Ég ákæri - 2. grein

Ber enginn neina ábyrgð?

Í fyrri pistli, Ég ákæri!, rakti ég vanrækslu íslenskra heilbrigðisyfirvalda gagnvart yfirvofandi HIV-faraldri meðal sprautufólks. Ég nefndi áhyggjur fíknirannsóknastofnunar Evrópu, EMCDDA, vegna HIV-faraldurs meðal sprautufólks í Rúmeníu og á Grikklandi.

Okkar faraldur var þó sýnu svartari og um hann ríkir nánast fullkomin þögn.

Árið 2011 virðist íslenski faraldurinn hafa náð hámarki, en það ár greindust þrettán ný HIV tilfelli í sprautuhópnum. Það jafngildir rúmlega fjórum tilfellum á 100.000 íbúa. Það er sá mælikvarði sem yfirleitt er miðað við í erlendum skýrslum.

Samanburður við nágrannalöndin

Fróðlegt er að bera hörmulegan árangur íslenskra heilbrigðisyfirvalda saman við árangur nágrannaríkja okkar. Skoðum fyrst Norðurlönd:

Ísland - 13 tilfelli - 4.08 tilfelli pr. 100.000 íbúa
Svíþjóð - 12 tilfelli - 0.13 tilfelli pr 100.000 íbúa
Finnland - 8 tilfelli - 0.15 tilfelli pr. 100.000 íbúa
Danmörk - 10 tilfelli - 0.18 tilfelli pr. 100.000 íbúa
Noregur - 10 tilfelli - 0.20 tilfelli pr. 100.000 íbúa.

Ísland státar hér af glæsilegu Norðurlandameti, tilfellin eru flest hér og tíðnin tuttugu sinnum meiri. Rétt er að geta þess að Svíar og Finnar hafa fengið slæma faraldra, en þó hygg ég að hvorugur slái þeim íslenska við.

En hvað um önnur Evrópulönd? Hvernig var staðan þar árið 2011? Skoðum fyrst Holland og Portúgal, þau ríki sem hvað lengst hafa gengið í skaðaminnkun. Ástandið í Portúgal var herfilegt um síðustu aldamót og þá snéru Portúgalar blaðinu við, afglæpuðu neyslu allra vímuefna og gerðu stórátak í að bæta heilbrigðisþjónustu við vímusjúka. Hollendingar lærðu sína lexíu miklu fyrr og hafa æ síðan verið í fararbroddi meðal þjóða sem meta heilsu þegna sinna ofar kemískum duttlungum stjórnvalda.

Árið 2011 greindust HIV nýsmit hjá fjórum hollenskum sprautunotendum eða 0.02 pr. 100.000 íbúa. Tíðnin á Íslandi er tvöhundruð sinnum meiri en í Hollandi. Í Portúgal greindust sextíu og tveir einstaklingar, eða 0.58 pr. 100.000. Tíðnin á Íslandi er ríflega sjöföld á við Portúgal.

Í öðrum ríkjum Vestur-Evrópu er smittíðnin einnig lág. Ég nefni nokkur dæmi:

Þýskaland - 90 tilfelli - 0.11 pr. 100.000 íbúa
Pólland - 47 tilfelli - 0.12 pr. 100.000 íbúa
Frakkland - 87 tilfelli - 0.13 pr. 100.000 íbúa
Bretland - 131 tilfelli - 0.21 pr. 100.000 íbúa
Sviss - 22 tilfelli - 0.27 pr. 100.000 íbúa
Spánn - 148 tilfelli - 0.32 pr. 100.000 íbúa
Írland - 16 tilfelli - 0.34 pr. 100.000 íbúa
Rúmenía - 108 tilfelli - 0.57 pr. 100.000 íbúa
Búlgaría - 63 tilfelli - 0.86 pr. 100.000 íbúa

Enn er samanburðurinn Íslandi afar óhagstæður. Stórþjóðir Evrópu standa sig miklu betur en við. Jafnvel Búlgaría og Rúmenía.

Erum við þá aumust af öllum?

Það er ljós í myrkrinu. Við erum ekki aumust allra. Það má vissulega finna verri dæmi, en til þess verðum við að fara til pestarbæla í Austur-Evrópu. Nefnum dæmi:

Litháen - 86 tilfelli - 2.70 pr. 100.000 íbúa
Lettland - 90 tilfelli - 4.35 pr 100.000 íbúa
Eistland - 69 tilfelli - 5.33 pr. 100.000 íbúa
Úkraína - 6588 tilfelli - 14.46 pr 100.000 íbúa

Heimildir:

Fjöldi nýsmitaðra 2011: http://ecdc.europa.eu/en/publications/Publications/20121130-Annual-HIV-Surveillance-Report.pdf, bls 31. Fjöldi nýsmitaðra á Íslandi leiðréttur úr 12 í 13, til samræmis við Farsóttafréttir, 7. árgang, 3. tbl. Júlí - október 2011

Íbúafjöldi: Wikipedia

Ég hef nú í tveimur pistlum rakið sorgarsögu HIV-faraldursins meðal sprautufólks á Íslandi á árunum 2007 - 2011. Þó svo að faraldurinn sé í rénun í augnablikinu er hættan ekki úr sögunni. Okkur ber því að krefja stjórnvöld afdráttarlausra svara um afstöðu þeirra og aðgerðir til að verja þennan útskúfaða og úthrópaða samfélagshóp. Hvað ætla þau að gera?

Reykjavíkurdeild Rauða krossins hóf skaðaminnkandi aðgerðir meðal sprautufólks árið 2009, í samvinnu við heilbrigðisstarfsmenn og sjálfboðaliða. Það verkefni hefur ekki notið verðugs stuðnings stjórnvalda, þótt fáeinir molar hafi hrotið af borði þeirra. Sprautubíllinn, Frú Ragnheiður, er glæsilegt dæmi um frumkvæði félagasamtaka og það er nauðsynlegt að styrkja það og efla.

Rannsóknir á hinu félagslega landslagi fíkniefnaneyslu á Íslandi eru grátlega fátæklegar. Við vitum næstum ekkert um þá strauma sem stýrðu neyslunni í þann óhappafarveg sem ég hef lýst. Úr þessu þekkingarleysi verður að bæta með auknum rannsóknum.

Íslendingar eru ríflega þrjúhundruð þúsund. Sprautuhópurinn er talinn vera um það bil sjöhundruð manns. Það hefði ekki verið ofverkið okkar að koma á virku heilbrigðissambandi við nær því hvern einasta einstakling. Til þess skorti viljann.

Í stað þess að notfæra okkur fámennið, og hin nánu innbyrðis tengsl sem það skapar, ákváðu íslensk stjórnvöld að reka stríð gegn þessu fólki, sparka því sem lengst útá jaðar samfélagsins og þjarma þar að því eftir fremsta megni. Sú pólitíska ákvörðun reyndist okkur dýrkeypt.

Erum við fær um að læra af reynslunni?

Eftir stendur sú spurning hvort Íslendingar beri til þess gæfu að læra af þessum óförum, eða hvort stjórnmálajöfrarnir kjósa að lifa áfram í sýndarveruleika fíknistríðsins. Þögn heilbrigðisyfirvalda og flestra fjölmiðla gefur ekki tilefni til bjartsýni.

Uppreisn almennings gegn lúðraþeyturum og bumbuslögurum bannhyggjunnar er eina leiðin til að snúa ofan af fíknistríðinu. Við skulum sameinast um að krefja stjórnmálamenn svara í vor - og hundsa framboð og flokka sem boða hert stríð og þar með fleiri dauðsföll og aukin bágindi fíknisjúkra.

Með bestu áramótakveðjum frá Kópaskeri

Pétur Þorsteinsson
fv. skólastjóri

 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.