Skúli Helgason

Skúli Helgason er fyrsti varaþingmaður Samfylkingarinnar í Reykjavíkurkjördæmi norður. Hann var formaður nefndar Alþingis um eflingu græna hagkerfisins og formaður starfshóps um samþættingu menntastefnu og atvinnustefnu. Skúli er með meistarapróf í opinberri stjórnsýslu frá University of Minnesota og BA próf í stjórnmálafræði frá Háskóla Íslands.
Skúli Helgason

Rannsókn á einkavæðingu bankanna

Ég mælti í dag fyrir tillögu til þingsályktunar á Alþingi um rannsókn á hinni illræmdu einkavæðingu ríkisbankanna:Fjárfestingarbanka atvinnulífsins hf., Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf. á árunum 1998-2003.

Segja má að með einkavæðingu þessara þriggja banka hafi hafist sú atburðarás sem endaði með hruni fjármálakerfisins haustið 2008.  Rannsóknarnefnd Alþingis fjallaði um afmarkað tímabil þessa ferils og komst að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld hafi frá og með áliðnu sumri 2002 í vaxandi mæli látið pólitísk markmið um að ljúka einkavæðingu bankanna sem slíkri hafa forgang gagnvart þeim faglegu markmiðum sem áður höfðu verið sett fram og áttu að tryggja dreift eignarhald, hámarks afrakstur ríkissjóðs af sölunni o.s.frv.

 

Sagan öll

Tilgangur tillögunnar er að leiða fram sannleikann varðandi einkavæðingu bankanna í eitt skipti fyrir öll, tryggja að sagan öll verði sögð og almenningi aðgengileg á einum stað um alla framtíð. Rannsókninni er ætlað að varpa ljósi á atburðarásina við sölu bankanna þriggja svo ljóst sé hvar í stjórnkerfinu, hvenær og hvers vegna veigamiklar ákvarðanir í því ferli voru teknar og hverjir báru á þeim ábyrgð. Aðeins þannig má draga réttan lærdóm af þessu umdeilda söluferli og byggja á þeim lærdómi við setningu laga og reglna um sölu á eignarhlutum ríkisins í fjármálafyrirtækjum síðar meir – svo sem ef til þess kemur að ríkið ákveður að selja ráðandi hlut sinn í Landsbankanum.

 

 Niðurlæging Alþingis

Óhætt er að segja að leitun sé að jafnfátæklegri leiðsögn frá hendi stjórnvalda í svo afdrifaríku máli og þeirri sem gefin var um einkavæðingu bankanna á sínum tíma. Er þar að finna átakanlegt dæmi um þá niðurlægingu sem Alþingi mátti þola af hendi framkvæmdarvaldsins síðasta áratuginn fyrir hrun. Lagafrumvarp ríkisstjórnarinnar sem heimilaði söluna á Landsbanka og Búnaðarbanka innihélt aðeins eitt efnisákvæði sem orðaðist svo:

„Heimilt er að selja hlutafé ríkissjóðs í Landsbanka Íslands hf. og Búnaðarbanka Íslands hf.“

 

Þetta var allt og sumt. Ekki orð um hvaða markmiðum einkavæðingunni væri ætlað að ná, hvort stefna ætti að dreifðu eignarhaldi eða ekki, hvort selja ætti bankana saman eða hvorn í sínu lagi, hvort stefna ætti að sölu til kjölfestufjárfesta og ef svo væri, af hverju? — hvort stefnt væri að innlendu eða erlendu eignarhaldi og þar fram eftir götunum.

Meiri hluti efnahags- og viðskiptanefndar á þessum tíma lagði engar breytingartillögur fram, lagði til að frumvarpið yrði samþykkt óbreytt og afsalaði sér í reynd öllu hlutverki í stefnumótun og ákvarðanatöku í þessu afdrifaríka máli. Þingið veitti þannig galopna heimild til framkvæmdarvaldsins varðandi tilhögun einkavæðingarinnar.

 

Áherslur Samfylkingarinnar

Rétt er að geta þess að 1. minnihluti efnahags- og viðskiptanefndar, þ.e.a.s. fulltrúar Samfylkingarinnar í efnahags- og viðskiptanefnd lagði fram breytingartillögur við frumvarpið m.a. um að aðeins annar stóru bankanna Búnaðarbankinn yrði seldur en ekki báðir, að ákveðið hlutfall yrði boðið út í almennri sölu til almennings, að hlutur starfsmanna í stjórnun bankanna yrði tryggður og að leitað yrði álits Seðlabanka Íslands og Þjóðhagsstofnunar á því hvort aðstæður á fjármálamarkaði væru hyggilegar áður en gengið yrði frá sölu.   Þessar tillögur minnihlutans voru felldar og frumvarpið samþykkt óbreytt.  Því miður var afgreiðsla þessa máls ekkert einsdæmi um gagnrýnislausa afgreiðslu þingsins á stjórnarfrumvörpum á árunum fyrir hrun. 

 

Flokkshagsmunir byrgja sýn

Nú er eðlilegt að spurt sé, er ekki allt komið fram sem máli skiptir um einkavæðingu bankanna.  Er ekki nóg að lesa Rannsóknaskýrslu Alþingis?

Ég held að því sé fljótsvarað neitandi.  Í fyrsta lagi liggur skýrt fyrir að sjónarhorn Rannsóknanefndar Alþingis var takmarkað og sérstaklega tekið fram að þar væri ekki um að ræða neina heildarúttekt á einkavæðingu bankanna heldur skoðun á afmörkuðum þáttum einkum atburðum sem áttu sér stað í lok einkavæðingarferilsins einkum á síðari hluta árs 2002 eins og segir í 1. Bindi skýrslunnar.. Þá ber þess að geta að Rannsóknanefndin fjallaði ekkert um einkavæðingarferli Fjárfestingarbanka atvinnulífsins, sem var fyrsti áfangi einkavæðingarinnar og hafði mikið að segja varðandi uppbyggingu bankakerfisins.  Það er alveg ljóst í mínum huga að ýmislegt er órannsakað varðandi einkavæðingu bankanna s.s. um ábyrgð einstakra ráðherra, embættismanna og nefndarmanna, hlutverk erlendra ráðgjafa og fjárfesta í ferlinu og hvernig það atvikaðist að upphaflegum fyrirætlunum sem endurspegluðust í viðmiðum framkvæmdanefndum um einkavæðingu var kollvarpað.

Í öðru lagi má nefna að nýjar staðreyndir og sjónarmið eru enn að koma fram um einkavæðingu bankanna sem full ástæða er til að rannsaka betur. Björn Jón Birgisson skrifaði um einkavæðingu Búnaðarbankans í Sögu, Tímariti Sögufélagsins í desember 2011 og  lætur að því liggja að flokkspólitískir hagsmunir Framsóknarflokksins hafi ráðið för við þá einkavæðingu.  

Björn segir m.a. í grein sinni: 

Fyrirtæki með skýr tengsl við Framsóknarflokkinn keyptu kjölfestuhlut í Búnaðarbankanum og fengu til þess lán frá hinum ríkisbankanum, enda höfðu þau ekki fjárhagslega burði til kaupanna.“ 

 

Björn segir ennfremur að allt önnur viðmið hafi gilt um einkavæðingu Landsbankans þar sem kaupendur þess banka hafi ráðið yfir erlendu fjármagni og greitt kaupverðið að mestu með erlendum gjaldeyri.  Þessi söguskýring Björns er ekki óumdeild og fyrrum formaður Framsóknarflokksins Jón Sigurðsson gagnrýnir söguskoðun Björns Jóns harðlega:

 

 Meginsjónarmið greinarhöfundar er að það sé heiðarlegt og eðlilegt að formaður Sjálfstæðisflokksins á stóli forsætisráðherra selji fv. formanni fulltrúaráðs Sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík Landsbanka Íslands í beinni lokaðri einka-sölu. Þetta er viðmiðið, normið, um eðlilegar og heiðarlegar ráðstafanir.“

 

 Svo mörg voru þau orð, þarna eru þungar ásakanir um pólitíska spillingu og einkavinavæðingu sem kalla á óháða rannsókn.  Enn má nefna grein Helga Skúla Kjartanssonar sagnfræðings Í tröllahöndum í nýjasta hefti Sögu, þar sem hann gagnrýnir m.a. tiltekna þætti í aðferðafræði Björns Jóns Bragasonar og bætir við nýjum sjónarmiðum.

 

Tilbúið til afgreiðslu

Þessi tillaga um rannsókn á einkavæðingu bankanna var lögð fram á síðasta þingi, tekin til meðferðar í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og afgreidd þaðan út af meirihluta nefndarinnar 22. maí síðastliðinn.  Því miður lagðist Sjálfstæðisflokkurinn gegn því að málið kæmist á dagskrá og tókst að semja það út af borðinu rétt fyrir þinglok.  Þess vegna er tillagan fram komin á ný –flutningsmenn eru 18 þingmenn Samfylkingarinar, VG, Hreyfingarinnar auk þingmanns utan flokka og nú er ekkert að vanbúnaði að afgreiða hana hratt og vel á þinginu.  Það er hægt að klára málið í þinginu strax í næstu viku með góðum vilja svo þessi löngu tímabæra heildarrannsókn geti farið af stað á þessum örlagaríku viðburðum sem lögðu grunninn að stærsta ráni Íslandssögunnar.

 

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.