fbpx
Fimmtudagur 25.apríl 2024
Fókus

TÍMAVÉLIN: Íslenska strippklúbbasprengjan

Kristinn H. Guðnason
Sunnudaginn 22. apríl 2018 23:00

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Árin frá um 1995 til 2005 einkenndust af því sem sumir kalla klámvæðingu en aðrir kynfrelsi. Á þessum tíma varð Bleikt & blátt eitt mest lesna tímarit landsins, Rauða línan velti milljónum, erótískt efni á borð við Red Shoe Diaries var sýnt á Stöð 2, tvær erótískar kvikmyndir voru framleiddar hér á landi og Palli og Rósa voru með sín klámkvöld á Spotlight.

Í einni vendingu hætti klám og kynlíf að vera feimnismál. Fylgifiskur þessarar þróunar var uppgangur nektardansstaða sem spruttu upp eins og gorkúlur á höfuðborgarsvæðinu og höluðu inn hundruðum milljóna króna á ári hverju.

Bóhem: Ári síðar var farið að bjóða upp á „stripp“

Íslendingar höfðu kynnst erlendum fatafellum áður en Café Bóhem kom til sögunnar. Til dæmis hinni dönsku Susan Haslund sem baðaði sig á skemmtistöðum, félagsheimilum og öðrum samkomuhúsum á áttunda og níunda áratugnum síðustu aldar. Einnig höfðu íslensk ungmenni fækkað fötum á sýningum hjá hinum skammlífa Pan-hópi á Upp og niður. Árið 1994, þegar nektarsýningar hófust á Bóhem, var jarðvegurinn hins vegar mun frjórri.

Bóhem var stofnaður í desember árið 1993 á Vitastíg en þá ekki sem nektardansstaður. Þetta var fyrst og fremst tónleikastaður þar sem margar af framsæknustu hljómsveitum landsins komu fram. Ári síðar var farið að bjóða upp á „stripp“ á staðnum og síðar var staðurinn fluttur á Grensásveg.

Til að byrja með fækkuðu fimm íslenskar stúlkur fötum á Bóhem en ekki leið á löngu þar til erlendar meyjar fóru að troða upp, aðallega frá Austur-Evrópu og Taílandi.

100 dansarar

Nektardansmeyjarnar störfuðu sem verktakar á stöðunum og sóttu sínar tekjur sjálfar. Þó með þeirri tryggingu staðanna að ef þær næðu ekki lágmarksupphæð á mánuði var farmiðinn fyrir þær aftur til heimalandsins greiddur.

Staðirnir sjálfir rukkuðu inn og fengu tekjur af áfengissölu. Dansararnir fengu þjórfé frá gestunum sjálfum og voru seðlar þá gjarnan settir í þveng, brjóstahaldara eða sokka. Hægt var að panta dansara á borð gegn gjaldi og kostaði það meira ef borðið var afsíðis. Einkadans fyrir viðskiptavini gaf þó mest í aðra hönd og gat slíkur dans hlaupið á tugum þúsunda króna. Auk þess buðu staðirnir upp á þjónustu í einkasamkvæmum í heimahúsum og sölum en þá fylgdi dyravörður ávallt með.

Í grein í Morgunblaðinu frá júlí 1997 segir að Ísland hafi verið mjög vinsæll staður fyrir dansara til að heimsækja enda nektardans nýr af nálinni. Hér gátu þær haft allt að milljón krónur á mánuði í tekjur. Um tíma störfuðu um hundrað dansarar á Íslandi og þar af þrjár íslenskar stúlkur. Mikil eftirspurn var eftir íslenskum dönsurum erlendis og höfðu nektardansstaðirnir hér milligöngu um störf þeirra í Evrópu og Ameríku.

Dan Morgan í Vegas

Strippklúbbastríð: Miklir hagsmunir

Adam var ekki lengi í paradís og Bóhem sátu ekki lengi einir að strippbransanum. Árið 1996 stigu tveir öflugir samkeppnisaðilar inn á sviðið, Óðal í Austurstræti, sem áður var dansstaður og Vegas við Frakkastíg. Fljótlega fór mikil harka að færast í leikinn milli Bóhem og Vegas.

Sunnudaginn 21. apríl þetta ár var Guðjón Sverrisson, eigandi Bóhem, barinn til óbóta af tveimur grímuklæddum mönnum. Var hann fluttur á spítala með innvortis blæðingar eftir árásina. Einnig fékk hann djúpa skurði á enni og tær hans voru brotnar.

Guðjón sakaði tvo menn, þar af einn dyravörð Vegas, um verknaðinn en Dan Morgan, framkvæmdastjóri Vegas og fyrrverandi skemmtanastjóri á Bóhem, hafnaði þessu og sagðist hafa fjarvistarsönnun fyrir mennina. Hann sagði við Helgarpóstinn:

„Þessi árás er alls ekki runnin undan mínum rifjum, enda þarf ég ekki að beita slíkum brögðum í samkeppninni. Ég held hins vegar að aðrir utanaðkomandi aðilar vilji með þessum aðferðum koma okkur báðum út úr rekstri og hirða markaðinn.“

Talað var um að eiginlegt stríð væri hafið milli nektardansstaða í Reykjavík og um mikla hagsmuni væri að keppast, bransinn velti hundruðum milljóna króna á ári.

Árið 1997 var Vegas mikið í deiglunni vegna tveggja morða. Þann 13. maí varð maður á þrítugsaldri fyrir árás inni á staðnum. Missti hann meðvitund eftir höfuðhögg, var fluttur á spítala en komst aldrei til meðvitundar.

Tveir menn voru sakfelldir í Hæstarétti fyrir manndráp en Mannréttindadómstóll Evrópu úrskurðaði um endurupptöku og var annar þeirra þá sýknaður. 2. október var maður á fertugsaldri myrtur í Heiðmörk eftir að hafa hitt banamenn sína, sem voru jafnframt tvíburabræður, á Vegas.

Þrír staðir á Akureyri

Nektardansstöðunum fjölgaði hratt þegar nær dró aldamótum. Árið 1998 keypti Ólafur Már Jóhannesson hinn fornfræga skemmtistað Þórscafé við Brautarholt og breytti honum í nektardansstað. Skömmu síðar var hann handtekinn í tengslum við e-töflumál sem upp kom á staðnum. Eigandi hússins, Róbert Árni Hreiðarsson, eða Robert Downey, hafði áhyggur af starfseminni sem fór fram á Þórscafé. Í samtali við DV árið 1999 sagði hann: „Ég er ekki klámkóngur og vissulega er þetta neikvætt fyrir húsið og eign okkar ef satt er það sem sagt er um starfsemina þar.“ Robert var síðar dæmdur fyrir kynferðisbrot gegn ólögráða stúlkum.

Skömmu síðar opnuðu tveir nektardansstaðir sem minna fór fyrir. Annars vegar Club Clinton í Fischersundi og hins vegar Club 7 á Hverfisgötu sem Ólafur Arnfjörð Guðmundsson, fyrrverandi sveitarstjóri Vesturbyggðar, stofnaði.

En staðirnir spruttu einnig upp annars staðar en í Reykjavík. Árið 1999 fengu Suðurnesjamenn sinn skerf þegar Casino var opnað. Norðlendingar voru þó kræfastir þar sem árið 1999 voru nektardansstaðir á Akureyri orðnir þrír talsins, Venus á Ráðhústorgi, Venus 2 í húsi Sjallans og Setrið við Sunnuhlíð.

Á þessum tíma ruddist líka stórlaxinn Ásgeir Davíðsson, seinna þekktur sem Geiri í Goldfinger, inn á sviðið með opnun Maxim í Hafnarstræti. En áður hafði hann rekið Hafnarkrána í sama húsnæði sem var öldurhús, þekkt fyrir tíða komu ógæfumanna.

Meiri vandræði og bann

Þrátt fyrir síaukið umburðarlyndi Íslendinga í kynferðislegum málefnum þá nutu nektardansstaðirnir ekki hylli broddborgaranna. Altalað var að þar inni væri stundað vændi, mansal, eiturlyfjasala, fjárkúganir og fleira sem minnti á erlend glæpagengi. Þau mál sem komu upp á stöðunum ýttu líka undir þá skoðun að hér væri um vafasaman rekstur að ræða.

Vandamálin á Vegas héldu áfram árið 1998 þegar skattrannsóknarstjóri gerði innrás á staðinn og vantaði þá um 30 milljónir í skattgreiðslur. Árið 1999 kom upp mál þar sem handrukkarar á vegum ónefnds nektardansstaðar kröfðu mann um 439 þúsund króna greiðslu fyrir einkadans og áfengi en ekki var víst að maðurinn hefði pantað allt sem hann var rukkaður fyrir.

Árið 2002 var fjórum nektardansstöðum, þar af tveimur á Akureyri, synjað um að gefa út atvinnuleyfi þar sem talið var að samningar þeirra tryggðu ekki réttindi dansaranna. Sama ár missti Clinton vínveitingaleyfið vegna kvartana frá nágrönnum undan hávaða. Sögðu þeir einnig að karlmenn hefðu komið og fróað sér í bakgarðinum eftir sýningar.

Samfara fjölgun nektardansstaða jókst þrýstingur á borgaryfirvöld að gera eitthvað í málinu og synja stöðunum um vínveitingaleyfi. Geiri opnaði staðinn Goldfinger í Kópavogi og lokaði skömmu síðar Maxim þar sem hann taldi sér ekki vært í Reykjavík lengur.

Árið 2002 var ákveðið í borgarstjórn að stíga skrefið til hálfs og breyta lögreglusamþykkt. Nektardans var áfram leyfður en með ströngum skilyrðum og mestu áhrifin voru þau að einkadans var bannaður. Kippti þetta þar með rekstrargrundvellinum undan starfsemi staðanna. Sams konar reglur voru settar á Akureyri en annað mál gilti um Kópavog og styrkti það stöðu Geira á Goldfinger á markaðinum.

Eftir því sem áhrif femínisma jukust í samfélaginu og þol fyrir klámvæðingu minnkaði jókst þrýstingur á Alþingi að grípa í taumana og banna nektardans alfarið. Kolbrún Halldórsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, lagði fram frumvarp þess efnis sem Siv Friðleifsdóttir fylgdi eftir árið 2010. Var það samþykkt án mótatkvæða en tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins sátu hjá. Þar með var nektardans bannaður á Íslandi en á móti kom að kampavínsklúbbar sem buðu upp á samtöl við léttklæddar stúlkur spruttu upp í staðinn.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Nýlegt

Fókus
Fyrir 2 dögum

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“

„Ég er í dag ekki vitund hrædd við dauðann. Það kom eftir þessa lífsreynslu.“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar

Þetta var uppáhalds skyndibiti Elísabetar drottningar
Fókus
Fyrir 3 dögum

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“

Harmsaga systkinanna Rakelar og Heimis – „Ég man eftir mömmu á þessum tíma, annað hvort öskrandi eða sofandi“
Fókus
Fyrir 3 dögum

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“

Snýst ekki um að taka sviðsljósið frá körlum heldur beina því einnig að konum – „Þetta er mjög karllægur bransi og hefur alltaf verið“