Lýðræðisumbætur í frumvarpi stjórnlagaráðs

Þegar kemur að frumvarpi stjórnlagaráðs er ég er í hópi þeirra sem hefði viljað sjá róttækara frumvarp fæðast.  Því verður hins vegar ekki neitað að fram komið frumvarp felur í sér mikilvægar lýðræðisumbætur.

Fyrst ber að nefna ákvæði um jafnt vægi atkvæða í Alþingiskosningum; eitt atkvæði á mann.  Hér eru á ferð grundvallarmannréttindi sem löngu er orðið tímabært að Íslendingar fái notið.

Í annan stað mætti tilgreina ákvæði um persónukjör svo kjósendur séu ekki alfarið háðir duttlungum flokkanna þegar kemur að vali á fulltrúum og röðun þeirra.

Í þriðja lagi er viðeigandi að fjalla um afnám 5% reglunnar; varnarmúrnum sem fjórflokkurinn reisti í kringum sjálfan sig eftir að hann hafði komið sér þægilega fyrir inni í Alþingishúsinu.  Í dag verða framboð að fá minnst 5% atkvæða á landsvísu til að ná inn manni.  Í frumvarpi stjórnlagaráðs segir að þingsætum skuli úthlutað til framboða þannig að hver þeirra fái þingmannatölu í sem fyllstu samræmi við heildaratkvæðatölu.  Um 1,6% atkvæða þyrfti því til að ná inn manni.

Í fjórða lagi er rétt að minnast á beinan málskotsrétt almennings, til viðbótar við óbreyttan málskotsrétt forseta, en 10% kjósenda geta krafist þjóðaratkvæðis um lög sem Alþingi hefur samþykkt.  Þó engar takmarkanir séu á þeim lögum sem forseti getur vísað í þjóðaratkvæðagreiðslu geta kjósendur ekki farið fram á þjóðaratkvæði um fjárlög, fjáraukalög, lög sem eru sett til að framfylgja þjóðréttarskuldbindingum, skattamálefni eða ríkisborgararétt.

Í fimmta lagi þarf að segja frá því að 2% kjósenda geta lagt fram þingmál fyrir Alþingi og 10% lagafrumvarp.  Ef um lagafrumvarp að frumkvæði kjósenda er að ræða getur Alþingi lagt fram gagntillögu.  Dragi kjósendur mál sitt ekki til baka eftir að Alþingi leggur fram sína tillögu fer fram þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögu Alþingis annars vegar og tillögu kjósenda hins vegar.  Alþingi ræður að vísu hvort sú atkvæðagreiðsla er bindandi.

Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla um tillögur stjórnlagaráðs fer fram 20. október.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.