Traust og fjölmiðlar

Fjölmiðill verður að njóta trausts til að mark sé takandi á honum. Þeir sem skrifa á fjölmiðli nærast bæði á trausti hans, og efla traustið sem aðrir bera til hans.

Ég sendi bréf til fjölmiðlafrelsisfulltrúa öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu í síðustu viku, þar sem ég lýsti áhyggjum mínum yfir ástandinu á Íslandi, vegna hinnar fjandsamlegu yfirtöku á DV og ákvarðanna nýrra eigenda, og vegna þeirra sviptinga sem hafa átt sér stað á ritstjórnum Fréttablaðsins og Stöðvar 2. Þetta geri ég ekki að gamni mínu: ég veit vel að Dunja Mijatović hefur nóg betra við tímann sinn að gera en að sinna einhverjum smáprumpmálum.

Þetta er ekki smáprumpmál. Þessar undarlega samstilltu breytingar á ritstjórnum stærstu fjölmiðla landsins í átt að betri samþættingu við fréttir úr Hádegismóum er beinlínis aðför að íslensku lýðræði. Án frjálsrar fjölmiðlunar er ekkert lýðræði.

Það er nánast ómögulegt, í ljósi þess sem hefur gerst, að fullyrða að þessir fjölmiðlar séu enn frjálsir.

Ég hef treyst DV ágætlega undanfarin ár. Þrátt fyrir að eiga fullmörg tabloid-móment og vera stundum fulldramatískur, þá hefur DV skarað framúr í rannsóknarblaðamennsku og oft þorað að taka á málum sem aðrir snerta ekki. Því er að þakka góðri ritstjórn og mörgum prýðilegum blaðamönnum.

Bloggið á DV hefur því verið góður staður til að tjá sig í gegnum tíðina. En núna, vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á eignarhaldi og rekstri DV undanfarnar vikur, er ekkert traust eftir. Ég vil alls ekki leggja nafn mitt við þennan fjölmiðil eins og staðan er í dag.

Kannski það skáni, með tíð og tíma, en þangað til er hægt að finna mína pistla (bæði á íslensku og ensku) á vefsíðunni minni.

Bæ.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.