GREIN: SKRÍMSLIÐ Í SUMARHÚSUM


Þetta er heilmikill langhundur sem ég birti í DV um síðustu helgi.

Ég er búinn að auka aðeins við greinina og endurbæta hana, og finnst af einhverjum ástæðum ákjósanlegt að geyma hana á netinu, eigi síður en á hinni prentuðu blaðsíðu.

Það hlýtur að merkja að ég sé frekar ánægður með hana!

Hér er hún alla vega, í allri sinni mikilfenglegu lengd.

-----

Um daginn var viðtal í Morgunblaðinu við bónda vestur í Dölum. Þetta var staffírugur og státinn maður á tæplega miðjum aldri og bara gott í honum hljóðið.

 

Enginn barlómur þar á ferð, svo að sumu leyti er hann kannski óvenjulegur búmaður!

 

Það vakti aftur á móti sérstaka athygli mína hvernig bóndinn kaus að lýsa sjálfum sér. Sú sjálfslýsing var raunar þvílík þungamiðja í máli hans að blaðamaðurinn kaus að gera hana að sjálfri fyrirsögn viðtalsins.

 

„Ég er Bjartur í Sumarhúsum,“ stóð þar.

 

Og bar ekki á öðru en bóndi lýsti þessu yfir bæði kátur og stoltur í bragði. 

 

Fyrst klóraði ég mér stundarkorn í kollinum þegar ég sá þessa fyrirsögn. Svo fór  ég að hugsa, eins og stundum gerist jafnvel enn í dag.

 

Því var ekki eitthvað athugavert við þessa fullyrðingu, og hvernig hún var sett fram? Er virkilega ósköp eðlilegt fyrir röskan nútímamann að líkja sér við þessa sögupersónu Halldórs Laxness, bóndann Guðbjart Jónsson í Sumarhúsum?

 

Jafnvel þó það kunni að  hafa verið gert í gamni, að minnsta kosti í aðra röndina. Því orðrétt sagði bóndinn, Þorgrímur Einar sem reyndar er Guðbjartsson:

 

„Ég held að fáum dyljist að ég er Bjartur í Sumarhúsum. Ég fer mínar eigin leiðir bæði í búskap og lífinu sjálfu.“

 

Þetta gæti alveg verið sagt í gamni. En samt, þegar ég fór að  rifja upp fyrir mér söguna Sjálfstætt fólk eftir Halldór, þá hlaut ég að komast að afgerandi niðurstöðu.

 

Að líkja einhverjum við Bjart í Sumarhúsum hlýtur alltaf að vera viðkomandi við háðungar, ekki hróss. Og að einhver skuli vilja líkja sjálfum sér við Bjart hlýtur að teljast afar, afar undarlegt. 

 

Áður en lengra er haldið:

 

Þeirri grein sem hér fylgir er auðvitað ekki á nokkurn beint persónulega gegn hinum ágæta Þorgrími Einari sem lét sér þessi orð um munn fara. Honum er auðvitað heimilt að líkja sjálfum sér við hvern sem er, sér í lagi ef um skáldaðar persónur er að ræða. Og ég ítreka að samlíkingin virðist í viðtalinu sett fram í svona frekar léttum dúr.

 

En mér þótti samlíkingin samt segja sína sögu í framhaldi af grein sem ég skrifaði  í DV fyrir hálfum mánuði, þar sem ég fjallaði um aukið  vægi Íslandssögu í pólitískri umræðu dagsins í dag – einkum hvað snerti Icesave-samninginn og þó alveg sérstaklega hugsanlega aðild Íslands að ESB.

 

Í þeirri grein var ég að leitast við að andæfa því að menn notuðu meira og minna skálduð dæmi og ímyndaða sögu fyrstu alda Íslands byggðar til að renna stoðum undir málstað sinn í nútímanum.

 

Því sagan getur verið viðsjál. Hún er alltaf undirorpin túlkunum hvers tíma, nema hvað hér á landi hefur Íslandssagan alltof lengi verið undir áhrifum þeirrar túlkunar sem sett var fram á tímum sjálfstæðisbaráttunnar fyrir 100-150 árum síðan.

 

Í greininni fjallaði ég um landnámstímann og benti á að fræðimenn hafa fyrir löngu komist að þeirri niðurstöðu að sú mynd sem skólabækur 20. aldar drógu lengst af upp af landnámsöldinni væri alröng.

 

Hinir stoltu og frelsisunnandi höfðingjar, „frjálsræðisins hetjurnar góðu“, sem sigldu hingað til lands með höfuðið hátt til að sleppa undan kúgunarvaldi Noregskóngsins Haraldar hárfagra, voru ekki til.

 

Og Haraldur hárfagri var varla til heldur.

 

Sú lífseiga mynd af landnámi „frjálsræðishetjanna góðu“, sem vildu ekki una valdi Noregskonungs, hún er tvöföld blekking.

 

Annars vegar meðvituð eða ómeðvituð blekking Ara fróða og félaga, sem ristu á kálfskinn tilbúna mynd af landnámi forfeðranna. Hins vegar blekking sjálfstæðisbaráttunnar og Jónasar frá Hriflu sem skrifaði ótrúlega áhrifamiklar kennslubækur um íslenska sögu.

 

En viti menn!

 

Þorgrímur Einar Guðbjartsson, hinn góði bóndi, virðist einmitt einn þeirra sem enn eru gegnsýrðir hinum gömlu blekkingum. Því þegar hann vill skýra í viðtalinu í Mogganum af hverju hann er andsnúinn Evrópusambandinu, þá segir hann:

 

„Við [Íslendingar] erum einyrkjar og viljum fá að vera í friði með okkar og taka þátt í verkefnum á okkar forsendum. Við flúðum hingað út í ballarhaf til að fá frið og geta verið kóngar, hver í sínu horni.“

 

Sagnfræðingar og aðrir fræðimenn hafa fyrir löngu hafnað þeirri söguskoðun að hingað hafi landnámsmenn flykkst til að flýja ofríki Noregskonungs.

 

Þessi orð bónda lýsa því hins vegar hve erfitt verður að eiga við hinar rótföstu blekkingar í því uppgjöri Íslendinga við sjálfa sig sem nú er hafið og mun vonandi halda áfram á næstu misserum.

 

Og síðan ég skrifaði greinina hefur enn betur komið í ljós að í orrahríðum samtímans verða vissulega notuð vopn úr fortíðinni – eða barist með beinum Jóns Sigurðssonar, svo ég vitni í sjálfan mig.

 

Undanfarna daga hefur mynd Jóns einmitt verið notuð til að brýna andstæðinga Icesave-samningsins til dáða. Þingmönnum hefur ýmist verið sagt að styttan af Jóni Sigurðssyni gráti vegna Icesave-samningsins, eða þá að skörp augu styttunnar fylgist með þeim ef þeir ætli að drýgja þau landráð að samþykkja Icesave.

 

Þó veit auðvitað enginn hvernig Jón Sigurðsson hefði greitt atkvæði ef hann hefði setið  á þingi þegar Icesave-samningurinn kom til afgreiðslu.

 

Það er meira að segja frekar billegt að nota Jón sem svipu í þessu máli, því hann var – hvað sem leið hugsjónabaráttu hans fyrir auknum réttindum Íslendinga – mikill raunsæismaður í bæði stjórnmálum og fjármálum.

 

Og það getur bara meira en verið að hann hefði skipað sér í flokk með þeim sem telja Icesave-samninginn illa nauðsyn, jafnvel svo brogaðan sem hann þó kann að vera.

 

Fyrir nú utan að með fullri virðingu fyrir Jóni Sigurðssyni, þá skiptir auðvitað ekki nokkru máli hvernig hann hefði hugsanlega mögulega ef til vill kannski greitt atkvæði um Icesave.

 

Ekki frekar en það skipti máli hvernig Jón Arason eða Bríet Bjarnhéðinsdóttir eða Axlar-Björn hefðu greitt atkvæði. Það sem máli skiptir er hvernig fólk hér og nú lítur á málin.

 

Burtséð frá lærdómum sögunnar, sem mér er þó yfirleitt svo umhugað um. 

 

Og nú er sem sagt farið að bera á því að ekki einungis Íslandssagan heldur líka íslenskar bókmenntir séu brúkaðar í amstri hversdagsins til að „slá pólitískar keilur“.

 

Rykið hefur verið dustað af „Ísland farsælda frón“ og úfinn kollur Bjarts í Sumarhúsum skýtur æ oftar upp kollinum.

 

Það er reyndar ekki nema rétt og sanngjarnt að taka vandlega fram að Þorgrímur Einar Guðbjartsson var ekki endilega að setja fram pólitíska skoðun með fullyrðingu sinni um að hann „væri Bjartur í Sumarhúsum“. Hann var líklega bara að lýsa lífi sínu og lífsviðhorfum almennt.

 

En aðrir hafa dregið Bjart fram í pólitískum tilgangi. Þar má til dæmis nefna Einar Má Guðmundsson sem iðulega vitnar með mikilli velþóknun til Bjarts í Sumarhúsum og viðleitni hans til að halda „sjálfstæði“ sínu.

 

Því ljóst er að Einar Már lítur á Bjart í Sumarhúsum fyrst og fremst sem þrjóska sjálfstæðishetju sem við ættum að taka okkur til eftirbreytni.

 

Og nú síðast notaði Ögmundur góðvinur minn Jónasson Bjart í pistli sem hann skrifaði á heimasíðu sína til útskýringar á andstöðu sinni við Icesave-samninginn.

 

Þetta gerði Ögmundur reyndar ekki að eigin frumkvæði, heldur hafði Jóhann Hauksson blaðamaður á DV skrifað um skoðanir Ögmundar og kennt þær við „Bjart í Grímshaga“ en við Grímshaga í Reykjavík býr Ögmundur.

 

Í svari sínu gengst Ögmundur gengst við því að deila að ýmsu leyti lífsskoðunum með Sumarhúsa-Bjarti þótt hann þvertaki fyrir að hann telji Íslendinga eiga að „standa eina“, en þannig mun Jóhann hafa túlkað skoðanir hans.

 

Ögmundur segist þvert á móti vilja að Íslendingar láti mjög að sér kveða í alþjóðlegu samstarfi, en þó aðeins þannig að þeir haldi sjálfsvirðingu sinni.

 

Orðið „sjálfsvirðing“ er reyndar oftast fljótt að koma upp í hugann þegar rætt er um Bjart í Sumarhúsum. Aðdáendur heiðabóndans telja hann bersýnilega ævinlega „halda sjálfsvirðingu sinni“. 

 

Gáum að sjálfsvirðingunni á eftir, en lítum á hvernig Ögmundur túlkar baráttu Bjarts fyrir sjálfstæði sínu. Þar er um að ræða gagnorða lýsingu á því viðhorfi til Bjarts sem er nokkuð algengt, en ég fyrir mitt leyti get ekki lengur skilið – ekki frekar en ég skil hvernig sá góði maður Þorgrímur Einar getur kennt sjálfan sig við Bjart í Sumarhúsum.

 

Ögmundur skrifar:

 

„Bjartur í Sumarhúsum ... vildi ekki sætta sig við fyrirsjáanlegt hlutskipti sitt í lífinu: Að verða til æviloka undirokað vinnuhjú á Rauðsmýri. Hann vildi vera sjálfstæður maður, jafnvel þótt það kostaði erfiði, svita og tár.

 

Bjartur kallaði afdalakot sitt Sumarhús og lesendum Sjálfstæðs fólks er gert ljóst að lífsbarátta Bjarts á heiðum uppi var háð gegn ofurefli þar sem mannlegt samfélag og náttúruöflin lögðust á eitt um að torvelda hana.

 

Bjartur er í hugum margra tákngervingur hins óraunsæja draumóramanns sem ber höfðinu við steininn. Í stað þess að beygja sig undir kaldhamraðan veruleikann í mannheimum og í náttúrunni, þá segir hann hvoru tveggja stríð á hendur, dæmdur til að mistakast. 

 

Aðrir hafa séð ýmsa aðra þræði í baráttu Bjarts. Hann sé tákn baráttu undirokaðs fólks gegn valdi og yfirgangi og nauðhyggju stéttasamfélagsins. Slík barátta hafi í aldanna rás iðulega verið erfið og oftast þótt óraunsæ og vonlítil.

 

En ef aldrei hefði brunnið í hjörtum manna baráttuandi, ódrepandi löngun til frelsis; þráin til að geta borið höfuðið hátt, þá værum við ekki á vegi stödd í baráttu fyrir frjálsu lýðræðissamfélagi sem við þó erum – þrátt fyrir allt. Bjartur hafi þannig verið í uppreisn gegn kyrrstöðusamfélaginu – Rauðsmýrinni – þar sem húsbændur og hjú þekktu hvað til friðarins heyrði.“

 

Þetta skrifaði Ögmundur og hér er margt skörulega orðað, eins og títt er hjá honum. Og sú var reyndar tíðin að ég hefði skrifað undir nálega hvert orð hér.

 

Í fyrstu tvö þrjú skiptin sem ég las Sjálfstætt fólk held ég að ég hafi einmitt skilið bókina mjög svipuðum skilningi og Ögmundur gerir hér í lok klausu sinnar – þannig að hún sé um mann með neista frelsis í brjósti sér, mann sem er fullur af þrá til að geta borið höfuðið hátt, o.s.frv.

 

En ég er ekki lengur á þeirri skoðun.

 

Og þegar ég fór að rifja upp fyrir mér Sjálfstætt fólk hvarflaði að mér hvort Ögmundur, Einar Már og fleiri væru virkilega að vitna til þeirrar bókar sem Halldór Laxness skrifaði, eða hvort bók og persóna hefðu kannski tekið á sig alveg sjálfstætt líf í huga þeirra.

 

Og þeir væru alltaf að fjalla um einhvern Bjart sem þeir hefðu í raun búið til sjálfir í huga sér, en ekki þann Bjart sem Halldór skrifaði um.

 

Á persónan Bjartur í Sumarhúsum í vitund Íslendinga núorðið lítið skylt við þá persónu sem Halldór Laxness skapaði á sínum tíma?

 

Fyrst langar mig þó að nefna annað í framhjáhlaupi, gera eina athugasemd við texta Ögmundar. Því hlýtur það ekki fyrst og fremst að vera merki um dæmafáa snilld Halldórs Laxness að verkalýðsleiðtogi eins og Ögmundur skuli kalla það hlutskipti að vera launþegi á Rauðsmýri (þar sem Bjartur var vinnumaður) ígildi þess að vera „undirokað vinnuhjú“?

 

Og að það sé í sjálfu sér fagurt og æskilegt að brjótast frá hlutskipti launþegans og verða atvinnurekandi – eins og bændur er, þegar öllu er á botninn hvolft, þótt fyrirtæki þeirra séu ekki alltaf stór í sniðum.

 

Fólkið á Rauðsmýri var að sönnu óttalegt leiðindahyski, ef rétt er skilið af bókinni, og vissulega var hlutskipti íslensks vinnufólks í  byrjun 20. aldar ekkert til að hrópa mjög hátt húrra fyrir – en var samt ekki fullgöfugt hlutskipti að vera launþegi, þá eins og nú?

 

Varla trúi ég því  að Ögmundur hafi í krafti formennsku sinnar hjá BSRB sífellt verið að hvetja skrifstofufólkið í samtökunum til að varpa af sér oki launavinnunnar og stofna sjoppu?

 

Sem er kannski sambærilegt við að vinnumaður í sveit gerist sjálfstæður atvinnurekandi með  því að stofna sitt eigið býli.

 

En látum þessa athugasemd liggja milli hluta.

 

Önnur er hins vegar veigameiri. Hún snýst um tilgang höfundarins.

 

Sannleikurinn er sá að Halldór Laxness skrifaði Sjálfstætt fólk ekki til þess að lofsyngja frelsisneistann í brjósti Bjarts í Sumarhúsum.

 

Þvert á móti. Bókin var eiginlega hugsuð sem hörð árás á hann og þrjósku hans og þvermóðsku. 

 

Þetta veit ég – svo ég láti nú eftir mér svolítinn frægramannaleik – af því að Halldór Laxness sagði mér það sjálfur.

 

Fyrir eitthvað um 25 árum tók  ég við hann eitt af síðustu stóru viðtölunum sem tekin voru við hann um ævina. Það birtist í tímaritinu STORÐ og ég hef alltaf verið voðalega stoltur af því, enda lagði  ég í það gríðarlega vinnu.


Ekki voru samt farnar neinar ótroðnar slóðir í þessu viðtali. Halldór rifjaði fyrst og fremst upp ævi sína og störf og margvísleg skrif gegnum tíðina og þar á meðal spurði ég hann um Sjálfstætt fólk.

 

Og þó ég muni viðtalið ekki orðrétt, þá svaraði Halldór þar spurningum mínum um tilorðningu Sjálfstæðs fólks þannig að hann hefði skrifað hana til að svara hinni frægu skáldsögu Knut Hamsuns sem kallast Gróður jarðar.


Sú bók birtir mjög fegraða og næstum goðumlíka mynd af smábónda sem puðar í sveita síns andlits, sjálfstæður, fátækur og skuldlaus við guð og menn.

 

Ég held reyndar að margir þeir sem sjá Bjart í Sumarhúsum í hyllingum séu í raun með bóndann Ísak í Gróðri jarðar í huga.

 

Hvort sem þeir gera sér grein fyrir því eða ekki.

 

Halldór sagði að honum hefði þótt Gróður jarðar mjög vond bók. Stíllinn á bókinni hefði að vísu verið stórfenglegur en myndin af bóndanum hefði verið forkastanleg. Á Íslandi væru ekki til slíkir bændur, og hann hefði viljað svara Gróðri jarðar með sönnum íslenskum smábónda.

 

Þá varð til Bjartur í Sumarhúsum – eða Þórður í Kálfakoti, eins og söguhetjan átti lengi vel að heita.

 

Og það var ekki meiningin að semja dýrðaróð til frelsiselskandi bónda, heldur lýsa smábónda sem á sinn hátt var sami kúgarinn og þeir sem áður höfðu kúgað hann. 

 

Mér dettur líka í hug hvort Sjálfstætt fólk gæti hafa verið hugsað að einhverju leyti sem ekki bara svar við Gróðri jarðar eftir Hamsun, heldur líka þróast sem viðbrögð við hreinsunum Stalíns austur í Sovétríkjunum.

 

Nokkru áður en bókin kom út höfðu nýir stjórnarherrar í Rússlandi tekið sér fyrir hendur að þröngva samyrkjubúskap upp á Rússland og í þeim tilgangi var útrýmt stétt sjálfseignarbænda – hinna svokölluðu kúlakka.

 

Kúlakkar nutu víða samúðar og því var hafin mikil áróðursherferð gegn þeim, til að sýna fram á hvílíkir kúgarar og þrjótar þeir væru.

 

Gæti verið að sú herferð gegn smábændum hafi haft áhrif á kommúnistann Halldór Laxness meðan sagan um Þórð í Kálfakoti var að brjótast í honum og hafi haft áhrif á hina endanlegu mynd af Bjarti í Sumarhúsum?


Þess vegna hafi Bjartur orðið svo ferlegur sem raun ber vitni í bókinni.

 

En þetta er nú reyndar ekki mjög ígrunduð kenning. Og Halldór var vissulega byrjaður að hugsa um Þórð í Kálfakoti töluvert áður en málefni kúlakka komust í hámæli.

 

Hitt er aftur á móti víst að í mín eyru fór Halldór hinum verstu orðum um Bjart í Sumarhúsum, kallaði hann “þurs” og “afglapa” og ég man ekki hvað.

 

Alla vega endaði það ekki allt í hinu niðurskrifaða viðtali, hreinlega af því ég kunni ekki við að birta svo eindregna fordæmingu hins roskna höfundar á sögupersónu sinni.

 

Þetta er sérkennilegt dæmi um sjálfsritskoðun blaðamanns; ég vildi meðvitað eða ómeðvitað leyna því hvað Halldór fór hörðum orðum um sögupersónu sína. Líklega hélt ég að hinar stórorðu skoðanir Halldórs á Bjarti væru til marks um að einhvers konar elliglöp.

 

En þetta viðtal mitt við Halldór er auðvitað ekki eina dæmið þar sem hann lýsti opinskátt andúð sinni á sögupersónunni Bjarti í Sumarhúsum.

 

Og því er alveg ástæðulaust að efast um að það var svo sannarlega hvorki lof né prís í garð hins íslenska heiðabónda sem vakti fyrir Halldóri þegar hann skrifaði bókina.

 

Þvert á móti.

 

En þvílíkur snillingur var Halldór að stíl og svo fullur af samúð með persónum sínum (þegar út í verkið sjálft var komið) að einhvern veginn varð sú níðstöng sem hann hugðist reisa Bjarti í Sjálfstæðu fólki að dýrðaróði til bóndans í augum margra lesenda. 

 

Þar á meðal í mínum augum, lengi vel.

 

Eins og ég drap á áðan, þá þurfti ég að lesa Sjálfstætt fólk mörgum sinnum áður en ég áttaði mig á því hvern mann Bjartur í Sumarhúsum hafði í raun að geyma. Ég trúði því, eins og Ögmundur, Einar Már, Þorgrímur Einar og margir fleiri, að Bjartur væri fyrst og fremst tákngervingur frelsisþrárinnar.

 

Þótt Bjartur væri kannski svolítið þvermóðskufullur á stundum, þá bæri honum mikil virðing fyrir óaflátanlega hvöt hans til að standa á eigin fótum, halda sjálfsvirðingu sinni, öðrum óháður, já, hann var eiginlega sjálfstæðishetja Íslands.

 

Einar Már Guðmundsson er enn á sama róli, eins og fram kemur í einni nýlegra greina hans, þar sem hann nefnir viðhorf til sjálfstæðis Færeyinga og segir: „Ég fór að hugsa, hvað hefðu íslensku frelsishetjurnar frá nítjándu öld sagt við þessu? Nú, eða Bjartur í Sumarhúsum?“

 

En fyrir mér rann það upp við fjórða eða fimmta lestur á Sjálfstæðu fólki að  ég hafði látið stílsnilld Halldórs Laxness blinda mér gjörsamlega sýn á bóndann í Sumarhúsum.

 

Bjartur var ekki svolítið gallaður en þó góður og ærlegur kall inn við beinið.

 

Nei, hann er eitthvert versta skrímslið í samanlögðum íslenskum bókmenntum.

 

Lítum á feril Bjarts. Hann var vinnumaður á Rauðsmýri í 17 ár og það er gjarnan tekið til marks um frelsisþrána sem bjó í brjósti hans að öll þau ár hafi hann unnið sleitulaust að því að brjóta af sér bönd "kúgaranna" og öðlast sjálfstæði.

 

Gott og vel, en það kemur þó skýrt fram í bókinni að það var alls ekki dugnaður Bjarts og elja þessi 17 ár sem gerði honum að lokum kleift að hefja að lokum eigin atvinnurekstur.

 

Nei, hann var keyptur til þess af húsbændum sínum!

 

Í staðinn tók hann að sér konu sem hann elskaði ekki og sem elskaði hann ekki. Og sem bar undir belti barn annars manns.

 

Með þessum ógeðfellda kaupskap hófst atvinnurekstur Bjarts í Sumarhúsum.

 

Þannig kom hann fótunum undir “frelsi” sitt, „sjálfsvirðingu“ og „sjálfstæði“.

 

Og þótt konan, sem hann “tók að sér” hefði þannig gert honum kleift að opna sína eigin sjoppu – nei, afsakið, stofna eigið býli – þá fór því fjarri að hann sýndi henni þakklæti og skilning í raunum hennar.

 

Aldeilis ekki.

 

Hann sýndi þeirri konu aldrei annað en fúlmennsku. Já, hann fór satt best að segja svívirðilega með þá konu, virti hana einskis og bar að lokum fulla ábyrgð á hræðilegum dauðdaga vesalings konunnar.

 

Og ekki lærði Bjartur sína lexíu. Hann náði sér í aðra konu sem hann virti engu meira en hina fyrri, sama þó hún þrælaði myrkranna á milli í fyrirtæki hans Sumarhúsum og bæri honum fjölda barna í leiðinni.

 

Nei, hann vék aldrei góðu að þeirri konu, frekar en öðru fólki.

 

Börnin sín fór hann skelfilega með, lagði á þau hendur og níddist á þeim á alla mögulega lund.


Hryllingurinn sem einkenndi samskipti hans við Ástu Sóllilju og drengina er eiginlega óbærilegur, strax og maður og sviptir hulu stílsnilldarinnar frá augunum.

 

Bjartur í Sumarhúsum víkur raunar aldrei góðu að nokkrum manni.

 

Hann segir aldrei neitt fallegt við nokkra sál.

 

Hann leggur aldrei neinum lið né hjálpar neinum, nema hann telji sig geta haft eitthvert gagn af því.

 

Kaflinn þegar hann hrekur frá sér konu sem hafði ekki unnið sér annað til saka en reyna að gleðja hann með góðu kaffi sýnir á átakanlegan hátt hve andstyggilega vondur maður hann var.

 

Sömuleiðis meðferðin á vesalings kúnni.

 

Hann er ekki einu sinni góður við  hundinn sinn.

 

Og á ég svo að dást að þessum manni fyrir hvað hann heldur vel „sjálfsvirðingu“ sinni?!

 

Manni sem treður sjálfsvirðingu annarra í svaðið og helst þeirra sem næst honum standa?

 

En hann hugsar aldrei um þarfir annarra en sjálfs sín. Allt skal lúta valdaþrá hans – því það má alveg eins líta á drifkraftinn í lífi hans sem valdafíkn eins og “frelsisþrá”.

 

Þessi einsýni, já, mér liggur við að segja sýkópatíski fantur slapp kannski að lokum sjálfur við að vera „laminn þjónn“, eins og Ögmundur orðaði það líka í pistli sínum (þó aðrir myndu kannski segja „venjulegur launþegi“).

 

En fólkið í kringum hann varð sorglegt samsafn af lúbörðum svívirtum þrælum.

 

Sjálfsvirðing kvennanna í lífi Bjarts var að engu virt.

 

Né barnanna.

 

Það var kannski rétt í lokin sem örlaði á örlítilli „samlíðan“ í huga Bjarts en það var þá vegna þess að hann var orðinn svo aumur og vesæll að hann þarfnaðist sjálfur samúðar.

 

Og samlíðan Bjarts í Sumarhúsum með öðru fólki er svona svipuð og ef Davíð Oddsson færi að prédika sanngjarna stjórnsýslu eða Sigurður Einarsson heilbrigða viðskiptahætti.

 

Einhver gæti hugsanlega sagt Bjarti til afbötunar að líf hans sé svo erfitt, lífsbaráttan svo hörð, að þess vegna hafi hann brynjað sig svona hressilega – enginn megi fá færi á hans innri manni.

 

Það kann að vera rétt en þó eru ótal dæmi, bæði í bókmenntum og raunveruleikanum, um fólk sem lifir erfiðu lífi en hefur þó hjartagæsku til að víkja stöku sinnum góðu að öðru fólki.

 

Það gerir Bjartur aldrei.

 

Í raun og veru er Bjartur svo vondur og illa innrættur maður að það er með mestu ólíkindum að menn skuli enn taka sér nafn hans í munn í jákvæðum tón – og vilja jafnvel líkja sjálfum sér við hann líkt og ágætir menn eins og Þorgrímur Einar gera.

 

Í rökfræði er stundum sagt að  það sé til marks um rökþrot ef menn fara að líkja andstæðingum sínum við Adolf Hitler.

 

Þar með skjóti menn svo ærlega yfir markið að það sé ekki hægt að taka neitt mark á þeim eftir það, því enginn geti verið jafn slæmur og Adolf Hitler.

 

Ég ætla nú ekki að lenda í  þessari gildru, með því að líkja þeim sérstaklega saman, Bjarti í Sumarhúsum og Adolfi Hitler. Báðir voru vissulega harðstjórar sem reyndust skelfilega þeim sem þeir náðu valdi yfir. En látum þessa samlíkingu samt liggja milli hluta.

 

En mér finnst bara að  þeir sem vilja brúka Bjart til stuðnings sínum sjónarmiðum í pólitík eða lífinu almennt, þeir séu á hálum ís.

 

Með því að líkja sér eða skoðunum sínum við þennan “afglapa” og “þurs”, eins og skapari hans komst meira að segja sjálfur að orði, finnst mér menn mála sig í horn - svo vægt sé til orða tekið.

 

Og þá er meira að segja alveg horft framhjá því að allur atvinnurekstur Bjarts var gjörsamlega mislukkaður.

 

Ef líkja á Bjarti við eitthvað í samtíma vorum, þá væru það kannski einna helst – þó ótrúlegt megi virðast – útrásarvíkingarnir.


Þeir vildu líka umfram allt vera sjálfstæðir.

 

Upphaf sumra útrásarvíkinganna var engu glæsilegra siðferðilega en þegar Bjartur var keyptur á kotið Veturhús.

 

Og endir sumra þeirra er furðu svipað endalokum hans.

 

Fokheld "höll" þar sem vindurinn gnauðar í gluggum.

 

Eitthvað kunnuglegt við það?

 

En þannig var Bjartur. Ömurlegur kotbóndi sem gat lengi alls ekki séð fyrir sér og sínum, þrátt fyrir að keypt hafi verið undir hann kotið, en þegar hann hóf allt í einu útrás með húsbyggingunni misráðnu, þá fór allt út um þúfur.

 

Heimsstyrjöldinni var náttúrlega kennt um, rétt eins og útrásarvíkingar nútímans kenna heimskreppunni um sínar ófarir.

 

Og Bjartur hrökklaðist um síðir á nýtt örreitis kot. Við skulum ekki fara þangað með  honum.

 

Það er vond vist hjá Bjarti í Sumarhúsum. 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.