fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Ótrúleg lífsreynsla sautján ára stúlku: Féll úr þrjú þúsund feta hæð og lifði af

Tómas Valgeirsson
Þriðjudaginn 13. nóvember 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Aðfangadagur árið 1971 er dagur sem hin perúska Juliane Koepcke mun aldrei gleyma. Juliane var þá sautján ára gömul og hófst dagurinn þegar hún steig um borð í Lansa Electra flugvél með móður sinni, Mariu. Til stóð hjá mæðgunum að fljúga frá Perú til bæjarins Pucallpa á Amazon-svæðinu til að hitta föður Juliane yfir hátíðirnar. Þá hafði hún ekki hugmynd um að hennar biði ógnvægilegt óveður, sem síðar olli brotlendingu vélarinnar. Þetta er talið vera eitt versta flugslys af völdum eldingar sem sögur eru af.

Juliane reyndist vera eini einstaklingurinn sem komst lífs af í slysinu, sem vitað væri af. Þegar hún sogaðist út úr flugvélinni í miðri brotlendingu féll hún úr tæplega þrjú þúsund feta hæð. Þá lenti hún í Amazon-skóginum, stórslösuð, og á þessum tíma gerði hún sér ekki grein fyrir því að þetta væri aðeins upphafið að átökunum sem hennar biðu.

„Þetta eru endalokin“

Í Electru-flugvélinni voru um 90 farþegar. Juliane kippti sér í fyrstu ekkert upp við þrumuveðrið sem hún sá þegar hún leit út um gluggann. Hún sá þó fljótt að móðir hennar, Maria Koepcke, var orðin afar óstyrk, enda var hristingurinn orðinn töluverður vegna mikillar ókyrrðar. Hermt er að heyrst hafi í ferðatöskum kastast til og frá í farangursrýminu.

„Móðir mín sagði að henni litist illa á þetta,“ segir Juliane í samtali við fréttamiðilinn BBC þegar hún rifjar upp viðbrögð móður sinnar á þessari stundu.
Skömmu síðar varð flugvélin fyrir eldingu og kviknaði eldur samstundis.

„Við mamma héldumst í hendur og gátum ekkert sagt. Aðrir farþegar voru farnir að gráta og öskra. Tíu mínútum síðar sáum við skært ljós á vinstri væng flugvélarinnar.“ segir Juliane.

„Þá segir móðir mín í rólegum tón: „Þetta eru endalokin, þetta er allt búið.“ Þetta voru síðustu orðin sem hún sagði við mig.“

Eldurinn breiddi ört úr sér og leið ekki á löngu þangað til að annar flugvélarvængurinn hafði fokið af. Vélin var farin að brotna í sundur og soguðust margir farþegar úr henni í miðju lofti. „Móðir mín og maðurinn við hennar hlið höfðu bæði fokið úr sætum sínum. Ég var sjálf komin í frjálst fall stuttu síðar,“ segir hún. „Ég man eftir að hafa séð skóginn fyrir neðan mig.“

Við fallið hlaut Juliane alvarlegan heilahristing, brot á viðbeini, áverka um allan líkamann og bólgu í auga svo dæmi séu nefnd. Að sögn Juliane leit hún út eins og uppvakningur. Það tók hana hálfan dag að vinna upp styrkinn til að standa upp og ganga. Þegar hún var komin á fætur tókst henni að finna poka fullan af sleikipinnum í rústum farangursins.

Ásótt af möðkum

„Ég gat varla hugsað um sjálfa mig, ég var of upptekin af því að velta fyrir mér hvar móðir mín væri,“ segir Juliane. Í skóginum ákvað hún að halda sér nálægt árbakka í þeirri von að það kæmi henni nær fólki og aðstoð. Á sama tíma glímdi hún við þunga rigningu og gríðarlegan hita.

Ástandið batnaði ekki þegar hún tók eftir að flugur höfðu verpt eggjum í sár sem hafði myndast á öðrum handlegg hennar. Þetta leiddi til þess að maðkar voru farnir að klekjast út um húð hennar.

Mynd: NTD

Eftir tíu daga í óbyggðunum fann hún vélbát við fljótið ásamt tunnu fulla af dísel-eldsneyti. Hún notaði eldsneytið til þess að bera á handlegginn til að útrýma möðkunum sem höfðu náð þar festu. Á ellefta degi fann hún kofa sem hún nýtti sér til skjóls. Skömmu síðar komu heimamenn að henni, glorsoltinni, veikburða og með óbærilegan svima. Þeir gáfu henni mat og fluttu hana tafarlaust á sjúkrahús.

„Nú var ég allt í einu ekki lengur ein. Allt í einu voru þarna komnir þrír ungir menn, sem áttu lítinn kofa á bakka árinnar, sem ég hafði verið að rekja mig eftir, dögum saman,“ segir hún. „Ég var heppin. Hefði ég komið í kofann degi seinna, hefðu þeir misst af mér, af því að þeir höfðu ákveðið að leggja af stað einmitt þennan morgun. Þá hefði enginn fundið mig, þvi að, eftir þvi sem þeir sögðu mér, þá var þarna enginn mannabústaður við þessa litlu á, nema einmitt þessi kofi þeirra.“

Þegar Juliane var komin á sjúkrahúsið tók harmi sleginn faðir hennar á móti henni. „Við gátum varla sagt orð þegar við hittumst,“ segir hún. „Það eina sem við gátum gert var að halda þétt utan um hvort annað.“

Martraðir í mörg ár

Í kjölfar þessa endurfundar hófst leit að móðurinni. Þann 12. janúar fannst lík hennar. Juliane komst að því að hún hafði einnig lifað flugslysið af. Hún hafði hins vegar verið of alvarlega slösuð til þess að geta hreyft sig og lést nokkrum dögum síðar. „Mér sárnar yfir tilhugsuninni um hvernig síðustu dagar hennar hafa verið.“

Juliane hefur öðlast mikla frægð í Suður-Ameríku og hefur sögu hennar víða verið líkt við kraftaverk. Þegar saga hennar fréttist út fékk hún hundruð bréfa send til sín frá ókunnugum. Juliane segir stuðninginn hafa verið ómetanlegan, en viðurkennir að áfall og eftirköst þessa flugslys sé eitthvað sem hún mun líklegast aldrei jafna sig á.

„Þetta gaf mér martraðir í mörg ár og sorgin vegna dauða móður minnar er auðvitað gríðarleg.“

Juliane er nú 64 ára gömul og hefur starfað sem spendýrafræðingur í áraraðir. Hún hefur skrifað bók um þessa ótrúlegu lífsreynslu sína og má einnig geta þess að bæði heimildarmynd og kvikmynd í fullri lengd hafa verið framleiddar um átökin. Heimildarmyndin sem er frá árinu 2000 ber heitið Wings of Hope og henni er leikstýrt af hinum virta kvikmyndagerðarmanni Werner Herzog. Kvikmyndin, Miracles Still Happen, er frá 1974 og má finna hana hér að neðan.

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár

Keppandi Írlands í Eurovision í ár er kvár
Fókus
Í gær

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 2 dögum

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir

J. Lo loksins laus við slottið – 7 ár í sölu og verðmiðinn lækkaður um milljónir
Fókus
Fyrir 2 dögum

Alda vann til verðlauna annað árið í röð

Alda vann til verðlauna annað árið í röð
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“

Sviplegt fráfall samfélagsmiðlastjörnu skekur netheima – „Ég skil þetta ekki, ég var með henni á föstudaginn“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi

Einkaþjálfari Taylor Swift varpar ljósi á það sem hún gerir til að halda sér í formi
Fókus
Fyrir 3 dögum

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham

Kryddpíurnar með endurkomu í rosalegu fimmtugsafmæli Victoriu Beckham
Fókus
Fyrir 4 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“