Páll Ásgeir Ásgeirsson

Páll Ásgeir Ásgeirsson er rithöfundur, leiðsögumaður, blaðamaður og náttúrubarn. Hann hefur skrifað 12 bækur af ýmsu tagi en einkum leiðsögubækur um Ísland. Páll Ásgeir hefur bloggað frá 2003.
Páll Ásgeir Ásgeirsson

Að hata Hörpu

Í kjölfar efnahagshrunsins á Íslandi var góðu heilli ákveðið að ljúka byggingu tónlistarhússins Hörpu. Nú slær hjarta íslensks tónlistarlífs á hafnarbakkanum og enginn fer ósnortinn þar frá garði. Má þá einu gilda hvort það er listin sem fram fer á sviðinu eða glæsileiki hússins sem hrífur.Í þrengingum og fátækt skríða þeir fram úr holum sínum sem hatast út í allt sem tengist menningu og fögrum listum. Þeir æpa á götuhornum að allri styrkir til lista og menningar skuli lagðir niður, þeir vilja láta þagga niður í Sinfóníunni og finnst algert reginhneyksli að Harpa skuli hafa orðið til þegar nota hefði mátt peningana í eitthvað "gagnlegt".
Hatursmenn Hörpu vilja semsagt fátt fagurt sjá eða heyra og eflaust þýðir lítið að segja þeim að aldrei sé meiri þörf á að rækta það fagra og dýrmæta heldur en einmitt þegar á móti blæs.
Krepputímum fylgir oft aukin gróska í skapandi greinum þvi þjáningin er gróðurmold listarinnar. Áþekkar úrtöluraddir hafa alltaf heyrst við líkar aðstæður og með þessum hætti var barist gegn Hallgrímskirkju, Þjóðleikhúsinu, Þjóðarbókhlöðunni og Sinfóníuhljómsveitin hefur leikið í þessum andbyr fjandskapar og fáfræði allt frá stofnun.
DV stendur á gömlum merg. Þetta fornfræga götublað bar mjög lengi gæfu til þess að styðja við bakið á listum og menningu með ráðum og dáð. Í blaðinu var umfjöllun um menningarlíf gert hátt undir höfði á blómaskeiðum þess og stöður í þeim geira vel mannaðar metnaðarfullu hæfileikafólki. DV kom á fót menningarverðlaunum sem unnu sér verðskuldaðan sess og virðingu fyrir metnað og vandvirkni.
Nú kveður á stundum við annan tón. DV hefur illu heilli stundað ákveðna tegund af lýðskrumi sem fellur fjandmönnum menningar vel í geð. Þetta hefur birst í þráhyggjukenndum fréttaflutningi af því sem DV finnst aflaga hafa farið í rekstri Hörpu.
Nú síðast reynir blaðið að gera það að einhvers konar hneyksli að forsvarsmenn Hörpu hafi mætt á frumsýningu í húsinu í boði Íslensku óperunnar og það sem verra er, setið á góðum stað í salnum.
Þetta lýsir svo djúpstæðri vanþekkingu og fáfræði á umfjöllunarefninu að ekki er hægt að sitja þegjandi undir því. 
Ég held að DV ætti frekar að skipa sér í sveit þeirra sem styðja fagrar listir og menningu og rækja þannig þá arfleifð sem blaðið þrátt fyrir allt á. Það eru tímamót í íslensku menningarlífi þegar Íslenska óperan setur upp í Hörpu í fyrsta sinn. DV ætti að skammast til þess að fjalla meira um það sem menningaratburð í stað þess að reyna af glefsa úr launsátri í hæla þeirra sem ráða húsum í Hörpu.


Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.