fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

Unnur söng sig upp metorðastigann: „Þetta er algjör rússíbani en ég gjörsamlega dýrka þetta“

Björn Þorfinnsson
Sunnudaginn 10. júní 2018 15:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Um síðustu helgi var söngleikurinn Marilyn frumsýndur með pomp og prakt. Að öllum líkindum var enginn Íslendingur í salnum því söngleikurinn er sýndur í Paris-spilavítinu í borg syndanna, Las Vegas í Bandaríkjunum.

Það sama gildir ekki um sjálft sviðið því þar á Ísland sinn fulltrúa. Söng- og leikkonan Unnur Eggertsdóttir fer með hlutverk Jayne Mansfield, kynbombunnar frægu, í sýningunni en á milli hennar og Marilyn Monroe var rígur sem var þó aðallega búinn til af bandarískum fjölmiðlum. Unnur, sem ytra notar sviðsnafnið Una Eggerts, ræddi við blaðamann DV um sýninguna og lífið vestanhafs sem er ekki alltaf dans á rósum.

Bara 20 hvítir miðaldra karlar í salnum

Unnur útskrifaðist sem leikkona frá The American Academy of Dramatic Arts fyrir tveimur árum. Skólinn er í New York-borg en strax eftir útskrift fékk Unnur tækifæri í söngleiknum Marilyn sem þá var sýndur í Los Angeles.

„Ég byrjaði sem dansari í sýningunni sem var mjög skemmtilegt. Það var líka pínu fyndið að ég var nýbúin að ljúka ströngu leiklistarnámi en það nýttist mér lítið á dansæfingunum,“ segir Unnur.

Um var að ræða eins mánaðar verkefni og var Unni flogið yfir endilöng Bandaríkin. Við tóku erfiðar æfingar og sýningar inni á milli. „Söngleikurinn var minni í sniðum og í raun allt öðruvísi en hann er í dag.

Sýningarnar gengu samt vel og þá fór að kvikna áhugi fjársterkra aðila á að fjárfesta í verkefninu og búa til mun stærri sýningu úr þessum efnivið,“ segir Unnur.

Við tók tímabil þar sem leikhópurinn setti upp sýningar fyrir áhugasama fjárfesta í Los Angeles og Las Vegas. „Stærsta sýningin var fyrir 1.400 manns en einu sinni stigum við á svið fyrir framan 20 miðaldra hvíta karlmenn.

Það var mjög fyndin upplifun og ekki hægt að segja að við höfum fengið mikla hvatningarorku frá salnum.

Þessir menn voru alls ekki þarna til að skemmta sér. Þeir flugu þessum 20 manna leikhóp til Las Vegas og markmið þeirra var  fyrst og fremst að meta sýninguna út frá kostnaði við uppsetninguna og hvort þetta væri vænlegt verkefni,“ segir Unnur kímin.

Unnur Eggertsdóttir í hlutverki Jayne Mansfield í söngleiknum Marilyn.

Brjáluð keyrsla í forsýningarviku

Prufusýningin gekk vonum framar og ákváðu fjárfestarnir að veðja á þennan hest. Það lá þó ekki fyrir Unni að dansa eingöngu í sýningunni því segja má að hún hafi fljótlega sungið sig upp metorðastigann.

Þegar áðurnefnt hlutverk Jayne Mansfield á sýningunni losnaði þá var Unnur kölluð til og hún greip tækifærið. Einn hápunktur sýningarinnar er samsöngur Unnar og Ruby Lewis, sem fer með hlutverk Marilyn Monroe, í laginu „Battle of the blondes“.

Sophia Loren og Jane Mansfield í heimsfrægri „skoru-keppni“ hér um árið.

„Þetta er rosalega skemmtilegt en krefjandi atriði. Við dönsum mjög mikið, bæði við hvora aðra og við mótleikara sem lyfta okkur og sveifla okkur út um allt. Á meðan öllu þessu stendur þurfum við að syngja mjög háar nótur, passa að detta ekki og muna að anda.

Þetta er algjör rússíbani en ég gjörsamlega dýrka þetta,“ segir Unnur og hlær.

Sýningin var frumsýnd þann 1. júní síðastliðinn en þá var að baki langt og strangt æfingaferli. „Við vorum á æfingum frá morgni til kvölds. Síðan kom ein vika af forsýningum en þá vorum við að æfa frá 10–18 og síðan beint í sýningu kl. 19,“ segir Unnur.

Á þessari viku tók sýningin miklum breytingum því leikstjóri og framleiðendur voru að klippa út atriði sem þeim fannst ekki virka og jafnvel bæta öðrum við.

„Það var rosalega mikil keyrsla og mjög stressandi að æfa eitthvað um daginn sem síðan þurfti að sýna fyrir fullum sal um kvöldið,“ segir Unnur. Ferlið er þó afar mikilvægt því það er blátt bann við því að breyta sýningunni eftir að hún er frumsýnd.

Eftir þessa miklu törn þá var mikill léttir að frumsýna loks verkið:

„Við erum að sýna sex sinnum í viku og fáum bara frí á mánudögum. Það frábæra við Las Vegas sýningar er að þær mega ekki vera lengri en 90 mínútur því fólk má ekki vera of lengi frá spilavítunum. Þegar við erum komin í þessa sýningarrútínu hef ég mjög mikinn frítíma. Hann verður nýttur í að fara í söng- og danstíma og skrifa mitt eigið efni,“ segir Unnur. Hún er með sex mánaða samning við fyrirtækið sem framleiðir sýninguna og að honum loknum er ekki víst hvað tekur við. „Það getur vel verið að ég framlengi samninginn en umboðsmaður minn er með mörg járn í eldinum fyrir mig. Mig langar til þess að takast á við verkefni í kvikmyndum eða sjónvarpi og það er aldrei að vita nema það verði að veruleika fljótlega,“ segir Unnur.

Missir af lífi ástvina

Hún segist vera ánægð að búa í Las Vegas og borgin eigi sér aðrar hliðar en villt næturlíf og spilavíti.

„Ég bý í afskaplega fallegu úthverfi borgarinnar sem er mjög rólegt. Gatan mín minnir helst á götuna í Desperate Housewives-þáttunum,“ segir Unnur. Hún leigir stórt einbýlishús með nokkrum öðrum leikurum sýningarinnar og að hennar sögn er leigan hræódýr. Hún fer heldur ekki varhluta af því að litið er upp til leikara í Las Vegas.

„Ég er búin að búa hérna í rúman mánuð og ég hef varla tekið upp veskið. Það er alltaf verið að bjóða leikhópnum eitthvert, hvort sem það er út að borða á flottum stöðum eða á aðrar sýningar hér í borginni,“ segir Unnur.

Þrátt fyrir að glamúrinn sé við hvert fótmál þá er Unnur óhrædd við að viðurkenna að lífið ytra sé ekki alltaf dans á rósum. Stundum getur það verið einmanalegt og fjarlægðin frá ættingjum og vinum er erfið.

„Mér líður stanslaust eins og ég sé að missa af mikilvægum viðburðum í lífi þeirra sem mér þykir vænt um. Um síðustu helgi missti ég af brúðkaupi frænku minnar sem er mér afar dýrmæt og útskriftarveislu litla bróður míns úr Versló. Ég var mjög lítill í mér þá daga,“ segir Unnur.

Tvennt geri þó lífið bærilegra, náinn vinskapur hennar og samleikara á sýningunni og tíð flug íslenskra flugvéla til vesturstrandar Bandaríkjanna. „Leikhópurinn stendur þétt saman enda eru flestir í sömu stöðu; að starfa og búa fjarri ættingjum og vinum. Við eigum því margt sameiginlegt og erum lík um margt og ég er heppin að því leyti. Það er engin samkeppni eða deilur innan hópsins, bara vinátta,“ segir Unnur. Þá eigi hún von á fjölmörgum fjölskyldumeðlimum vestur yfir haf á næstu vikum og mánuðum. „Ég hvet líka Íslendinga til að kíkja á sýninguna. Ég redda öllum afsláttarkóða,“ segir Unnur og hlær.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“

Flaug á rassinn á sviðinu – „Lögfræðingurinn minn mun hringja“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki

Aðdáendur fá innsýn í ástarlíf Taylor Swift á nýrri plötu – Það kom þó á óvart hvaða maður er þar í aðalhlutverki