fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Fjötrar Sölva Fannars leystir með öllu: „Ég hef alla tíð verið villimaður í mér“

Tómas Valgeirsson
Fimmtudaginn 18. október 2018 20:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

„Ég á fleiri hundruð börn, en þó aðeins þrjú af holdi og blóði. Þar á ég við þegar ég er vakinn miskunnarlaust upp jafnvel um miðja nótt þegar ljóð og önnur sköpun eru við það að sprengja mig utan af sér. Þegar ljóðin, tónlistin og allt hitt eru lögð saman í púkkið þá er saman kominn hópur af óstýrilátum athyglissjúkum einstaklingum, ólíkt börnum mínum af holdi og blóði sem eru öll gæðafólk.“

Svo mælir Sölvi Fannar Viðarsson, ljóðskáld, tónlistarmaður, líkamsræktarþjálfari og leikari. Sölvi hefur mörg járn í eldinum þessa dagana. Sölvi hefur verið að spreyta sig í leiklist víða erlendis og senn mun afraksturinn líta dagsins ljós, eitthvað sem fjöllistamaðurinn er afar spenntur fyrir. Fyrir fáeinum árum vakti Sölvi athygli í tónlistarmyndbandi við lag frá David Guetta ásamt söngkonunni Siu. Lagið ber heitið She Wolf og var myndbandið tekið upp í Krýsuvík, á Langjökli og við Reykjanesvita. Sölvi segir að tökuferlið hafi verið langt og strangt en að tækifærið hafi haft afar jákvæð áhrif á leikferilinn.

Sölvi rifjar upp sælar minningar frá tökum tónlistarmyndbandsins, sem var tekið upp árið 2012. Í því sést hann með sítt hár og þykkt víkingaskegg, en þegar hann fór í leikprufuna fyrir veiðimanninn í burðarhlutverkinu vissi hann hvorki hvað þetta var eða fyrir hvern. „Ég hafði ekki hugmynd um að þetta væri myndband fyrir David Guetta en þetta fór fram úr björtustu vonum,“ segir Sölvi. „Sjálfur var ég líka með hár niður á bak og svaðalegt skegg sem ég hef síðan klippt og rakað af þótt það blundi alltaf í manni að safna aftur.“

Sölvi segist þó ekki hafa verið lengi að finna sinn innri veiðimanninn og víking. „Ég hef alla tíð verið villimaður í mér,“ segir Sölvi. „En það er vissulega heiður að fá að vera vera í burðarhlutverki í svona flottu tónlistarmyndbandi og það með góðan boga að vopni.“

Tónlist í genunum

Undanfarin þrjú ár hefur Sölvi verið búsettur í útjaðri Lundúna, nálægt Kent-sýslu. Þar hefur hann kunnað frábærlega við sig og reynir að finna stundir á milli krefjandi verkefna til þess að semja ljóð og margs konar texta. Til dæmis er hann þessa dagana að leggja lokahönd á sína fyrstu skáldsögu. Auk þess að sinna einnig leiklistargyðunni starfar hann sem umboðsmaður „Fjallsins“, Hafþórs Júlíusar Björnssonar. Þá vinnur Sölvi einnig að ýmsum tónlistarverkefnum með föður sínum, Viðari Jónssyni, og dóttur hans, Heru Sóleyju, auk þess að vinna sitt eigið efni. Nýlega framleiddi Sölvi tónlistarmyndband fyrir Viðar við hið góðkunna lag Help Me Make It Through The Night, sem kemur út á næstunni. Jafnframt er dóttir hans að stíga sín fyrstu skref í þeim geira og segist hann vera afar hreykinn af henni.

„Tónlistin er að miklu leyti pabba mínum að kenna á meðan ég kenni mömmu um leiklistina,“ segir Sölvi kátur aðspurður hvort tónlist sé í genum ættarinnar.

„Ég er þess fullviss að ef mamma hefði ekki verið að vinna stærri hluta sinnar ævi, tvö til þrjú störf, og líka ala okkur systkinin þrjú upp þá hefði hún getað átt góðan feril sem leikkona. Edda, litla systir mín, er hæfileikarík söngkona og Jón Garðar, eldri bróðir minn, bæði spilar og syngur ásamt því að vera með „fimm háskólagráður“ í heilbrigðisgeiranum. Valdimar Fannar, sonur minn, sem er elstur systkinanna spilar bæði á bassagítar og gítar og semur auk þess raftónlist. Helena Fanney, eldri dóttir mín, lærði og spilaði tónlist í rúman áratug. Hera Sóley, yngri systir hennar, lærði líka lengi og spilar á nokkur hljóðfæri og syngur eins og engill og mér sýnist hún ætla að láta það eftir sér að leyfa draumum sínum að rætast hvað það varðar. Það var reyndar hún sem barnung sparkaði mér ástúðlega af stað í eiginlegt nám í leiklist á sínum tíma eins sérkennilega og það kann að hljóma. Börn okkar búa vissulega í húsi framtíðarinnar sem við getum ekki heimsótt, ekki einu sinni í draumi og því getum við margt af þeim lært, ekki síður en þau af okkur.“

Mafían, víkingasveitin og seinni heimsstyrjöldin

Á næstunni verða frumsýndar tvær kvikmyndir sem Sölvi fer með hlutverk í en auk þess er hann að undirbúa þrjú önnur stór verkefni sem bíða hans á næsta ári, meðal annars kvikmynd um atburðarás seinni heimsstyrjaldarinnar með Stephen Fry í lykilhlutverki.

Sölvi á setti með fríðri mótleikkonu.

Myndirnar sem um ræðir eru Operation Ragnarök og síðan Three Dots and a Dash, sem er grínmynd með glæpaívafi þar sem hann leikur rússneska mafíuforingjann Boris Popov. Í hinni síðarnefndu segir Sölvi þátttökuna hafa verið með ólíkindum „sér í lagi þar sem fjötrar villidýrsins Sölva Fannars voru leystir með öllu,“ eins og hann segir sjálfur.

Þá nefnir hann einna mest spennandi verkefnið framundan, sem er kvikmyndin Margery Booth: The Spy in the Eagle’s Nest. Kvikmyndin er óður til mikillar kvenhetju að nafni Margery Booth, óperusöngkonu og njósnara sem átti stóran þátt í því að bandamenn náðu undirtökunum í seinni heimsstyrjöldinni, þökk sé meðal annarra kafteininum Waldemar Hohenlohe sem Sölvi leikur. Meðleikarar eru svo ekki af verri endanum, Anna Friel leikur sjálfa Margery Booth, Stephen Fry leikur Hermann Göring og þýski leikarinn Udo Kier fer með hlutverk Adolfs Hitler.

En hver er Waldemar Hohenlohe?

„Waldemar var ofursti af gamla skólanum í þýska hernum en í myndinni kemur hann við sögu sem fangabúðastjóri í Stalag IIID-fangabúðunum í Berlín en þangað kemur Margery Booth til þess að skemmta föngunum með óperusöng sínum og nokkurs konar uppistandi þess tíma. Waldemar var ekki nasisti og fyrirleit stríðið en hann var frændi Georgs 6. Englandskonungs, sem ætti ekki að koma neinum á óvart þar sem breska konungsfjölskyldan er þýsk að uppruna. Fjölskyldunafnið var Saxe-Coburg-Gotha þar til  Georg 5. fékk þá snilldarhugmynd að taka upp nafn Windsor-kastala sem eftirnafn. Það hljómar öllu breskara. Waldemar átti kærar minningar frá Englandi þar sem hann stundaði nám fyrir stríðið og spilaði krikket en harkalegar aðgerðir SS-manna fóru hins vegar fyrir brjóstið á honum, sem meðal annars varð til þess að bjarga lífi Margery. En meira um það þegar myndin kemur.“

Sölvi bætir við að tvö önnur risastór verk séu í vinnslu en hann er þögull sem gröfin um hver þau séu. Hann játar þó hvorki nei neitar að annað þeirra tengist nýrri kvikmynd þar sem þeir Hafþór Júlíus deila saman hvíta tjaldinu. Það væri þá ekki í fyrsta sinn. Sölvi hælir Hafþóri og líkir honum við annan góðan vin sinn, Jón Pál Sigmarsson heitinn. „Á sínum tíma reyndi ég talsvert að fá Jón Pál til þess að leyfa mér að aðstoða sig en hann einhvern veginn keypti þá hugmynd aldrei alveg.“

Fastur í líkama hellisbúa

„Hafþór hins vegar hefur náð árangri sem enginn hefur nokkru sinni náð, ekki „bara“ að vinna alla helstu aflraunatitla í heiminum á þessu ári, þar með talið að verða sterkasti maður í heimi, heldur einnig að vinna í kvikmynda- og sjónvarpsverkefnum samhliða því,“ fullyrðir Sölvi. „Það hefur enginn gert nokkru sinni. Vissulega er hann mannlegur, en býr yfir bæði ofurmannlegum kröftum og ekki síður gríðarsterkri einbeitingu sem eru hans helstu vopn að mínu mati og gera honum kleift að gera hið ómögulega.“

Það vill svo til að Hafþór fer með eitt hlutverkið í Operation Ragnarök, en saman eru þeir Sölvi á meðal fimm Íslendinga sem bregður þar fyrir. „Þar leikum við harðkjarna víkingasveit sem er við æfingar í Svíþjóð þegar efnavopn sleppur út í andrúmsloftið og bókstaflega allt verður vitlaust og þegar hvorki herinn né nokkur annar ræður neitt við neitt þá eru íslensku víkingarnir að sjálfsögðu kallaðir til,“ segir Sölvi. „Handritið sem fjallar í grunninn um ótta mannskepnunnar við hið óþekkta og ég kolféll fyrir þessu.“

Hafþór leikur víkingasveitarmanninn Big John í Operation Ragnarök.

Að sögn Sölva kemur hans fyrsta skáldsaga út samhliða myndinni, sem heitir því fróma nafni „Quis Custodiet Ipsos Custodes“ eða „Hver gætir varðanna?“ Sölvi er þessa dagana að leggja lokahönd á bókina og verður þar lögð áhersla á sömu persónur og í Operation Ragnarök. Varla getur þetta verið tilviljun og því er Sölvi hjartanlega sammála, þótt hann vilji ekki útskýra hvers vegna.

En skrif, ofar öllu, heltaka huga skáldsins þessa dagana og einbeitir Sölvi sér af fullri orku að því að klára nýjustu ljóðabók sína, sem hlotið hefur heitið The Poet trapped in a Caveman’s Body, en ferlið segir Sölvi vera þyrnum stráð. „Þetta gengur hægt þegar svona margt er í gangi í einu,“ segir Sölvi, „en þá verður maður að læra að vera þolinmóður við sjálfan sig, sem er mjög erfitt fyrir mig ef ég á að vera alveg hreinskilinn.“

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall

Segir að meðlimur bresku konungsfjölskyldunnar hafi boðið henni í kynsvall
Fókus
Fyrir 2 dögum

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta

Sjáðu paratattú Kleina og Hafdísar sem eru hjá því allra heilagasta
Fókus
Fyrir 3 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki
Fókus
Fyrir 3 dögum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum

Hún segir þetta vera „náttúrulegt Ozempic“ og margir eiga það nú þegar í eldhússkápnum