fbpx
Sunnudagur 16.desember 2018
Fókus

Morðingi giftir sig, andvaraleysi og eggjakast

Fókus
Sunnudaginn 18. nóvember 2018 20:00

Miklir átakatímar voru í íslensku samfélagi fyrir 10 árum. Þjóðarskútan var á hliðinni og þeir sem voru við völd forðuðust fjölmiðla, og þá sérstaklega DV, eins og heitan eldinn. Umfjöllun um íslenskt efnahagslíf var fyrirferðarmikið í DV á þessum sama tíma en ýmislegt annað áhugavert var einnig að finna á síðum blaðsins fyrir 10 árum. Í helgarblaði DV var að finna ítarlega nærmynd af Geir H. Haarde fjármálaráðherra. Þá neitaði Davíð að svara blaðamönnum og vildi frekar ræða við kött og þá var farið ítarlega í saumana á hræðilegum örlögum Sri Rahmawati sem kom hingað til lands frá Indónesíu í leit að betra lífi en var myrt á hrottalegan hátt af Hákoni Eydal. Hákon er nú laus og er kvæntur annarri erlendri konu.

Morðingi giftir sig

DV fjallaði um sögu Sri Rahmawati í tilefni bókar Ragnhildar Sverrisdóttur blaðamanns sem heitir Velkomin til Íslands og kom út árið 2008. Þar rekur Ragnhildur sögu Sri sem kom hingað til lands 1997 frá Djakarta í Indónesíu, þá 27 ára gömul. Aðeins sex árum síðar varð hún fórnarlamb í einu hrottalegasta morðmáli seinni tíma hér á landi. Fyrrverandi sambýlismaður hennar og barnsfaðir, Hákon Eydal, myrti hana að yfirlögðu ráði 4. júlí 2004. Hákon sýndi enga iðrun þegar upp um hann komst.

Vopnaður kúbeini og taubelti murkaði hann lífið úr barnsmóður sinni að yfirlögðu ráði. Hann fékk 16 ára dóm fyrir ódæðið og var dæmdur til að greiða börnum Sri 22 milljónir króna í skaðabætur.

Hákon Eydal

Lögreglan yfirheyrði Hákon 6. júlí en hann játaði ekki fyrr en 28. júlí og var afar erfiður viðureignar í rannsókn lögreglu. Hann leiddi lögreglu á villigötur og sagðist hafa losað sig við líkið í sjóinn á Kjalarnesi. Það reyndist ekki satt. Síðar hefur komið í ljós að nóttina örlagaríku þreif Hákon Eydal kúbein og barði Sri ítrekað með því, þar af fjórum sinnum í höfuðið. Tók hann því næst taubelti og herti að hálsi hennar. Það var víst sá verknaður sem dró Sri til dauða. Hákon bar lík barnsmóður sinnar því næst inn í sturtuklefa og þreif það. Setti hana svo í poka og bar út í bíl. Hann henti farsíma hennar í sjóinn og losaði sig við líkið í hraungjótu í nágrenni Hafnarfjarðar. Þann 3. ágúst árið 2004 vísaði Hákon lögreglu loks á lík Sri Rahmawati eftir nærri mánaðarlanga leit og rannsókn. Draumurinn um betra líf fyrir hana og börnin hér á landi hafði endað með hörmungum.

Hákon er nú laus og gifti sig á síðasta ári. Kona hans er austurlensk og um 25 árum yngri en hann. Þá eignaðist Hákon barn með konu sinni í lok september.

Steingrímur sakaði Geir Haarde um aðgerða- og andvaraleysi

Í ítarlegri nærmynd af Geir Haarde, sem á þessum tíma var í eldlínunni vegna Hrunsins, var leitað til Steingríms J. Sigfússonar sem nú er forseti Alþingis. Steingrímur sagði:

„Geir hefur alveg haldið haus í gegnum þetta og reynt sitt besta og verður ekkert sakaður um að hafa ekki reynt að sinna þessum verkum. En mér finnst þó að verkstjórnin og forystan í þessu hafi verið veiklulegri en maður hefur viljað sjá.“ Varðandi ríkisstjórnina sem sat í umboði Geirs sagði Steingrímur hana ábyrga fyrir aðgerða- og andvaraleysi.

Davíð og Eldibrandur
Ávallt boðið upp á gúmmelaði.

Davíð vildi frekar strjúka ketti en að tala við DV

Í DV 19. nóvember 2008 var fjallað um blekkingu Davíðs Oddssonar, þáverandi Seðlabankastjóra og núverandi ritstjóra Morgunblaðsins. Blaðamaður og ljósmyndari DV biðu eftir Davíð við heimili hans með það fyrir augum að spyrja hann út í það misræmi sem fólst í orðum hans hjá Viðskiptaráði og skýrslunni um fjármálastöðugleika frá því í maí það sama ár. Einnig vildi DV fá langþráð viðbrögð Davíðs við ásökunum Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings, um að Davíð hafi hótað honum að „taka bankann niður“ héldi Kaupþing því til streitu að fá að gera upp í evrum. Davíð kom heim í lögreglufylgd og merktur lögreglubíll tók einn hring í götunni til þess að ganga úr skugga um að gata seðlabankastjórans væri greið. Davíð tók í fyrstu undir kveðju blaðamanns en eftir að hann kynnti sig sem blaðamann DV svaraði Davíð með þögninni. Seðlabankastjórinn gaf sér þó tíma til þess að gæla við pattaralegan kött fyrir utan heimili sitt á meðan blaðamaður reyndi ítrekað að ná sambandi við hann. Eftir að hafa átt orðastað við köttinn gekk Davíð inn og skildi köttinn og blaðamann eftir fyrir utan dyrnar.

Guðni hætti á þingi

Þann 18. nóvember var greint frá nokkrum tíðindum í íslenskri pólitík. Þá tilkynnti Guðni Ágústsson öllum að óvörum á Alþingi að hann væri hættur. Fór hann beint úr atinu í stjórnmálunum og glímunni við efnahagshrunið á Íslandi í sólina á Kanarí. Guðni neitaði að ræða við DV um ástæður afsagnar sinnar. Blaðamaður og ljósmyndari DV reyndu að ná tali af Guðna á Selfossi en Margrét Hauksdóttir, eiginkona Guðna, sló skjaldborg um eiginmann sinn þannig að hvorki náðist af honum mynd né eitt einasta orð. „Eruð þið að elta okkur eða? Hann bað kærlega að heilsa ykkur en myndataka er ekki til umræðu. Það eru til milljón myndir af manninum,“ sagði Margrét við blaðamann.

Hentu eggjum í átt að Birni Bjarnasyni

Líkt og sjá má á þessari umfjöllun var mikill hiti vegna efnahagsástandsins. Væri hægt að fylla margar bækur af efni um það sem átti sér stað. Við endum þessa yfirreið hins vegar á eggjakasti sem Mercedes Benz-ráðherrabifreið Björns Bjarnasonar, dóms- og kirkjumálaráðherra, varð fyrir. Björn fjallaði um eggjakastið á bloggsíðu sinni en kvaðst hann hafa heilsað upp á Ómar Ragnarsson sem hafi verið á meðal mótmælanda. Þá nafngreindi hann einnig Katrínu Jakobsdóttur. Hann var þó ekki að saka þau um eggjakast.

Björn sagði að í hádegismatnum hafi Jón Magnússon, þingmaður Frjálslynda flokksins, spurt hann hvort ráðherrabíllinn fyrir utan væri á hans vegum. „Ég kvað já við því og sagði Jón mér þá, að kastað hefði verið í hann eggjum. Jón Geir, bílstjóri minn, fór á bílnum til að þrífa hann en þegar ég gekk með Illuga Gunnarssyni alþingismanni út úr skálanum var enginn sjáanlegur við þinghúsið.“

Fókus
Á Fókus finnur þú umfjöllun um fólk, bæði í fréttamolum og styttri og lengri viðtölum, Tímavélina, umfjöllun um menningu: bækur, kvikmyndir og sjónvarp, leiklist, tónlist og tónleika, viðburði,
próf, gjafaleiki og fleira. Ert þú með ábendingar, hugmyndir eða efni fyrir Fókus, upplýsingar um viðburði, eða annað? Sendu okkur þá línu á fokus@fokus.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Nylon-stjarna gengin út
Fókus
Í gær

DV velur Mann ársins 2018: Taktu þátt í valinu

DV velur Mann ársins 2018: Taktu þátt í valinu
Fókus
Í gær

Downton Abbey kvikmynd á leiðinni – Sjáðu fyrstu kitluna

Downton Abbey kvikmynd á leiðinni – Sjáðu fyrstu kitluna
Fókus
Í gær

FM Belfast byrjaði sem jólagrín

FM Belfast byrjaði sem jólagrín
Fókus
Í gær

Gunnar Smári mærir Mörtu Maríu: „Meira að segja Smartlandi er ofboðið“

Gunnar Smári mærir Mörtu Maríu: „Meira að segja Smartlandi er ofboðið“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Ísheit Reykjavík stendur yfir – Stærsta samstarfsverkefni Norðurlanda í dansi

Ísheit Reykjavík stendur yfir – Stærsta samstarfsverkefni Norðurlanda í dansi
Fókus
Fyrir 2 dögum

Dillon og Bulleit safna fyrir Geðhjálp og Rauða krossinn – Húðflúr gegn myrkrinu

Dillon og Bulleit safna fyrir Geðhjálp og Rauða krossinn – Húðflúr gegn myrkrinu