Fókus

Slæmar fréttir fyrir nátthrafna

Ritstjórn DV skrifar
Sunnudaginn 15. apríl 2018 21:00

Umfangsmikil rannsókn á svefnvenjum tæplega fimm hundruð þúsund Breta leiðir í ljós að þeir sem vaka lengi fram eftir á kvöldin eru líklegri en aðrir til að deyja fyrir aldur fram.

Rannsóknin sem um ræðir stóð yfir í sex og hálft ár og birtust niðurstöðurnar í tímaritinu Chronobiology. Það hvers vegna nátthrafnar eru líklegri til að deyja fyrir aldur fram liggur ekki fyrir.

Kristen Knutson, vísindamaður við Northwestern University, segir í samtali við Los Angeles Times að þeir sem kjósa að vaka frameftir séu í raun ekkert endilega frábrugðnir öðrum einstaklingum. Margir hafi skyldum að gegna og þurfi að vakna snemma til að fara í vinnu og skóla líkt og aðrir.

Skoðaðar voru svefnvenjur 433.269 einstaklinga á aldrinum 38 til 73 ára og var viðfangsefnunum skipt í fjóra hópi eftir því hvenær þeir fóru að sofa. Í einum hópnum voru til dæmis þeir sem fara mjög snemma að sofa í öðrum hópi voru þeir sem fara mjög seint að sofa, eða dæmigerðir nátthrafnar.

Nátthrafnarnir voru mun líklegri en meðlimir annarra hópa, eða um tíu prósentum, til að deyja meðan á rannsókninni stóð, eða fyrir aldur fram. Þetta var raunin þó að lítill munur væri á lengd svefns hjá viðkomandi hópum. Þá voru nátthrafnarnir líklegri til að þjást af lífsstílssjúkdómum á borð við sykursýki af tegund 2.

Það hefur lengi legið fyrir að góður nætursvefn hefur ýmsan heilsufarslegan ávinning í för með sér og að sama skapi hefur lítill svefn neikvæð áhrif. Malcolm von Schantz, meðhöfundur rannsóknarinnar, segir að ekki megi líta framhjá þessum niðurstöðum og þeim beri að taka alvarlega. Hann leggur til, í fúlustu alvöru, að vinnuveitendur þeirra sem fara seint að sofa taki tillit til þeirra og leyfi þeim að mæta seinna í vinnuna en öðrum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af