Bergur Þór Ingólfsson.

Fyrir leikstjórn og handrit barnaleikritsins Hamlet litli hjá LR.

Í Hamlet litla tekst Bergur Þór á við það ögrandi verkefni að koma sögu Hamlets prins eftir William Shakespeare á svið með þrem leikurum í klukkutíma verki ætluðu börnum. Handrit hans er afar þétt og heldur jafnvel yngstu áhorfendum spenntum og áhugasömum allan tímann. Fjörugri tónlist, forvitnilegum leikbrúðum, leikmunum og allri þeirri tækni sem fyrirfinnst í leikhúsinu er teflt saman ásamt firnasterkum leikurum og allt gengur upp. Bergur kemur sögu Hamlets vel til skila á þessum stutta tíma og splæsir auk þess inn eftirminnilegu atriði þar sem Ófelía talar um móður sína með þeim hætti að enginn verður ósnortinn. Það er mikil upplifun fyrir áhorfendur á öllum aldri að sjá þessa sýningu, hún opinberar ýmsa galdra leikhússins, kynnir fjölbreytt frásagnarform og er unnin af slíkri alúð að lengi verður minnst.

Kjósa

Sveitin í sálinni

Eftir Eggert Þór Bernharðsson

Eggert Þór Bernharðsson var brautryðjandi í miðlun sagnfræði til almennings og Sveitin í sálinni er fyrirtaks dæmi um það. Í bókinni dregur hann upp stórskemmtilega og fræðandi mynd af íbúum hinnar ört stækkandi Reykjavíkur á árunum 1930 til 1970 en þá fluttu þúsundir Íslendinga á mölina án þess þó að segja skilið við sveitina; íbúar borgarinnar héldu dýr, heyjuðu og ræktuðu kartöflur, kál og aðrar matjurtir. Fallegur og skemmtilegur texti Eggerts segir þó aðeins hálfa söguna, því bókina prýðir mikill fjöldi mynda sem í sjálfu sér er fjársjóður öllum sem vilja kynnast sögu Reykjavíkur. Verkið er efnismikið, vandað og unnið af miklu innsæi.

Kjósa

Halla Þórðardóttir.

Fyrir dans sinn í verkinu Meadow.

Halla Þórðardóttir á athygli áhorfandans í verkinu Meadow eftir Brian Gerke í uppsetningu Íslenska dansflokksins. Verkið sækir innblástur í ævintýralegan hugarheim höfundarins sem uppfullur er af dýrslegum mannverum. Halla bæði opnar verkið og lokar því og hrífur áhorfandann, sem missir aldrei sjónar á henni, með í gegnum verkið með sterkri nærveru sinni. Sérstaklega minnisstæður er eindans hennar í upphafi verksins þar sem hún stígur óburðug og brothætt sín fyrstu skref áður en hún svo sprettir úr spori. Halla gerir hlutverki sínu mjög góð skil með örlæti sínu og listfengi, tæknilegri færni og nákvæmni í framkvæmd hreyfinga.

Kjósa

Englaryk

Eftir Guðrúnu Evu Mínervudóttur

Í látlausri en sterkri frásögn dregur Guðrún Eva Mínervudóttir upp mynd af unglingsstúlku á tímamótum. Sem fyrr er manneskjan og samband hennar við aðrar manneskjur í forgrunni höfundar og í Englaryki sýnir hún á nærfærinn og sannfærandi hátt áhrif stúlkunnar á fjölskyldu sína, vini og loks bæjarfélagið allt. Guðrúnu lætur sérlega vel að láta ólíkar raddir hljóma og hefur einstakt lag á að skrifa samtöl sem tekst hið vandmeðfarna; að vera full af skáldlegri list en þó algjörlega trúverðug.

Kjósa

Skjaldborg

Hátíð íslenskra heimildarmynda

Kvikmyndahátíðin Skjaldborg sem haldin er á Patreksfirði hefur undanfarin ár stækkað og eflst og var hátíðin í ár sú glæsilegasta til þessa. Skjaldborg frumsýnir á hverju ári fjölda íslenskra heimildarmynda sem sumar ættu annars í erfiðleikum með að rata fyrir augu almennings. Efnistökin á Skjaldborg hafa jafnan verið fjölbreytt og myndirnar margvíslegar. Þarna fá leikstjórar einnig tækifæri til að sýna verk sem eru í vinnslu og fá álit á þeim og hverju megi bæta eða breyta. Skjaldborg hefur orðið fastur liður í almanaki bíóunnandans og fengið fjöldann allan af áhugaverðum gestum, bæði innlendum og erlendum, en síðast var það hinn rússneski Victor Kossakovsky sem var heiðursgestur hátíðarinnar.

Kjósa

Benedikt Erlingsson og Friðrik Erlingsson.

Fyrir að stuðla að bættri kvikmyndaumræðu.

Benedikt Erlingsson og Friðrik Erlingsson fá tilnefningu fyrir að stuðla að bættri kvikmyndaumræðu á Íslandi. Þeir stigu nýlega báðir fram á opinberum vettvangi með umdeildar skoðanir varðandi stöðu kvikmyndalistarinnar hérlendis. Friðrik skrifaði greinar þar sem hann gagnrýndi efnistök íslensks sjónvarpsefnis og ákvarðanatöku varðandi framleiðslu þess. Hann bendir á að margt beri að endurskoða, því hér sé aldeilis efniviður til staðar en að oft sé verið að eltast við erlendar fyrirmyndir sem eigi illa heima í íslensku samhengi. Benedikt gagnrýndi ríkisstjórn Íslands fyrir niðurskurð til Kvikmyndasjóðs í ræðu sinni þegar hann tók við verðlaunum Norðurlandaráðs 2014. Hann biðlaði til áhorfenda í salnum um að ræða við íslenska ráðamenn sem viðstaddir voru og útskýra fyrir þeim hversu mikilvæg kvikmyndagerð væri fyrir menningu okkar. Friðrik og Benedikt reyndu hvor með sínum hætti að stuðla að uppbyggilegri gagnrýni sem nauðsynleg er, eigi kvikmyndamenning að geta dafnað hérlendis.

Kjósa

Wind and Weather og Better Weather

Gluggagallerí við Hverfisgötu og Laugaveg

Gluggagalleríin við Hverfisgötu og Laugaveg eru mikilvæg viðbót við sýningarmöguleika í miðbænum þar sem gangandi vegfarendur geta skoðað myndist á leið sinni um bæinn. Þar hafa verið settar upp litlar sýningar en fallegar og stundum beittar. Á bak við þessi gallerí stendur bandarísk listakona, Kathy Clark, sem hefur sest að á Íslandi og leggur nú sitt af mörkum til að koma listinni til fólksins.

Kjósa

Arna Valsdóttir

Listakona

Arna Valsdóttir hefur lengi fengist við vídeólist og þróað sérstaka og persónulega nálgun, sína sérstöku rödd sem styrkist með hverju ári. Hún hefur oft sýnt á óhefðbundnum stöðum, t.d. í vitum og heimahúsum, en í fyrra efndi Listasafnið á Akureyri til sýningar þar sem dregin voru saman eldri verk hennar ásamt nýjum. Löngu tímabært er að fleiri fái tækifæri til að sjá verk þessarar frjóu listakonu og vonandi að svipuð sýning verði fljótlega sett upp á höfuðborgarsvæðinu líka.

Kjósa

Ásrún Magnúsdóttir.

Fyrir dansverkið Church of dance.

Í verkinu, sem jafnframt var opnunarverk Reykjavík Dance Festival 2014, fær Ásrún nágranna sína á Njálsgötunni til að bjóða gestum og gangandi inn í stofu að dansa við uppáhaldstónlist húsráðenda. Með því beinir hún athygli almennings að dansi, gerir gesti meðvitaða um dansinn í eigin lífi og kóreógrafíu sýnilega í umhverfinu. Síðustu misserin hefur Ásrún unnið að rannsóknum á listdansi með þróun þátttökuverka þar sem almenningur á í virku samtali við listamanninn um dans, sýn og upplifun. Í verkinu Church of dance nær Ásrún einstaklega skemmtilegum tökum á forminu þegar hún býður almenningi bókstaflega yfir hátíðlegan dansþröskuldinn og inn í dansheim hversdagsins. Hugmyndin og útfærslan var gríðarlega sterk og hreif þátttakendur með sér í fjölbreyttum samdansi.

Kjósa

Eistnaflug.

Þungarokkshátíð.

Íslenskt þungarokk hefur aldrei farið eins hátt og á síðasta ári þegar þrjár hljómsveitir – Dimma, Skálmöld og Sólstafir – gáfu út sterkar plötur og slógu í gegn bæði hér og erlendis. Rokkhátíðin Eistnaflug sem haldin hefur verið árlega í Neskaupstað síðan 2004 og fagnaði því tíu ára afmæli í fyrra, hefur verið eins konar uppskeruhátíð íslensks þungarokks og mikilvægur hluti af senunni. Hátíðin er hugarfóstur Stefáns Magnússonar sem hefur alltaf staðið í brúnni. Hátíðin hefur vaxið ár frá ári og vakið athygli út fyrir landsteinana, enda heimsækja nú hátíðina mikilvæg nöfn í þungarokkinu.

Kjósa

Hæg breytileg átt

Rannsóknarverkefni um borgarumhverfi og íbúðagerð

Hæg breytileg átt er rannsóknarverkefni um borgarumhverfi og íbúðagerð hér á landi. Í verkefnið voru valdir fjórir hópar með þverfaglegan bakgrunn sem lögðu fram gagnrýnar spurningar um hið hefðbundna búsetuform, venjur okkar og reglur í nútímasamfélagi. Spurningarnar voru aðkallandi: hvað taka bílastæði raunverulega mikið pláss og hversu margir gætu búið í íbúð takmörkuðu af stærð þess? Getur gott borgarskipulag og næm hönnun íbúða unnið gegn félagslegri einangrun og stuðlað að heilbrigðari lífsháttum? Hvað er deilihagkerfi og getur það virkað í borg? Hvernig má hugsa Skeifuna upp á nýtt með manneskjuna í fyrsta sæti og bílinn í annað sæti? Til að þróa sjálfbæra borg sem bætir líf okkar er öðru hvoru nauðsynlegt að stíga út úr raunveruleikanum, horfa á hann út frá nýju sjónarhorni og raða honum upp á nýtt. Hæg breytileg átt tekst það ætlunarverk sitt og er því afar mikilvægt innlegg um borg og híbýli hér á landi. Verkefni af þessu tagi má ekki gleymast á teikniborðinu og verður vonandi þróað áfram svo að sterk framtíðarsýn þess verði að veruleika.

Kjósa

Rökkurró.

Fyrir plötuna Innra.

Rökkurró sendi frá sér sína þriðju plötu, Innra, seint á síðasta ári en hún hefur fengið góðar undirtektir hér heima sem og utan landsteina. Þrjú ár eru liðin frá síðustu plötu sveitarinnar, Í annan heim, en sú fyrsta, Það kólnar í kvöld, kom út 2007. Hljómsveitin hefur verið í stöðugri þróun og náði áður óþekktum hæðum á nýju plötunni. Rökkurró er nýkomin heim eftir tónleikaferðalag um Evrópu og má með sanni segja að sveitin komi tvíefld til baka.

Kjósa

Salóme

Heimildarmynd eftir Yrsu Rocu Fannberg

Salomé er persónuleg heimildarmynd sem Yrsa Roca Fannberg gerði um móður sína, Salóme E. Fannberg veflistakonu. Yrsa er sjálf á bakvið myndavélina og við fylgjumst með samskiptum mæðgnanna á nærgöngulan en jafnframt einlægan máta. Það þarf mikið hugrekki til að kvikmynda eigið tilfinningalíf með þessum hætti og er ekkert dregið undan. Myndin er fyrsta heimildarmynd leikstjórans en er þrátt fyrir það afar þroskuð saga um samband móður og dóttur.

Kjósa

Kata

Eftir Steinar Braga.

Frásagnarháttur Steinars Braga og ferðalög hans um landamæri raunsæis og fantasíu hefur verið í mótun í síðustu skáldsögum hans. Í Kötu nýtist þessi aðferð frábærlega til þess að varpa ljósi á alvarlegt samfélagsmein og – ekki síður – sálarástand þeirra sem þurfa að búa við það. Hér skorar Steinar Bragi íslenskt réttarkerfi og samfélag á hólm, hann dregur upp grimmdarlega mynd af kynbundnu ofbeldi gegn konum og máttvana dómstólum sem bregðast í sífellu fórnarlömbunum og aðstandendum þeirra.

Kjósa

Erna Ómarsdóttir og Valdimar Jóhannsson.

Fyrir dansverkið Lecture on borderline musicals.

Í verkinu er áhorfandanum boðið að kafa í fyrirbærið jaðarsöngleikur. Í fyrirlestri vísa Erna og Valdimar í karaktera, lög, og danssenur úr fyrri verkum til útskýringa sem þau framkvæma af mikilli snilld. Umfjöllunarefnið er brotið til mergjar og dansað er á mörkum gríns og alvöru, raunveruleika og skáldskapar. Uppbygging verksins er mjög skýr og markviss og samspil Ernu og Valdimars í góðu jafnvægi. Erna og Valdimar setja hér fram yfirgripsmikinn feril sinn í kraftmikilli og skemmtilegri nálgun, þar sem gamalt efni er sett í nýtt samhengi og bæði gamlir aðdáendur og nýir áhorfendur geta notið.

Kjósa

Lóaboratoríum

Eftir Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur

Eins og svo margar verulega góðar myndir segja teikningar Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur stóra sögu. Í einu vetfangi, einni setningu, einni mynd nær hún að fanga tíðaranda, samfélag og manneskjur – breyskar og grátbroslegar í öllu sínu veldi. Lóaboratoríum hreinsar hismið frá kjarnanum og afhjúpar okkur öll – hún er dásamlega fyndin og óþægilega sönn en merkilega laus við mannfyrirlitningu.

Kjósa

Akratorg

Landmótun

Árið 2005 stóð Akraneskaupstaður fyrir samkeppni um deiliskipulag Akratorgs og nágrennis þar sem landslagsarkitektastofan Landmótun varð hlutskörpust. Samkeppninni var hrint af stað til að stemma stigu við byggðarþróun þar sem verslun, þjónusta og mannlíf hafði verið að færast úr miðbænum í útjaðra kaupstaðarins. Vel hefur tekist til með hönnun á torginu sem er í dag fallega mótað og í sterkum tengslum við nærliggjandi svæði. Torgið er vettvangur mismunandi viðburða en að sama skapi virkar það ekki tómt þegar fámennt er. Lýsing torgsins er sömuleiðis vel heppnuð; dregur fram sérkenni staðarins og skapar fjölbreytilega stemningu. Landmótun og lýsingarteymi Verkís eru því vel að Íslensku lýsingarverðlaununum komin. Bæjaryfirvöld eiga einnig hrós skilið fyrir að hafa stutt við torgið með ýmiss konar viðburðum sem hafa hjálpað til við að skapa ríkt mannlíf. Það er ánægjulegt að sjá metnaðarfullar hugsjónir bæjarfélags um gott og lifandi almenningsrými verða að veruleika með góðri umhverfishönnun og ætti að vera hvatning fyrir fleiri bæjarfélög af svipaðri stærðargráðu.

Kjósa

Anna Þorvaldsdóttir.

Tónskáld.

Anna Þorvaldsdóttir hefur á undanförnum árum skipað sér í röð áhugaverðustu tónskálda Norðurlandanna fyrir einstakan og persónulegan tónheim sinn; nostrað er við fíngerðustu blæbrigði í tónlistinni sem er samt full af rými fyrir hlustandann til að skynja og sogast með. Árið 2014 var gjöfult á ferli Önnu; á meðal þess sem hæst bar var útgáfa þýska útgáfurisans Deutsche Grammophon á plötunni Aerial sem hefur að geyma verk eftir Önnu frá árunum 2011–2013 auk þess sem hinn virti tónlistarhópur Ice Ensemble frumflutti viðamikið verk hennar á Listahátíð í Reykjavík 2014.

Kjósa

Stundarfró

Eftir Orra Harðarson

Stundarfró er lipur og lífleg frumraun, þar sem Orri Harðarson bregður upp tíðarandalýsingu frá níunda áratug síðustu aldar. Hér nýtur sín vel bráðskemmtilegur stíll og vald hans yfir tungumálinu. Hann leikur sér með klisjurnar og sýn hans á drykkfellda snillinginn nær átakanlegum hæðum og lægðum – er í senn kunnugleg og fersk.

Kjósa

Hverfisgata 71a

Studio Granda

Hverfisgata 71a er viðbygging við norskt katalóghús frá byrjun síðustu aldar og inniheldur ljósmyndastofu og vinnustofu. Verkið nálgast sögulegt umhverfi sitt á skapandi og frjóan hátt um leið og viss auðmýkt og næmni er ríkjandi. Séð frá Hverfisgötu lagar viðbyggingin sig að eldra húsinu með bárujárnsklæðningu auk þess sem úrskurður undir þaki eldra hússins er framlengdur á toppi viðbyggingarinnar. Stórt gluggaop skírskotar enn fremur til eldri búðarglugga í Hverfisgötunni á áhugaverðan hátt. Hrátt yfirbragð er einkennandi fyrir innra rými byggingarinnar sem endurspeglast í notkun sjónsteypu og steingólfi auk þess sem eldri veggur, á húsi aðliggjandi lóðar, fær að standa ómeðhöndlaður. Tækni og eðli þeirrar athafnar að reisa byggingu verður þannig sýnileg sem skapar sterk hugrenningatengsl við eðli okkar efnislega heims. Verkið er mikilvægt innlegg um hvernig skörp greining á sögulegu samhengi, í bland við skapandi nálgun á fortíðina, stuðlar að áframhaldandi þróun umhverfis okkar í borg.

Kjósa

Reykjavík sem ekki varð

Eftir Önnu Dröfn Ágústsdóttur og Guðna Valberg (útgefandi Crymogea)

Í þessu fallega verki rekja höfundar merkilega sögu margra af þekktustu byggingum Reykjavíkur. Þeir beita þeirri nýstárlegu aðferð að segja frá mótun höfuðborgarinnar með því að beina kastljósinu fyrst og fremst að því sem ekki varð, enda eru í bókinni teikningar af stórhýsum sem aldrei risu og þrívíddarmyndir af opinberum byggingum á stöðum sem þeim var upphaflega ætlaður þó að þær hafi endað annars staðar. Líkja má aðferðinni við svokallaða „hvað ef?“ sagnfræði en þá veltir fræðimaðurinn fyrir sér þróun mála ef hlutirnir hefðu æxlast á annan veg. Um leið og Anna Dröfn og Guðni varpa þannig nýju ljósi á mörg helstu kennileiti borgarinnar segja þau áhugaverða samfélagssögu í aðgengilegri og bráðskemmtilegri bók.

Kjósa

Orð að sönnu – Íslenskir málshættir og orðskviðir

Eftir Jón G. Friðjónsson

Í þessu stærsta safni málshátta sem gefið hefur verið út á íslenska tungu fylgir Jón G. Friðjónsson eftir þrekvirki sínu Mergur málsins. Í Orð að sönnu er að finna hálft þrettánda þúsund málshátta með ítarlegum skýringum þar sem m.a. er getið um elstu dæmi og prentaðar heimildir. Höfundur hefur safnað og skráð málshætti síðastliðin 40 ár og nú fá lesendur að njóta afrakstursins. Verkið er mikið að vöxtum og afar vandað, í senn fræðilegt og alþýðlegt rit sem allir ættu að geta haft af bæði gagn og gaman.

Kjósa

Vasulka-stofa á Listasafni Íslands

Miðstöð fyrir raf- og stafræna list á Íslandi

Steinunn Vasulka settist að í New York fyrir næstum fimm áratugum ásamt manni sínum Woody og þar hófust þau handa ásamt félögum sínum við að móta alveg nýja listgrein: vídeólistina sem nú hefur fyrir löngu unnið sér þegnrétt meðfram hinum hefðbundnari miðlum. Þarna var um að ræða eina róttækustu byltingu síðustu áratuga þar sem listamenn tókust á við nýja tækni og fundu leiðir til nýta hana í listrænum tilgangi, oft þvert á það sem hönnuðir hennar höfðu í upphafi ætlað. Verk Steinunnar og Woodys hafa oft verið sýnd á Íslandi en nú loksins hefur þeim verið búinn varanlegur sess á Listasafni Íslands þar sem gestir geta kynnt sér starf og verk þeirra.

Kjósa

Höggið

Heimildarmynd í leikstjórn Ágústu Einarsdóttur

Einstaklega vönduð íslensk heimildarmynd um sannsögulega viðburði. Hér er á ferð stórbrotin saga af sjóskaða og svo hetjulegri björgun í Norður-Atlantshafi á jólanótt árið 1986. Notast er bæði við myndefni frá samtímanum sem og nýtt leikið efni, í bland við viðtöl við þá sem lifðu af. Myndin er spennandi og vel upp byggð, þó hún sé trú viðburðunum virkar hún nánast eins og spennumynd á köflum og undir lokin er mynduð tilgáta um það sem raunverulega gerðist. Heimildarmyndargerð eins og hún gerist best, og varpar ljósi bæði á kjör íslenskra sjómanna sem og afdrif Íslands í ólgusjó kalda stríðsins.

Kjósa

Ofbeldi á heimili – Með augum barna

Ritstjóri Guðrún Kristinsdóttir

Í þessari vönduðu bók leiða saman hesta sína nokkrar fræðikonur undir ritstjórn Guðrúnar Kristinsdóttur. Ofbeldi á heimili byggir á merkilegri og einstakri rannsókn höfunda á heimilisofbeldi, en í henni segja börn frá eigin reynslu af ofbeldi og viðhorfi sínu til þess eins og undirtitill bókarinnar vísar til. Rannsóknin sjálf er afar vönduð og vel unnin og birtist hér almenningi í aðgengilegum texta og framsetningu. Lesendur fá innsýn í nöturlegt líf fjölda barna og ungmenna á Íslandi og bókin mun án efa gagnast öllum sem sinna börnum. Ofbeldi á heimilum er mikilvæg bók sem varðar alla í samfélaginu.

Kjósa

Orri Finn

Orri Finnbogason og Helga G. Friðriksdóttir skartgripahönnuðir

Hönnunardúettinn Orri Finn samanstendur af Orra Finnbogasyni og Helgu G. Friðriksdóttur. Orri er útskrifaður gullsmiður frá Iðnskólanum í Reykjavík en sérhæfði sig í demantaísetningu í New York, og Helga hefur unnið í hönnunargeiranum í mörg ár. Orri og Helga hafa vakið verðskulda athygli fyrir vel heppnaðar skartgripalínur síðustu ár. Í línunum Akkeri og Scarab unnu þau með tákn og í fyrra kom út línan Flétta þar sem þau eru innblásin af fléttum. Línan sló í gegn og var eftirspurn eftir henni mikil. Orri og Helga tóku einnig í fyrra þátt í 90 ára afmælissýningu Félags íslenskra gullsmiða í Hönnunarsafni Íslands. Þar sýndu þau afar athyglisvert verk en fyrir sýninguna fléttuðu þau höfuðkúpu úr koparvírum.

Kjósa

Hilmar Jónsson.

Fyrir leikstjórn verksins Furðulegt háttalag hunds um nótt hjá LR.

Verkið fjallar um einhverfan dreng, Christopher, sem fórnar öllu haldreipi sínu í leit að sannleikanum um fjölskyldu sína. Hilmar skapar frábært jafnvægi milli hins eintóna einhverfa drengs og allra hinna litskrúðugu persónanna, þannig að áhorfendur umbera krefjandi nærveru Christophers og taka þátt í hinu strembna ferðalagi í leit að sannleikanum með honum. Tíu sterkir leikarar fara með þrjátíu og átta hlutverk og eru þar allir hver öðrum betri, jafnvel hundurinn sem kemur inn í lok sýningarinnar sýnir algjöran stjörnuleik. Leikmynd, lýsing, hljóðmynd og sviðshreyfingar leikara vinna saman á einstakan hátt undir stjórn Hilmars og mynda á fimmta tug mismunandi staðsetninga verksins á spennandi og trúverðugan hátt. Þetta er ákaflega flókin og viðamikil sýning en allar tæknilegar úrlausnir ganga upp og eru í raun listaverk út af fyrir sig.

Kjósa

Sigga Heimis

Hönnuður

Sigga Heimis hefur verið í fremstu röð íslenskra hönnuða um árabil. Hún hefur átt glæsilegan feril, meðal annars sem hönnunarstjóri Fritz Hansen og hjá IKEA, þar sem hún gegnir nú stöðu þróunarstjóra og sér um yfirhönnun á smávörum. Sigga hefur að auki starfað með fjölda erlendra háskóla víða um heim og unnið verkefni fyrir Vitra hönnunarsafnið í Þýskalandi ásamt því að hanna í samstarfi við íslenska framleiðendur. Fyrir skemmstu var haldin í Hannesarholti sýning á þekktum glerlíffærum sem Sigga vann fyrir Corning-glerlistasafnið í New York. Í hönnun sína hefur Sigga valið ólíkan efnivið og velt fyrir sér formi og notagildi með ábyrgri umhverfisvitund í huga. Sigga hefur sótt innblástur til Íslands í mörgum verkefnum sínum og verið virkur þátttakandi í íslensku hönnunarlífi. Hún hefur hannað fleiri hundruð hluti sem finnast á heimilum og skrifstofum víða um heim.

Kjósa

Ég hef aldrei séð fígúratíft rafmagn

Sýning í Ásmundarsafni

Sýningardagskrá Listasafns Reykjavíkur í Ásmundarsafni í Laugardal hefur getið af sér áhugaverða listviðburði þar sem yngri listamenn tefla verkum sínum fram í samræðu við list Ásmundar. Sérstaklega vel tókst til í fyrra með sýningunni „Ég hef aldrei séð fígúratíft rafmagn“ undir stjórn þeirra Klöru Þórhallsdóttur og Kristínar Dagmarar Jóhannesdóttur. Þar voru valin til að vinna verk þau Áslaug Í. K. Friðjónsdóttir, Baldur Geir Bragason, Björk Viggósdóttir, Hrafnhildur Halldórsdóttir, Ingunn Fjóla Ingþórsdóttir, Ragnar Már Nikulásson, Sólveig Einarsdóttir, Þór Sigurþórsson og Þuríður Rós Sigurþórsdóttir.

Kjósa

Austurland: Designs from Nowhere

Hönnunarverkefni að frumkvæði Körnu Sigurðardóttur og Petes Collard

Fyrir rúmu ári heimsótti alþjóðlegt teymi hönnuða Austurland með það að markmiði að rannsaka möguleika til smáframleiðslu í fjórðungnum. Hönnuðirnir kynntu sér handverk, þekkingu og staðbundinn efnivið á borð við þara, steina, hreindýrshorn og net. Þeir störfuðu víða, meðal annars á Egilsstöðum, Djúpavogi, Eskifirði og Norðfirði. Útkoman var metnaðarfull hönnunarverkefni þar sem leitast er við að finna nýjar leiðir í hráefnisnotkun. Hönnuðirnir sem tóku þátt voru Þórunn Árnadóttir, Gero Grundmann, Max Lamb og Juliu Lohmann. Þau störfuðu í nánu samstarfi við handverksfólk og fyrirtæki og má sem dæmi nefna vörulínuna, Sipp og Hoj, sem Þórunn vann með netagerðinni Egersund á Eskifirði. Pete Collard, listrænn stjórnandi hjá Design Museum í London, og Karna Sigurðardóttir, vöruhönnuður og kvikmyndaleikstjóri, áttu frumkvæði að verkefninu en það var fyrsti verðlaunahafi Hönnunarverðlauna Íslands nú í vetur.

Kjósa

Elma Stefanía Ágústsdóttir.

Fyrir leik sinn í þremur sýningum í Þjóðleikhúsinu.

Elma Stefanía setti sterkan svip á þrjár gerólíkar persónur í þremur eftirminnilegum og áhrifamiklum leiksýningum á árinu: Ástu Sóllilju, lífsblómi Bjarts í Sumarhúsum í ögrandi og umdeildri sýningu Þorleifs Arnar Arnarssonar á Sjálfstæðu fólki Halldórs Laxness, Abigail Williams, forsmáða ástkonu Johns Proctor, í glæsilegri uppsetningu Stefans Metz á Eldrauninni eftir Arthur Miller og Herbjörgu Maríu unga í viðburðaríkri og auðugri sýningu Unu Þorleifsdóttur á Konunni við 1000° eftir Hallgrím Helgason. Um leið viljum við gefa leikstjórum, öðrum leikurum og sviðslistamönnum þessara sýninga fallega rós í sitt hnappagat.

Kjósa

Lífríki Íslands

Snorri Baldursson (JPV/Forlagið)

Í bókinni Lífríki Íslands segir Snorri Baldursson frá vistkerfi lands og sjávar af mikilli þekkingu, rekur myndunarsögu landsins og hvernig það hefur mótast í aldanna rás og hvaða afleiðingar sú mótun hefur haft á framvindu lífríkisins. Umhverfisvernd er höfundi ofarlega í huga og hann dregur upp dökka mynd af því hvernig manneskjan leikur lífríkið og hvetur til náttúruverndar. Bókina prýða myndir, kort og töflur sem gera verkið afar yfirgripsmikið og Snorri hrífur lesandann með sér með einkar læsilegum texta í þessum glæsilega og fallega prentgrip.

Kjósa

Þorsteinn Bachmann

leikari

Í kvikmyndinni Vonarstæti leikur Þorsteinn rithöfundinn og ógæfumanninn Móra og sýnir stórleik í hlutverkinu. Hann fer allan skalann í túlkun sinni á manni sem fer frá því að vera “venjulegur fjölskyldufaðir” í að verða nánast útigangsmaður. Þorsteinn sýnir besta leik sinn til þessa og mikla næmni bæði í túlkun sinni á persónunni og samleik við aðra leikara. Eftir 20 ára feril, oftast í aukahlutverkum, sýnir hann svo um munar að hann blómstrar í aðalhlutverki og er um þessar mundir einn af áhugaverðustu leikurum landsins.

Kjósa

Marta Nordal.

Fyrir leikstjórn sína á Ofsa eftir sögu Einars Kárasonar.

Leikhópur Mörtu Nordal og Eddu Bjargar Eyjólfsdóttur, Aldrei óstelandi, hefur vakið athygli á síðustu árum fyrir frumlegar og áhrifamiklar sýningar þar sem þau hafa nýtt sér útvarpsleikhústækni á ýmsan hátt til að ná utan um og magna efnivið sinn. Ofsi gerist á Sturlungaöld og segir frá glæsilegri brúðkaupsveislu sem endar með morðbrennu og sögupersónur skipta tugum; þó komu fjórir leikarar sögunni til skila á einkar áhrifaríkan hátt á litlu sviði með því að beita slagverki, útvarpstækni og ýmsum sviðsbrellum á afar hugmyndaríkan hátt. Allir sem komu að þessari sýningu eiga hrós skilið en Marta fær tilnefningu sem leikstjóri hennar.

Kjósa

M-Band.

Fyrir plötuna Haust.

M-Band er sólóverkefni Harðar Más Bjarnasonar, sem syngur og spilar á ýmis hljóðfæri. Tónlistin er elektrónísk popptónlist þar sem hjartnæm tenórrödd Harðar svífur ofan á ljúfri, dreymandi og heillandi tónlist. Hörður lét fyrst heyra í sér árið 2012 á EP-plötu en í fyrra kom fyrsta albúmið, hin taktfasta og leitandi „Haust“. Hörður leggur sérstaklega mikið upp úr kraftmikilli upplifun áhorfenda á tónleikum, en hann lék víða á síðasta ári, bæði heima og erlendis.

Kjósa

Framhaldsskólinn í Mosfellsbæ

2F arkitektar

Árið 2010 fór fram opin arkitektasamkeppni um húsnæði fyrir Framhaldsskólann í Mosfellsbæ þar sem tillaga frá ungri arkitektastofu, A2F arkitektum, varð hlutskörpust. Að mati dómnefndar tókst að skapa lifandi ramma utan um framsækið skólastarf sem yrði jafnframt „lifandi hlið inn í miðbæ Mosfellsbæjar.“ Einnig var álitið að í tillögunni væri falinn góður grunnur að umhverfisvænni byggingu. Við nánari úrvinnslu hefur vel tekist til við að uppfylla þessar væntingar. Efnisval er hlýlegt auk þess sem grunnskipulag skólans stuðlar að góðu flæði milli rýmis að innan og utan. Skólinn býður þannig upp á félagslega samveru; líf og leik í almenningsrými bæjarins. Form og útlit skólans er jafnframt kraftmikið á sama tíma og það fellur vel að umhverfi sínu. Verkið endurspeglar arkitektónísk gæði í sterku jafnvægi við vistvæn markmið og er því mikilvægt skref inn í umhverfisvæna framtíð í íslensku samfélagi.

Kjósa

Hildur Yeoman

Fatahönnuður

Fatahönnuðurinn Hildur Yeoman hefur átt góðu gengi að fagna síðustu ár með skartgripahönnun sína, meðal annars hálsmen og eyrnalokka. Í fyrra sendi hún síðan frá sér fyrstu fatalínuna sem hugsuð er til framleiðslu og hlaut hún nafnið Yulia. Línan er nefnd eftir ömmu Hildar, sem hún segir einnig vera músuna á bak við hana. Hildur frumsýndi línuna á eftirminnilegri tískusýningu á Hönnunarmars í fyrra þar sem var fullt út úr dyrum í Hafnarhúsinu. Yulia var síðan sett í sölu í haust og hefur sett svip sinn á bæinn síðan.

Kjósa

Hús í Árborg

PK arkitektar

Um er að ræða frístundahús sem staðsett er í hæðóttu, mosagrónu landslagi með útsýni yfir Hvítá. Verkið fléttar saman byggingu og landslag á dulúðlegan en fallegan hátt þar sem unnið er meðvitað með arkitektónísk leiðarstef. Þegar gengið er að byggingunni nemur augað hrjúfan en reglulegan steinsteypuflöt. Langur flöturinn myndar andstæðu við landslagið en styrkir með því móti upplifunina á mosagróinni náttúrunni. Að innan er magnað útsýnið rammað inn með einfaldri gluggahlið sem snýr að stofu, eldhúsi, borðstofu og hjónaherbergi. Fínlegur timburfrágangur stuðlar að hlýleika og er í góðu jafnvægi við steinsteypta fleti. Úti á verönd fær timbrið að veðrast og tengir þannig byggingu við landslag í tíma jafnt sem rúmi. Þar er jafnframt hægt að stíga niður í heitan pott sem staðsettur er í nokkurs konar vatnsfleti sem rennur sjónrænt saman við stóru Hvítá. Verkið samhæfir fínlegan og úthugsaðan frágang í heildstæðri byggingu og er framúrskarandi dæmi um hvernig bygging og landslag geta styrkt hvort annað.

Kjósa

Mengi.

Tónleikastaður.

Tónleikastaðurinn Mengi á Óðinsgötu hefur haldið úti metnaðarfullri, frumlegri og áhugaverðri tónleikadagskrá. Þar hefur fjöldinn allur af tónlistarmönnum úr ólíkum áttum – bæði innlendum og erlendum – komið fram frá því staðurinn var opnaður fyrir rúmu ári. Með tilkomu Mengis hefur orðið til dýrmætur vettvangur fyrir tilraunakennda tónlist og spunatónlist en þann vettvang vantaði sárlega í íslenskt tónlistarlíf.

Kjósa

Unnur Ösp Stefánsdóttir.

Fyrir túlkun sína á Nóru í Dúkkuheimili Ibsens hjá LR.

Í umskiptunum úr yfirborðskenndri hamingju til örvæntingar sýnir Unnur Ösp einstaklega næma tilfinningu fyrir togstreitu í sál kúgaðrar konu sem neyðist til að fórna öllu til að bjarga sjálfri sér. Þrátt fyrir háan aldur verksins á það enn erindi eins og sannaðist í kraftmikilli uppfærslu Hörpu Arnardóttur. Aðrir leikarar áttu einnig sinn þátt í áhrifum sýningarinnar, einkum Hilmir Snær í hlutverki Þorvalds, og þá ekki síður leikmynd Ilmar Stefánsdóttur sem myndar hið ótrausta undirlag sem heimilið er byggt á.

Kjósa

Margrét Sara Guðjónsdóttir

Fyrir dansverkið Blind spotting.

Í verkinu kallar Margrét fram áhrifaríkar en uggvænlegar myndir. Átta einstaklingar fyrirfinnast á sviðinu, líkamar þeirra eru örmagna á sama tíma og innra tilfinningalíf einstaklinganna er við það að springa. Rauð flauelstjöld leika stórt hlutverk í verkinu en hreyfing þeirra ýtir verkinu áfram og skapar hulin rými sem annað slagið opnast áhorfendum og opinbera þeim ástand þess einstaklings sem þar er að finna. Verkið nær þannig að dáleiða áhorfandann og draga hann inn í ástand einstaklinganna í verkinu. Hér fullkomnar Margrét Sara fagurfræðileg höfundareinkenni sín þar sem ytri naumhyggja mætir innri sprengikrafti.

Kjósa

Hreinn Friðfinnsson

Listamaður

Hreinn Friðfinnsson var einn af frumkvöðlum nýlistar og hugmyndalistar á Íslandi. Hann hefur sýnt frá því um miðjan sjöunda áratuginn, var einn af stofnendum SÚM-hópsins og verk hans hafa vakið athygli um allan heim. Fyrir fáum misserum var til dæmis sett upp stór yfirlitssýning í Serpentine-sýningarsalnum í Lundúnum sem sló aðsóknarmet í þeirri þekktu og virðulegu stofnun. Í fyrra var svo haldin yfirlitssýning í Nýlistasafninu þar sem jafnframt var frumsýnd kvikmynd um ævi og störf Hreins eftir Ragnheiði Gestsdóttur og Markús Þór Andrésson. Seinna á árinu sýndi Hreinn svo ný verk í i8 Gallery.

Kjósa

Enginn dans við Ufsaklett

Eftir Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur

Elísabet Kristín Jökulsdóttir hefur einstaka rödd í íslenskum bókmenntum. Í Enginn dans við Ufsaklett hljómar rödd hennar óvægin, heiðarleg, fyndin og sorgleg í senn. Í ljóðabók sem lýsir ofbeldissambandi tekst henni að koma flóknum tilfinningum, örvæntingu og gleði í áhrifamikið og sterkt form.

Kjósa

Aude Busson og stjórn Assitej.

Fyrir Sviðslistahátíð Assitej 2014 fyrir unga áhorfendur.

Hátíðin hóf annað starfsár sitt með því að tilkynna nafnbreytingu úr Leiklistarhátíð Assitej í Sviðslistahátíð. Nafnbreytingin var svo undirstrikuð með áherslu á dans í verkefnavali hátíðarinnar. Hér sýndi stjórn Assitej mikið hugrekki, tekin var ákvörðun um að taka hefðbundna hátíð og fara með hana í nýja átt. Stjórnin treysti dansinum til að halda merki hátíðarinnar á lofti. Hátíðin, sem bauð upp á þrjú íslensk dansverk fyrir börn og eitt erlent, var hvati fyrir sköpun nýrra barnadansverka og barnadansmynda sem og þróun á fjölbreyttu og skapandi námskeiðahaldi. Ný áhersla bauð upp á breiðara samstarf, nú við Dansverkstæðið í Reykjavík og samtímadansbraut Listaháskóla Íslands. Skemmst er frá því að segja að hátíðin sló í gegn og opnaði aðgengi barna á ýmsum aldri að listdansi.

Kjósa

Borgarlandslag

Sýning Paolos Gianfrancesco í Spark Design Space

Paolo Gianfrancesco er ítalskur arkitekt sem búið hefur hér á landi í nokkur ár. Hann sýndi í fyrrasumar seríuna Borgarlandslag, eða Urban Shape, í Spark Design Space, og hefur hún verið í sölu þar síðan. Serían samanstendur af fimmtíu gríðarlega flottum kortum af höfuðborgum Evrópu sem Paolo hefur útfært. Kortin eru byggð á gögnum úr samstarfsverkefni á netinu sem kallast Open Street Map en Paolo hefur um árabil verið virkur þátttakandi í því. Litavalið á kortunum fer síðan eftir Pantone-litakerfinu og taka kortin lit eftir mannfjöldanum sem í borgunum býr. Borgarkort Paolo varpa nýju ljósi á þessar þekktu borgir. Á kortunum er hægt að sjá mismunandi jafnvægi innan þeirra, sem mótast ýmist af náttúrulegum fyrirbærum eins og vatnsföllum eða breytingum af manna völdum.

Kjósa