Vilhjálmur Ari

Ég er er heimilislæknir (1991) og starfa nú á Heilsugæslunni Firði, Hafnarfirði. Eins starfað á Slysa- og bráðamóttöku LSH sl. 30 ár, nú sem lausráðinn. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins (HH) frá 2009. Læt mér sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja.
Vilhjálmur Ari

Hinir ósýnilegu gluggar heilsunnar

Glymur, október 2013
Glymur, október 2013

Í framhaldi af greininni, Rafræn huggun og þunglyndi í kreppu, og í tilefni af Alþjóða geðheilbrigðisdeginum fyrir 2 vikum, er rétt að líta betur á hvað andleg vellíðan og félagslegt öryggi skiptir okkur í raun öll miklu máli.

Líklega gera fáir sér grein fyrir hvað góð tengsl hvort við annað eru í raun mikilvæg alla ævina og hvernig þau geta komið í veg fyrir ákveðna sjúkdóma og ótímabæra hrörnun. Hvernig við tjáum erfðaefnið okkar í upphafi lífs í móðurkviði og síðar þegar við treystum á samskipti við okkar nánustu. Í okkar umhverfi þar sem hættur geta falist við hvert fótmál, enda þróast í árþúsundir sem félagsverur sem treysta mest á samhjálp og styrkleika hjarðarinnar. Ekkert síður til að viðhalda líkamlegri heilsu en andlegri. Hvernig við mótum hugsanir okkar með tjáningu hvort við annað við flókin úrlausnarefni daglegs lífs. Netið okkar á milli og hin ósýnilegu tengsl eru hins vegar svo hversdagsleg, að við hugum oft ekki að mikilvægi þeirra eða gleymum þeim í kappræðum dagsins, oft um algerlega þarflausa hluti. Á síðustu árum hefur engu að síður með hjálp vísindanna komið betur í ljós hvað nærumhverfið mótar okkur á allan hátt. Ekki bara í heimi félagsvísinda, heldur nú einnig lífvísindanna og sem saman hafa myndað nýjan þekkingargagnagrunn. Sem nálgast sjálfa „sálina“ ef svo má segja og sem áður var með öllu óáþreifanleg.

Þarna er ég ekki að tala um hina nýuppgötvaða Guðseind í atómheiminum sem á að líma allt (en sem reyndar á ekkert skylt við hugtakið guð nema að því leiti að hún hefur ávallt verið ósýnileg eins og hann, þar til nýlega). Útskýringar sem eru meira en bara efna- og erfðafræðilegar, að við erum eins og við erum. T.d. hvernig eineggja tvíburar geta verið ólíkir þegar þeir fullorðnast, ef þeir hafa alist upp við ólíkar aðstæður og mismunandi áföll í æsku. Þannig ekki bara tengt mismunandi næringu, hreyfingu og mismunandi efnafræðilegu áreiti í umhverfinu sem skipta auðvitað miklu máli, heldur hvernig félagslegt öryggi og samskiptin geta ráðið miklu um tjáningu litninganna og sem stuðla að, að gera okkur að því sem við erum. Ósýnilegir þættir sem opna og loka genunum eins og gluggum, allt eftir því hvernig úti blæs hverju sinni.

Tengslin eru þó sýnilegri með naflastrengnum, og síðar með móðurmjólkinni. Með allskonar boðefnum sem oft er þó lítið vitað um nema streituhormóninn, og síðar með snertingu, sjón og heyrn strax á fyrstu dögum nýfædds barns. Með augntengslum og brosi, öryggistilfinningu móður og eftirhermu ungbarns. Allt þættir sem e.t.v. leggja stærsta grunninn að heilsunni okkar síðar, andlega sem líkamlega. Hvernig við þroskumst sem einstaklingar og getum tengst hverju öðru og tekist á við erfiðleika lífsins. Ekki síður hvort við fáum svo hina ýmsu sjúkdóma sem liggja í leyni í erfðaefninu okkar. Hvort við fáum t.d. háan blóðþrýsting fyrir aldur fram, krabbamein, sykursýki eða þunglyndi. Í raun flesta þá félagslegu og sál-líkamlegu sjúkdóma sem ég kann að nefna.

Allt eru þetta mikilvægir gluggar, en flestir ósýnilegir með berum augum og sem stjórnmálamennirnir mættu gjarnan hafa í huga nú í umræðunni um mikilvæg heilbrigðismál og forgangsröðun verkefna. Eins þegar hugað er að t.d. nýjum lögum um staðgöngumæðrun, því staðgöngumæðrun er ekki sama og blóðgjöf eins og einn þingmaður vildi meina í umræðunni á Alþingi um málið fyrir tveimur árum. Hvernig þjóðfélag við viljum byggja upp og hvaða áherslur á að leggja á félagslegt öryggi og fjölskylduvernd. Allt hlutir sem voru til ítarlegrar umræðu á Læknadögum í fyrravetur undir fyrirsögninni „Máttur tengsla. Áhrif lífsreynslu á heilsufar“ þar sem m.a. Linn Getz, læknir hélt fyrirlestur um efnið. Efni sem á eftir að verða mikið meira fjallað um á komandi áratugum. Um hinn áður óþekkta heim og sem við vitum ennþá allt of lítið um, en þar sem tengsl þess efnislega, félagslega og andlega eru alltaf að verða skýrari.

Í mæðravernd og ungbarnaheilsuverndinni reynir heilbrigðisstarfsfólk að styrkja tengsl foreldra við börnin, og stuðla þannig að því að sem börn fái betra veganesti út í lífið. Þrátt fyrir niðurskurð og miklar brotalamir í heilbrigðiskerfinu okkar í dag, að þá má segja að þessi grunnur standi á sterkari stoðum en flestir aðrir. Þar sem foreldrum er gefinn góður tími og hægt er að miðla nauðsynlegri fræðslu og þekkingu, enda almenn velferð barna sennilega besti grunnurinn að heilbrigði framtíðarinnar. Meiri tími en þekkist því miður annars staðar í heilbrigðisþjónustunni og þegar þú ert sjúkur. Stofn sem allt heilbrigðiskerfið bíður nú eftir að geta byggt betur á til framtíðar, og að einstaklingarnir nái að dafna með sterkum greinum í allar áttir þar sem sjúkdómarnir herja.

Margar greinar læknisfræðinnar eru hins vegar illa farnar í dag og sumar rætur jafnvel farnar að morkna, enda hafa stjórnvöld látið hjá líða að vökva þær og næra nægjanlega. Í raun allt hið íslenska samfélag sem hefur verið upptekið af öðrum hlutum. Bráðlausnir og einstaka blóðgjafir duga nú ekki lengur til, heldur heildrænar lausnir fyrir allt heilbrigðiskerfið. Frá getnaði til grafar.

Styttri útgáfa af greininni var birt í helgarblaði DV, 18.10 sl.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.