Ögmundur Jónasson

Hér birtast greinar sem þingmaðurinn Ögmundur Jónasson skrifar í DV.
Ögmundur Jónasson

Það sem vantar í rann­sóknar­skýrsluna

Nefnd sem Alþingi skipaði til að rannsaka starfshætti Íbúðalánasjóðs hefur skilað af sér viðamikilli skýrslu sem vakið hefur verðskuldaða athygli í fjölmiðlum og á Alþingi hefur hún verið til umræðu. Skýrsl­an kemur nú til kasta Stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis og á eftir að koma síðar að nýju til umræðu í þinginu. 

Alvarlegar brotalamir
Augljóst er að miklar og alvarlegar brotalamir hafa verið í eftirliti og aðhaldi á starfsemi Íbúðalánasjóðs og skýrir það án efa ýmis mistök sem óumdeilanlega hafa verið gerð á liðnum árum við rekstur sjóðsins. Hunsuð voru varnaðarorð um innra eftirlit og ýmsar ábendingar um óásættanlega áhættu við ráðstöfun fjármuna voru virtar að vettugi. Höggvið hafði verið á aðkomu Alþingis að eftirliti og stjórnun húsnæðiskerfisins með lagabreytingu sem tók gildi 1999. „Íbúðalánasjóður varð í kjölfarið sjálfstæðari gagnvart þinginu en ósjálfstæðari gagnvart flokkspólitísku valdi ráðherra sem einn skipaði í stjórn sjóðsins án tilnefningar.“ Allt þetta tíundar rannsóknarnefndin og er mikill fengur að því. Nefndin talar tæpitungulaust og er það lofsvert.

Markaðsþenkjandi rannsóknarnefnd
Það sem ég hef hins vegar gagnrýnt í starfi rannsóknarnefndarinnar er hve ógagnrýnin hún virðist vera á fjármálakerfið á þeim tíma sem rannsóknin tekur til og hve ákaft hún tekur undir gamalkunnar kröfur um einkavæðingu húsnæðiskerfisins: „Rannsóknarnefndin skoðaði 21 úttekt sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS) og Efnahags- og framfarastofnunin (OECD) gerðu á íslensku efnahagslífi á árunum 1999–2012 og þær athugasemdir sem þar koma fram  um húsnæðisstefnu stjórnvalda. Íbúðalánasjóður hefur verið að meira eða minna leyti í brennidepli í þessum úttektum stóran hluta tímabilsins. OECD hefur hvatt til einkavæðingar húsnæðislánveitinga ríkisins síðan á dögum Húsnæðisstofnunar.“

Rannsóknarnefndin tekur undir með einkavæðingarkröfu þessara aðila – sem eru ekki nýjar af nálinni, hvorki gagnvart húsnæðiskerfinu né heilbrigðisþjónustunni – og varar jafnframt  við „afskiptum stjórnmálamanna“ af húsnæðismálum. Hneykslast er á því að félagslegt kerfi sem lýtur stjórn lýðræðislega kjörinna aðila, skuli „veita almenna lánafyrirgreiðslu á niðurgreiddum kjörum í samkeppni við einkarekna aðila.“ Grundvallartónninn í röksemdarfærslu rannsóknarnefndarinnar er sá að Íbúðalánasjóður hefði ekki átt að vera atkvæðamikill á íbúðalánamarkaði eftir að ljóst varð að  „einkaaðilar höfðu getu og vilja“ til að sinna því verkefni. Í þessu samhengi er Íbúðalánasjóður sakaður um óeðlilega „markaðssókn“ gegn bönkunum. „Raunar er ekki að sjá nein rök fyrir aðkomu hins opinbera að almennum lánveitingum á húsnæðismarkaði eftir að vaxtafrelsi var komið á, nútímavæðingu fjármagnsmarkaða lauk og ríkisbankarnir seldir.“ 

Nútímavæddir bankar?
Hér gerist nefndin rammpólitísk og er það gagnrýnivert. Þá þykir mér skorta mikilvægar sögulegar staðreyndir. Bankarnir, sem höfðu verið „nútímavæddir“ samkvæmt orðfæri skýrsluhöfunda og áttu samkvæmt mati þeirra að fá íbúðakaupendur í landinu á silfurfati í viðskipti, voru á þessum fyrstu árum eftir einkavæðingu að umbreytast í vægast sagt vafasamar stofnanir, lausar við allt sem heitir ráðdeildarsemi. Þessar „nútímavæddu“ bankastofnanir áttu síðan þátt í því að setja íslenskt efnahagslíf á hliðina og valda okkur öllum hrikalegum búsifjum. Þetta virðist hafa farið framhjá rannsakendum.

Þegar eftirlit með opinberum aðilum er réttilega gagnrýnt má ekki horfa fram hjá eftirlitsleysinu og hinu fullkomna ábyrgðarleysi sem einkenndi íslenskt einkavætt bankakerfi á þessum árum. Þykir mér orka tvímælis að sæma starfsemi sem einkenndist af spillingu og skefjalausri græðgi kennimerkinu „nútímavæðing“ þótt vissulega megi til sanns vegar færa að hún hafi verið í ætt við þann tíðaranda sem tvíeykið Framsóknarflokkur/Sjálfstæðisflokkur skóp á þessum tíma.

Varnarbarátta fremur en markaðssókn
Meint „markaðssókn“ Íbúðalánasjóðs var í reynd varnarbarátta sjóðsins gegn óprúttnum öflum sem vildu bola honum af íbúðalánamarkaði. Einskis var svifist í þeirri baráttu. Samráðsvettvangur bankanna gekk svo langt að kæra Íbúðalánasjóð til Brussel til að reyna að bregða fyrir hann fæti en þegar það tókst ekki var reynt að undirbjóða sjóðinn með vöxtum og yfirboðum í lánveitingum. Það var „markaðssókn“ bankanna sem á endanum kom okkur í koll, ekki varnarbarátta Íbúðalánasjóðs! 

90% lán til góðs
Þá er misvísandi þegar óskapast er yfir 90 prósenta lánum Íbúðalánasjóðs þegar raunveruleikinn var sá að það gilti aðeins um allra ódýrustu íbúðir. Horft er framhjá því að það hafði verið keppikefli félagslegra afla um langt skeið að tryggja almenningi aðgang að traustum lánum á góðum kjörum til langs tíma. Við sem vorum sprottin upp úr slíkri baráttu fögnuðum skrefum sem stigin voru í þessa átt.

Sjálfur skrifaði ég ótal greinar á þessum tíma til varnar Íbúðalánasjóði í baráttu hans gegn einkavæðingarútsendurum AGS, OECD, íslensku bankanna og talsmönnum þeirra á Alþingi. Bölvaldur Íbúðalánasjóðs var gráðugt fjármálakerfið. Það reyndist ÍLS erfiður ljár í þúfu en erfiðust urðu honum síðan eigin mistök. Það var þegar sjóðurinn gekkst inn á að taka risavaxin lán án þess að tryggja sér rétt til uppgreiðslu. Þegar síðan lántakendur Íbúðalánasjóðs  byrjuðu að þýðast undirboð bankanna, greiddu upp lán sín hjá ÍLS, þá tók að safnast upp lausafé hjá sjóðnum. Á sama tíma hélt hann áfram að safna lánum erlendis frá samkvæmt augljóslega röngu forriti, ættuðu úr Stjórnarráði Íslands sem hvatti óspart til erlendra fjárfestinga.

ÍLS fjármagnaði samkeppni við sjálfan sig
Þessa peninga notaði sjóðurinn til að lána bönkunum sem aftur notuðu fjármunina í samkeppni við Íbúðalánasjóð sjálfan. Þarna fór að snúast hringekja sem brátt varð ekki við ráðið. Þetta var fullkomlega galið og það bendir rannsóknarnefndin á. Þarna þurfti að grípa í taumana enda voru þeir kostir í stöðunni að sjóðurinn keypti eigin fjármögnunarbréf og grynnkaði þar með á eigin skuldastöðu. Þetta var ekki gert heldur tekið að pumpa peningum inn í óábyrgt bankakerfið sem nú fór að lána 90 prósenta lán án takmarkana! Rannsóknarnefndin kemst að þeirri niðurstöðu að þar með væri Íbúðalánasjóður óbeint farinn að lána öllum 90 prósent lán: „Með lánunum fór sjóðurinn á vissan hátt fram hjá eigin reglum um hámarkslán“. Með öðrum orðum, nefndin gerir Íbúðalánasjóð ábyrgan fyrir glórulausum útlánum bankanna á þenslutímanum í aðdraganda hrunsins!

Óábyrgur einkamarkaður brást
Ég sakna þess einnig að ekki skuli hafa verið gerð betri grein í samantekt nefndarinnar á þeirri staðreynd að Íbúðalánasjóður virðist sumpart hafa orðið fórnarlamb svikamyllu þegar verktakar tóku lán hjá Íbúðalánasjóði, bjuggu til leigufélög sem síðan fóru í gjaldþrot. Auðvitað á þetta ekki við um fjölmarga heiðarlega lögaðila sem tóku lán hjá Íbúðalánasjóði en í einhverjum tilvikum mun hafa verið um svikamyllu að ræða. Það er sláandi að fyrirtæki fengu 20 prósent allra lána Íbúðalánasjóðs en þau voru hins vegar ábyrg fyrir 40 prósentum af tapi sjóðsins!

Það voru þannig ekki einvörðungu opinberir eftirlitsaðilar sem brugðust – það gerðu þeir vissulega – heldur ekki síður, óábyrgur einkamarkaður sem á þessum tíma, í aðdraganda hrunsins, var þegar orðinn gegnsýrður af spillingu. Þessa sögulega vídd þykir mér vanta í annars að mörgu leyti ágæta skýrslu. 

Greinin birtist fyrst í helgarblaði DV, 5. júlí.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.