvað gott af sér leiða á þessum degi. Þetta er það sem jólin snúast um,“ segir Natalie að lokum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell

8 ára drengur með heilaæxli steig á svið – Sjáðu atriðið sem hreyfði við Simon Cowell
Fókus
Fyrir 2 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“

Grunaði að eiginkonan væri að halda framhjá – „Sannleikurinn var tvöfalt verri“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“