fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
Fókus

Bróðir Önnu Bentínu tók eigið líf 23 ára – „Hann vill að ég virði þessa ákvörðun hans, þótt ég geti aldrei sætt mig við hana“

Ragna Gestsdóttir
Föstudaginn 9. nóvember 2018 11:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Í pistli sem Anna Bentína Hermansen starfskona Stígamóta skrifar segir hún frá sjálfsvígi Kristófers bróður síns, en hann tók eigið líf aðeins 23 ára gamall, fyrir 20 árum.

Í pistlinum leggur Anna áherslu á mikilvægi þess að ræða sjálfsvíg af virðingu og án fordóma. Segir hún Kristófer hafa grátið oft og talað um vanlíðan sína, en það dugði ekki til.

Frá unga aldri fannst Önnu Bentínu hún bera ábyrgð á bróður sínum, sem var sex árum yngri en hún. Segir hún sektarkenndina yfir að hafa ekki gert betur hafa þjakað hana lengi, og hana langan tíma að skilja að hún hefði ekki getað komið í veg fyrir að hann tók eigið líf. „Hann var búin að taka ákvörðun,“ skrifara Anna Bentína.

Í lokin biður Anna Bentína fólk að hrapa ekki að ályktunum um jafn viðkvæmt málefni, slíkt geti sært marga, sem glími við nægan sársauka fyrir.

Pistil Önnu Bentínu má lesa í heild hér fyrir neðan, en hún gaf DV góðfúslegt leyfi að birta hann:

Það var mikið áfall þegar bróðir minn Kristófer tók líf sitt aðeins 23 ára gamall. Við vorum afar náin þar sem erfið æska og uppeldisaðstæður gerðu okkur enn samheldnari en annars. Ég var bara 6 ára þegar Kisó minn kom í heiminn og strax fann ég fyrir mikilli ábyrgðarkennd gagnvart honum. Ég byrjaði að passa hann þegar hann var í vöggu, tímarnir voru aðrir þá og mér fannst ég fullfær um það, þótt ég næði ekki einu sinni upp í skáp til að gefa honum grautinn sinn.
Við ólumst upp á heimili þar sem lítið var til, móðir okkar var einstæð og var að þróa með sér alvarlegan geðsjúkdóm sem var okkur báðum erfitt. Hún reyndi sitt besta en oft dugði það ekki til. Þessar aðstæður gerðu okkur enn nánari, enn samheldnari og tengsl okkar voru afar sterk.

Þegar ég flutti að heiman 14 ára vegna þess að veikindi móður okkar voru farin að leiða til ofbeldis sem beindust að mér, þá var bróðir minn eftir. Mér fannst ég enn bera ábyrgð á honum og var oft mjög hrædd um hann. Þegar hann fór síðan í neyslu og greindist með sama geðsjúkdóm og mamma, þá tók hann líf sitt. Áður vorum við búin að leita ýmissa leiða til að hjálpa honum, meðferð, innlagnir á geðdeild og viðtalsmeðferðir sem skiluðu ekki tilætluðum árangri.

Sektarkenndin yfir því að hafa ekki gert betur þjakaði mig lengi. Það tók mig langan tíma að skilja að ég hefði ekki getað komið í veg fyrir sjálfsvíg hans. Hann var búin að taka ákvörðun og frá andláti hans fyrir 20 árum er ég búin að skilja að hann vill að ég virði þessa ákvörðun sem hann tók, þótt ég geti aldrei sætt mig við hana.

Kisó bróðir var einstaklega vel af guði gerður. Hann var mjög greindur, einstaklega hlýr og mátti ekkert aumt sjá. Hann skildi ekki þennan harða heim og þeirri endalausu ásókn fólks eftir peningum og statusum sem þjóðfélagið hyllir. Hann vildi ekki taka þátt í þessum veruleika og fór alltaf sínar eigin leiðir.

Þó það séu tuttugu ár síðan hann fór þá hugsa ég til hans á hverjum degi. Söknuðurinn er ljúfsár, því að hann skildi eftir sig svo fallegar minningar. Ég veit að það voru margar flóknar ástæður sem gerðu það að verkum að hann tók líf sitt. Fíkn í kanabis sem triggeraði geðsjúkdóm sem hann bar í genunum er líklega stærsti þátturinn.
Það er því harkalegt að lesa grein um sjálfsvíg karla sem kennir femínistum um sjálfsvíg þeirra. Ég er sjálf femínisti og bróðir minn heitinn var það líka. Hann þoldi ekki óréttlæti og að fólki væri troðið í fyrirfram ákveðið form eftir kyni, kynþætti, kynhneigð eða öðru slíku. Hann grét oft og talaði um vanlíðan sína, það dugði hinsvegar ekki til.
Sjálfsvíg er flókið fyrirbæri og þarf að tala um af virðingu og án sleggjudóma.
Í minningu bróður míns get ég ekki orða bundist og bið fólk að hrapa ekki að ályktunum um jafn viðkæm málefni. Það getur sært marga og sársauki þeirra er nógur fyrir.

 

Lokað er fyrir athugasemdir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki