Vilhjálmur Ari

Ég er er heimilislæknir (1991) og starfa nú á Heilsugæslunni Firði, Hafnarfirði. Eins starfað á Slysa- og bráðamóttöku LSH sl. 30 ár, nú sem lausráðinn. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins (HH) frá 2009. Læt mér sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja.
Vilhjálmur Ari

ABDE, afsakið smá athyglisbrestur

Ofvirk þjóð?
Ofvirk þjóð?

"Á sama hátt og með ADHD greininguna, eru sennileg miklu fleiri en vitað er um með einhverfuról eða einhverfurófsröskun, eða allt að nokkur þúsund Íslendinga. Eins eru allt að 2/3 hluti þeirra einnig taldir vera með ADHD samkvæmt greiningarskilmerkjum þess sjúkdóms. Þar sem kvíði er líka algengur og oft vanmeðhöndlaður. Allt eru þetta þó spurningar um raunverulega þörf á sjúkdómsgreiningum".

Í tilefni af ADHD deginum í dag, 25 ára afmæli ADHD samtakanna, og ráðstefnu sem haldin er af því tilefni um helgina, endurskrifa ég nú grein um efnið frá því sl. vetur, enda á hún fullt erindi til frekari kynningar á vandamálum tengt athyglisbresti og ofvirkni í okkar þjóðfélagi.

Skammstöfunin stendur fyrir enska heitið “Attention deficit hyperactivity disorder” og sem á íslensku kallast einfaldlega athyglisbrestur með ofvirkni. “Sjúkdómsmynd” sem talin er há að einhverju leiti allt að 10% þjóðarinnar og þegar vöntun er á einbeitingarhæfileikum og viðkomandi er oft of ör. Skortur á athyglisgáfu og einbeitingu sem foreldrar margra barna óska gjarnan eftir að fá sjúkdómsgreiningu á og síðan úrræði við hæfi. Eins núna ekkert síður fullorðnir sem hafa aldrei fengið greiningu vegna ADHD einkenna og sem vísað hefur mátt nú í ADHD teymi göngudeild geðdeildar LSH, en sem ekki er búið að tryggja rekstrargrundvöll á með fjárlögum til næsta árs og nokkur hundruð manns sem bíða. Það er gert ekki síst til að þeir sem hugsanlega gagnist Rítalín og skyld lyf (metýlfenidatlyf) geti fengið útgefin lyfjaskírteini og sem er forsenda lyfjávísunar. Lyf sem þó þegar eru hvergi meira notuð í heiminum í dag en einmitt á Íslandi.

Uppeldið ræður auðvitað miklu hvernig við þroskumst og hvaða hegðun við tileinkum okkur þegar við fullorðumst. En ekkert síður hverning genin okkar eru virkjuð af umhverfinu. Sjúkdómsmyndin ADHD er vissulega ágætlega skilgreind og sem truflar einstaklinginn og hans nánasta umhverfið á margan hátt. Með taugaeðlisfræðilegri greiningu og sálfræðilegum prófum er hægt að sýna að heilinn starfi aðeins öðruvísi. Námserfiðleikar og hætta á að detta úr námi er fyrir hendi, með síðkomnum afleiðingum út allt lífið. Kvíði og þunglyndi eru oft algengir fylgikvillar ADHD síðar meir, í og með vegna árekstra við umhverfið. Eins er þannig meiri hætta á misnotkun áfengis og jafnvel sterkra efna ef illa gengur og þegar fólk leggur á flótta frá umhverfinu.

Sjúkdómsmynd ADHD er hinsvegar mjög mismunandi, ekki síst með tilliti til hvatvísinnar sem er oft meira áberandi hjá drengjum. Athyglisbresturinn er þó stærsti hamlandi þátturinn í starfi og námi. Á sumum sviðum getur hvatvísin hins vegar líka verið örvandi fyrir fróðleiksfýsn og sköpun. Margir nýta sér þennan eiginleika, læra hluti á annan hátt og komast stundum hratt yfir. Eru jafnvel betur í stakk búnir til að takast á við flókin vandamál þar sem krísuástand ríkir og mikilvægt er að taka fljótt ákvarðanir. Sjá stundum lausnir á vandmálum sem aðrir sjá ekki.

Ýmsar aðrar þroskaraskanir eru oft algengar með ADHD, meðal annars lesblindan. Þar hefur reyndar líka verið sýnt fram á vissa aðra góða eiginleika, s.s. aukna samfélagslega næmni fyrir tilfinningum annarra, m.a. sð setja sig betur í spor annarra sem líður illa. Hafa þannig að sumu leiti aukinn félagslegan þroska í beinum tjáskiptum og öðrum samskiptum. Winston Churcill fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands var til dæmis talinn hafa verið með lesblindu, maður sem leiddi þjóð sína ásamt bandamönnum til sigurs í seinni heimstyrjöldinni. Merkileg persóna sem lét hafa eftir sér þegar hann var orðinn gamall, að hann hafi alltaf verið góður að læra, en átti erfitt með að láta einhvern annan kenna sér. En hvaðan kemur þá þessi eiginleiki upphaflega sem virðist oft svo truflandi í nútímasamfélaginu?

Stundum hefur líka verið sagt í hálfgerðu gríni að Íslendingar séu ofvirk þjóð og að genin hafi e.t.v. komið meira en góðu hófi gegndi með óstýrlátum forfeðrum okkar og kallaðir voru víkingar. Eins að því lýðveldið sé ungt, rétt komið á táningsaldur, að það kunni ekki alltaf fótum sínum forráð. Eitt er þó víst að sjúkdómsmyndin ADHD er vel staðfest hér á landi í mörgum myndum og þræl-ættgeng. Áhættan á að greinast með ADHD er jafnvel miklu meiri ef jafnvel bara annað foreldrið er með staðfesta greiningu.

Talið er að ADHD megi að einhverju leiti rekja til erfðaefna sameiginlegra forfeðra okkar allra í Ástralíu og þaðan með fólksflutningum um heiminn. Genatengsl sem upphaflega koma frá frummanninum sem þurfti að vera góður veiðimaður og naskur á að finna t.d. vatn í mörkinni. Hvatvís, vökull og útsjónarsamur á ögurstundu. Þessi eiginleiki kom síður að gagni löngu síðar í akuryrkju og með fastri búsetu í bændasamfélaginu og enn síður í iðnaðarsamfélaginu sem þróast hefur til dagsins í dag. Þegar í vaxandi mæli við þurfum að taka tillit til annarra í flóknu námi og atvinnulífinu. Eins vegna neysluvenja okkar á mörgum sviðum svo sem mikillar sykurneyslu sem hentar ADHD einstaklingum sérstaklega illa. Þannig er í raun ekki hægt að segja að eiginleiki sem upphaflega var bundinn í genunum við aðrar aðstæður og þarfir en eru ríkjandi í dag sé sjúkdómur, heldur miklu frekar röskun sem þróunin og þjóðfélagið sjálft á stóran þátt í að skapa.

ritalin-aldurÚræði við vandamálum sem tengjast ADHD eru mikilvægust fyrir þá yngstu og snýst þá mest um þörfina á sérkennslu og hugsanlega lyfjameðferð. Til að börnin geti nýtt sér sem best grunnnámið í skólum og síðan að fá möguleika á að halda áfram í námi. Á allra síðustu árum er líka mikil umræða um mögulega meðferð fullorðinna, þar sem skólakerfið brást algjörlega þörfum þeirra á sínum tíma. Rítalin og skyld lyf (metýlfenidatlyf) eru nú notuð í öllum aldurhópum til meðferðar á ADHD, oft með góðum árangri. Umræðan um notkunina hjá fullorðnum er hins vegar oft lituð neikvæðum tónum þar sem lyfin hafa stundum gengið kaupum og sölum sem læknadóp.

Á sama hátt og með ADHD greininguna, eru sennilega miklu fleiri en vitað er um með einhverfurófsröskun, eða allt að nokkur þúsund Íslendinga. Eins eru allt að 2/3 hluti þeirra einnig taldir vera með ADHD samkvæmt greiningarskilmerkjum þess sjúkdóms. Þar sem kvíði er líka algengur og oft vanmeðhöndlaður. Allt eru þetta þó spurningar um raunverulega þörf á sjúkdómsgreiningum og fram kom í góðri grein Dr. Evalds Sæmundsen, sálfræðings fyrir rúmlega ári síðan.

Þörf fyrir góð úrræði við ADHD einkennum í nútíma þjóðfélagi eru mikil, hvernig sem á þau er litið. Hraði og óþolinmæði annarra er sennilega verstu áhrifaþættirnir fyrir ofvirka að þrífast í, ekki síst í upphafi skólagöngu. En munum samt að sennilega er ADHD aðeins tilbrigði í hinu mannlega litrófi og að yfirleitt bætum við vel upp hvort annað í samskiptunum okkar á milli. Veikleiki á einu sviði þýðir nefnilega oft styrkleiki á öðru. Sameiginlega byggjum við síðan upp gott samfélag og reynum að styðja hvort annað.

Taktu STROOP TESTIÐ og vittu hvort þú ert með athyglisbrest 

http://www.snre.umich.edu/eplab/demos/st0/stroopdesc.html

http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2011/01/29/alvarleg-misnotkun-ritalins-medal-fullordinna-a-islandi/

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.