Skyndibitarýni Hákonar

Hákon Dagur Guðjónsson er 21 árs gamall nemi við Háskóla Íslands. Hann er mathákur mikill og finnst fátt betra en að gæða sér á góðum skyndibita. Hákon hefur farið á ógrynni skyndibitastaða og vegið þá og metið, og munu niðurstöður hans birtast hér. Hann styðst við kerfi þar sem jákvæðir hlutir eru metnir ásamt þeim neikvæðu og þeir síðan dregnir saman í heildarskor. Þau skrif sem birtast hér eru einungis gerð til gamans og eru persónulegu skoðanir Hákonar.
Skyndibitarýni Hákonar

American Style - heimili metnaðarleysis

 

Jákvætt

+ Frí áfylling á gosið. Sem eru að vísu sjálfsögð mannréttindi.

+ Fjölbreyttur matseðill, sem samanstendur þó aðallega af hamborgurum í mismunandi kjólum.

+ Ágætis verð, ef maður fer í máltíð mánaðarins, annars ekki.

Neikvætt

- Sósan. Ég er ekki fyrir sinnepssósu á hamborgaranum, en mér finnst staðurinn leggja fullmikið uppúr henni.

- Er alltaf jafn hissa þegar að veitingastaðir velja ekki hefðbundinn íslenskan ost á hamborgarana. American Style er með dökkgulan og gúmmíkenndan ost sem fellur ekki vel í kramið hjá mér.

- Franskarnar eru með hýði eins og á mörgum stöðum í dag, sem mér finnst óskiljanlegt. Franskar eru óhollar, það vita allir. Þær eiga að vera unnar og hýðislausar.

- Tónlistin á staðnum er yfirleitt of hátt stillt, hún á að vera þannig að maður taki aðeins eftir henni sé maður sérstaklega að hlusta eftir því.

- Básarnir sem maður situr í eru óþægilegir og of nálægt borðinu. Ég hef aldrei verið hrifinn af básum, þeir skikka mann til þess að sitja í þeirri stellingu sem básinn ákveður. Laus stóll með frjálsræði til hreyfinga er mun betri lausn fyrir stóra sem smáa.

- Glösin sem maður fær eru barnalega lítil. Maður er vappandi fram og aftur um staðinn 3-4 sinnum í máltíð að ná sér í gos.

- Þjónustulundin hjá starfsfólkinu er ekki uppá marga fiska, hef komið þarna oft og aldrei séð starfsfólkið með bros á vör.

- Eins og flestir íslendingar er ég kominn með æði fyrir bernaissósu, sem er vond á þessum stað.

Niðurstaðan: -5 stig 

American Style er staður sem var alltaf í náðinni hjá mér en ekki lengur. Með tímanum finnst mér metnaðurinn til þess að gera góðan mat hafa dalað. Stemmningin á staðnum er dauf, ég hef það alltaf sterkt á tilfinningunni hvað forsvarsmenn staðarins hafa í huga þegar að ég labba þar inn, sem er að hafa af mér peninga. Vissulega er það markmið allra skyndibitastaða en ég vil allavega sjá þá reyna að fela það með góðri þjónustu, góðum mat og notalegheitum. Staðurinn er vinsæll og því sjá menn kannski ekki ástæðu til breytinga, en kröfuharður neytandi á að vita betur en að venja komur sínar á Stælinn.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.