Fókus

Þráðlausar þjáningar og útrýming ímyndunaraflsins

Hver er munurinn á Íslendingum sem eru fæddir fyrir og eftir árið 1975 og af hverju er sjálfhverfa snjallsímakynslóðin svona þunglynd?

Margrét Gústavsdóttir
Sunnudaginn 11. mars 2018 17:00

„Í hvað stefnir æska landsins!?“ Þessi klisja hefur ómað í gegnum aldirnar burtséð frá því hvernig kynslóð tekur við keflinu næst. Alltaf skulu pilsin vera of stutt og lætin of mikil í unga fólkinu ef marka má þessa klassísku kverúlanta. Ástæðuna má einna helst rekja til þess að ómeðvitað tengja flestir „góðu tímana“ og „gullöldina“ við áhyggjuleysið sem fylgdi eigin barnæsku. Foreldrarnir sáu jú um öll leiðindin og þar af leiðandi allt í toppstandi í hugum nostalgísku kverúlantanna. Svo taka þau undir með popúlistum og telja allt vera að fara til andskotans þegar þau ýmist skilja ekki, eða eiga erfitt með, að tileinka sér nýja lifnaðarhætti, menningu og tækni, (jafnvel þótt flest bendi til þess að lífsgæði jarðarbúa fari sannarlega batnandi). Sennilega verður þetta samt alltaf svona, svo lengi sem kynslóðir og kverúlantar koma og fara.

Hrogn, lifur og Óskalög sjúklinga

Engu að síður getur verið mjög skemmtilegt að skoða og bera saman menningarmun kynslóðanna sem í gegnum tíðina hefur verið mismikill og þá kannski sérstaklega hér á Íslandi þar sem menningin tók agnarsmá breytingarskref öldum saman fram að heimsstyrjöldinni síðari. Til dæmis er á margan hátt alveg óheyrilegur munur á Íslendingum sem eru fæddir fyrir og eftir árið 1975.

Þau sem fæddust fyrir árið 1975 voru flest alin á sama mat og kynslóðirnar sem komu á undan. Fiskur í flest mál, gellur, hrogn og lifur. Hjörtu og nýru voru einnig á boðstólum sem og steikt blóðmör, lifrarpylsa og svið. Fyrirbæri sem sjaldan sjást á diskum nútíma Íslendinga. Þau sem fæddust fyrir árið 1975 muna eftir barnæsku þar sem aðeins var hægt að hlusta á eina útvarpsstöð, þessa sem var (og er) í eigu ríkisins. Á henni var dægurlagatónlist spiluð í sérstökum óskalagaþáttum í um klukkustund í senn, þrisvar sinnum í viku. Þættirnir hétu Óskalög sjómanna, Óskalög sjúklinga og Lög unga fólksins. Fólkið í landinu gat sem sagt sent bréf eða hringt og beðið þáttastjórnendur um að spila fyrir sig sérstakt óskalag og senda með því kveðju, gjarna til einhvers sjómannsins eða illa þjakaðs sjúklings sem þráði að heyra eins og eitt ABBA-lag eða eitthvað gott með Villa Vil til að hressa upp á sálartetrið. Ef þú varst heppin var óskalagið spilað í þættinum og ef ekki þá var bara að bíða í heila viku eftir næsta þætti og vera klár með kassettutækið til að taka það upp.

Þau sem eru fædd fyrir árið 1975 muna líka flest eftir júlímánuðum með engu sjónvarpi og fimmtudagskvöldum sem fóru oftast í að hlusta á útvarpsleikrit eða spila við fjölskylduna því þá var ekkert í sjónvarpinu. Svo rifja þau upp furðulega skíðakennslu, samkvæmisdansa og syngjandi amerískar tuskubrúður sem þótti stórkostlega frábært afþreyingarefni í sjónvarpi.
Flest voru send í sveit á sumrin, burt frá foreldrum og fjölskyldu, enda „þurfti fólk að læra að vinna“. Raka tún, stafla böggum upp á kerrur, taka á móti lömbum og gefa heimalningum pela. Handtök sem fæstir þurfa að kunna í dag nema stefnan sé tekin á að gerast bóndi.

Öðruvísi æskuminningar Íslendinga sem fæddust eftir 1975

Fólk fætt eftir árið 1975 á flest öðruvísi minningar um æskuna, bæði hvað varðar mat, uppeldi og afþreyingu þótt báðir hóparnir séu kenndir við sömu kynslóð, það er X-kynslóðina. Þau sem fæddust eftir árið 1975 voru jú orðin átta ára þegar Rás 2 fór í loftið og ellefu ára þegar Bylgjan byrjaði og því ómuðu dægurlögin allan daginn, alla daga og fram á nótt um helgar á þeirra æsku og unglingsárum. Þau fengu pítsur með ananas og hakki frá Ömmubakstri og skinka og kók voru engin sérstök munaðarvara. Þau gátu líka horft á sjónvarp alla vikuna, allan ársins hring. Þau sátu aldrei og héldu niðri í sér andanum meðan þau ýttu á „REC“-takkann á kassettutækinu til að taka safna popptónlist á spólu og langfæst voru send eitthvert út í sveit til mis-fjarskyldra ættingja svo þau gætu lært að taka á móti lömbum og kálfum.
Það sem X-kynslóðin á þó öll sameiginlegt er að hafa alist upp án farsíma, internets og samfélagsmiðla og út frá þeirri mótun liggur meðal annars stóri munurinn á þeirri kynslóð og kynslóðinni sem fæddist á árunum 1980 til 1994 og kennd er við aldamótin (e. millenials), bókstafinn ufsilon og síðast en ekki síst „snjókornin“ – af því þau eru svo tilfinningalega viðkvæm.

Hrósað fyrir allt og ekkert og heimta réttindi án þess að taka á sig skyldur

Fyrir um það bil tveimur árum fór YouTube-viðtal við rithöfundinn Simon Sinek sem eldur í sinu um internetið. Í viðtalinu talar hann um Y-kynslóðina og atvinnulífið og vandamálin sem fylgja því að hafa þessa kynslóð, sem hann vill meina að sé frekar týnd, á vinnumarkaði.

Sumir hafa talað um að þessi kynslóð upplifi að hún hafi engar sérstakar skyldur á sínum herðum, en því meira af réttindum. Það er að segja, þau hafa ekki þurft að vinna sér inn fyrir neinu og þau hafa aldrei þurft að bíða eftir neinu. Þau horfa á heilu sjónvarpsþáttaraðirnar í beit, leita annars hugar að ástinni í snjallsímaforriti á símanum sínum og reikna svo með því að sama fljótafgreiðslan taki við þegar þau koma út á vinnumarkaðinn. Þar bíði bara klappandi yfirmenn sem sjái strax hverslags snillingur viðkomandi sé og geri svo að yfirmanni eftir örfáar vikur. Þau skilja ekki að stundum þarf að leggja á sig mikið erfiði til að skara fram úr og komast á toppinn og að stundum getur leiðin verið bæði löng og ströng.

Í viðtalinu sagði rithöfundurinn að vandamálið mætti aðallega rekja til mistaka foreldranna sem hvöttu Y-kynslóðina áfram og hömpuðu með því að hrósa henni í hástert fyrir bæði allt og ekkert. Foreldrarnir hafi komið þeirri hugmynd inn í höfuð barnanna að þau væru alveg ofur sérstök, gætu gert og fengið hvað sem þau vildu en því miður gleymdist alveg að nefna hvernig þau ættu að fara að því. Þeim hafi verið hrósað fyrir allt frá því að hella seríósi á disk eða teikna strik á blað, sama hversu gott eða slakt það var, og þegar krakkarnir komu heim með lélegar einkunnir þá óðu foreldrarnir í kennarana í stað þess að brýna fyrir afkvæmunum að leggja harðar að sér við námið.

Með óraunhæfan samanburð fyrir augunum alla daga

Margar formlegar og óformlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að þrátt fyrir allt þetta hrós og pepp frá foreldrunum er aldamótakynslóðin með töluvert lélegri sjálfsmynd en X-kynslóðin. Þetta er talið stafa af sýndarveruleikanum sem þau hafa haft fyrir augunum frá unglingsárum og upp úr. Þá sér í lagi seinna hollið sem er fætt eftir árið 1985. Á Facebook og Instagram virðist yfirborðið alltaf fullkomið þótt raunin sé auðvitað önnur á bak við tjöldin en engu að síður skapaðist við þetta óþarflega neikvæður samanburður hjá notendum. Grasið er alltaf aðeins grænna hinum megin og þegar ungt og ómótað fólk er með þetta „græna gras“ fyrir augunum allan daginn, alla daga, getur samanburðurinn farið úr böndunum.

Dæmi um absúrd fyrirmyndir hafa t.d. verið hin síbrúna puntudúkka Paris Hilton og Kardashian-fólkið sem varð heimsfrægt fyrir rúmum áratug án þess að virðast hafa lagt neitt sérstakt af mörkum. Þau líta jafnframt óaðfinnanlega út án þess að hafa unnið sérstakan vinning í genalottóinu og svo eiga þau sand af seðlum án þess að virðast þurfa að mæta til vinnu. Ekkert af þessu eru raunhæf viðmið fyrir venjuleg millistéttarungmenni á Vesturlöndum en samt sem áður hafa þessir, og fleiri, furðufuglar frá Hollywood smám saman skapað langsótta staðla sem venjulegir millistéttarkrakkar miða sig við (þótt innst inni viti þeir flestir að það er álíka skynsamlegt og að bera sig saman við Mikka Mús, þótt líklega sé hann minna fótósjoppaður en Kardashian-systur).

Dópamín, læk og viðurkenningarfíklar sem þrá náin sambönd en kunna ekki að búa þau til og viðhalda þeim

Ekki nóg með að ytri sjálfsmynd þeirra og viðmið hafi að mörgu leyti mótast af yfirborðskenndum og óraunhæfum glansmyndum á netinu. Y-kynslóðin hefur einnig kvartað yfir því að vina- og ástarsambönd þeirra séu of grunn og innihaldslaus og að raunverulega vini sé erfitt að finna. Að sögn Simonar Sinek er þetta aðeins ein af ótal neikvæðum félagslegum breytingum sem hafa sprottið upp í kjölfar snjallsímavæðingarinnar. Hann vill meina að þessi árátta okkar til að leita stöðugt í símann þegar við ættum að eiga í beinum samskiptum og horfast í augu við annað fólk dragi úr hæfileikanum til að mynda djúp og einlæg tilfinningatengsl hvert við annað. Þetta smellpassar við niðurstöður úr nýrri breskri rannsókn sem sýnir meðal annars að 65 prósent ungmenna á aldrinum 18 til 35 ára myndu frekar kjósa að kynnast nýjum kærasta eða kærustu í gegnum Tinder í stað þess að hitta viðkomandi fyrst í eigin persónu.

Undanfarið hafa sífellt fleiri félags- og sálfræðirannsóknir sýnt fram á að Y-kynslóðin, og næsta kynslóð á eftir henni, eru illa haldnar af snjallsíma, tölvu- og samfélagsmiðlafíkn. Einkenni fíknarinnar og afleiðingar birtast bæði í starfi, einkalífi og andlegri og líkamlegri heilsu en fíknin sem slík gengur út á ánetjun í boðefnaframleiðsluna (dópamín) sem á sér stað þegar notandi samfélagsmiðils fær læk, athygli og/eða einhvers konar viðurkenningu/ jákvæð viðbrögð á samfélagsmiðlum.

Ekki er ýkja langt síðan fyrrverandi yfirmaður Facebook, Sean Parker, steig fram og greindi frá því að arkitektar samfélagsmiðilsins hefðu frá upphafi verið fullmeðvitaðir um þessa áhættu og ekki nóg með það – að gera notendurna háða væri akkúrat galdurinn á bak Facebook. Til þess væri leikurinn einmitt gerður.

Ef maður veltir því fyrir sér þá er eflaust fátt sem fólk getur orðið háð jafn aðgengilegt og samfélagsmiðlar og snjallsímar. Fólk þarf að hafa meira fyrir því að kveikja sér í sígarettu eða opna bjór en að tékka á Facebook og líkt og með allar aðrar fíknir leitar fólk í þessa mjög svo aðgengilegu fíkn þegar það verður stressað, þunglynt og svo framvegis, – einmitt þegar það þarf á raunverulegri nánd að halda. Úr þessu myndast neikvæð keðjuverkun sem leiðir af sér enn meiri kvíða, streitu og þunglyndi, því þannig virkar jú fíknarhringurinn.

Aldamótakynslóðin hefur sem sagt vanið sig á ákveðna fjarlægð og yfirborðsmennsku í samskiptum sín á milli. Þau kjósa að senda skilaboð frekar en að tala saman í síma og þegar þau hittast í eigin persónu þá eru þau meira eða minna með nefið ofan í símanum og því alls staðar og hvergi á sama tíma. Andlega fjarverandi að amast yfir eigin kvíða, þunglyndi og yfirborðskenndum samböndum án þess að koma auga á orsökina, – svarta spegilinn, snjallsímann, sem liggur einmitt í lófanum á þeim.

Víðsýn, umburðarlynd og fordómalausari en fyrri kynslóðir

Þótt margir sál- og félagsfræðingar hafi áhyggjur af þessu öllu saman er þó rétt að taka fram að Y-kynslóðin skákar X-kynslóðinni að mörgu leyti.

Til dæmis er Y-kynslóðin töluvert meðvitaðri um eigin mörk og tilfinningar og á mikið léttara með að koma þeim í orð og sýna þær. Hún er jafnframt fordómalausari og opnari fyrir nýjungum og breytingum á lifnaðarháttum. Það eru fleiri dýra- og umhverfisvinir af þessari kynslóð en þeim sem á undan komu og á margan hátt gerir hún kröfu um umburðarlyndi gagnvart minnihlutahópum og þeim sem minna mega sín. Nú gildir það líka einu hvort einhvern langi til að elska konu, karl eða hvorugkyn, kalla sig hún, hán eða hann og vera með húðflúr af hóstasaftsflösku á framhandleggnum – vertu bara þú sjálf/ur og farðu alla leið. Aldamótakynslóðin vill að allir fái að vera þeir sjálfir – nema þeir séu karlrembur og kynþáttahatarar auðvitað, þá geta þeir verið úti. Aldamótakynslóðin lítur ekki á níu fimm sem eðlilegan vinnutíma enda er hægt að vinna næstum hvar sem er svo lengi sem maður er með nettengingu. Svo eru þau mikið minna upptekin af aldursmun í para- og vinasamböndum en X-kynslóðin. Tíu, tuttugu ár skipta litlu svo lengi sem bæði hafa svipaðar lífsskoðanir og smekk. Persónuleiki og lífsstíll er það sem tengir fólk en ekki aldur – og sveigjanleiki er lykilorðið.

Mun ímyndunaraflið á endanum hverfa?

Þessari grein er ekki hægt að ljúka án þess að nefna X-ennials-kynslóðina, sem nær eiginlega ekki að vera kynslóð enda spannar sá hópur aðeins um tíu ár. Sumir hafa kallað þau brúna á milli X- og Y-kynslóðanna. Æska þeirra var að mestu eins og þeirra af X-kynslóð, þau þurftu að hringja í heimasíma og spyrja eftir vinum og fóru í útileiki og þrjúbíó en á unglingsárunum héngu þau á irkinu og MSN og rað-sendu rándýr SMS úr farsímanum. Mörg af þessari kynslóð hafa talað um að þeim finnist þau hvorki tilheyra X- né aldamótakynslóðinni en blessunarlega geta þau nú huggað sig við þessa skemmtilegu skilgreiningu. Þið eruð sem sagt X-ennials.

iGen og Gen Z kallast svo kynslóð þeirra sem eru fædd á árabilinu 1995 til 2012 sem gerir þau yngstu af þeirri kynslóð 6 ára og þau elstu 23 ára. Að öllum líkindum er þetta kynslóðin sem mun vinna störf sem enn á eftir að finna upp og yngra hollið á jafnvel aldrei eftir að setjast undir stýri á bensínknúnum bíl, ef þau sem því tilheyra þurfa þá yfirleitt að hafa fyrir því að taka bílpróf því þetta verður mögulega allt rafknúið og fjarstýrt. Hvort þau muni tala svipaða íslensku og forfeðurnir verður einnig stór spurning og svo er það þetta með ímyndunaraflið sem eitthvað þarf að ræða sérstaklega en greinarhöfundi skilst að í elstu deildum leikskóla landsins sé nú sérstakt átak í að ræsa það upp hjá börnunum. Þessi iPad- og snjallsímakríli eru svo vön að fá allt matreitt ofan í sig í myndum að þau eiga í mesta basli með að sjá atburðarásina fyrir sér þegar sögur eru lesnar fyrir þau úr bókum. Ef satt reynist þá held ég að áhyggjufullu kverúlantarnir sem ég nefndi í upphafi gætu mögulega þurft að skála í kampavíni frá Schadenfreude eftir tuttugu ár því hvað verður um manneskjuna ef hún hefur ekkert ímyndunarafl? Ímyndunaraflið og sköpunargáfan eru einmitt það sem aðgreinir okkur frá öðrum skepnum og ef við hefðum hvorugt … innsog: Já, ímyndum okkur það!

Margrét Gústavsdóttir
....er félagi nr. 241 hjá Blaðamannafélagi Íslands.
Hún hefur m.a. starfað við sjónvarp og útvarp og verið vinsæll bloggari í gegnum árin.

margret@dv.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Mest lesið

Ekki missa af

Fókus
Fyrir 2 dögum

Ragga nagli – „Líkami kvenna er hlutgerður eins og stafsetningastíll í Melaskóla“

Ragga nagli – „Líkami kvenna er hlutgerður eins og stafsetningastíll í Melaskóla“
Fókus
Fyrir 2 dögum

Þess vegna er táfýla af sumum og svona er hægt að losna við hana

Þess vegna er táfýla af sumum og svona er hægt að losna við hana