Svarthöfði

Svarthöfði hefur rökstutt sérstæðar skoðanir sínar á þjóðmálunum allt frá áttunda áratugnum, fyrst í Vísi og svo í sameinaða Dagblaðinu Vísi. Svarthöfði er frelsaður af fasisma og trúir því nú að hann sé hinn eini útvaldi skósveinn skrílræðisins. Gagnárásir og liðsauki berist á svarthofdi@dv.is.
Svarthöfði

Aumingjar og fábjánar

Svarthöfði er einlægur aðdáandi Þráins Bertelssonar alþingismanns. Þráinn er einn örfárra manna sem þora að segja og skrifa hug sinn. Hann fer engar krókaleiðir heldur segir hlutina beint út. Hann er svolítið eins og togarajaxl á vaktaskiptum í brjáluðu veðri. 

Þráinn hefur lengi verið ástmögur þjóðar sinnar. Lengi var hann rithöfundur og kvikmyndaleikstjóri. Seinna gerðist hann framsóknarmaður en var svikinn af flokknum. Hann fór á Austurvöll og þaðan í Borgarahreyfinguna sem fleytti honum á þing ásamt fleiri gulleplum eftirhrunsins. Byltingarmaðurinn komst á þing. 

En það var ekki lengi friðsælt í herbúðum Borgarahreyfingarinnar. Samþingmaður Þráins, veittist að honum í bréfkorni til þriðja aðila, og efaðist um andlega heilsu hans. Þá varð fjandinn laus og Þráinn gerðist utangátta. Eftir nokkurt þóf smeygði hann sér síðan inn í Vinstri-græna og gerðist þá bandamaður Steingríms J. Sigfússonar. Þá tók við friðsamt tímabil í lífi þingmannsins sem safnaði alskeggi og tók á sig marxískt yfirbragð. 

það var svo í útvarpsþætti á Bylgjunni sem allt varð snælduvitlaust. Þá var umræða um listamannalaun en Þráinn er einmitt með slík laun og það verðskuldað vegna bæði bóka og kvikmynda. Gagnrýnin á listamannalaunin varð kveikjan að reiðikasti þingmannsins. „Það er eðlilegt að í öllum þjóðfélögum eru fábjánar og þeir eiga rétt á skoðunum sínum eins og aðrir. Hins vegar finnst mér að fjölmiðlar eigi ekki að gera skoðunum fábjána jafn hátt undir höfði eins og úthugsuðum skoðunum hjá greindu fólki,“ sagði Þráinn. Þegar hann var beðinn um nánari skilgreiningu á hlutfalli fábjána meðal þjóðarinnar svaraði hann alveg skýrt. „Það eru svona fimm prósent af þjóðinni fábjánar.“ Og allt ætlaði um koll að keyra. Samfélagið bókstaflega fór á hliðina vegna ummæla sem Svarthöfði telur vera nærri lagi. 

Um langa hríð var kyrrð í kringum Þráin. Hann hefur lítið haft sig í frammi opinberlega en setið við að svara tölvupóstum og semja frumvörp. En í einsemdinni og eljunni lá meinvættur í leynum. Þingmaðurinn fékk tölvupóst með grófu orðbragði um að hann væri ekki að standa sig. Þetta var nafnlaust en undirritað Tunnurnar. Þráinn fylltist af réttlátri reiði og svaraði með þjósti að hann svaraði ekki nafnlausum aumingjum. Tunnurnar stigu þá fram í dagsljósið og enn blésu naprir vindar um þingmanninn sem var sakaður um að kalla mótmælendur aumingja. Enn þarf hann í löngu máli að útskýra hvað liggur í því að vera aumingi eða fábjáni, nema hvorutveggja sé. Svarthöfði bíður spenntur eftir útreikningum þingmannsins á því hversu hátt hlutfall þjóðarinnar er aumingjar. Og er skörun á aumingjum og fábjánum? 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.