Kristján Már Gunnarsson

Kristján Már Gunnarsson er læknanemi við Háskóla Íslands, atvinnubloggari og mikill áhugamaður um vísindi, heilsu og næringu. Hann hefur sérstaklega gaman af því að afsanna gamlar og úreltar kenningar um næringu og heldur úti mjög vinsælli vefsíðu á ensku, kriskris.com. Þessi skrif hér byggjast á persónulegum skoðunum Kristjáns og tengjast hans námi ekki á neinn hátt.
Kristján Már Gunnarsson

9 Stærstu ósannindi í nútíma næringarfræði

Síðan mín: kriskris.com

Það er mjög mikið af rangfærslum og ósannindum til staðar í nútíma næringarfræði. Það er mín skoðun.

Því miður virðist vera afar erfitt að losna við gamlar mýtur og virðist fræðasamfélagið oft vera í fararbroddi við að hindra framþróun og gera lítið úr nýjum rannsóknum sem afsanna gömlu kenningarnar.

Í þessari grein hef ég talið upp verstu dæmin, en því miður er þetta aðeins brot af því sem miður hefur farið.

Hér eru 9 stærstu ósannindi í nútíma næringarfræði. 

1. Mettuð fita er slæm fyrir hjartað

Líklega eru stærstu ósannindin sú að mettuð fita auki líkur á hjartasjúkdómum.

Þessi mýta var byggð á pólitískum ákvörðunum í Bandaríkjunum og lélegum rannsóknum sem hafa verið afsannaðar fyrir löngu. Því miður virðast margir fræðimenn harðneita að horfast í augu við það að "slagæða-stíflandi-mettuð-fita" sé skaðlaus.

Já, hún hækkar LDL kólesteról, en það er meinlaus undirtýpa af LDL (large, dense LDL). Mettuð fita hækkar einnig HDL (góða) kólesterólið, sem hefur verndandi áhrif (1, 2, 3).

Sannleikurinn er sá að mettuð fita hefur engin áhrif á hjartasjúkdóma (4, 5).

2. Það er hollt að borða minna salt

Fræðimenn halda því oft fram að það bæti blóðþrýsting og heilsu að minnka magn salts í fæðinu.

Algengt er að mæla með að saltneysla sé minnkuð niður í 4-6 grömm af salti á dag.

Þrátt fyrir þetta eru þó nokkrar rannsóknir sem sýna að mataræði sem eru of lág í salti eru í raun skaðleg og minnka lífslíkur (6, 7, 8, 9).

Leiðbeiningar um að minnka saltneyslu virðast vera ónauðsynlegar í besta falli og jafnvel skaðlegar.

Það rétta í stöðunni er að minnka neyslu á unnum mat, en slíkur matur er helsta uppspretta óhóflegs salts í hinu vestræna fæði.
 
Að bæta smá salti á matinn til að bæta bragð er í fínu lagi. Alveg örugglega gott fyrir sálina og jafnvel líka gott fyrir heilsuna. 

3. Egg eru óholl

Egg eru að mínu mati ein sú hollasta fæðutegund sem til er.

Egg hafa fengið slæmt orðspor vegna þess að þau eru rík í kólesteróli og mettaðri fitu. Eins og ég nefndi að ofan þá eykur mettuð fita ekki líkur á hjartasjúkdómum.

Auk þess hefur kólesteról í fæði hverfandi áhrif á kólesteról í blóði og það hafa verið gerðar margar rannsóknir á eggjaneyslu og alltaf komast þær að þeirri niðurstöðu að eggjaneysla hefur engin áhrif á hjartasjúkdóma (10, 11, 12).

Staðreyndin er sú að egg eru alveg gífurlega næringarrík. Eggjarauðan er rík af hollum fitum, hágæða próteinum, vítamínum, steinefnum og andoxunarefnum. Eggjahvítan er aðallega rík af próteini.

Egg eru líka mjög mettandi og eru því fullkomin fæða til að léttast (13). 

4. Sykur er óhollur því að hann veitir tómar hitaeiningar

Ríkjandi skoðun er sú að sykur er aðeins óhollur því að hann veitir "tómar" hitaeiningar, þ.e.a.s. ríkur af orku án þess að veita nein nauðsynleg næringarefni.

Það er rétt að sykur veitir tómar hitaeiningar, en það er ekki aðalástæðan fyrir því að hann er skaðlegur. Óhófleg sykurneysla getur leitt til ýmissa krónískra sjúkdóma eins og hjartasjúkdóma, offitu o.fl. sem eru stærstu heilbrigðisvandamál heims.

Sykur í óhóflegu magni er bókstaflega eitur fyrir lifrina og það kemur tómum hitaeiningum akkurat ekkert við (14, 15, 16). 

Þetta á aðeins við í samhengi við vestrænt mataræði þar sem ofgnótt er af hitaeiningum. Þetta á ekki við um ávexti og aðrar náttúrulegar fæðutegundir sem eru lágar í hitaeiningum.

5. Grænmetisolíur eru góðar fyrir heilsuna

Það er almennt talið að fjölómettaðar fitur bæti heilsuna og minnki líkur á hjartasjúkdómum.

Þetta er að miklu leyti rétt, en heildarmyndin er aðeins flóknari. Það eru tvær tegundir af fjölómettuðum fitum sem við þurfum að fá úr fæðinu, Omega-3 og Omega-6.

Eins og þú hefur líklega heyrt milljón sinnum eru Omega-3 fitusýrur hollar. Þú færð þær í miklu magni úr fiski og lýsi. Þessu er ég sammála (17). 

Þrátt fyrir þetta er óhólfeg neysla af Omega-6 fitusýrum að öllum líkindum skaðleg og getur leitt til aukins oxunarálags og bólgu í líkamanum.

Þetta er fitan sem þú færð úr unnum grænmetisolíum, fæða sem er oft dásömuð af fræðimönnum en er líklega að valda skaða (18).

6. Kolvetni eiga að vera 50-60% af hitaeiningum

Ríkisstjórnir og næringarfræðisamtök út um allan heim mæla með að borða lágfitumataræði með kolvetni sem u.þ.b. 50-60% af hitaeiningum.

Að sjálfsögðu er þetta ekki mjög skynsamlegt miðað við þróunarsöguna en við þróuðumst við að borða mikið af fiturýkum dýraafurðum og mannkynið hafði ekki aðgang að korni fyrr en fyrir 12.000 árum.

Staðreyndin er sú að þetta hlutfall á að vera akkurat öfugt. Það er betra fyrir heilsuna að borða lítið af kolvetnum og mikið af fitu (Low Carb, High Fat Diet).

Slík mataræði leiða til betri útkomu fyrir fólk en það lágfitumataræði sem er mælt með af ríkisstjórnum og næringarstofnunum.

Mæligildi eins og líkamsfita, blóðsykur, insúlín, blóðþrýstingur, kólesteról og þríglýseríðar batna mun meira á lágkolvetnamataræði. Þetta eru allir þeir helstu áhættuþættir fyrir vestræna sjúkdóma (19, 20, 21, 22). 

7. Fituskertar matartegundir eru hollar

Ein helstu áhrif margra ára "stríðs" gegn mettaðri fitu voru sú að það komu alls konar fituskertar fæðutegundir á markað.

Eins og er nú vitað er fita ekki skaðleg fyrir okkur, því þjóna fituskertar fæðutegundir litlum tilgangi í að bæta heilsu.

En staðreyndin er sú að þessar fæðutegundir bragðast eins og rusl þegar búið er að taka fituna úr þeim. Þess vegna er bætt við sykri, gervisætuefnum eða öðrum óhollum efnum. Annars myndi enginn geta borðað þetta.

Sykurinn er mjög skaðlegur, eins og ég fjallaði um að ofan. Gervisætuefnin hafa líka verið tengd við marka sjúkdóma í faraldsfræðirannsóknum, meira að segja við offitu (23, 24, 25).

Einnig benti ein nýleg rannsókn á að neysla á feitum mjólkurvörum (smjör, ostur o.fl.) leiðir ekki til skaðlegra áhrifa og stuðlar að lækkaðri tíðni offitu (26).

8. Allir ættu að borða heilkorn

Af einhverri furðulegri ástæðu virðast margir fræðimenn telja að við ættum að byggja mataræðið okkar á fæðutegundum sem eru næringarsnauðar og maðurinn hafði engin kynni af fyrr en fyrir 12.000 árum, sem er mjög stuttur tími á þróunarfræðilegum skala og allt of stuttur tími fyrir aðlögun.

Lágkolvetnamataræði (enginn kornmatur) leiða til mjög jákvæðra áhrifa á heilsu, sem þýðir það að skera niður bæði korn og sykur úr fæðinu sé mjög hollt.

Margar kortegundir (hveiti, spelt, rúgur, bygg) innihalda glúten, sem getur leitt til ýmissa heilsufarsvandamála og ekki aðeins í þeim sem eru með glútenóþol (27, 28, 29).

Mikilvæg staðreynd sem gleymist oft er að kornmatur er verulega næringarsnauður miðað við kjöt, egg, fisk og grænmeti (30).

Glútenlausar korntegundir eru að öllum líkindum minna óhollar en þær sem innihalda glúten, en hafa þrátt fyrir það efni eins og lektín og phýtatsýru, sem binda steinefni og hindra upptöku á þeim.

Þetta gerir að verkum að kornmatur er ekki aðeins næringarsnauður heldur inniheldur hann efni sem stela næringarefnum frá öðrum fæðutegundum. 

9. Það er fitandi að borða fitu

Það hljómar lógískt að það að borða fitu muni gera mann feitan, enda er fita efnið sem safnast undir húðina á okkur. 

En þetta er ekki svo einfalt. Þrátt fyrir að fita hafi fleiri hitaeiningar, gramm fyrir gramm, en kolvetni og prótein (9kcal vs. 4kcal), þá er ekki fitandi fyrir mannfólk að borða mataræði sem er ríkt í fitu.

Auðvitað fer þetta eftir samhenginu. Mataræði sem er ríkt í sykri, fínu korni, unnum mat og fitu, er fitandi, en það er ekki út af fitunni. 

Staðreyndin er sú að mataræði sem eru fiturík (og lág í kolvetnum) stuðla að meira þyngdartapi en mataræði sem eru fituskert (31, 32, 33). 

10...?

Það er af nógu að taka hér, endilega bættu við listann.

Síðan mín: kriskris.com
Facebook síðan: facebook.com/krishealthblog/ 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.