Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Það sem forsetinn meinti

Ekki hafði ég fyrr sleppt orðinu um að ég óskaði eftir góðri haustlægð í sumarfríinu - þegar hún kom og það tvær samhangandi. Ekkert að þakka. Mig langar í nýja plötu ofan á eldhúsinnréttinguna, vask, blöndunartæki og eldavél ... þar með er þetta farið út í kosmosinn. Í næstu færslu verða vonandi myndir af þessu

Nú í nokkur ár hef ég samglaðst vini mínum (öfundað) fyrir að eiga rosasniðuga skúringagræju. Á miðju skaftinu er ílát fyrir vatn og svo þrýstir hann bara á takka fyrir ofan og vatn sprautast út úr lítilli slöngu á gólfið. Það er kannski ekki kúl að heillast yfir skúringadóti en hrifningin hvarf að mestu þegar ég komst að því að hún kostar yfir 20 þúsund krónur. En mig vantaði moppu, sú sem ég hafði notað um árabil hafði verið keypt í gegnum Sjónvarpsmarkaðinn fyrir langalöngu og hafði gefið upp öndina ... tuskan smokraðist alltaf af og ekki hægt að kaupa aðra ... Svo fór ég í Bónus að leita að nýjum áhöldum til skúringa og rak upp stríðs- og siguröskur í huganum þegar ég fann græju frá Blindrafélaginu þar sem vatn og sápa er sett í skaftið sjálft og ýtt ofan á það til að sprauta vatninu. Verðið? Rétt rúmlega fimm þúsund krónur. Ekki slæmt fyrir manneskju með rykofnæmi að geta dansað um gólfin og skúrað í leiðinni. 

Þeir sem hafa áhyggjur af orðum forsetans ... hættir hann, hættir hann ekki-framhaldssagan, geta nú glaðst. Ég nennti ekki að rýna í orð hans, heldur tók hugvísindin á þetta og endurraðaði stöfunum í nafni hans. Út úr Ólafur Ragnar kemur til dæmis: RUGLAR ÓFARNA ... Með því að endurraða stöfunum í ÓlafurRagnarGríms, kemur m.a.: GASGRÍMUR NARRA FÓL svo nú ættu landsmenn að geta slakað á. P.s. Ef stöfum er víxlað í forseti Íslands kemur út: LÍFSANDI OSS ERT

Þessi aðferð hefur breytt eigin lífi. Nú set ég allar spurningar mínar í stafavíxl og fæ alltaf svar. Stóra spurningin Elskar hann mig? hefur oft leitað á hugann og svarið sem ég fékk í dag var einfalt: HEKLAR SIG MANN. Vissulega hefði ég viljað fá Heklar sér mann - en það er nú bara vanþakklæti að amast við þessu. Ég mun því hekla mér (mig) mann sem elskar mig. Vona að plötulopi sé í lagi.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.