Veröld Tobbu

Tobba Marinós er landsþekkt fyrir ferskleika í umræðum og óhrædd við að viðra skoðanir sínar og skemmtilegar frásagnir af daglegu lífi. Hún hefur gefið út þrjár bækur, stýrt sjónvarpsþáttum, er annálaður listamaður í eldhúsinu - og einfaldlega skemmtileg! Ath; þetta blogg er ekki fyrir teprur eða fýlupúka.
Veröld Tobbu

LEONCIE LÉT BÍÐA EFTIR SÉR Í TVO TÍMA - MYNDBAND!

Þá var komið að því. Ég var búin að maka á mig meiki og á leiðinni á Gauk á Stöng að sjá Leoncie stíga á stokk. 

Ég fór i rándýrum félagskap út að borða fyrst - ekkert minna en rauðvín og steik dugði. Þetta yrði jú tímamóta kvöld. Við mættum strax og húsið opnaði kl. 21:00 til að fá sæti nálægt sviðinu, en ekki mörg sæti eru í húsinu. Full eftirvætingar sat ég á besta stað í húsinu með gin og tonic á kantinum og myndavélina tilbúna. Taktföst danstónlist dunaði og dansgólfið var stútfullt fyrir klukkan tíu. Virkilega góður plötusnúður sá um að allir væru vel heitir þegar Dr. Spock steig á svið klukkan 23:00 en tónleikarnir áttu að hefjast kl 22.00. Spock drengirnir voru vel biðarinnar virði og fóru algerlega á kostum. Þeir þökkuðu fyrir sig og stigu af sviði en þá leið og beið. Brugðið var á það ráð að setja upp tjald á sviði og sýna í kringum tíu video-myndbönd með prinsessunni. Svo kláraðist sú spóla og leið og beið. Þarna hefði verið sniðugt að bjóða afslátt á barnum. 

Fólk var farið að kalla nafn prinsessunar með taktföstum hætti og púa á milli.

LEONCIE! LEONCIE! LEONCIE! BÚÚ!! LEONCIE! LEONCIE! LEONCIE! 

Allavega seint og síðar meir, klukkan að ganga eitt, mætir prinsessu splæsið ásamt 4 dyravörðum sem komu henni upp á svið, öllum 14 merkunum. Ekkert var minnst á seinkunina og prinsessan tók að munda míkrófónin. Festist reyndar í glimmerpeysunni en komst loks úr henni. Þá kom í ljós fagurblár toppur, sokkabuxur og vinalegar rasskinnar sem gægðust undan toppnum.

Taktfastur dans tók við og fólk hreinlega trylltist af gleði. Flestir virtust fyrirgefa ansi hratt um leið og tvær mismunandi hárkollur tóku sviðið undir sig. Leoncie kann kannski ekki á klukku en hún kann að skemmta fólki. Myndirnar segja rest. Hún stóð undir öllum mínum væntingum - ógleymanlegt kvöld! Fögnum fjölbreytileikanum - þó svo að hann sé stundum snípsíður og seinn!

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.