Hlöðuveggur

Hjörtur Hjartarson hefur gagnrýnt íslenska valdhafa og stjórnmálastétt opinberlega um langt árabil, bæði í orði og verki. Yfirleitt málefnalega og alltaf hiklaust. Hann er sannfærður um að landsmenn muni gera það sem gera þarf til að endurnýja samfélag sitt á nýjum og heilbrigðum grunni. Í því felst afdráttarlaust uppgjör við hrunið og að Íslendingar semji sér eigin stjórnarskrá.
Hlöðuveggur

Þau munu fjúka af þingi

Verði frumvarp Stjórnlagaráðs að stjórnarskrá, munu stjórnmálamenn fremur eiga undir almennum kjósendum en öðru hvort þeir taki sæti á Alþingi. Þá munu þau fjúka, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Guðlaugur Þ. Þórðarson, Tryggvi Þ. Herbertsson og Ásbjörn Óttarsson, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson. Nær örugglega Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Árni Johnsen, og allt eins Steingrímur, Bjarni Ben og Össur ... . 

Lengið listann eftir þörfum og smekk. Stjórnmálamenn munu ekki eiga frátekin sæti fyrir sig á Alþingi.

Þegar af þessari ástæðu er borin von að stjórnlaga- og eftirlitsnefnd skipuð þingmönnum stjórnmálaflokkanna muni betrumbæta frumvarp Stjórnlagaráðs. Engin von er til þess að slík nefnd nái viðlíka sambandi við almenning í landinu og Stjórnlagaráði lukkaðist. Stórkostleg hætta er hins vegar á því að þingmenn sem nú sitja á Alþingi eyðileggi frumvarpið.

Það eru víst ekki nýjar fréttir að stjórnarskrármál henti illa stjórnmálamönnum, enda mun vera almenn regla að þeir láti þau í friði, eins og Þorvaldur Gylfason benti á í Fréttablaðinu í liðinni viku. Reynsla Íslendinga styður það líka eindregið.

Eiríkur Tómasson lagaprófessor sagði í Sjónvarpinu daginn fyrir hinar örlagaríku kosningar til stjórnlagaþings, að stjórnmálaflokkarnir hafi í raun verið sáttir við óbreytt ástand og ekki haft raunverulegan áhuga á að breyta stjórnarskránni. Með öðrum orðum, óbreytt stjórnarskrá hentaði sérhagsmunum flokkanna. Endurskoðun hennar var því ávallt í skötulíki, til stórskaða fyrir land og þjóð.

Þannig var síðasta alvarlega tilraun Alþingis til þess að endurskoða stjórnarskrána ekki alvarleg nema í aðra röndina. Tilraunin mistókst og enginn varð hissa.

Halldór Ásgrímsson, þá splunkunýr forsætisráðherra, skipaði nefnd til að endurskoða stjórnarskrána í janúar 2005. Ég geri ráð fyrir að það hafi verið að undirlagi þess sem vék fyrir honum úr embætti. Nefndin, sem var undir forystu Jóns Kristjánssonar heilbrigðis- og tryggingarmálaráðherra, átti að ljúka endurskoðuninni í ársbyrjun 2007. Með Jóni í nefndinni sátu þau Jónína Bjartmarz, Framsóknarflokki, Geir H. Haarde, Þorsteinn Pálsson sendiherra og Birgir Ármannsson, fyrir Sjálfstæðisflokkinn, Össur Skarphéðinsson og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir fyrir Samfylkinguna, Steingrímur J. Sigfússon fyrir Vinstri græn og Guðjón A. Kristjánsson fyrir Frjálslynda flokkinn.

Umræður í nefndinni munu hafa náð nokkru flugi á köflum, en hagsmunir almennings urðu utanveltu og ekkert varð úr endurskoðuninni, eins og áður sagði. Ástæðan var sú, að tveir menn áttu hug og hjörtu nefndarmanna, og svifu jafnan yfir vötnum í nefndarstarfinu. Það voru Ólafur Ragnar Grímson forseti og Davíð Oddsson utanríkisráðherra, en þeir höfðu þá nýlega lokið rimmu um fjölmiðlafrumvarpið alræmda. Annar hluti nefndarmanna hafði hugann bundinn við 26. gr. stjórnarskárinnar, um rétt forseta til að synja lögum staðfestingar. Hinn hlutinn hafði mestan áhuga á að gera breytingar á skipun dómara. 

Formaður nefndarinnar, Jón Kristjánsson, varð eftir þetta volk hallur undir stjórnlagaþing, og skyldi engan undra.

Ekki var þó unnið til einskis. Nefnd fjögurra sérfræðinga var skipuð til að vera stjórnmálamönnunum til halds og trausts. Í henni sátu Kristján Andri Stefánsson lögfræðingur, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor og Björg Thorarensen prófessor. Formaður sérfræðinganefndarinnar var áðurnefndur Eiríkur Tómasson.

Sérfræðinganefndin vann merkilegt starf og vinna stjórnarskrárnefndar Jóns Kristjánssonar skilaði sér í ágætri áfangaskýrslu. þá skýrslu nýtti Stjórnlagaráð sér ásamt viðamiklu safni annarra gagna, meðal annars því sem stjórnlaganefnd tók saman. 

Stjórnlagaráð leitaði einnig ráða hjá ofangreindum sérfræðingum við endurskoðun stjórnarskrárinnar auk fjölda annarra sérfræðinga, innlendra sem erlendra. Er þá ótalið viðamikið og opið samráð Stjórnlagaráðs við almenning í landinu, einkum í gegnum netmiðla og þjóðfund.

Fulltrúar flokkanna á þingi þurfa því ekki að láta nú eins og frumvarp Stjórnlagaráðs sé á byrjunarreit, hálfkarað. Það er rangt. Hins vegar gæti það dugað þeim sem fölsk réttlæting fyrir því að eyðileggja frumvarpið. Sú er hættan.

Þingmenn ættu að láta frumvarp Stjórnlagaráðs að nýrri stjórnarskrá sem mest í friði. Nær væri þeim að sjá til þess að frumvarpið yrði kynnt sómasamlega fyrir almenningi vítt og breitt um landið. Óbreytt.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.