Jóhann Hauksson

Jóhann Hauksson blaðamaður hefur með hléum bloggað um stjórnmál og samfélagsmál á DV.is frá opnun vefsins árið 2007, lengst af sem starfandi blaðamaður. Jóhann á feril frá árinu 1986 sem frétta- og blaðamaður. Hann var lengst af fréttamaður, dagskrárstjóri og dagskrárgerðarmaður hjá RÚV, síðar blaðamaður á Fréttablaðinu, DV og DV.is og „Morgunhani“ á Útvarpi Sögu. Hann hefur einnig starfað sem almannatengill og upplýsingafulltrúi.
Jóhann Hauksson

VALDMÖRK FORSETA OG ÞINGS FYRIR DÓMSTÓLA

None
Margir löglærðir menn, sem ég hef rætt við undanfarna daga,  telja að formlega sé ekkert við þá ákvörðun forseta Íslands að athuga að synja Icesavelögunum staðfestingar. Stjórnarskráin bindi ekki hendur hans eða takmarki hann á nokkurn hátt.
En jafnvel þeir löglærðu menn, sem svona líta á málin, eru á báðum áttum um forsendur þær sem forsetinn notar til að rökstyðja ákvarðanir sínar. Í raun er nú orðið ljóst að forsetinn notar hvaða rök sem vera skal að eigin geðþótta. Stundum um efni málsins, stundum um meintan vilja þjóðarinnar og svo framvegis.
Þetta er vitanlega ekki boðlegt.

Þá vaknar spurningin hvort unnt sé að láta reyna á valdmörk forsetaembættisins fyrir dómstólum. Slíkt hefur aldrei verið reynt þótt 60. grein stjórnarskrárinnar  segi ótvírætt að dómendur skeri úr öllum ágreiningi um embættistakmörk yfirvalda.
 
Þrautreyndur lögspekingur, sem vill síður blanda sér í ofstækisskrifin hér á vefnum,  telur að menn verði að hafa sérstakra hagsmuna að gæta til að fara með mál gegn forsetanum fyrir dóm. Beinlínis þurfi að hafa verið brotið á rétti viðkomandi. Þessi sami lögvitringur telur fljótt á litið að það mundi geiga ef til dæmis forsætis- eða fjármálaráðherra höfðaði mál um valdmörk forsetans. Kærandinn yrði að hafa sértækra hagsmuna að gæta.
Ýmsar ákvarðanir forsetans verða ekki bornar undir dómstóla og þetta er ein þeirra, segir mér þessi ónefndi lögspekingur og bætir við, að ekki verði séð að með neinum rökum sé hægt að halda fram að forsetinn hafi farið út fyrir valdsvið sitt NEMA menn séu þeirrar skoðunar að hann hafi hreinlega ekki þetta vald.

Honum finnst jafnframt greinin um ábyrgðarleysi forsetans (gr. 11) tímaskekkja, því vitanlega taki forsetinn stórpólitíska ákvörðun í hvert skipti sem hann fer gegn meirihlutavilja Alþingis. “Forsetinn tekur ákvörðun einn og óstuddur en hann á að meta ástæður og skoða almannahagsmuni. Ég er algerlega ósammála þessum skilningi forsetans að hann sé milliliður eða dyravörður. Það er röng túlkun á stjórnarskránni.”
Þessi skilningur lögspekingsins er sannfærandi þegar litið er til þess að synjunarvald forsetans á uppruna að rekja til synjunarvalds konungs sem var algert. Á nítjándu öld hafði konungur enga möguleika eða leiðir til þess að slá mati á almenningsálit, vilja þjóðar o.s.frv. og studdist því við efni málsins og eigin sannfæringu. Við gætum líka kallað það “eigin geðþótta”.

Annar löglærður maður, sem ég hef rætt við (og kýs að halda sér utan við skítkast í bloggheimum), telur sjálfsagt og einboðið að Steingrímur J. Sigfússon og Jóhanna Sigurðardóttir höfði mál gegn forsetanum til að fá valdmörkin á hreint. Slíkt mál yrði ekki höfðað til refsingar enda verður forsetinn ekki sóttur til refsingar nema með samþykki Alþingis.

Hvaða staða kemur upp ef því yrði haldið fram í kærumáli fyrir héraðsdómi að forseti hafi farið út fyrir valdsvið sitt með því að neita að undirrita Icesavelög?
Dómurinn gæti tekið málið fyrir efnislega og þeirri niðurstöðu yrði áreiðanlega vísað til Hæstaréttar. Dómurinn gæti líka vísað málinu frá. Sú niðurstaða er einnig kæranleg til  Hæstaréttar sem þá yrði að axla ábyrgðina á málinu, hver sem niðurstaðan yrði.
Ef þetta yrði gert gerbreytist hin réttarlega staða frá því að vera sjálftaka forseta á valdi, í það að vera sæmilega lögformlegt ástand þar sem dómstólar hefðu sagt sitt. Ríkisstjórnin gæti með þessu varið sig ábyrgð án þess að taka nokkra áhættu.

Að öllu samanlögðu er að sjá sem tvær grímur séu að renna á menn varðandi vald forsetans og þá virku pólitísku stöðu sem hann hefur tekið sér. Engin trygging er nú lengur fyrir því að hann beiti ekki 26. greininni til dæmis gegn fjárlögum ef geðþótti hans byði að þjóðin yrði að gerast "löggjafi", til dæmis vegna þess að honum sjálfum fyndist skattar of háir.

Menn mega ekki til þess hugsa að brölt forsetans kunni að skaða þjóðina og einstaklingar og almenningur muni síðar telja sig þurfa að draga einhvern til ábyrgðar. Á þessu er samt raunveruleg hætta.

Er ekki Jóhönnu og Steingrími skylt að fá þetta á hreint fyrir þjóðina?

(Að gefnu tilefni er mér ekki illa við forsetann heldur eru hér rædd áhugaverð álitamál um ruglingslega meðferð valds í stjórnskipun Íslands.)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.