fbpx
Laugardagur 20.apríl 2024
Fókus

Lögreglan áleit sykursjúkan dótturson Bergljótar vera sprautufíkil, handtók hann og setti í járn

Ágúst Borgþór Sverrisson
Föstudaginn 9. nóvember 2018 22:02

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Þegar dóttursonur Bergljótar Davíðsdóttur sprautaði sig bláedrú með insúlíni inni á salerni á skólaballi í Hafnarfirði í lok sumars árið 2017 fór af stað hörmuleg atburðarás fyrir hann og aðstandendur. Starfsmaður á ballinu áleit hann vera að sprauta sig með fíkniefnum og fór með hann í svokallað „dauðaherbergi,“ þangað sem farið er með drukkna unglinga á framhaldsskólaböllum. Þaðan var síðan farið með hann í fangageymslu lögreglu. Þegar Bergljót heimti dótturson sinn loks úr prísundinni var hann illa á sig kominn en þó hefði þetta getað farið mun verr því sykursýki getur verið lífshættulegur sjúkdómur ef sjúklingur fær ekki insúlín eða sykur.

Ekki hefur verið fjallað um málið áður í fjölmiðlum, meðal annars vegna þess að Bergljót vildi ekki trufla mögulegan framgang þess í réttarkerfinu. En hún steig fram í dag með grein sem hún birti í Stundinni þar sem hún rekur þessa sögu.

Bláedrú 17 ára sykursýkisjúklingur járnaður aftur fyrir bak og hent í fangaklefa

Bergljót segir að í „dauðaherberginu“ hafi pilturinn fengið slæma meðferð:

Þar var tekið á móti drengnum og honum haldið þar nauðugum og komið fram við hann af fádæma vankunnáttu og fruntaskap. Hann mun hafa verið ósáttur við að fá ekki að fara þaðan, enda bæði ódrukkinn og vitaskuld ekki undir áhrifum efna. – Eðli málsins samkvæmt brást dóttursonur minn illa við og braust um. Hringt var í lögreglu sem setti hann í járn aftur fyrir bak og fór með hann í fangageymslur. Hann fékk ekki neinar skýringar á þeirri meðferð sem hann hlaut, Hann var bæði æstur og reiður og neitaði að láta loka sig inn í fangaklefa. Járn var þá sett á annan úlnlið hans og var hann dregin eftir göngum fangageymslu og kastað inn í klefa.“

Dóttursonur Bergljótar býr hjá henni og afa sínum og hefur alist upp á heimili þeirra. Þennan dag hafði Bergljót ætlað til Dýrafjarðar en fyrir einskæra heppni eða mildi örlaganna ákvað hún að bíða einn dag með brottförina, án skynsamlegrar ástæðu, kannski var það meira eins og hugboð.

Um tvöleytið eftir miðnætti fékk hún síðan óvænt símhringingu: „

„Í símanum var lögreglumaður sem sagðist vera með dreng í fangageymslu og spurði hvort ég væri amma hans. Mér var mjög brugðið og spurði hvort hann hefði verið að drekka. Hann svaraði neitandi en bætti við með auðheyrðri fyrirlitningu að það væri augljóst að hann hefði innbyrt eitthvað annað en áfengi, það væri ekki nein lykt af honum en það leyndi sér ekki að hann væri í annarlegu ástandi og með froðu í munnvikum.

Mér var mjög brugðið sagði drenginn vera með sykursýki eitt og óskaði eftir að kallaði yrði strax á lækni eða sjúkrabíl til að kanna ástand hans. Ég vissi betur hvað svo sem hann segði að dóttursonur minn væri ekki undir áhrifum, því á milli okkar ríktir traust. Það var lítið um svör en ég sagðist koma eins og skot, en ég væri í Hveragerði en ég myndi koma eins fljótt og mér var auðið. Ítrekaði aftur að það væri nauðsynlegt að kanna ástand hans. því hann gæti verið í lífshættu.”

Þegar ég kom eftir lífshættulegan hraðakstur til Reykjavíkur og hringdi bjöllu við hurð inn í fangageymslu, kom fangavörður niður til mín og tjáði mér að ég hefði ekki leyfi til að koma inn í fangageymslulögreglu.

Ég brást hvumsa við, enda hef ég oftar en ég man setið í kaffi hjá móður minni sem lengi var fangavörður í þessari sömu fangageymslu, gengið um lögreglustöðina aftur og fram að leita systur minnar sem þar starfað einnig lengi. En það eru augljóslega breyttir tímar, enda hefðu atburður sem ég hér lýsi ekki getað átt sér stað á meðan móðir mín starfaði hjá embætti Lögreglustjórans í Reykjavík.

Á meðan fangavörðurinn útskýrði fyrir mér að ég mætti ekki fara inn, heyrði ég neyðaróp drengsins. Það mun hafa verið þegar ég stóð fyrir utan, en eigi að síður hleyptu þeir honum á salerni eftir að hann hafði þurft að kasta af sér vatni inn í klefanum. Þeir sem þekkja tilsykursýki vita hvernig þvaglátum er háttað, einkum ef ekki er jafnvægi á sykrumagni og insúlíni.“

Það á ekki heldur að fara svona með fíkla

Í samtali við DV segir Bergljót að þegar hún fór burtu með drenginn hafi hann verið aðframkominn. „Ég var ekki með insúlín með mér en við komum við í verslun og ég keypti handa honum sykraða drykki sem héldu honum á floti. Ég vil ekki hugsa til þess hafði hefði gerst ef ég hefði ekki getað komið og hann hefði verið þarna alla nóttina. Þá er ekki víst að hann væri meðal okkar í dag og það hefði orðið hrikalegt mál líka fyrir lögregluna.“

Bergljót tekur fram að sú meðferð sem bláedrú dóttursonur hennar hlaut sé líka eitthvað sem ekki eigi að bjóða fíklum upp á því enginn eigi skilið lítilsvirðandi framkomu. „Ég hef haft töluverð kynni af fíklum, meðal annars í gegnum störf mín sem blaðamaður og á seinni tímum hefur tíðkast vond framkoma í þeirra garð af hálfu lögreglu, tilhneiging til fruntaskapar. Fólki er hent til og frá og það sett harkalega í járn án þess að reynt sé að tjónka við það og tala við það af virðingu.“

Ákveðið að aðhafast ekkert í málinu

Dóttursonur Bergljótar var með nokkra áverka eftir átök við lögreglu. Bergljót kannaði hvort ástæða væri til ákæru. Hún skrifar í grein sinni í Stundinni:

„Ég sendi erindi til nefndar um störf lögreglu sem úrskurðaði hvort ástæða sé til að ákæra lögreglumenn fyrir brot í starfi og var erindi mitt sent Héraðsaksóknar til meðferðar. Þar var það rannsakað, en þar sem ekki reyndist vera hægt að benda á neinn einn lögreglumann umfram annan, var ákveðið að ákæra ekki. Ég leit hins vegar svo á að ástæða væri til að embættið lögreglustjóra yrði látið sæta ábyrgð með það fyrir augum að farið yrðði yfir allar verklagsreglur og þeim síðan breytt í kjölfarið.

Það þýðir hins vegar að við þurfum að fara í mál við ríkið, en dómsmálaráðherra er æðsti yfirmaður lögreglu og ber ábyrgðina. Ég hef ekki enn tekið ákvörðun um að fara út í slíkt ferli. Það vakir fyrst og fremst fyrir mér að vekja athygli á að það er eitthvað mikið að innan lögreglunnar og ljóst að meðferðin sem drengurinn hlaut af hálfu lögreglu á ekki að geta gerst ef allt er í lagi. Raunar brást allt sem gat brugðist þetta kvöld. Gæslumenn, foreldrar sem stóðu vaktina og kennarar skólans, lögregla og fangaverðir.“

Í samtali við DV segist Bergljót vera að hugleiða einkamál og sé í sambandi við lögfræðinga sem vilji hjálpa henni að sækja um gjafsókn vegna þess. Aðaltriðið í hennar huga núna sé samt að vekja athygli á þessu og reyna að fyrirbyggja að svona geti gerst aftur:

„Nóvember í ár er mánuður sykursýki og 14. nóvember er dagur sykursýki. Að því leyti er þetta góður tímapunktur til að stíga fram og vekja athygli á fáfræði um þennan sjúkdóm.“

Dóttursonur Bergljótar er með sykursýki týpu 1, sem er insúlínháð. Hún er um margt ólík sykursýki týpu 2 sem er gjarnan lífstílsháð og oft tengt offitu og slæmu mataræði. Almennan og aðgengilegan fróðleik um Sykursýki má meðal annars finna á vef Lyfju.

Bergljót segir undir lok greinar sinnar:

„Ástæða þess að ég segi þessa sögu er einmitt til þess að upplýsa foreldra sykursjúkra barna og um halda vöku sinni. Það er hins vegar ekki nóg. Það er eitthvað að í kerfi þar sem sykursjúkir geta átt von á að hljóta þá meðhöndlun sem drengurinn minn hlaut. Það verður að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig ekki.

Mánuðurinn er helgaður sykursjúkum og ljóst að það þarf að fræða alla um hve þessi sjúkdómur getur verið alvarlegur og það séu fleiri en ein birtingarmynd á einkennum hans.“

„Þetta mál hefur tekið mikið á okkur,“ segir Bergljót við DV. „En sem betur fer hefur drengurinn jafnað sig vel og núna gengur honum frábærlega í skóla, er með 8, 9 og 10 í öllum prófum en þessi meðferð sem hann fékk í fyrra rústaði skólagöngu hans síðasta vetur.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Hvalur sprakk í tætlur

Nýlegt

Hvalur sprakk í tætlur
Fókus
Fyrir 3 dögum

Bríet kom vinkonu sinni rækilega á óvart með nýju hári – „Lít ég ekki út eins og ódýr hóra?“

Bríet kom vinkonu sinni rækilega á óvart með nýju hári – „Lít ég ekki út eins og ódýr hóra?“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“

Samfélagsmiðlastjarna látin aðeins 36 ára – „Ég botna ekki í neinu lengur en við munum fá meiri upplýsingar á næstu dögum“
Fókus
Fyrir 5 dögum

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart

Hélt framhjá með tveimur yngri mönnum – Viðbrögð eiginmannsins komu á óvart
Fókus
Fyrir 5 dögum

Markle hneykslar enn á ný – Stal sviðsljósinu og sagði annarri að færa sig

Markle hneykslar enn á ný – Stal sviðsljósinu og sagði annarri að færa sig