Vilhjálmur Ari

Ég er er heimilislæknir (1991) og starfa nú á Heilsugæslunni Firði, Hafnarfirði. Eins starfað á Slysa- og bráðamóttöku LSH sl. 30 ár, nú sem lausráðinn. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins (HH) frá 2009. Læt mér sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja.
Vilhjálmur Ari

Hvað ætlar íslenska þjóðin að gera í "sínum málum".

Eins og fram kemur á forsíðu Fréttablaðsins í dag og í viðtali við Guðmund Löve, framkvæmdastjóra SÍBS, að þá verja fá vestræn ríki jafn litlu til forvarna og heilsugæslu og Ísland. Heildræna stefnu vantar og heilsugæslan er á fallandi fæti. Reiknað hefur verið út að 68 þúsund góð æviár gætu verið glötuð í dag vegna aðgerðarleysis sl.ár.

Nýjar rannsóknir hafa nú verið birtar sem sýna að Íslendingar eru "feitastir" V-Evrópuþjóða (BMI >25), ungar konur í fysta sæti (60.9%) og karlarnir í því öðru (73.6%). Ekki eftirsótt sæti það. Íslendingar fylgja fast á hæla Bandaríkjamanna hvað hraða þróun í ofþyngd og offitu varðar. Þriðjungur Bandaríkjamanna er haldinn mikilli offitu (þyngdarstuðull, BMI > 30%) og 17% barna. Á sl. þremur áratugum hefur mikið offeitum í Bandaríkjunum fjölgað um 100%, og þeim sem eru með þyngdarstullðinn >40, um 400%.

Á íslandi er um 20% fullorðinna með mikla offitu (BMI >30) og þriðjungur barna er yfir kjörþyngd. Veruleg ástæða er því nú að hafa meiri áhyggjur af framtíðinni. Einnig m.t.t. þeirrar staðreyndar að um 90% offitusjúklinga ná ekki að léttast þrátt fyrir oft óteljandi tískukúra sem eru vinsælastir í dag og það sem verra er, halda jafnvel áfram að fitna. Sjúkdómur sem á nær eingöngu rætur að rekja til rangra lífstílsvenja okkar, rangt mataræði og lítillar hreyfingar. Ástand og venjur þar sem heilsugæslan gegnir mikilvægu hlutverki að geta breytt.

Margir stjórnmálamenn forðast hins vegar eins og heitan eldinn að ræða lýðheilsuvandann. Þeir einblína oft á önnur mál, meira út frá ásýnd landsins og gerðalegu útliti landans, enda fegurðardýrkun á mannslíkamanum óvíða jafn mikil og á Íslandi. Vissulega má þó að einhverju leiti líta til stórbeinótts vaxtarlags okkar og vöðvamassa og sem ofangreindar tölur leiðrétta ekki fyrir. Engu að síður næst ekki árangur gegn offitunni fyrr en við látum af allri útlitsdýrkun, átökum og kúrum eins og víkinga var siður til forna. Að við förum nú að líta á málin út frá rökhyggju heilsunnar til lengri tíma litið, með vellíðan og lýðheilsuna sjálfa að leiðarljósi .

Sextíu og fimm sjúkdómar hafa verið tengdir offitu eingöngu, t.d. sykursýki, hjarta- og lungnasjúkdómar, gigtarsjúkdómar, ótímabærir hrörnunarsjúkdómar, krabbamein og geðsjúkdómar. Allt alvarlegir sjúkdómar og sem gefa góðar vísbendingar um hina nýju heilbrigðisógn sem offitan er og vandamálum tengdum henni. Offitufaraldur sem engan veginn hefur náð hámarki og Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) telur eina mestu heilbrigðisógn 21. aldarinnar í hinum vestræna heimi. Heimsfaraldur sem stefnir að verða flestum heilbrigðiskerfum þjóða ofviða vegna kostnaðar, a.m.k. eins og við höfum þekkt kerfin hingað til og sem leiðir að óbreyttu til heilsuhruns þjóðar.

Algengasta efnaskiptavillan tengt offitunni er skert sykurþol og sykursýki. Þá vantar insúlín miðað við þyngd og síðar í alvarlegasta formi sykursýkinnar, alveg, og briskirtilinn gefst upp. Sykursýkisfaraldurinn er þegar farinn að skella á þjóðinni. Allt að fjórðungur 65 ára og eldri stefna í að enda með fullorðinssykursýki ef þróunin heldur áfram. Milli 5-10% þungaðra kvenna í dag eru þegar haldnar meðgöngusykursýki (flestar of þungar), hættulegu ástandi sem gefur sterkar vísbendingar um framhaldið síðar. Ástand sem getur líka valdið fósturskemmdum og eykur líkur á ofþyngd fósturs og sykursýki hjá nýfæddu barni. Arfleif móður án gena til komandi kynslóðar.

Sjúkleg fíkn í hvítan sykur, er oftast undirrót offitunnar í byrjun og síðan þannig hinnar eiginlegu sykursýki (diabetes mellitus). Íslendingar neyta meira af sykri en nokkur önnur Norðurlandaþjóð. Sumir segja hættulegt fíkniefni sem finnst í miklu magni í sykruðum drykkjum og sem skýra um 20% af allri sykurneyslu landans. Kenningar eru einnig um að sykurinn plati heilann og auki á aðra matarfíkn. Skerðing á óhóflegri sykurneyslu landans sem er fimmföld miðað við ráðleggingar manneldisráða, ætti auðvitað að vera forgangsmál, ekki síst sem snýr að heilbrigði barna. Þegar síðan unga fólkið fær sjúkdóma gamla fólksins fyrir aldur fram.

Flestir vita hvað gerist ef vitlaust eldsneyti er sett á vélar. Eins er með næringuna okkar. Ofneysla af hvítum sykri, ásamt fínum kolvetnum og fitu í stað grófra kolvetna, er aðal ástæða offituvandans í dag. Færri gera sér hins vegar grein fyrir hvaða vöðvarnir þjóna miklu hlutverki til að stjórna brunanum og í svengdarstjórn almennt. Góðir vöðvar sem eru þjálfaðir með stórum og litlum skerfum alla daga, gera miklu meira en að koma okkur bara á milli staða eða lyfta lóðum. 

Með skilaboðum til heilans gegnum úttaugakerfið vilja vöðvar alltaf hámarka orkunýtinguna og losna við óþarfa burð á fitu og helst að fá eldsneyti sem endist vel til lengdar. Eins og öll önnur sjálfbær kerfi sem stöðugt leita leiðréttinga, en með hjálp heilans og fjölgun orkukorna í vöðvafrumum. Ekkert ósvipuð áhrif og við viljum nýjar endurhlaðanlegar rafhlöður í símana okkar þegar þeir daprast. En til að svo megi verða verða vöðvar að fá þjálfun, jafnvel bara með litlum skrefum úti við daglega.

Offeitir ættu að leita eftir hjálp og stuðningi heilbrigðisstarfsfólks í byrjun til að léttast, því enginn er eins, og samverkandi sálrænir erfiðleikar oft miklir. Margir telja að nokkur árangur hafi náðst að sporna gegn ofþyngd barna og unglinga sl. ár. Nú er líka boðið upp á hreyfiseðilinn í heilsugæslunni fyrir fullorðna sem verst eru settir. Bæta þarf oft líka líkamlega líðan og einkenni fylgisjúkdómanna í byrjun. Verkefnið er langtímaverkefni eins og með alla króníska sjúkdóma. En um leið og farið er að ganga aðeins betur, verður hugarfarið skýrara og framhaldið auðveldara. Lífsstílinn er það eina sem virkar, fyrir sálina og heilsuna samtímis. 

 

http://www.dv.is/blogg/vilhjalmur-ari/2014/2/20/heildraen-heilsa-taekniold/

http://www.theguardian.com/society/2014/may/29/uk-western-europe-obesity-study

http://www.thelancet.com/journals/lancet/article/PIIS0140-6736(14)60460-8/abstract

 http://www.medscape.com/viewarticle/814202

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.