Ég ákæri!

Ég ákæri!

Láti maður farast fyrir að koma manni til hjálpar, sem staddur er í lífsháska, þótt hann gæti gert það án þess að stofna lífi eða heilbrigði sjálfs sín eða annarra í háska, þá varðar það …1)fangelsi allt að 2 árum, eða sektum, ef málsbætur eru. (Almenn hegningarlög, 221. grein, fyrri málsgrein)

Ég ákæri íslensk heilbrigðisyfirvöld fyrir að láta fyrir farast að koma sprautufólki til hjálpar í aðdragandi HIV-faraldurs 2007 - 2012.

Inngangur

Ég rakti stuttlega upphaf hugmyndafræðilegra átaka í Evrópu, um viðbrögð gegn HIV/AIDS meðal sprautufólks í fyrri pistli, Sænska öldin í fíknivörnum 1994-2002. Uppúr 1990 bundust nokkrar evrópskar  borgir samtökum  um að þróa skaðaminnkandi aðgerðir fyrir þennan áhættuhóp. Má þar nefna sprautu-og nálaskipti, virk tengsl fíknisjúkra við heilbrigðisstarfsfólk, afglæpun neytenda og viðhalds- og lyfjaskiptameðferð fyrir þá sem ánetjast höfðu ópíötum.


Gegn þessari hugmyndafræði risu bannhyggjupáfar af öllum skúffum og fordæmdu skaðaminnkun og bætta þjónustu við fíknisjúka sem uppgjöf í stríðinu gegn fíkniefnum og dulbúna lögleiðingu eiturlyfja. Illu heilli lenti Ísland í klónum á illskeyttasta bannhyggjugengi í Evrópu, hinum sænskættuðu European Cities Without Drugs, ECAD, sem hernámu landið vorið 1994 í boði Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur og Þorsteins Pálssonar, dómsmálaráðherra. Bannhyggjan varð trúarsetning á Íslandi og skaðaminnkun bannorð. Í stað mannúðarstefnu og skaðaminnkunar lýstu stjórnvöld stríði á hendur fíknefnanotendum og boðuðu Ísland án eiturlyfja 2002.

Skaðaminnkun hafnað

Heimildir sanna að framámenn í íslensku heilbrigðiskerfi gerðu sér fulla grein fyrir þeirri ógn sem steðjaði að sprautusjúklingum ef HIV-smit bærist inn í þeirra hóp. Nægir í því sambandi að benda á frétt Morgunblaðsins, Landlæknir telur tímabært að gefa sprautur, 18. maí 1994 og orð Haraldar Briem, smitsjúkdóma- og farsóttalæknis, í Mbl. 13. janúar 1995, þar sem hann kallar sprautufólkið tifandi tímasprengju. Haraldur segir:

Sprautufíklar eins og tímasprengja

Haraldur telur fíkniefnaneytendur, svokallaða sprautufíkla, viðkvæman áhættuhóp, en hópurinn telst vera um 300 manns. U.þ.b. tíu sprautufíklar hafa smitast á jafnmörgum árum. Ekki þurfi nema einn virkan fíkniefnaneytanda sem skiptist á nálum og sprautum við aðra, þá sé voðinn vís og veiran myndi breiðast hratt út, langt út fyrir þeirra raðir. „Fjöldi lifrarbólgutilfella af B- og C-stofni hefur aukist mikið hjá sprautufíklum. Á árunum 1989-1992 var lifrarbólgufaraldur af B-stofni meðal sprautufíkla. Smám saman mynduðu þeir smituðu mótefni, en þá tók við lifrarbólga af C-stofni, en hún er mun erfiðari viðureignar. Lifrarbólga smitast aðallega með blóði og því bendir aukningin til að sprautufíklar séu afar óvarkárir með sprauturnar sínar. Slíkt getur verið eins og tímasprengja," segir Haraldur Briem. (Mbl. 13. janúar, 1995).

Ótal fleiri dæmi sanna að heilbrigðisyfirvöld vissu að ógnin vofði yfir þessum sjúklingahópi og aðgerðaleysi þeirra verður af þeim sökum að teljast vísvitandi vanræksla.

Rétt er að taka fram að hinir sænsku ráðgjafar frá ECAD og íslenskar málpípur þeirra börðust af öllu afli gegn skaðaminnkandi aðgerðum. Eitt sorglegasta dæmið er grein Árna Einarssonar, forstöðumanns Fræðslumiðstöðvar um fíknivarnir, í Mbl. 21. júní 1994, Alnæmi og ókeypis sprautur. Grein Árna er klassískt dæmi um hættulegan hroka og gikkshátt forvarnarfólks.

Heilbrigðisyfirvöld virðast hafa ákveðið að lúta forsjá ofstækismanna fremur en viðurkenndri læknisfræði og fjölþjóðlegri reynslu. Ekkert var gert til að afstýra faraldri, utan hvað heimilað var að selja sprautur og nálar í apótekum.  

Faraldurinn brestur á

Fyrir slembilukku liðu allmörg ár þar til hinn margboðaði HIV-faraldur skall á íslenskum sprautunotendum. Lengst af greindust einn og stundum tveir sprautusjúklingar á ári og sum árin enginn. Það var ekki fyrr en 2007 sem sprengjan féll. Það ár greindust sex nýsmit í hópi sprautunotenda. Þróun faraldursins var sem hér segir:

2007 -  6 einstaklingar - 1.95 pr. 100.000 íbúa
2008 - 0 einstaklingar
2009 - 5 einstaklingar - 1.58 pr. 100.000 íbúa
2010 - 10 einstaklingar - 3.14 pr 100.000 íbúa
2011 - 13 einstaklingar - 4.08 pr. 100.000 íbúa.

Heimild: Farsóttafréttir, 7. árg. 2. tölublað. Apríl – júní 2011 og Farsóttafréttir, 7. árg. 3. tölublað. Júlí – október 2011. Farsóttafréttir hafa ekki komið út síðan júlí-okt. 2011.

Alþjóðlegur samanburður

Ekki tjóar að leita í gögnum UNAIDS að alþjóðlegum samanburði, enda skila íslensk heilbrigðisyfirvöld ekki gögnum til þeirrar stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem helguð er baráttunni gegn HIV og AIDS. Sama er að segja um gögn frá Fíknirannsóknarstofnun Evrópu, EMCDDA, í Lissabon. Íslensk stjórnvöld hafa ekki hirt um að taka þátt í því samstarfi. Raunar eru gögn um HIV faraldurinn á Íslandi torfundin á netinu.

Íslenska tölur eru þó finnanlegar í skýrslunni European Centre for Disease Prevention and Control/WHO Regional Office for Europe. HIV/AIDS surveillance in Europe 2011. Stockholm: European Centre for Disease Prevention and Control; 2012, en þær eru því miður rangar að hluta til. Í Töflu 5: HIV diagnoses in persons infected through injecting drug use, by country and year of diagnosis (2004–2011) and cumulative totals, in EU/EEA and non-EU/EEA countries of the WHO European Region, blaðsíðu 31, eru tölur um nýjar greiningar HIV meðal sprautufólks á Íslandi of lágar, ef miðað er við að tölurnar í Farsóttafréttum séu réttar. Það er afleitt að geta ekki treyst því að alþjóðleg samanburðargögn séu rétt.

Ísland, Grikkland og Rúmenía


Fíknirannsóknastofnun Evrópu, EMCDDA, vakti nýlega athygli á HIV-faraldri meðal sprautufólks í Rúmeníu og á Grikklandi árið 2011. Rúmenar eru um það bil nítján milljónir og Grikkir tæpar ellefu milljónir. Rúmenar eru um það bil sextíu sinnum fleiri en Íslendingar og Grikkir um það bil þrjátíu og fjórum sinnum fjölmennari. Rétt er að hafa þetta í huga þegar íslenski faraldurinn er borinn saman við þá rúmensku og grísku.

HIV-greiningar meðal sprautufólks 2011

Ísland: 13 tilfelli, 4.08 pr. 100.000 íbúa. (Farsóttafréttir)

Grikkland: 257 tilfelli,  2.4 pr. 100.000 íbúa (EMCDDA)

Rúmenía: 129 tilfelli, 0.68 pr 100.000 íbúa. (EMCDDA)

Læt þessi dæmi nægja að sinni, enda sýna þau að íslenski HIV faraldurinn er stórfelldur í vestur-evrópsku samhengi. Mun fjalla nánar um alþjóðlegan samanburð síðar. Ég mun einnig fjalla nánar um þá undarlegu þögn sem ríkt hefur um HIV-faraldurinn meðal sprautufólks á Íslandi, hörmulegasta slýs í íslenskri heilbrigðissögu á síðustu árum og áratugum.

Bestu áramótakveðjur frá Kópaskeri

Pétur Þorsteinsson
fv. skólastjóri 
 


 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.