Jóhann Hauksson

Jóhann Hauksson blaðamaður hefur með hléum bloggað um stjórnmál og samfélagsmál á DV.is frá opnun vefsins árið 2007, lengst af sem starfandi blaðamaður. Jóhann á feril frá árinu 1986 sem frétta- og blaðamaður. Hann var lengst af fréttamaður, dagskrárstjóri og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV, síðar blaðamaður á Fréttablaðinu, DV og DV.is og „Morgunhani“ á Útvarpi Sögu. Hann hefur einnig starfað sem almannatengill og upplýsingafulltrúi.
Jóhann Hauksson

HRÆRNGAR Í FLOKKAKERFINU

None
„Þjóðernishyggja er barnasjúkdómur;  hún er mislingar mannkynsins,“ var haft eftir Albert Einstein. Spurningin er hvort hefja þurfi bólusetningu hér á landi gegn henni.
Með þjóðernishyggju er í þessum pistli átt við gildi sem hvíla á traustum grunni og vísa til sjálfstæðisbaráttu íslensku þjóðarinnar,  hugmynda um langvinna kúgun erlendra þjóða, sjálfstæði og fullveldi sem sótt var með harðri hendi í greipar þeirra. 
Stundum færi að vísu betur á því að tala um þjóðrækni þegar rætt er um harðbýlt land og útfærslu landhelginnar í óþökk nágranna- og viðskiptaþjóða á nýliðinni öld. Þessu er ef til vill best lýst sem föðurlandsást. Varla er hún svo slæm, jafnvel er hún göfug, segja margir. 
Lýðveldið var stofnað 1944 og hafði fjarri því slitið barnsskónum og náð einhverjum þroska þegar það hafnaði undir verndarvæng Bandaríkjamanna með pólitískum samningum og komu herliðs sem settist að á Miðnesheiði.  

Einangrunarhyggja grefur um sig
Meðal nágrannaþjóða eru gildin að mörgu leyti önnur en þau sem gegnsýrðu íslenska þjóð. Í seinni tíð ber samt æ meir á því að gildi nái fótfestu sem tengjast verndun þjóðernisins sjálfs og þjóðlegra gilda. Pólitískar tilraunir til að hefta búsetu fólks af framandi þjóðerni og menningu í viðkomandi löndum er af þessum toga. Nýlegt dæmi er velgengni Svíþjóðardemókratanna í þingkosningum í Svíþjóð. Sænsk stjórnmálamenning ákvað hins vegar að einangra framboðið frá stjórn landsins og draga sem mest úr formlegum áhrifum þess.
Nú fullyrða ýmsir að íslensk börn verði hneppt í þrælahald næstu áratugina verði Icesave-samningurinn samþykktur í þjóðaratkvæðagreiðslu um næstu helgi.  „Sýnum-þessum-helvítis-útlendingum-í-tvo-heimana“-sjónarmiðið er sömuleiðis býsna útbreitt.  
Þótt menn séu á móti Icesave-samningnum og ESB jafngildir það vitanlega ekki því að menn séu þjóðernis- og einangrunarsinnar. En samt verður ekki framhjá því horft að NEI-sinnarnir sækja fylgi til hópa sem rækta andúð af þessum toga. Viðhorfin fara saman við sjálfsmynd þjóðar sem telur sig standa eina gegn ofurafli þegar á reynir.
„Gjaldið sem Íslendingar greiða nú er gjaldið fyrir að það að vilja standa einir,“ sagði Uffe Ellemann Jensen, Íslandsvinur og fyrrverandi utanríkisráðherra Dana í Berlingske Tidene tveimur vikum eftir bankahrunið 2008.

Hvaða stefnu bjóða flokkarnir?
Tilraunir eru gerðar af þjóðernis- og einangrunarsinnum til að ná undirtökunum bæði í Sjálfstæðisflokknum og Framsóknarflokknum. Bjarni Benediktsson formaður og hófsöm breiðfylking innan Sjálfstæðisflokksins, fer halloka í harðskeyttri and-Icesave- og and-ESB-umræðunni. Hvernig sem þjóðaratkvæðagreiðslan fer um næstu helgi munu átök harðna innan flokksins milli frjálslyndis og einangrunarhyggju. 
Í Framsóknarflokknum sækja einangrunarsinnar fram í nafni Vigdísar Hauksdóttur sem hyggur á framboð til varaformanns á flokksþingi um næstu helgi. Undir harðlínusjónarmiðin gegn Iceave og ESB kyndir hluti þingflokksins. Þeir sýnast vilja ganga í skrokk á hófsömum miðjumönnum í flokknum. Á hliðarlínunni stendur hófsemdarfólkið sem hallast að miðjunni, vill skoða nýjar leiðir í landbúnaði, sjávarútvegi, ljúka aðildarumsókn að ESB með þjóðaratkvæðagreiðslu, samþykkja Icesave og skipta um gjaldmiðil. Þetta fólk ætlar að mæta á flokksþing um næstu helgi og reyna að komast að því hvort það sé statt í réttum stjórnmálaflokki. Það veit að það er ekki í tísku að vera með nafn Evrópusinnnans Halldórs Ásgrímssonar á vörunum innan flokksins.  En hefur flokkurinn eitthvað upp á að bjóða? Til hvaða kjósenda ætlar Framsóknarflokkurinn að höfða þegar hann hefur svælt út frjálslyndið og tyllt undir þjóðræknina, íhaldssemina og einangrunarhyggjuna?

Flokkakerfi riðlast
Þetta eru átökin milli þjóðrækni- og þjóðernissjónarmiðanna annars vegar og frjálslyndis og alþjóðahyggju hins vegar. Ekki er vitað hvort sömu kraftarnir slíta sundur friðinn í Framsóknarflokknum, Sjálfstæðisflokknum og VG.  Engin ástæða er til að ætla að ystavinstrið og öfgahægrið geti starfað saman þótt afstaðan í lykilmálum sé keimlík. Átökin geta hins vegar náð því stigi að flokkakerfið taki að riðlast. Frumkvæðið gæti komið frá frjálslyndu miðjufólki í öllum flokkum sem tæki höndum saman gegn íhaldssömum flokki á hægri vængnum.  Á vinstri kantinum yrðu græningjar og sósíalistar líkt og fyrr.

(Birt í DV 4.-5. apríl)      Pistillinn er að hluta byggður á nýlegum skrifum mínum á DV.is 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.