fbpx
Fimmtudagur 18.apríl 2024
Fókus

Mæðgurnar Ingibjörg og Arna eru báðar brotaþolar: „Við vitum að við komumst í gegnum þetta“

Auður Ösp
Mánudaginn 16. apríl 2018 21:20

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Mæðgurnar Ingibjörg Helga Halldórsdóttir og Arna Sjöfn Ævarsdóttir hafa báðar upplifað vanmátt gagnvart réttarkerfinu, með einungis tveggja mánaða millibili. Í lok seinasta árs hlaut fyrrverandi eiginmaður Ingu, Ævar Freyr Eðvaldsson, tólf mánaða fangelsisdóm, þar af níu mánuði skilorðsbundna, fyrir gróf ofbeldisbrot gegn henni.

Í niðurstöðu dómsins koma fram hroðalegar lýsingar á verknaði Ævars en hann ýtti Ingibjörgu meðal annars inn í skáp og hótaði að brjóta á henni andlitið. Tveimur mánuðum síðar féll dómur yfir 21 árs gömlum karlmanni í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir kynferðisbrot gegn Örnu þegar hún var á barnsaldri. Maðurinn  vingaðist við Örnu árið 2015 á viðkvæmum tíma í lífi hennar.

Hann misnotaði traust hennar og fékk hana til að eiga við sig mök en hún var þá 14 ára gömul og maðurinn 18 ára. Héraðsdómur taldi rétt að dæma hann í 12 mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir kynferðisbrot gegn barni. Mæðgurnar gagnrýna báðar meðferðina á brotaþolum í dómskerfinu en þær standa þétt saman í gegnum erfiðleikana.

Hótaði að brjóta á henni andlitið

DV ræddi við Ingibjörgu Helgu í marsbyrjun. Ævar Freyr var, sem fyrr segir, dæmdur fyrir kynferðislega áreitni, líkamsárás, húsbrot, hótanir, ærumeiðingar og ólögmæta nauðung en þarf þó í mesta lagi að sitja í fangelsi í þrjá mánuði, haldi hann skilorð.

Ákæran gegn Ævari Frey var í mörgum liðum og varðaði fjölmörg atvik sem áttu sér öll stað árið 2015. Hann var dæmdur fyrir að hafa sunnudaginn 22. febrúar það ár áreitt Ingibjörgu með því að girða niður buxur hennar, rífa af henni nærbuxur og bol og svo strjúka ber kynfæri hennar.

Ævar Freyr var enn fremur dæmdur fyrir að hafa þetta sama kvöld slegið hana þrisvar sinnum með flötum lófa í andlitið og nokkru síðar sparkað þrisvar sinnum í bak hennar þar sem hún lá í rúmi í svefnherbergi. Hann herti svo peysu, sem Ingibjörg klæddist, að hálsi hennar. Að lokum ýtti hann henni á skáp í svefnherbergi og hótaði að brjóta á henni andlitið.

Hann var líka ákærður fyrir nauðgun en var sýknaður af henni, þótt allt annað í frásögn Ingibjargar hafi verið samþykkt af dómara. Ólíkt öðrum liðum dómsins er mörgum orðum varið í að túlka það atriði og er sérstaklega talað um að Ævar Freyr hafi þurft að gera sér grein fyrir því að hún hafi ekki verið samþykk mökum. Með öðrum orðum þá var dæmt honum í vil þar sem hann hafi mögulega haft réttmæta ástæðu til að halda að hún vildi eiga mök við hann.

Slapp alltof vel

Ævar Freyr var dæmdur fyrir fleiri brot en þau sem áttu sér stað 22. febrúar. Hann var dæmdur fyrir ólögmæta nauðung með því að hafa utan dyra þann 26. apríl árið 2015 tekið utan um Ingibjörgu, lyft henni upp, sett hana inn í bifreið og reynt að loka bíldyrunum en hún náði að koma í veg fyrir það með því að setja fót sinn fyrir hurðina. Þá var hann dæmdur fyrir að hafa í júlí 2015 veist að Ingibjörgu utan dyra við Engihjalla í Kópavogi. Nokkrum mánuðum síðar, í september, réðst hann síðan inn á heimili þáverandi tengdamóður sinnar og veittist að Ingibjörgu. Hann hrækti framan í hana og sló hana með flötum lófa í andlitið.

Í samtali við DV sagði Ingibjörg að henni þætti Ævar raunar sleppa ótrúlega vel frá málinu í ljósi þess sem hún gekk í gegnum yfir langt skeið. „Mér fannst hann sleppa afskaplega vel miðað við hvað hann lét mig ganga í gegnum trekk í trekk. Og svo fannst mér undarlegt að hann var sýknaður af nauðgun en dæmdur fyrir líkamsárás og kynferðisbrot.“

Þá sagði hún dóminn sýna að nokkru leyti brotalamir íslenska réttarkerfisins.

„Mér finnst mjög mikilvægt að vekja athygli á því hvernig þetta kerfi er. Það er svo erfitt fyrir konur í minni stöðu að halda svona út til lengdar og verða svo fyrir vonbrigðum þegar svona dómur fellur.“

Leit á piltinn sem trúnaðarvin sinn

Arna er í dag 17 ára gömul og búa þær mæðgur saman ásamt tveimur yngri bræðrum Örnu. Í maí 2015 kynntist Arna eldri pilti á Facebook. „Hann addaði mér og við fórum að spjalla. Samband okkar byrjaði ágætlega, hann var rosalega góður en ég sá það strax á honum að hann vildi gera eitthvað kynferðislegt. Til dæmis þegar það var eitthvert fjölskylduvandamál eða önnur vandamál í gangi hjá mér þá var hann voðalega góður við mig og sagði hluti eins og: Æ, elskan mín, ég verð alltaf til staðar fyrir þig krúttið mitt“.“

Fyrir dómnum sagði Arna að hún hefði sagt piltinum að hún væri „00 módel“.  Í niðurstöðu dómsins kemur fram að manninum hafi mátt vera ljóst að Arna væri fædd árið 2000 og því annaðhvort 14 eða 15 ára. Hann hafi hins vegar ekki spurt hana nánar um það og ekki gert ekki tilraun til þess að kynna sér það, til dæmis Facebook-síðu hennar. Hann skeytti því ekki um hvort hún hefði náð 15 ára aldri.

Rúmlega tveimur vikum eftir að þau byrjuðu að spjalla vildi maðurinn hitta hana. Arna taldi að það væri eitthvað á milli þeirra og féllst því á það.

„Við hittumst og ég bað hann um að við myndum bara vera úti í bíl hjá honum. Þegar við vorum að keyra út úr götunni minni þá missti ég það út úr að mamma mín væri ekki heima, þá snéri hann við og við fórum inn. Mér fannst það rosalega óþægilegt því ég vildi vera úti í bíl því mér fannst ólíklegra að hann myndi reyna eitthvað kynferðislegt ef við værum úti í bíl.“

Hún segir þó ekkert kynferðislegt hafa sér stað á milli þeirra fyrr en tveimur dögum síðar. Þá hafi pilturinn verið mun ákafari og suðað í henni um munnmök. „Hann þrýsti mér úti í hluti og hélt mér. Ég náði ekki andanum og leið svo illa meðan á öllu stóð. Þegar hann hafði klárað þurfti hann að fara.“

Hún segir piltinn aftur hafa mætt heim til hennar stuttu eftir þetta og reynt að þvinga hana til samfara með því að halda henni niðri og reyna að afklæða hana. Hún hafi á endanum náð að losa sig og skipað honum að hætta og pilturinn hafi brugðist illa við og rokið út. Í kjölfarið liðu rúmlega tvær vikur þar sem pilturinn hunsaði Örnu og vildi ekkert við hana tala.

Rúmlega tveimur vikum síðar var Arna niðurdregin og bað piltinn um að koma til sín.

„Mér leið illa og ég þurfti á einhverjum að halda. Ég var grátandi þegar hann kom en hann  sneri mér aftur við á sófanum. Á þessum tíma leið mér eins og að ef ég myndi neita honum aftur þá myndi hann fara frá mér og hætta að vera vinur minn. Þannig að ég sagði „Förum bara inn í herbergi,“ og var ennþá með tárin í augunum.

Það sem kom eftir á var mjög vont bæði andlega og líkamlega. Hann fór strax á eftir og þá sá hvað ég hafði gert stór mistök.“

Hún lýsir tveimur öðrum skiptum þar sem hún hitti piltinn og segir hann hafa þrábeðið hana um að veita honum munngælur. Hún hafi upplifað mikinn þrýsting. Þegar hún neitaði hafi hann brugðist við með  því að hunsa hana algjörlega.

Í ágúst byrjaði pilturinn með núverandi kærustu sinni og sagði Örnu að „láta sig vera“ sem hún gerði. Hún segir piltinn hafa haft samband aftur í janúar 2016 og beðið hana að hringja í sig. Þegar hún hafi svo gert það hafi hann og kærastan svarað bæði í símann og haft í hótunum við hana ef hún myndi ekki láta þau vera. Arna kveðst hafa orðið hrædd en hún var þennan dag stödd heima hjá vinkonu sinni.

„Ég fór að hágráta og bað mömmu um að sækja mig. Þá sagði ég henni allt sem hafði gerst.“

Kom grátandi út úr dómsalnum

Í kjölfarið lagði Ingibjörg fram kæru á hendur piltinum. „Ég varð mikið sterkari og ákveðnari fyrir hennar hönd en mína. Ég varð hrikalega reið, sérstaklega vegna þess að ég komst að þessu svolitlu eftir að hún lenti í þessu og útskýringar hennar á því hvernig hann kom fram við hana, hvernig hann notaði vináttu hennar og traust til þess að fá það sem hann vildi frá henni því annars myndi hann ekki tala við hana aftur. Arna Sjöfn var 14 ára, hafði orðið vitni að ofbeldi í skilnaðarferli okkar foreldranna og fann þarna trúnaðarvin sem henni fannst hún geta treyst.“ Hún tekur að hennar eigin reynsla síðan á síðasta ári hafi í raun gefið henni aukinn styrk til þess að vernda barnið sitt. „Ég gat þó allavega verið sterk fyrir hana.“

Fyrir dómnum lýsti Arna að sér hefði liðið misvel eftir samskiptin við piltinn, og eftir að samskiptum þeirra lauk hefði henni liðið illa og hún verið þunglynd. Hún sótti í kjölfarið viðtöl hjá Barnahúsi allt þar til sálfræðingurinn fór í veikindaleyfi.

Ákæra var gefin út í október 2017 og í febrúar síðastliðnum rataði málið fyrir dóm. Pilturinn neitaði sök fyrir dómi og sagðist hafa dregið þá ályktun að Arna væri „allavega 15 ára“ þar sem hún hefði sagt honum að hún væri fædd árið 2000. Þá sagði hann að honum hefði fundist orðalag „mjög þroskað“ og fullyrti jafnframt að hann hefði ekki stundað kynlíf með henni ef hann hefði hann vitað að hún væri 14 ára.

Hann fékk að lokum 12 mánaða skilorðsbundinn dóm auk þess sem honum er gert að greiða Örnu miskabætur upp á 700 þúsund krónur.

„Þegar niðurstöðurnar komu þá fannst mér þetta mjög skrítið. Þó svo að þetta sé fyrsta brot hans þá ætti að vera tekið alveg jafn harkalega á þessu máli. Þó svo að þetta hafi verið fyrsta brot þá skilur hann eftir sig eina stelpu sem mun hafa þetta með sér alltaf, og þetta fylgir mér hvert sem er,“ segir Arna og bætir við að dómurinn sé alltof vægur.

„Mér fannst mjög erfitt að það var skipt um saksóknara á síðustu stundu sem var ekki alveg inni í málinu. Ég fann mikið til með Örnu þegar hún kom grátandi úr dómsal, henni fannst skuldinni vera skellt á sig og svo þegar dómurinn birtist kom ekkert af því sem hvorki Arna né ég sögðum fyrir dómi, bara það sem sakborningur og kærasta hans báru vitni um,“ segir Ingibjörg Helga.

Ingibjörg Helga fordæmir enn fremur að þolendur þurfi að bíða mánuðum og jafnvel árum saman með hnútinn í maganum eftir því að þurfa að rifja upp málið fyrir dómi „Fólk reynir að halda áfram með lífið og leitar sér hjálpar svo er því gert að þurfa að rifja allt upp, ganga í gegnum allar þessar tilfinningar aftur, mér finnst það verst. Svo virðist sem ekki skipti máli hversu stórt brotið er, ef þetta er fyrsta brot þá er eins og það sé óskrifuð regla að 12 mánuðir sé nóg refsing, sem mér finnst mjög furðulegt.“

Sárt og erfitt

Aðspurð um líðan sína í dag segir Arna:

„Ef ég á að segja alveg satt þá veit ég það ekki, ég er ekki alveg viss hvort ég eigi að brosa eða gráta. Þetta er, og hefur verið erfitt frá fyrsta degi og verður erfitt í einhvern tíma eftir á, þangað til ég vonandi næ að vinna úr þessu. Þetta verður alltaf partur af manni. Það er bæði partur af mér þar sem ég er stolt af því að hafa komist í gegnum þetta en mér líður líka illa yfir þessu. Að hafa komið mér í þessa stöðu, að hafa ekki gert meira og hafa ekki staðið með sjálfri mér.

Og þetta er sárt og erfitt. Þó svo að flestallir sjái það ekki, þá hvíla svona hlutir alltaf á manni. Ég vildi óska að ég hefði staðið meira með sjálfri mér þegar þetta gerðist og reynt mitt besta til að koma í veg fyrir þetta. En maður getur ekki breytt fortíðinni, aðeins lært af henni.“

Ingibjörg Helga segir: „Sem betur fer er sambandið á milli okkar mæðgna mjög sterkt. Við erum báðar að vinna í því að komast yfir þetta allt, og sem betur fer er margt gott fólk sem stendur í kringum okkur. Starfsfólk Barnaverndar hefur aðstoðað og stutt okkur á allan þann hátt sem hægt er og svo eigum við sterka og góða fjölskyldu sem við getum alltaf leitað til. Ég veit ekki hvar við værum ef við hefðum ekki þetta góða stuðningsnet. Við reynum samt að halda jákvæðninni lifandi, við breytum ekki því sem hefur gerst en við vitum að við komumst í gegnum þetta sterkari fyrir vikið.“

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“

Föðurlausi drengurinn sem setti vikulega á svið leikrit til að fela vanræksluna – „Maður vissi ekkert hverju maður átti von á þann daginn“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Hver verður næst?“

„Hver verður næst?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

„Maður þarf stundum að standa með sjálfum sér“

„Maður þarf stundum að standa með sjálfum sér“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Sigríður lýsir lækningamætti Einars – „Gleymi aldrei svipnum á læknunum þegar þeir skoðuðu nýjar myndir af hnénu“

Sigríður lýsir lækningamætti Einars – „Gleymi aldrei svipnum á læknunum þegar þeir skoðuðu nýjar myndir af hnénu“