fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Júlían heimsmethafi – Stefnir hærra í skóm númer 50

Erla Dóra Magnúsdóttir
Sunnudaginn 25. nóvember 2018 12:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Júlían J. K. Jóhannsson má með réttu kalla mann með mönnum. Hann er 25 ára Reykvíkingur sem á dögunum sló heimsmet í réttstöðulyftu á heimsmeistaramóti í kraftlyftingum í Halmstad í Svíþjóð og það í tvígang. Blaðamaður settist niður með Júlían og ræddi við hann um heimsmetið, kraftlyftingar og lífið.

Meðfylgjandi er brot úr stærra viðtali sem birtist í nýjasta helgarblaði DV.

Unglingur á þrítugsaldri

Flokkar í kraftlyftingum komu blaðamanni spánskt fyrir sjónir. Þar eru 14–18 ára strákar „drengir“ og 19–23 ára menn eru „unglingar“. Það eru því aðeins tvö ár síðan Júlían var unglingur innan kraftlyftinganna. Ástæðuna fyrir þessari undarlegu aldursskipan telur Júlían að megi rekja annars vegar til þess hversu langur líftími íþróttamanna er innan íþróttarinnar og hins vegar til aldursskiptingar á milli bandarískra skólastiga.

Þrátt fyrir að teljast til unglinga til 23 ára aldurs þá lendir Júlían stundum í því að vera talinn mun eldri en hann er. Þegar hann var 19 ára gamall setti hann Íslandsmet í unglingaflokki og af því tilefni var birt mynd af honum í fréttum sem sýndi hann í miðri hnébeygju, með 340 kíló á bakinu, og eðli málsins samkvæmt rauður í framan. Þá var skrifað í athugasemd við fréttina „Unglingur? Þessi gæi er fimmtugur.“ Hafði Júlían þó bara gaman af enda góð saga til að deila með öðrum.

Hlaðborðin best

Til að ná árangri í kraftlyftingum þarf að gæta vel að mataræðinu til að hafa orku og úthald í lyftingarnar sem og að gæta þess að viðhalda vöðvamassa. Júlían reynir að borða á bilinu fjögur til fimm þúsund kaloríur á degi hverjum og reiknast honum til að hann neyti að meðaltali lítra af íslensku skyri á dag. Margir hefðu fljótt fengið leiða á að torga slíku magni þetta oft en Júlían finnst skyrið sitt alltaf bragðast jafn vel.

Ellen Ýr Jónsdóttir, sambýliskona Júlíans, er einnig afrekskona í kraftlyftingum og því væntanlega vel gætt að mataræðinu á heimilinu. Þegar farið er út að borða segist Júlían helst reyna að fara á hlaðborð enda yrði líklegast kostnaðarsamt að reyna að fullnægja orkuþörf þeirra hjúa með hefðbundnum matseðli. „Svo er maður orðinn vanur því að fá sér bara að borða áður en farið er eitthvert út. Gríp eina skyr og fer svo í afmæli eða eitthvað álíka.“

Á traustum fótum

Það er deginum ljósara að Júlían er kominn til að vera í kraftlyftingum og hann stendur traustum fótum innan geirans, en hann stendur líklega oftast traustum fótum því hann er svo fótastór að hann notar hvorki meira né minna en skóstærð númer fimmtíu. „Ég hef aldrei búið við þann munað að þróa með mér einhvern skósmekk.“ Það eru ekki margar búðir sem bjóða upp á svo stóra skó, og þær búðir sem það gera hafa þá ekki í miklu úrvali. Júlían kaupir því helst skó í gegnum vefsíður eða að utan. Skósmekkurinn er því „það sem er í boði“. Fyrir hefur komið þegar hann falast eftir skóm í sinni stærð þá bjóði afgreiðslufólk honum skó sem jafnvel eru þremur stærðum minni en hann þarf og hann spurður hvort það gangi ekki bara. Afgreiðslufólkið er þá kannski óvant mönnum með jafngóðar undirstöður og Júlían hefur.

Þrátt fyrir tæplega áratuga reynslu af kraftlyftingum þá er Júlían aðeins búinn að keppa í tvö ár í fullorðinsflokki og árangur hans hingað til aðdáunarverður. Ekki er óalgengt í þessum bransa að ná sínum besta árangri eftir þrítugt og að sögn Júlíans þá voru flestir þeir sem hann atti kappi við á síðasta heimsmeistaramóti töluvert eldri en hann. Fyrirmyndir Júlíans, sem einu sinni virtust svo ósnertanlegar og fjarri honum, finnst honum nú færast honum sífellt nær, en Júlían er hvergi nærri hættur og ætlar sér langt. „Auðvitað veit maður ekki hvað verður, en ég stefni hærra. Ég er 25 ára núna og á mörg ár eftir.“ Á þessum orðum kveðjum við Júlían Jóhann Karl Jóhannsson, sterkan mann með langt og sterkt nafn, sem á langan og farsælan feril framundan. Hann er nefnilega bara rétt að byrja.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki