Veröld Tobbu

Tobba Marinós er landsþekkt fyrir ferskleika í umræðum og óhrædd við að viðra skoðanir sínar og skemmtilegar frásagnir af daglegu lífi. Hún hefur gefið út þrjár bækur, stýrt sjónvarpsþáttum, er annálaður listamaður í eldhúsinu - og einfaldlega skemmtileg! Ath; þetta blogg er ekki fyrir teprur eða fýlupúka.
Veröld Tobbu

MEGA FEMÍNISTAR MÁLA SIG ?


Ég fór í viðtal í dag og fékk spurninguna: “Ert þú femínisti?”

Þetta orð er nóg til að fá mig til að svitna. Ég fann hvernig efri vörin á mér varð rök. “Hvað er hún að spyrja mig að þessu?” hugsaði ég og byrjaði að raða saman rökum í huga mér. “Er þetta skot á bolinn sem ég er í? Eða glossinn?”

- “Já,” svaraði ég og hóf að rökstyðja svar mitt. Afhverju? Jú ég veit hvernig ég lít út. Ég sat þarna í háu hælunum mínum, með bleikan gloss og með hálsmál sem staðfesti nokkuð greinilega tilvist tvíburasystranna framan á mér.

En hvað er það? Afhverju fannst mér að ég yrði að rökstyðja svar mitt? Mega femínistar ekki mála sig og dýrka háa hæla (helst 7 cm eða lengri.) Tuggan um að bara vitlausar og yfirborðskenndar konur hugsi um útlitið eru orðnar þreyttari en Árni Johnsen á þjóðhátíð.

Er ekkert á milli þess að vera harður femínisti og kona sem þráir að læra að baka marglitar múffur og bródera? Og er ekkert á milli týpunnar sem þráir að vera hin fullkomna móðir og konunnar sem langar mest af öllu að giftast fótboltamanni og sitja fyrir í Playboy?

 

Hvað varð um bæði er betra? Hætti það að vera fullnægjandi svar sama dag og ég hætti að borða Cheerios? Hvað ef ég vil vera bæði vitsmunavera og kynvera? Og enda þannig sem femínisti og kynbomba?

Lipstick femínismi er orð sem er gjarnan notað yfir þessa pælingu og viðurkennir þörfina fyrir femínisma sem brúar bilið. Því miður er búið að eyðileggja orðið femínisti að miklu leyti. Það er gjarnan notað í niðrandi merkingu sem mér finnst afar sorglegt. Þegar ég var lítil fannst mér það vera orð yfir hetju. Svona eins og Superwoman. Konu sem gat breytt hlutum, gert og græjað. Ekki bitra kynsvelta og kafloðna konu. Hvernig varð orðið femínismi að gælunafn yfir Grýlu?

Ég vil ekki hafa það fyrir ófæddum dætrum mínum (nei ég er ekki ólétt) að þær eigi að taka að sér störf hvort sem þær vilja þau eða ekki því það vanti fleiri konur í þau. Það er valdbeiting og allt það sem femínismi stendur gegn. Það er mikilvægt að hafa konur á sem flestum stöðum en við verðum að athuga hvort þær vilji í raun og veru vera þar. Annars er verið að ala upp fleiri Georga Bjarnfreðarsyni (með allan þann samfélagslega kostnað sem svoleiðs nöttkeisi fylgir) sem eru sýrðir í hausnum af ofurfemínískum pælingum mæðra sinna sem er þrýst upp á börnin. Hér er ég að tala um öfga sem eru því miður fáanlegir í öllum deildum og skemma fyrir öllum hinum. Það man engin eftir venjulega femínistanum sem lúkkaði nokkuð sane. Það muna hinsvegar allir eftir þessari klikkuðu.

Niðurstaða mín er sú að ég vil jafnrétti. Ég vil konur á fleiri staði. En þær verða að vilja það sjálfar. Ég hef orðið vitni að því að verið er að leita af konum í störf til að jafna út kynjahlutfall í stað þess að ráða einn af umsækjendum sem var hæfur karlmaður. Er virkilega betra að biðja einhvern vinsamlegast að taka að sér starf heldur en að láta einhvern með einlægan áhuga fá starfið – bara af því að hann er með tippaling? Er það ekki valdníðsla og kvenremba?

Ég sat fund fyrir nokkru þar sem Reynir Traustason ritstjóri DV sat fyrir svörum. Þar voru nokkrar hressar týpur að spyrja út í afhverju svona fáar konur störfuðu á blaðinu. Reynir svaraði því að þær væru einfaldlega ekki að sækja eins mikið um. Hann sagðist frekar ráða konu ef hann væri með tvo jafn hæfa einstaklinga til að jafna út kynjahlutfallið en þær væru bara ekki að sækja um. “Afhverju býður þú þeim ekki starf af fyrra bragði þá?” spurði ein.

Þarna var mér nóg boðið. Ég bað þær konur sem voru á staðnum (allt fjölmiðlakonur) vinsamlegast um að rétta upp hönd ef þær höfðu sótt um starf á DV en ekki fengið viðtal eða starf. Engin rétti upp hönd.

Niðurstaðan er sú að konur vilja ekki endilega vera þar sem kemur vel út tölulega séð að rétta af kynjahlutfallið. Ég held að það ætti bara að leyfa þeim að vera þær sem þær vilja vera og klæða sig eins og þær vilja. Er það ekki bara góð stefna?

Það er klárlega gott að hvetja konur til að ætla sér meira og stefna hærra á eigin forsemdum en það er ekki fallegt að gera lítið úr draumum sem eru ekki manns eigin eða passa ekki inn í tölfræðina.

Ég hef breytt svari mínu úr femínísti í Varalitað Viskustykki (Lipstick Feminist). Og ég held ég fari að nota enn meiri varalit.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.