TÍU ÁRA


Á eftir fylgi ég syni mínum í skólann; hann er að hefja nám í tíu ára bekk.

Tíu ára bekk!

Hvað tíminn flýgur ...

Þegar ég var tíu ára var ég búinn að skrifa í laumi Íslendingasögu þar sem var að finna setningar eins og þessa: "Gekk hann þá fyrir konung og heilsaði honum virðulega."

Ég var búinn að horfa upp í þrumandi þögn alheimsins og komast að þeirri niðurstöðu að guð væri ekki til.

Búinn að standa andspænis skelfingunni, en líka hinni dýpstu gleði.

Ég var búinn að móta mínar pólitísku skoðanir að mestu; að allir ættu að hjálpast að en ég vildi samt fá að vera í friði þegar mér hentaði.

Ég var búinn að sjá í gegnum foreldra mína.

En ekkert af þessu sagði ég nokkrum manni.

Sonur minn lætur sem hann hugsi ekki um annað en fótbolta. En ég sé hvernig tíminn líður í augum hans.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.