Skyndibitarýni Hákonar

Hákon Dagur Guðjónsson er 21 árs gamall nemi við Háskóla Íslands. Hann er mathákur mikill og finnst fátt betra en að gæða sér á góðum skyndibita. Hákon hefur farið á ógrynni skyndibitastaða og vegið þá og metið, og munu niðurstöður hans birtast hér. Hann styðst við kerfi þar sem jákvæðir hlutir eru metnir ásamt þeim neikvæðu og þeir síðan dregnir saman í heildarskor. Þau skrif sem birtast hér eru einungis gerð til gamans og eru persónulegu skoðanir Hákonar.
Skyndibitarýni Hákonar

Subway - móðgun við mannkynið

Jákvætt

+ Frí áfylling á gosið, sem þykir nú alveg sjálfsagt.

+ Smákökurnar eru góðar þarna, þótt að þær hafi minnkað um helming á örfáum árum og gott ef ekki hækkað í verði líka.

+ Skemmtilegt úrval af sósum, þó að ég sé alltaf hrifnastur af stöðum sem eru með eina leynisósu. Svo hef ég reyndar ekki fundið mína sósu ennþá, mér finnst Southwest vera svona lala og Honey Mustard er eitthvað svo lummó.

Neikvætt

- Brauðið er mjölkennt, þurrt og líflaust. Það á að heita "bakað á staðnum", en ég er nokkuð viss um að það sé ekki meira bakað á staðnum heldur en Hatting brauðið sem ég kaupi frosið og hita upp.

- Örbylgjufíaskóið þarna er einn stór brandari. Kjúklingurinn er örbylgjuhitaður áður en hann er settur á bátinn sem er svo örbylgjuhitaður aftur. Eða örbylgjuristaður, ég veit ekki alveg hvort sé verra.

- Alveg er það óþolandi þegar að maður pantar t.d. BMT bát og fær bara kjötálegg í miðju bátsins. Þegar að maður biður svo starfsfólkið um að vinsamlegast setja kjöt í kantana þá kemur eitt stórt spurningamerki á andlit þess. 

- Alveg er það meira óþolandi hvernig þeir raða ostinum á bátinn. Honum er raðað þannig að u.þ.b. 60% af bátnum er með osti.

- Allur þessi blekkingarleikur með þessa hollustuherferð, 6 bátar undir 3 grömm af fitu og veit ekki hvað og hvað. Það er enginn að segja mér að brauðið sé ekki fullt af vondum kolvetnum og að nær allar sósurnar séu majones að stórum hluta. Það fær sér enginn Grænmetissælu á Subway með engri sósu, það verður helst að vera Bræðingur með a.m.k. 3 sósum á.

- Beikonið á Subway er móðgun við það heilaga bragð sem beikon á að skila. Heimildamaður minn sem vann eitt sinn á Subway sagði mér frá því að beikonið kæmi frosið og steikt til landsins áður en það væri svo örbylgjuhitað, sel það ekki dýrara en ég keypti það.

- "Ferskleikinn" sem Subway auglýsir sig að búa yfir er ekki nálægur á staðnum. Grænmetið, sér í lagi kálið, er algjör viðbjóður og enginn maður ætti að leggja sér það til munns. Ég varð líka einu sinni vitni að því þegar að það var fyllt á dallinn úr stórum grænum ruslapoka af káli beint fyrir framan nefið á mér, ekki einu sinni haft fyrir því að gera þetta inn í eldhúsi.

- Starfsfólkið er ekki það skemmtilegasta, það vill bara fá að heyra hvaða bátur, hvernig brauð, hita eða rista, grænmeti og hvaða sósu þú vilt. Eitthvað annað hjal og þá mætir þér illt augnaráð.

- Sérstakan heiðursmínus fær Buffaló kjuklingabáturinn, ógeðslegur.

- Annan mínus fær staðurinn fyrir að taka Kjötbollubátinn af matseðlinum, en hann var í uppáhaldi í æsku minni.

Niðurstaðan: -7 stig

Ég hef hér látið hörð orð falla um Subway og ég stend með þeim til dauðadags. Hráefnið, bragðið, þjónustan og í raun allt það sem gerir skyndibitastað góðan er gjörsamlega fyrir neðan allar hellur á staðnum. Mín besta ágiskun á ástæðunni afhverju fólk sækir staðinn er að það hefur látið gabbast af auglýsingaherferðum eða "product placement" í bíómyndum og leiknum þáttum. Nú er ég ekki að segja að ég hafi ekki keypt mér bát og klárað, það hef ég vissulega gert. En eftir að ég sá staðinn í réttu ljósi forðast ég það eins og heitan eldinn að borða þarna, það er þá helst þegar allt annað er lokað um miðja nótt á  N1 Hringbraut. Ég biðla til allra manna sem bera virðingu fyrir bragðlaukum sínum að ganga beinu brautina og borða góðan skyndibita.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.