fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Emmsjé Gauti: „Tímarnir voru öðruvísi þegar ég var yngri og graðari“

Tómas Valgeirsson, Guðni Einarsson
Þriðjudaginn 23. október 2018 21:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Akureyringurinn og Breiðhyltingurinn Gauti Þeyr Másson, betur þekktur sem Emmsjé Gauti, hefur verið einn allra vinsælasti rappari landsins um árabil. Listamaðurinn hefur sópað til sín tilnefningum og verðlaunum fyrir lög sín og plötur og hafa fáir listamenn í íslensku rappsenunni komist með tærnar þar sem Gauti hefur hælana.

Það hefur tekið listamanninn tíma og metnað að komast á þann stað sem hann er á í dag en hann hefur sent frá sér fimm breiðskífur og yfir tuttugu smáskífur. Á leiðinni hefur hann lent í ýmsum uppákomum. Fimmta breiðskífa kappans leit dagsins ljós fyrr í vikunni undir heitinu FIMM. Sjálfskoðun og aðra upplifun á sjálfum sér segir Gauti hafa valdið því að platan hafi orðið rólegri og farið í aðra átt en þær fyrri. Gauti er með mörg járn í eldinum þessa dagana en hann vinnur nú að opnun nýs veitingastaðar í vesturbæ Reykjavíkur, útgáfutónleika á Akureyri og jólatónleika í Háskólabíói.

DV ræddi við Gauta í einlægu við tali um upprunann, ferilinn, eiturlyfjavanda ungs fólks og sitthvað fleira.
Gauti er bæði Akureyringur og Breiðhyltingur í húð og hár, hvernig sem hentar.

Lagði sig og missti vinnuna

Byrjum á byrjuninni. Hvar ertu alinn upp?

„Ég er fæddur á Akureyri og bjó þar fyrstu þrjú ár ævinnar. Ég segist stundum vera Akureyringur þegar það hentar, alveg eins og ég segist vera úr Breiðholtinu þegar það hentar. En ég er alinn upp í Breiðholti og mitt heimahverfi er Seljahverfið, þó svo að hjartað sé alltaf fyrir norðan líka.

Foreldrar mínir voru einhvern tímann saman en það var ekki á mínu æviskeiði. Ég hef alltaf litið ótrúlega mikið upp til þeirra varðandi hvað þau hafa haldið frábæru sambandi. Það var bara tekin ákvörðun þeirra á milli um að annað gengi ekki, en þannig á það líka að vera. Það kennir manni að kyngja egóinu, stoltinu og gera hvað sem þarf fyrir börnin.“

Hvað tók við eftir Seljaskóla og hvar varstu að vinna á yngri árum?

„Ég var í Seljaskóla og hætti í tíunda bekk. Ég tók eina önn á listnámsbraut í Fjölbrautaskólanum í Breiðholti en gafst fljótt upp á því. Þá fór ég eina önn í bakarann og kokkinn í Menntaskólanum í Kópavogi. Það var eitthvað voðalega kósí við það að geta bakað fyrir sjálfan sig, þangað til að ég áttaði mig á því hvernig vinnutími bakarans er. Bakarar vinna alltaf snemma alla morgna á meðan kokkurinn er að langt fram eftir kvöldi, þess vegna hraktist ég úr því. Eftir þetta tók ég mér pásu og fór að vinna. Ég fór að ferðast, vinna í hinu og þessu og fann að ég var ekki tilbúinn til þess að mennta mig á þessum tíma.

Í níunda og tíunda bekk tók ég unglingavinnuna og vann síðan í fatabúðum. Svo fór ég að fylla goskæla fyrir Vífilfell og malbikaði eitt sumar. Ég man líka að ég vann aðeins í Húsasmiðjunni áður en ég var rekinn.“

Af hverju varstu rekinn?

„Ég vann þarna með Kidda, vini mínum, og ég man alltaf að við vorum reknir með viku millibili. Hann sofnaði í baðkari og ég sofnaði uppi á borði. Ég var reyndar líka rekinn hjá Vífilfelli. Ég var mættur í eina Bónusverslunina til að fylla á en ákvað að leggja mig í einni hillunni fyrir opnun. Þá sofnaði ég og vaknaði eftir opnun. Það var klöguskjóða í búðinni sem lét yfirmann minn vita og þannig missti ég þá vinnu. Svo fór ég að vinna aftur í fatabúð og held að ég hafi staðið mig ágætlega þar. Síðan fór ég að vinna aðallega á veitingastöðum og börum þangað til ég hætti að vinna svona störf og sneri mér að músík.“


Líður eins og ketti

Gauti hætti í matreiðslunámi sökum vinnutímanna.

 

Þegar þú ert að finna sjálfan þig sem tónlistarmann á þessum árum, hvernig gerist það að henda sér út í þennan bransa frá byrjunarreitnum?

„Þetta var rosalega langur tími. Ég byrja að semja tónlist ungur og þá var engin regla á þessu. Ég byrjaði að semja eitt og eitt lag og kom því frá mér. Þá var helsta „platformið“ að gefa þetta út á Huga.is eða Hiphop.is. Ég spilaði mikið í Norðurkjallaranum og á félagsmiðstöðvum og slíkum stöðum. Það var 2007 þegar ég byrja í hljómsveit sem heitir Skábræður. Þá fór ég að sýna þessu meiri áhuga og fann fyrir því að mig langaði að gera tónlist. Stefnan var svo sem ekki að gera þetta að neinni atvinnu, ekki fyrr en ég fór að vinna sóló. Ég var meira að segja í annarri hljómsveit inni á milli á þessum tíma sem heitir 32c, árið 2008. Svo í kringum 2009–2010 hóf ég sólóverkefnið mitt og fann að ég vann miklu betur einn.

Það er frábært að kynnast öðru fólki og vinna með því, en ég er eins og köttur. Mér finnst þægilegra að fara mínar eigin leiðir og fá að stýra eigin verkefnum. Þegar við erum þrír í hljómsveit getur verið erfitt að taka ákvarðanir. Upp úr 2011 fæ ég í fyrsta sinn athygli í fjölmiðlum. Þegar Skábræður seldu plötu í 200 eintökum í Smash fann ég alveg fyrir því að fjöldi fólks var að hlusta og kannaðist léttilega við mann, en þegar ég gaf út sólóplötuna fóru hjólin að snúast. Þegar ég gaf út aðra breiðskífu mína árið 2013 og fékk góða dóma fór ég að finna fyrir því að fólk sýndi „live-settinu“ mínu áhuga. Þá var ég að vinna á Dolly og í útvarpinu en ég var farinn að finna mig rosalega fljótt á sviði. Þá var ég farinn að snúa mér alfarið að tónlistinni.

Þetta var líka farið að bitna mikið á vinnunni. Ég vann um kvöld og var alltaf að biðja um frí. Ég prófaði að hætta í vinnunni í tvo mánuði og hugsaði að ég kæmi þá bara aftur ef þetta gengi ekki upp. En enn í dag hef ég ekki snúið til baka. Þegar ég tók ákvörðunina um að þetta væri vinnan mín, að geta vaknað á morgnana og hugsað „Ég er tónlistarmaður“, þá fór ég að vinna í efninu mínu og spilaði mikið til að koma mér á framfæri. Smám saman var komin einhver létt athygli en þegar ég gaf út Strákana, mína fyrstu alvöru smáskífu, sem ég fann að allir höfðu heyrt, var þetta alveg neglt.“

Rapparinn kann betur við að halda tónleika en að spila á djammi.

Hyldýpi af djammi

Nú er tónlistarsenan þekkt fyrir mikið djamm. Hvernig er að vinna sem tónlistarmaður og vera í kringum allt þetta skemmtanalíf?

„Það þarf auðvitað að átta sig á því umhverfi sem maður spilar í. Ég er sáttur við hvað tilhlaupið að mínum ferli tók langan tíma. Þegar ég var farinn að „meika“ það, þá var ég búinn að sýsla í þessu svo lengi að ég kunni vel við að vera kominn þá leið. Það er vissulega mikið um djamm og partístand í þessu, sérstaklega þegar þú vinnur í rauninni við að halda partí og skemmta fólki. Mér finnst reyndar persónulega miklu skemmtilegra að halda tónleika en að spila á djammi. Það fylgir þessu alltaf að fólk fær sér glas á börum og þvíumlíkt en í dag finnst hef ég ekkert sérstaklega gaman af að spila klukkan þrjú að nóttu til. Tímarnir voru öðruvísi þegar ég var yngri og graðari, en nú er það aðeins öðruvísi. Það þarf voðalega mikið að passa það að sogast ekki inn í eitthvert hyldýpi af djammi, því skemmtanahald – eins og allt annað – verður rosalega þreytt ef þú ert alltaf í þeirri senu.“

Undanfarið er búin að vera mikil umræða um lyfseðilsskyld lyf, sem hafa verið mikið tengd við tónlistarsenuna. Hvað finnst þér um slíkt?

„Ég held að það sé rangt að benda á hipphopp-senuna sem einhvern blóraböggul í þessum málum. Hins vegar er þetta mjög alvarlegt mál og ástandið sem er í gangi í dag er vissulega hræðilegt. Það eru prósentur og dauðsföll sem sýna fram á að neyslan er miklu þyngri hvað varðar svona óbjóð. Þetta þekktist ekki þegar ég var krakki, ég tók allavega ekki eftir því. Á mínum tíma var maður stimplaður dópisti fyrir það eitt að fá sér jónu. Það er miklu meira umburðarlyndi gagnvart lyfseðilsskyldum lyfjum, en staðreyndin er sú að þetta fylgir öllum senum, hvort sem þú ert í rokki eða jakkafataklæddur maður á sinfóníutónleikum eða húsmóðir í Breiðholti. En það er ótrúlega auðvelt að ráðast á toppinn.

Hipphopp er mest áberandi tónlist sem er í gangi í dag. Ég held að það sé nauðsynlegt fyrir okkur sem fyrirmyndir að upphefja ekki eiturlyfjanotkun. Við erum kannski ekki sjálfskipaðar fyrirmyndir en við erum vissulega fyrirmyndir. Hins vegar stend ég báðum megin við línuna, því mér finnst líka mjög skrítið að ritskoða svona hluti. Poppkúltúr endurspeglar náttúrlega bara samfélagið í heild sinni. Það þarf að ráðast að rót vandans og velta því fyrir sér hver er að skrifa út þessi lyf, af hverju er verið að skrifa út þessi lyf og í hvaða tilgangi?

Ég hef átt þetta spjall við yngri gaura í senunni sem eru meðvitaðir um þetta líka. Mér finnst nauðsynlegt að tala um eiturlyf og eiturlyfjaneyslu, en þá þarf einnig að sýna dimmu hliðarnar á því. Það þarf að sýna að þetta sé ekki alltaf gott partí og stanslaust stuð.

Gott dæmi finnst mér vera nýjasta plata Gísla Pálma, þar sem hann fer yfir sinn lífsstíl en kemur líka inn á það hvernig hann glímir við eigin djöfla. Ef hægt er að tala um þetta á tvo vegu, þá finnst mér það réttlæta að tala um lyfin á annan hátt líka. Þetta er viðkvæmt mál og mér finnst erfitt að tala um þetta, því mér líður svo oft eins og það þurfi svo lítið til að segja eitthvað sem mun stuða eða særa einhvern. Mín skoðun er allavega sú, þangað til einhver breytir henni, að hræðsluáróður virkar ekki frekar en að öskra á fólk. Það er að koma breyting smátt og smátt en auðvitað fáránlegt að benda á fíkla í einhverju glæpamannasamhengi.

Umfjöllun um neyslu talar yfirleitt um lokastigið á neyslunni, sem færri tengja sig við. Meira að segja lið sem fiktar við sína fyrstu pillu hugsar aldrei: „Ég mun enda eins og þessi þarna“, þannig að ég held að hræðsla í gegnum ferlið sé aðal skaðaminnkunin sem gæti átt sér stað.“

Reynir að sigta út það vonda

Nú átt þú tvö börn. Finnst þér þú hafa breyst mikið með tilkomu dætra þinna?

„Ég held að það sé algjör klisja að maður breytist við að eignast börn, en hugsunarhátturinn breytist auðvitað. Ég geri ekki sömu heimskulegu hlutina og áður en ég varð pabbi. Ég finn fyrir þessu þegar ég sem texta í dag. Ekki það að ég skammist mín fyrir fortíðina en föðurhlutverkið hvetur mig meira til þess að horfa inn á við og spyrja sjálfan mig: Hver er ég og hvaða arfleið er ég að skilja eftir fyrir dætur mínar?

Staðreyndin er samt sú að þú verður að þroskast þegar þú eignast barn. Það er líf í höndunum þínum sem þú verður að sjá um. Ég veit auðvitað ekkert hvað framtíðin mun bera í skauti sér en mér finnst nauðsynlegt að vera heiðarlegur og segja hvernig líf mitt var, að reyna að sigta út vondu hlutina og kenna börnunum að gera betur. Ég held að þar liggi aðalbreytingin.“

Ef þú myndir skjóta á einhverja tölu, hvað heldurðu að þú sért búinn að taka mörg gigg?

„Í heildina? Ef ég ætti að giska á einhverja tölu, myndi ég skjóta á tvö þúsund tónleika. Sem dæmi spilaði ég á 140 tónleikum árið 2017. Þá er ég að tala um allt, þótt ég hafi komið einu sinni fram og tekið eitt lag. Oft hef ég spilað fjórum eða fimm sinnum á kvöldi, sem er náttúrlega ruglað.“

Rapparinn spilaði á 140 tónleikum á síðasta ári.

Hvert var eftirminnilegasta giggið?

„Það eru tvö gigg sem koma upp í hugann. Annars vegar er það Rímnaflæði 2002, sem markaði fyrsta skiptið þar sem ég kem fram fyrir framan fólk. Það stóð að sjálfsögðu upp úr af mörgum ástæðum og situr í mér. Það var þess valdandi að ég ákvað að halda áfram í tónlistinni. Síðan eru það útgáfutónleikarnir sem ég hélt árið 2016, fyrir Vagg og veltur. Þá leigði ég skemmtistaðinn NASA og bjó til sérstakt svið í miðjunni á salnum þar sem ég spilaði í fjórar áttir í boxhring. Það var mjög metnaðarfullt verkefni sem vekur upp góðar minningar.“

Eltur heim af óðum aðdáanda

Gerist það oft að aðdáendur reyni að ná samband við þig í síma eða er fólk að koma heim að dyrum hjá þér?

„Krakkarnir í hverfinu eru stundum að banka upp á og eiga það til að gera dyraat. Fólk gerir líka símahrekki af og til, en ég finn fyrir því að kjarnahópur aðdáenda er rosalega næs og virðingarfullur hópur. Það er fólk sem er ekki mikið að betla ljósmyndir og virðir einfaldlega tónlistina. Ég upplifi það þannig að það sé ekki vandamál að vera þekkt andlit á Íslandi fyrr en fólk er komið í áfengið.“

Hefur þú lent í mörgum grilluðum uppákomum frá aðdáendum?

„Hiklaust, alveg ótal mörgum. Sem dæmi lenti ég einu sinni í strák á Prikinu sem var greinilega aðdáandi. Þá var ég ekki alveg í stuði til þess að tala við fólk en hann var alveg ofan í andlitinu á mér og vildi segja mér frá hugmyndum um lög. Ég bað hann um að fara en hann vildi það ekki og var á endanum orðinn óþolandi. Þá bað ég dyravörðinn um að fylgja honum út og hélt að allt væri búið. Síðan gerðist það eftir kvöldið að hann elti mig heim og réðst á mig, þegar ég var rétt ókominn í Vesturbæinn. Ég hafði seinna samband við þennan strák og talaði við hann. Þá sá hann rosalega eftir þessu en talaði um hvað honum sárnaði mikið að ég hefði sýnt honum svo mikla óvirðingu. Hann hefur verið drukkinn og í einhverju ruglástandi.

Ég mæli samt með að fólk íhugi hvort það sé að ráðast á persónulegt svæði annarra, sérstaklega ef það er komið í glas. Þetta á ekki bara við um þá sem eru frægir. Það eru ekkert alltaf allir til í spjall. Ég er til dæmis viss um að sjónvarpskarakterar, sem vinna við það að vera skemmtilegir í sjónvarpinu, lendi mikið í því að aðrir búist við því að þeir séu alltaf í stuði. Maður verður eitthvað svo brenglaður þegar allt gengur rosavel og þegar allir eru alltaf að segja manni hvað maður er flottur. Það er allt í gangi og fólk er endalaust að hrósa manni, þá á maður það til að fela sig á bak við það og gleyma alvöru manneskjunni.“

Gauti gaf nýlega úr plötuna FIMM. Mynd/Berglaug Petra

Fylgir annarri stefnu en áður

„Segjum að ég fari grátandi eða leiður upp á svið, þá þarf ég að hrista það af mér með einhverri grímu, því fólk vill að þú sért alltaf í stuði. Þessi texti snýst um mig að „feisa“ sjálfan mig. Ég fann einhvern glugga og ákvað að rífa sjálfan mig aðeins niður. Mér fannst það meira að segja örlítið óþægilegt. En þessi plata er svolítið merki um það. Hún er rólegri og fylgir annarri stefnu en því sem ég hef verið að sinna, en það er líka vegna þess að ástandið á mér hefur verið öðruvísi en áður.

Ég vil líka hvetja fólk til þess að vera ekki feimið við að gagnrýna plötuna mína. Mér finnst alltaf gaman að fá uppbyggilega gagnrýni og mér finnst eiga að vera meira af henni í samfélaginu. Ég á mér nokkra beinskeytta vini sem ég leita alltaf til þegar ég gef út efni. Mér finnst auðvitað gaman að fá hrósið en ég vil endilega vita hvað þeim fannst mega fara betur. Þetta snýst ekki um að vera dónalegur og ég er mögulega að kasta steinum úr glerhúsi, því ég hef sjálfur tekið fólk fyrir í fjölmiðlum og drullað yfir það.“

Er eitthvað sem fólk veit ekki um þig?

„Það er eitt sem mér finnst frekar nett. Þegar ég var í skátunum á unga aldri var ég í frímerkjaklúbb, að æfa skák og var í fimleikum. Allt þetta á svipuðum tíma, en það skemmtilega var að ég kynntist fyrst íslensku rappi í gegnum skátana. Ég var í skátaútilegu og þá voru spilaðar Skytturnar, það var gott móment.“

Færðu einhvern tímann á tilfinninguna að hipphopp-senan sé búin að ná hámarki?

„Ég hélt að hún hefði náð hámarki fyrir fjórum árum, en hvað var rokk og ról lengi á toppnum? Þetta er náttúrlega sena sem talar til ungs fólks og út frá því smitar það yfir í aðra aldurshópa líka. Það er ekki hægt að skilgreina rapp sem bara rapp, því þetta er svo fáránlega vítt hugtak. Mér finnst vera jákvæð þróun varðandi að það er auðveldara fyrir ungt fólk að koma sér á framfæri í dag en það var þegar ég byrjaði. Samfélagsmiðlar eru eflaust stærsti þátturinn í því. Tónlist hljómar líka almennt betur í dag en áður. Það má segja að versta tónlistin í dag hljómi eins og besta tónlistin sem við vorum að gera, því við vorum ekki með upptökugræjur.“


Drakk fullmikið af jólaglögginu

Trúir þú á Guð?

„Nei, ég get ekki sagt það. Ég get heldur ekki sagt að það sé ekki neitt til. Það er jafnvitlaust að segja að það sé ekki til neinn Guð. Við höfum ekki hugmynd, en ég er ekki trúaður.“

Í fyrra seldist upp á sjö sýningar á Julevenner, en þeir tónleikar hófust sem brandari. Hvernig verður nálgunin í ár?

„Við tókum fljótt þá ákvörðun um að festa okkur ekki í sömu hjólför og síðast. Þú ferð ekki og segir sama brandarann aftur, sama hversu ógeðslega fyndinn hann er. Það er í eðli sínu fáránlegt að ég skuli halda jólatónleika og þetta var ógeðslega fyndið í fyrra. En allir listamennirnir sem koma fram eru fólk sem ég virði rosalega, en þetta er ótrúlega sérstök blanda. Emmsjé Gauti og Sigga Beinteins hljómar ekki alveg eins og dót sem þú myndir flokka saman í samstæðuspili og það eru allir meðvitaðir um það. Þetta er ákveðin jólakómík og meiri sýning en hefðbundnir jólatónleikar. Þetta eru í raun meira venjulegir tónleikar heldur en jólatónleikar. Þú getur gert allt jólalegt bara með því að setja skraut á sviðið.“

Og það er jólaglögg í boði og svona?

„Já, að sjálfsögðu. Það er allur pakkinn þarna. Í fyrra vorum við með lúðrasveit sem tók á móti gestum, og mandarínur, konfekt og fullan jólasvein. Strákurinn sem lék jólasveininn í fyrra drakk aðeins of mikið af jólaglögginu. Rauði þráðurinn í gegnum þetta var að gera eitthvað sem okkur fannst fyndið. Þetta má samt ekki heldur vera of mikið glens, en aldrei of alvarlegt. Glætan að ég nenni að sitja sjálfur á jólatónleikum þar sem eru eingöngu spiluð jólalög.“

Á unga aldri var Gauti í frímerkjaklúbb, æfði skák og var í fimleikum. Einnig var hann skáti þar sem hann kynntist fyrst íslenskri rapptónlist.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Í gær

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Í gær

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta
Fókus
Fyrir 3 dögum

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“

Segir móður sína stórhættulega í umferðinni – „Hvernig get ég fengið mömmu til að hætta að keyra?“
Fókus
Fyrir 4 dögum

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna

Hver fer á Bessastaði? – Þetta eru makar forsetaframbjóðendanna