Unnur H. Jóhannsdóttir

Unnur er með B.A í kennsluvísindum, diploma í fötlunarfræðum, diploma í Hagnýtri fjölmiðlun og M.A í blaða- og fréttamennsku. Unnur hefur áhuga á samskiptum fólks, samfélagsmálum og bara manneskjunni almennt.
Unnur H. Jóhannsdóttir

GALINN GUNNAR SMÁRI!

Gunnar Smári Egilsson, formaður SÁÁ, fer hamförum í viðtali við Mikael Torfason í SÁÁ blaðinu sem fylgir Fréttatímanum nú um helgina. Reyndar verð ég að viðurkenna að ég skildi ekki helminginn af því sem Gunnar Smári var að fara, því ekki vantaði fullyrðingarnar og gífuryrðin, en ef ég skildi Gunnar Smára rétt þá er menntun til alls ills, ekki síst grunn- og framahaldsskólamenntun sem er beinlínis ungu fólki óholl. Þeir skólar eru víst alvondir og leika sér að því að láta nemendum líða illa. 

,,Við alkólhólistarnir verðum að hofast í augu við að það er verið að fara mjög illa með unga fólkið okkar. það er verið að ýta því út á jaðarinn í samfélaginu. Það er búið að hamra á því síðan einhvern tímann í grunnskóla að það sé mislukkað, gallað og eigi enga framtíð - nema það verði eins og Hin. Og Hin eru fólk sem situr stillt í skóla fram undir þrítugt, sleppur  út með einhverja B.A-gráðu og situr svo á rassinum á einhverjum fundum inn daginn inn og út. Auðvitað er ekkert að því ef einhverjir vilja verja lífi sínu svona. En að ætla öllum að troða öllum inn í þetta mót - með góðu og illu, fémútum og lyfjagjöfum - er náttúrulega galið," segir Gunnar Smári.

Og eins og til að sanna orð sín þá hefur hann safnað saman farsælu listafólki á mynd, eins og Bubba Morthens, Tolla, Jóni Gnarr, Mikael Torfasyni, sem tók viðtalið, KK, Sigurjóni M Egilssyni, Stefáni Mána og Guðmundi Oddi sem flestir eiga það sameiginlegt að vera fallistar í skóla, nema einn sem auðvitað ætti ekki að vera á myndinni enda með B.A-próf en það er Einar Örn, fyrrverandi sykurmoli. Mér finnst í þessu felast frekar hallærisleg skilaboð: Sjáið okkur, við erum miðaldra karlmenn með enga menntun en samt frábærir listamenn enda líka óvirkir alkar. Og hvar eru konurnar? Eru engar sökksessful fallistar þar?

Normið er hættulegt

Nú veit ég ekki hvort að Gunnar Smári hafi kynnt sér þessi skólastig síðan hann var í skóla en ég get fullvissað hann um, bæði sem kennari og sem móðir barns í grunnskóla að margt hefur breyst á síðustu 40 árum. Það er bæði meiri list- og verkkennsla en áður og minni páfagaukalærdómur. Þá er reynt að koma til móts við sérþarfir hvers og eins. En það kallar Gunnar Smári: ,,Og það mætti sýna því skilning ef fólk væri ekki reyna finna ástæðuna hjá þeim sem vilja vera í þessum gölluðu skólum. Það er verið að greina þessa krakka með athyglisbrest, ofvirkni, félagsfælni, námsörðugleika, lesblindu, óvirkni, persónuleikaröskun og Guð má vita hvað ekki; bara vegna þess að þau falla ekki inn í það form sem var aldrei ætlað þeim."

Gunnar Smári fer hér um víðan völl og er virkilega ónákvæmur, og greinlega slétt saman, þrátt fyrir að vera fyrrverandi blaðamaður að fara nokkurn veginn rétt með: Börn eru ekki greind í grunnskóla með félagsfælni, persónuleikaröskun, óvirkni eða Guð má vita hvað. En það er reynt, ef þau eiga við námsörðugleika að stríða, sem getur því miður, verið ein af ástæðunum fyrir því að þau falla úr námi að aðstoða þau og styðja og sem betur fer eru til miklu betri aðferðir en fyrir nokkrum áratugum svo mörg ná að ljúka háskólagöngu með réttum stuðningi. 

Börn pínd til leiðinda

Gunnar Smári virðist hins vegar ekki deila þeirri skoðun með flestum að menntun er og mun verða undirstaða farsældar þjóða í framtíðinni og menntun er líka farsæl fyrir einstaklinginn. Hann er mjög upptekin af því að börn séu pínd til að læra eitthvað sem þau hafa enga ánægju af og leiðist. ,,Ég er að tala um að vera píndur til að klára eðlisfræði 103, dönsku 102 og félagsfræði 303 án þess að sjá nokkurn tilgang í því, hafa enga ánægju af því að og af þeim sökum leiðast kennarinn, þola ekki námsefniið og hata skólann með manni og mús. Heldurðu að þú kæmist einhvern tímann í gegum þetta án þess að sýna einhver einkenni röskunar? Spurningunni er beint til blaðamanns. 

En Gunnar Smári svarar sjálfur spurningunni : ,,Þú gerðir það sama og aðrir allir aðrir drop-out krakkar með sjálfsvirðingu;þú labbaðir út." Hér eru smáupplýsingar fyrir Gunnar Smára: Það upplifa allir nemendur námsleiða og tilgangsleysi og yfirleitt er það bara rætt í skólastofunni. Það er oft ekki fyrr en síðar, að maður hefur þroska, til þess að meta það sem maður hefur lært. Og svo ég segi það enn og aftur skólakerfið er svo miklu fjölbreyttara en það var fyrir nokkrum áratugum og valmöguleikar miklir. Það er alveg ótrúlegt hvað fólk talar af mikilli vanþekkingu um íslenska skólakerfið! En sem kennari veit ég líka að það eru margar aðrar ástæður fyrir því að börnum gengur ekki vel í skóla auk þeirra sem Gunnar Smári fór rétt með og oftast eru þær félaglegar eins og kynferðisleg misnotkun, heimilisofbeldi, fátækt, vímu- og fíkniefnaneysla foreldra og alvarleg veikindi auk eigin vímuefnaneyslu nemenda. Hann getur því bætt því við hina greiningarnar sínar.

Undarleg skilaboð

En eru þetta skilaboðin sem Gunnar Smári ætlar að gefa ungu fólki sem kemur í meðferð á Vog. Að gefa skít í skólakerfið, að verða fallistar, að reyna fremur fyrir sér sem listamenn og að reyna að meika það og sýna svo öðrum - ég gat það og ég gerði það! Veit hann ekkert í sinn haus? Á hann börn sem hann ætlar að hvetja til að verða fallistar? Eða aðrir sem voru á myndinni? Er það íslenski draumurinn? En hvað með þá  sem ná ekki farsældinni sem þeir á myndinni hafa fangað og verða fallistar í lífinu?

Það sem mér finnst þó skondnast af öllu er að Gunnari Smára finnst við Hin, B.A- fólkið, hins vegar nógu gott til þess að styðja við starfssemi SÁÁ og gefur upp reikningsnúmer í lok viðtalsins! Ég tek það fram að flest mitt fólk hafði ekki tök á því að fara í langskólanám og er er stolt af því að vera komin af verkamannafjölskyldu, svo ekki bera upp á mig menntahroka, en svei attan, ekki ætla ég að styrkja SÁÁ um krónu á meðan þessi uppskafningur hroka og vanþekkingar situr í formannsembætti en ég óska hins vegar öllum virkum og óvirkum alkólistum velfarnaðar.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.