Gjaldeyrishöft

Blessunarlega gera flestir stjórnmálmenn sér ljósa grein fyrir hversu aðkallandi það er fyrir efnahagslífið að losna við gjaldeyrishöftin. Þó eru nokkrir sem að eru afar sáttir við þau vegna þess hvernig sumir geta hagnast á þeim á kostnað almennings. Þeir stjórnmálamenn sem þannig er varið benda út og suður og þvælast fyrir í umræðunni þegar ræddar eru hvaða leiðir eru færar til að komast úr höftunum.

En hvort sem að menn vilja raunverulega losa okkur við gjaldeyrishöft, eða segjast bara vilja það; þá er merkilegt að engum virðist detta í hug að nýta þá gríðarlegu fiskgengd sem nú er allt í kringum landið.

Ein leið sem við höfum til þess að styrkja gengi krónunnar er að framleiða meira: Og hver ætli sé besta og fljótvirkasta leiðin til þess?

Það vantar ekki að stjórnmálamenn telja sig ægilega ábyrgðarfulla að veiða svona lítið þrátt fyrir að grjót-nóg sé að fiski allt í kringum landið; ég tel það hinsvegar algjört ábyrgðarleysi af þeirra hálfu að skoða ekki möguleikann á því að veiða meira núna (hætta þessu bulli að veiða minna núna til að veiða meira seinna; sem tuggið hefur verið í okkur síðustu áratugina).

Núverandi stjórnarmeirihluti hefur gullið tækifæri í höndunum til að blása lífi í glæður atvinnulífsins: með því að stórauka veiðiheimildir og jafnframt því losa sjávarútveginn af þeim klafa einokunar sem að fiskveiðistjórnunarkerfið bindur hann í.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.