fbpx
Miðvikudagur 24.apríl 2024
EyjanFréttir

Framsóknarflokkurinn sýknaður: Almannatengillinn starfaði fyrir Sigmund Davíð

Ari Brynjólfsson
Mánudaginn 16. apríl 2018 15:41

Ekki missa af Helstu tíðindum dagsins í pósthólfið þitt

Lesa nánar

Framsóknarflokkurinn var í dag sýknaður af kröfu almannatengslafyrirtækisins Forystu ehf. Viðar Garðarsson, framkvæmdastjóri Forystu, krafðist þess að flokkurinn greiddi rúmar 5 milljónir fyrir vinnu í tengslum við þingkosningarnar 2016, tímabilið þegar átök stóðu yfir í Framsóknarflokknum og Sigurður Ingi Jóhannsson felldi Sigmund Davíð Gunnlaugsson úr formannsstóli í kjölfar Panama-skjalanna. Því var hafnað og var fyrirtækinu gert að greiða 1,1 milljón króna í málskostnað.

Áfall á Kaffi Mílanó

Héraðsdómur Reykjavíkur komst að þeirri niðurstöðu að Forysta ehf. hafi ekki unnið fyrir Framsóknarflokkinn, heldur aðeins Sigmund Davíð. Dómurinn varpar ljósi á deilurnar sem ríktu þá innan Framsóknarflokksins, Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir, borgarfulltrúi Framsóknar og flugvallarvina, mun hafa fengið Viðar til liðs við flokkinn vegna Panama-skjalanna, fyrst til þess að svara fyrir veru Sveinbjargar Birnu Sveinbjörnsdóttur, sem var á þeim tíma með Guðfinnu í Framsókn og flugvallarvinum, í Panama-skjölunum.

Guðfinna kom á fundi með Sigmundi Davíð, Viðari og eiginmanni hennar, Svani Guðmundssyni, en bæði Svanur og Guðfinna gengu síðar til liðs við Miðflokk Sigmundar Davíðs fyrir kosningarnar 2017. Viðar fundaði svo með Sigurði Hannessyni, sem þá var náinn samstarfsmaður Sigmundar Davíðs nú formaður Samtaka iðnaðarins, Lilju Alfreðsdóttur þáverandi utanríkisráðherra og Hrólfi Ölvissyni, sem var þá búinn að segja af sér sem framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins eftir að hafa verið í Panama-skjölunum. Viðar fundaði svo með Hrólfi á Kaffi Mílanó í Skeifunni þar sem Viðar tjáði Hrólfi að kosningabaráttan sem hann hafði í huga myndi kosta 100 milljónir, mun Hrólfur hafa fengið áfall við að frétta að Framsóknarflokkurinn ætti ekki slíka fjármuni.

Þrír hlutir fyrir Sigmund

Fyrir dómi sagðist Viðar hafa hitt Sigmund Davíð aftur í kjölfarið og að eftir það hafði verið ákveðið að gera þrjá hluti. Í fyrsta lagi að farið yrði með Sigmund Davíð í myndatökur og kvaðst Viðar fyrir dómi hafa skipulagt myndatöku, pantað tíma í stúdíói og ráðið til þess ljósmyndara og förðunarfræðing. Í aðilaskýrslu sinni kvað Viðar ástæður myndatökunnar hafa verið þær að myndirnar sem hefðu birst af Sigmundi í tengslum við umfjöllun um Panama-skjölin hafi verið mjög neikvæðar í samræmi við málefnið en samkvæmt reynslu sinni væru fjölmiðlar yfirleitt samstarfsfúsir ef þeim væri útvegað myndefni.

Í öðru lagi hefði Viðar látið smíða vefsíðuna panamaskjolin.is en í framburði Viðars kom fram að með henni hefði verið ætlunin að „setja strik í sandinn og taka til varna“. Sagði Viðar hugmyndina hafa verið að Sigmundur gæti alltaf vísað í þennan vef ef Panama-skjölin kæmu upp kosningabaráttunni. Þá hefði í þriðja lagi verið smíðaður vefurinn islandiallt.is og lýsti Viðar því að sá vefur hafi verið ætlaður til að „sækja fram“. Aðspurður fyrir dómi nánar um hvaða þjónusta hafi verið veitt til stefnda Framsóknarflokksins á þessum tíma og hvað hafi verið fólgið í störfum Svans Guðmundssonar, eiginmanns vitnisins Guðfinnu Jóhönnu á þessum tíma, kvaðst Viðar hafa fengið hann til að vinna „ákveðna greiningarvinnu, hvaða blaðamenn voru að skrifa hvað“ og „hverjir hefðu verið Sigmundi Davíð erfiðastir.“

Sigurður Ingi og Eygló kannast ekki við Viðar

Í skýrslu sinni fyrir dómi sagði Sigurður Ingi Jóhannsson, sem var á þessum tíma varaformaður og meðlimur í framkvæmdastjórn Framsóknarflokksins, að hann hefði ekki haft vitneskju eða hugmynd hafa haft um vinnu Viðars Garðarssonar fyrir Framsóknarflokkinn á þessum tíma. Eygló Harðardóttir, þáverandi ritari flokksins, sagði í vitnisburði sínum að hún hefði ekki orðið vör við neina vinnu Viðars Garðarssonar fyrir Framsóknarflokkinn þessari kosningabaráttu. Ef Sigmundur Davíð hefði stýrt vinnunni við kosningabaráttu alveg sjálfur þá hefði það ekki verið í samræmi við lög flokksins. Starfshættir flokksins hafi verið með þeim hætti að þeir sem komi að hönnun samfélagsmiðla og sambærilegra þátta kynntu það fyrir framkvæmdastjórn en hún hefði setið í framkvæmdastjórn frá árinu 2009.

Í dómnum kemur fram að þegar Viðar fékk neitun frá Framsóknarflokknum hafi hann haft samband við Sigmund Davíð sem hafi þá lagt sjálfur út fyrir hluta af reikningnum eða rúma milljón.

Samherjar Sigmundar vissu af Viðari

Í janúar síðastliðnum ítrekaði Viðar síðan kröfu sína um að Framsóknarflokkurinn greiddi honum fyrir vinnuna en fékk neitun líkt og áður. Í bréfi sem Viðar sendi framkvæmdastjóra flokksins kemur fram að áhrifafólki innan flokksins hafi verið kynnt sú vinna sem hann hafi innt af hendi. Í þeim hópi voru meðal annars Sigmundur Davíð, Lilja Alfreðsdóttir, Sveinn Hjörtur Guðfinnsson og Jóhannes Þór Skúlason, en af þessum fjórum er aðeins Lilja er enn í Framsóknarflokknum, hinir gengu til liðs við Miðflokkinn.

Héraðsdómur komst að þeirri niðurstöðu að Viðar hafi ekki getað dulist að tilskilið leyfi vantaði frá þar til bærum aðilum innan Framsóknarflokksins um að starfa fyrir flokkinn og að hann hafi heldur ekki getað gengið út frá því að Sigmundur Davíð hefði einn umboð til að stofna til slíkra skuldbindinga. Var því, eins og áður segir, Framsóknarflokkurinn sýknaður af kröfunni og þarf Viðar að greiða allan málskostnað.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir

Pennar

Mest lesið

Nýlegt

Fréttir
Í gær

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna

Landsmenn hvattir til að fara yfir bólusetningar sínar áður en farið er í ferðalög til Evrópu og Bandaríkjanna
Fréttir
Fyrir 2 dögum

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið

Bongóblíða á landinu í dag og sumarið handan við hornið