Hallgrímur Helgason

Hallgrímur Helgason er rithöfundur.
Hallgrímur Helgason

Með Vafning um háls til varnar Geir

Seint gengur að gera upp Hrunið en gengur þó. Fyrstu ákærur berast nú frá sérstökum saksóknara og skilanefndir láta til skarar skríða gegn gömlum bankastjörnum og lánakóngum. Skyndilega virðast milljarðadílar græðingjanna, samningar og tilfærslur sem gerðar voru á einu dýrðlegu augnabliki árið 2007, eða undanskot framkvæmd í hreinni örvæntingu í október 2008, ætla að breytast í skuldir sem tekur menn alla ævina að borga. Smám saman birtist okkur, fjárblindum og fávísum almenningi, mynd sem er örlítið skýrari en sú sem við ímynduðum okkur í árdaga eftirhruns en miklu mun skelfilegri. 
Og stundum blandast pólitíkin út í milljarðakokteilinn.

Glitnismál
Deilur síðustu vikna um landsdómsmál og hugsanlega afturköllun þess leiða hugann að fyrsta flutningsmanni tillögunnar, núverandi formanni Sjálfstæðisflokksins.
Nýverið gaf sérstakur saksóknari út ákæru í svokölluðu Vafningsmáli. Glitnismönnunum Lárusi Welding og Guðmundi Hjaltasyni er stefnt fyrir að veita Milestone risalán í febrúar 2008. Ákæran var birt í netmiðlum og sé rýnt í hana kemur ýmislegt í ljós sem ekki hefur farið hátt í fjölmiðlum.

Tíu milljarðar
Forsaga málsins er sú að til var félag að nafni Þáttur International ehf. sem var í eigu Milestone og hinna svokölluðu „Engeyinga“ (bræðranna Benedikts og Einars Sveinssona). Þáttur skuldaði Morgan Stanley-bankanum í Bandaríkjunum stóra fjárhæð vegna láns sem félagið tók árið 2007 til að kaupa 7 prósenta hlut í Glitni. Lánið var  komið á gjalddaga: Greiða þurfti fjárhæðina til baka fyrir klukkan 15.00 föstudaginn 8. febrúar 2008. 
Hér gefst innsýn í upphaf Hrunsins: Íslenskir viðskiptamenn höfðu teflt djarft á góðum árum og tekið stór lán hjá erlendum risabönkum. En nú var komið að skuldadögum og engir peningar til. Þrautalending Milestone-manna og Engeyinga var sú að fá lán hjá „sínum“ banka, en Milestone átti þá 7 prósenta  hlut í Glitni. Upphæðin sem til þurfti var 102 milljónir evra, eða 10.019.073.445 íslenskar krónur (tíu milljarðar). 
En hér var hængur á: Þar sem Milestone átti 7 prósent í Glitni mátti bankinn ekki lána fyrirtækinu meira en 17 prósent af eigin fé. Þar sem Milestone hafði þegar tekið mikið af lánum hjá Glitni var fyrirtækið komið svo nærri þessu hámarki að með þessari tíu milljarða reddingu yrði farið 4 milljarða yfir það. Slíkt varðar við lög.

Fléttan
En reynum að setja okkur í spor Glitnismanna í febrúar 2008. Þeim var vandi á höndum. Þeim hefur væntanlega verið fullkunnugt um lög og reglur. En þeir stóðu frammi fyrir stórum vanda: Myndi Þætti International ekki takast að borga lánið frá Morgan Stanley tæki ameríski bankinn í sinn hlut veðin fyrir láninu. Og hver voru veðin? Jú, bréf í Glitnisbanka. Kæmust þau í hendur Morgan Stanley yrðu þau sett á markað: Víst er að virði þeirra hefði hrunið samdægurs og íslenski bankinn þar með. Enn fremur var það mat margra, þarna í febrúar 2008, að myndi Glitnir hrynja færu Landsbankinn og Kaupþing sömu leið. 
Lárus Welding og Guðmundur Hjaltason stóðu því frammi fyrir athyglisverðum kostum: Að brjóta lög og reglur og lána Milestone meira en þeir máttu, eða láta bankann rúlla, og Ísland með… 
Í örvæntingu reyndu menn því að hanna fléttu, hina margfrægu Vafningsfléttu. Ákveðið var að Milestone-menn og Engeyingar myndu stofna nýtt „hlutlaust“ félag sem stæði utan Milestone- félagasamstæðunnar. Einhverra hluta vegna fékk þetta félag hið ótrúlega heiti Vafningur. Glitnir myndi síðan lána þessu félagi milljarðana tíu og Vafningur aftur lána Þætti og Þáttur svo borga Morgan Stanley. Með þessu væri komist hjá því að fremja lögbrot og brjóta bankareglur, aðrar en þær sem sögðu að Glitnir ætti að fara vel með fé sitt, taka sem minnsta áhættu og gæta vel að veðum.
En þá kom babb í bát.

Vafningsfléttan mistókst
Til þess að hægt væri að lána Vafningi varð félagið að vera einhvers virði og samkvæmt því sem lesa má í ákæru sérstaks saksóknara var þá ákveðið að færa inn í það hlutabréf úr eigu tryggingafélagsins Sjóvá, sem þá var í eigu Milestone. Þetta gekk þó hægar en vonast var til, væntanlega vegna þess að Engeyingarnir, bræðurnir Sveinsson, voru staddir erlendis, eins og kunnugt er af fjölmörgum fréttum um málið sem birst hafa í DV á liðnum árum. Hér hefur líklegast skort upp á undirskriftir. Ákæran segir okkur hér aðeins meira en fréttir DV af málinu. Úr henni má lesa að ekki tókst að ganga frá láninu til Vafnings í tæka tíð fyrir klukkan 15.00 hinn örlagaríka 8. febrúar. 
Semsagt: Vafningsfléttan mistókst.
Við sjáum fyrir okkur bankastjóra Glitnis á skrifstofu sinni á Kirkjusandi um hálfþrjú á föstudegi, með líf bankans (og landsins) í lúkunum, bíðandi og vonandi að Milestone og Engeyingum tækist að hrófla upp málamyndafélaginu Vafningi í tæka tíð. Þegar það tekst ekki er gengið til þess óhreina verks að lána einfaldlega Milestone beint, án nokkurra trygginga, svo þeir geti borgað lán Þáttar fyrir klukkan þrjú. 
Hér var því framið lögbrot. En eftir helgina var reynt „að fixa“ það.

„Dæmigerð skítaredding“
Samkvæmt fyrrnefndri ákæru virðist loks hafa tekist að færa eignir Sjóvár inn í Vafning og gera félagið lánshæft þriðjudaginn 12. febrúar. Því þá loks var lánið til Milestone (frá föstudeginum) fært yfir á nafn Vafnings. Af ákæru sérstaks saksóknara að dæma var sá lánasamningur hinsvegar dagsettur fjóra daga aftur í tímann. Semsagt: Látið var líta svo út að lánið þann 8. febrúar hefði runnið til Vafnings en ekki Milestone.
Hér virðist því komin „dæmigerð skítaredding úr íslenska góðærinu“ eins og kunnugir hafa lýst slíkum gjörningum. 
Það sem kemur hinsvegar ekki fram í ákæru sérstaks er aðkoma Bjarna Benediktssonar, formanns Sjálfstæðisflokksins, að þessu sakamáli. Af fjölmörgum fréttum DV um málið vitum við hinsvegar að formaðurinn léði þessum lánasamningum undirskrift sína. Í fjarveru föður síns og föðurbróður (Bjarni er sonur Benedikts Sveinssonar) var Bjarni fenginn til að skrifa undir veðsamninginn til Vafnings í umboði bræðranna. Í árslok 2009 birti DV ljósmynd af veðsetningarpappírum vegna Vafnings þar sem getur að líta undirskrift Bjarna Benediktssonar í þrígang, ásamt dagsetningunni 8. febrúar. 
Ef lánið til Vafnings var í raun framkvæmt þann 12. febrúar en látið líta út fyrir að það hefði verið gert þann 8. febrúar, kviknar spurningin: Skrifaði formaður Sjálfstæðisflokksins undir fölsuð skjöl?

„Átti þátt í að Glitnir féll“
Það verður fróðlegt að fylgjast með réttarhaldi í þessu máli sérstaks saksóknara gegn Glitnismönnum. Ef til vill mun það leiða í ljós nákvæmari útlistun á þætti Bjarna Benediktssonar. Í viðtali við DV í desember 2009 sagði hann um Vafningsmál að faðir hans og frændi hefðu ekki verið „staddir á landinu og báðu mig um það fyrir sína hönd að skrifa undir ákveðinn veðsamning þar sem þeir voru að veðsetja hlutabréfin sín í félaginu... Þetta var veðsamningur sem gerður var við bankann vegna lána sem bankinn hafði veitt félaginu.“ 
Þetta hljómar sakleysislega en sést nú að var liður í lögbroti, sem samkvæmt ákæru sérstaks saksóknara „átti þátt í að Glitnir féll í byrjun október 2008 með mjög alvarlegum afleiðingum fyrir kröfuhafa, ríkissjóð og almenning á Íslandi.“ Lokaorð ákærunnar eru: „Óhjákvæmilegt er því að líta svo á að brot ákærðu hafi verið stórfellt. Háttsemi ákærðu beindist að verulega miklum verðmætum og olli mjög mikilli fjártjónshættu. Eru sakir ákærðu svo miklar að við broti þeirra liggur allt að 6 ára fangelsi.“

Íslenskir fjölmiðlar
Nokkuð er liðið síðan ákæran var birt en þó hefur hún fengið litla umfjöllun í fjölmiðlum. Ég man ekki til þess að fram hafi komið að Vafningur hafi í raun fengið hið fræga lán eftir umrædda helgi og það síðan verið dagsett aftur í tímann. Enginn miðill hefur lýst því fyrir almenningi hvernig Vafningsfléttan mistókst. 
Þá er það einnig umhugsunarvert að enginn fjölmiðill, annar en DV, skuli hafa fjallað um Vafningsmálið yfir höfuð. Enginn annar miðill greip boltann sem DV kastaði á loft í desember 2009 og í nýliðnum fréttaflutningi af ákæru sérstaks saksóknara minntist enginn (nema DV) á aðkomu formanns Sjálfstæðisflokksins. 
Því er lítil von um að sá maður verði nokkru sinni spurður hvenær hann skrifaði undir lánin til Vafnings. Skrifaði hann undir skjal sem dagsett var aftur í tímann? Vissi hann að hér var hann að kvitta upp á lögbrot sem varðar 6 ára fangelsi? Vissi hann að allur málatilbúnaðurinn var gerður til að fara á svig við reglur bankans? Vissi hann að málið var ekkert annað en heimasmíðuð skyndiredding til að varna falli Glitnis? Og ef hann vissi það ekki, hvort hann telji sig samt sem áður tilbúinn að setjast í stól forsætisráðherra Íslands?

Hrunbjöllur hringja
Við lestur ákærunnar hvarflar hugurinn aftur í tímann og almennari spurningar kvikna. Þegar Bjarni Benediktsson, þá þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður utanríkismálanefndar á Alþingi Íslendinga, kemur að „skítareddingu“ upp á 100 milljón evrur í ársbyrjun 2008 í því skyni að redda einum af þremur stórbönkum þjóðarinnar fyrir horn hljóta fleiri að hafa heyrt þær illu bjöllur hringja. Þegar slíkar upphæðir hverfa úr landi fara þær ekki framhjá Seðlabanka Íslands. Gat slíkt farið framhjá forsætisráðherra? Gat sú staðreynd að Glitnir stóð þarna á barmi gjaldþrots farið framhjá manni eins og Bjarna Benediktssyni? Og er þá ekki líklegt að hann hafi látið flokksformann sinn, forsætisráðherrann, vita? Því verður vart trúað að helstu valdamenn þjóðarinnar, seðlabankastjóri, ráðherrar forsætis og fjármála, banka og viðskipta, hafi ekki vitað af því að föstudagsskjálftinn í Glitni bar í sér hugsanlegt Íslandshrun.

Innherjaupplýsingar?
Áleitnasta spurningin er þó eftir sem áður þessi: Gerði formaður Sjálfstæðisflokksins sér ekki grein fyrir eðli Vafningsmálsins? Var hann einungis saklaus leikari í leikriti sem hann skildi ekkert í? Eins og oft áður er best að spyrja peningana. Þeir ljúga víst ekki. 
Vikurnar eftir 12. febrúar seldi Bjarni Benediktsson öll sín hlutabréf í Glitni, að andvirði um það bil 120 milljóna, að sögn DV.„Umrædd hlutabréf voru seld smám saman í febrúarmánuði 2008,“ sagði Bjarni við blaðið þann 2. apríl 2011.
Í vikunni var flutt fyrir Hæstarétti dómsmál sem varðar sölu Baldurs Guðlaugssonar á bréfum sínum að andvirði 190 milljóna í Landsbankanum í september 2008. Í endurliti er erfitt að sjá stóran mun á því máli og sölu Bjarna á bréfum sínum í Glitni í febrúar 2008, eftir að hann hafði lagt nafn sitt við neyðarbjörgun bankans sem að auki var lögbrot í sjálfri sér. 

„Varað við hruni“
Líkast til er alvarlegust í þessu sorgar­máli sú staðreynd að Bjarni skuli aldrei hafa sagt okkur hreinskilnislega frá því sem hann sá og tók þátt í að gera í febrúar 2008. Hér komst hann næst því (enn í DV, 19. des. 2009): „Það var bara verið að ganga frá endurfjármögnun lána í bankanum og það þurfti bara að gerast þennan dag...“
Því miður bendir fátt til þess að í huga Bjarna Benediktssonar hafi hlutirnir verið svona einfaldir. Því auk þess að tæma þegar í stað öll sín hólf í bankanum settist hann niður að því loknu og ritaði grein í ­Morgunblaðið ásamt samflokksþingmanni sínum, Illuga Gunnarssyni. Greinin, sem bar heitið „Til mikils að vinna“ og birtist þann 26. febrúar 2008, vakti talsverða athygli á sínum tíma, og ber augljóslega með sér að eitthvað mikið hefur komið róti á huga höfundanna. Á heimasíðu Illuga Gunnarssonar (illugi.is) er greinin meira að segja endurbirt ári síðar undir titlinum „Varað við hruni“. Greinilegt er að þeir félagar hafa í febrúarmánuði 2008 vitað örlítið meira en við hin. 
Í Morgunblaðsgrein Bjarna og Illuga má lesa setningar eins og „Ef ekkert breytist til hins betra á fjármagnsmarkaði og ekki tekst að auka traust erlendra markaðsaðila verður fjármögnun bankanna óheyrilega dýr eða í versta falli ómöguleg.“ „Ótti manna við fjármálakreppu felst meðal annars í því að einhverjar fjármálastofnanir lendi í vandræðum og komi þannig af stað keðjuverkun.“ „Ríkisvaldið og Seðlabankinn eiga að gera það sem í þeirra valdi stendur til að koma í veg fyrir áföll á fjármálamarkaði.“

Lán í láni 
Vafningsmál fengu nokkuð hlálegan endi. Í ákæru sérstaka segir: „Lánafyrir­greiðsla Glitnis frá 8. febrúar, hefur ekki fengist endurgreidd bankanum nema að því leyti að einkahlutafélagið Svartháfur ehf., tók lán hjá Glitni 29. febrúar 2008, að fjárhæð um 188 milljónir evra sem félagið lánaði af 50 milljónir evra til Vafnings ehf þann sama dag sem gekk upp í skuld Vafnings við Glitni.“ 
Sjálfsagt setur nú svima að lesendum. 
Góðærið var göldrum líkast: Glitnir fékk semsagt aldrei tíu milljarða Vafningslánið borgað. Ja, reyndar fékk bankinn helminginn af því til baka, en sá var hinsvegar klipinn af láni frá Glitni sjálfum, láni sem var enn stærra en tíu milljarða lánið, eða lán upp á 18 milljarða.
Og þá hlýtur næsta spurning að vera: Hver átti Svartháf? Jú, það stendur heima. Samkvæmt frétt DV frá 30. nóvember 2009 var Svartháfur félag í eigu Wernersbræðra, þeirra Karls og Steingríms, sem þeir skráðu föður sinn fyrir, Werner Rasmusson. Félagið var til heimilis að Suðurlandsbraut 12, að líkindum á sömu hæð og Milestone. Hér var því Vafningsfléttan endurtekin, bara með ögn hærri upphæðum.
Þegar allar þessar fréttir eru lesnar í einu púslast saman mynd sem maður á þó erfitt með að trúa. Glitnir lánaði Milestone ennþá meiri peninga til þess að Milestone gæti borgað skuld við Glitni sem upphaflega varð til við kaup Milestone á hlut í Glitni.
Sagt er að ekki sé bæði hægt að borða kökuna og eiga hana. Hér virðist kakan hafa verið étin, henni ælt og bökuð aftur, étin, henni ælt og étin aftur. 

Samviskuspurning
Að lokum fylgir svo hin augljósa samviskuspurning til þingmanna og þjóðar: Eigum við að styðja þingsályktunartillögu stjórnmálamanns sem gengur fram með slíka vafninga um háls í tilraun til að frelsa forvera sinn á formannsstóli Sjálfstæðisflokksins frá því að verða spurður út í eitt og annað sem gerðist hér á landi árið 2008, jafnvel tilfæringarnar sem áttu sér stað í Glitni í byrjun febrúar?

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.