Vilhjálmur Ari

Ég er er heimilislæknir (1991) og starfa nú á Heilsugæslunni Firði, Hafnarfirði. Eins starfað á Slysa- og bráðamóttöku LSH sl. 30 ár, nú sem lausráðinn. Doktorspróf frá Læknadeild HÍ 2006 og klínískur dósent við Heilsugæslu Höfuðborgarsvæðisins (HH) frá 2009. Læt mér sérstaklega annt um gott og réttlátt heilbrigðiskerfi og skynsamlega notkun lyfja.
Vilhjálmur Ari

Rafræn huggun og þunglyndi í kreppu

Alþjóða geðheilbrigðisdagurinn  var í síðustu viku, 10. október, í ár með áherslu á geðheilsu á efri árum. Umræða um mikla geðlyfjanotkun aldraða var áberandi í fréttum nýlega, en minni um vaxandi fjölda fullorðinna sl. misseri sem enda á örorkubótum vegna atvinnumissis og félagslega erfiðleika tengt þunglyndi. Mjög lítil umræða er hins vegar um þann stóra hluta þjóðfélagsþegna á öllum aldri sem þurfa að taka orðið þunglyndislyf daglega vegna langvarandi kvíða og einangrunar í þjóðfélaginu. Hverjar eru helstu ástæður þunglyndis sem ekki voru jafn algengar áður? Er hugsanlegt að hluti af skýringunni séu ofgreinar og ofnotkun á nýju SSRI þunglyndislyfjunum eins og sumir vilja halda eða er vöntun á öðrum úrræðum? 

Danir hafa haft miklar áhyggjur af geðlyfjanotkun sinni og sem hefur ítrekað verið til umfjöllunar í danska ríkissjónvarpinu dr.dk sl. sumar (Danmark på piller). Umfjöllun um mikilvæg heilbrigðismál sem ríkisfjölmiðlarnir hér á landi mættu gjarnan taka sér til fyrirmyndar. Tólfti hver Dani notar þunglyndislyf, en hingað til hefur verið áætlað að aðeins 10-20% einstaklinga eigi við tímabundið þunglyndi að stríða, einhvern tímann á lífsleiðinni. Tíu prósent þjóðar á hverjum tíma eins og lyfjanotkun Dana bendir til, leiðir auðvitað hugann að ofnotkun þessara lyfja. Eins þar sem notkun þunglyndislyfja hefur aukist um helming meðal unga fólksins. Eða eru skýringarnar aðrar?

Rannsóknir sýna að langvarandi kvíði og spenna geta auðveldlega leitt til þunglyndis. Þunglyndi virðist þannig geta átt rætur í minni mannlegum tengslum hvert við annað, sem og oft óhóflegu álagi og áreiti í nútímaþjóðfélagi. Meira en mannlegur máttur ræður við og við höfum þróast sem félagsverur til að þola. Á sama tíma og hvert okkar eyðir miklu meiri tíma í rafrænni huggun og samskiptum, ekki augliti til auglits. Þar sem maður er líka manns gaman. Endalaust tal við sjálfan sig og tölvuna eða snjallsímann og sem getur varla boðað gott til lengdar. Helstu einkennin eru síðan depurð, viðkvæmni og neikvæðni sem og síðan verkkvíði, lækkað sjálfsmat og skerðing á allri samskiptalegri færni. Nokkuð sem sálfræðimeðferðin reynir fyrst og fremst að laga og styrkja. Meðal annars með stuðningsviðtölum, hugrænni atferlismeðferð, íhugun og góðum hughrifum (gjörhygli) ásamt djúpslökun og jafnvel dáleiðslu. Að fokusera á styrkleikana og það jákvæða.

Áhugverð grein birtist í Fréttablaðinu fyrir tveimur árum eftir Steindór J. Erlingsson, vísindasagnfræðing, sem benti á þá staðreynd að örorka vegna geðraskana hefði aukist hratt hér á landi, þrátt fyrir mikla aukningu á notkun geðlyfja og sem greinilega væri þá ekki nægjanleg lækning. Hann benti m.a. í greininni á þá staðreynd að hátt í tvöfalt fleiri endi á örorku í dag vegna þunglyndis en fyrir tveimur áratugum síðan, þ.e. meðal kvenna úr 14% í 29% allra helstu orsaka fyrir örorku og meðal karla úr 20% í 35%. Vísaði hann þar til rannsóknar sem íslenskir aðilar stóðu að (Sigurð Thorlacius og félagar, Journal of Mental Health). Svipaðrar þróunar gætir einnig í Bandaríkjunum, en á undanförnum tveimur áratugum hefur örorka vegna geðraskana þar í landi þrefaldast, og er orðin önnur algengasta ástæða örorku. Fjöldi örorkulífeyrisþega á Íslandi er nú rúml.15.000 og hefur þeim fjölgað um tæplega helming á síðustu 10 árum. Aukinn kostnaður samfélagsins vegna þessarar þróunar nemur mörgum milljörðum króna á ári. Því er líka til mikils fjárhagslega ávinnings að vinna ef koma má í veg fyrir stóran hluta örorku með félagslegum úrræðum og sem annars geta leitt til þunglyndis og varanlegrar örorku.

Sennilega eru samvirkandi þættir sem skýra best í dag mikla notkun þunglyndislyfja hér á landi. Lyfin (aðallega svokölluð SSRI lyf) eru einnig notuð á aðrar geðraskanir en hreinu þunglydi, tengt kvíða og spennu. Eins m.a. ADHD (athyglisbrest með ofvirkni) hjá börnum og unglingum. Betra aðgengi að lyfjunum, á sama tíma og skortur er á félags- og sálfræðilegum úrræðum sem styrkt getur félagsleg tengsl og sjálfsbjargarviðleitni. Væg þunglyndiseinkenni geta líka komið fram hjá flestum fullorðnum ef fjárhagslegar áhyggjur eru of miklar og langvarandi, ekki síst þegar við bætist efnahagsleg óvissa í þjóðfélaginu öllu og yfirvofandi atvinnumissir margra. Lyfjameðferð er þó í flestum tilfellum aðeins beitt vegna langvarandi þunglyndiseinkenna og sem geta þá oft hjálpað mikið í byrjun. Lyfin hjálpa oft einstaklingi í byrjun að taka fyrstu skrefin, áður en viðkomandi er tilbúinn að vinna betur í sínum sálfræðilegu málum, með sál- og félagslegri meðferð ef hún á annað borð er í boði. Íslenskir geðlæknar hafa enda komist að þeirri niðurstöðu (2004) að hröð aukning á ávísun þunglyndislyfja hér á landi minnki ekki þann mikla vanda sem þunglyndi sjálft veldur til lengri tíma.

Vinnan er öllum mikilvæg, starfsánægjunnar vegna og til félagslegrar styrkingar. Á tímum eins og við nú lifum hafa hópuppsagnir fyrirtækja hafa verið nær daglegt brauð. Þá er sérstaklega mikilvægt að að vera vel á verði og að ekki sé verið að rugla saman félagslegum réttindum vegna atvinnumissis og endurhæfingar- og örorkumati vegna heilsubrests til vinnu. Eitt af hlutverkum heilsugæslunnar er engu að síður atvinnuheilsuvernd í þeim skilningi að viðhalda starfshæfni einstaklingsins og að reyna að koma í veg fyrir ótímabæra örorku, ekki síst vegna geðraskana. Hvað varðar félagsfærni og menntun er það síðan ekkert síður mál bæjar- og sveitafélaga að veita framfærslustyrki og önnur úrræði þegar réttur til atvinnuleysisbóta þrýtur og sem margir standa nú frammi fyrir í dag.

Heimilislæknar skilgreina vanda sjúklings ekkert síður út frá líðan og getu, en ákveðnum sjúkdómsgreiningum. Allir hljóta að sjá að fólki sem atvinnan er kippt undan, ekki síst sem hefur unnið langa starfsævi hjá sama fyrirtækinu, á ekki marga kosti í stöðunni. Sér í lagi ef heilsan er ekki upp á það besta eins og gengur. Verkalýðsfélögin og starfsmannasamböndin koma þessu fólki nú í dag til hjálpar með boði um starfsendurhæfingu hjá VIRK og mati sem byggist á fjölþáttaendurhæfingu, sálfræðihjálp, félagsráðgjöf og sjúkraþjálfun í samvinnu við heilsugæsluna. Myndarlega hefur verið staðið að þessu verkefni frá því hún byrjaði fyrir um 3 árum síðan og sem þegar hefur komið í veg fyrir varanlega örorku vegna kvíða og þunglyndis hjá mörgum. Ekkert síður ómarkvissri og meiri notkun geðlyfja vegna utanaðkomandi erfiðleika í þjóðfélaginu sjálfu, og sem því miður virðist í dag sjálft að niðurlotum komið.

Mikil og vaxandi notkunin þunglyndislyfja endurspeglar þannig vaxandi félagslegan vanda í okkar þjóðfélagi í dag og sem á sennilega eftir að aukast eftir því sem líður á kreppuna. Vandi sem sýndi sig best eftir kreppuna í Finnlandi fyrir þremur áratugum síðan. Kvíði, spenna og vöntun á hamingju á heimilum sýndi sig þannig vera stærsti áhættuþátturinn í geð- og félagslegum erfiðleikum barna- og unglinga, en sem kom best í ljós löngu síðar og þá hjá kynslóðinni sem stundum hefur verið kölluð týnda kynslóðin. Finnar eru ennþá daginn í dag að fást við þessar afleiðingar. Reynsla þeirra á að vera okkur hvatning að gera ekki sömu mistökin og hlúa strax betur að fjölskyldugildunum, og unga fólkinu sem erfa á landið.

http://blog.pressan.is/vilhjalmurari/2010/03/18/lyf-eda-ekki-lyf-vid-thunglyndi/

(Greinin var birt í helgarblaði DV 11.10. sl. undir heitinu, Þunglyndi þjóðar)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.