Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Blekkt á ferðalagi

Sitt af hverju hefur gerst frá síðasta bloggi ... fyrir rúmu ári ... hmmm. Ferð til Bandaríkjanna  - svo komu jólin sem haldin voru að vanda hjá Hildu systur, Halldór fjandi flutti til Frakklands og sonurinn flutti líka, ekki alveg úr landi þó. Nú á ég óskerta ást kattanna sem er auðvitað dásamlegt. Það komu páskar, 17. júní, gay pride, markaður alla laugardaga á Skaganum, sumarlægð á afmælinu mínu og fleira.

Einn fagran miðvikudag í nóvember í fyrra ók Halldór fjandi mér út á flugvöll þar sem nota átti afmælisgjöfina góðu, ferð til Elfu í Seattle. Það var "Landhreinsunarátakið Gurrí burt" sem stóð fyrir því (bloggið leyfir mér ekki að gera íslenskar gæsalappir). Svo langt var síðan ég hafði farið til útlanda að ég kunni ekkert á innritunina sem fólk þarf sjálft að sjá um núna!!! Halldór hjálpaði mér við það og svo kvöddumst við. Í vélinni komst ég að því að blessaður frændinn hafði uppfært mig á Saga Class og þar sat ég alsæl með kampavín í annarri og helkldót + bækur í hinni þegar tekið var á loft. Langt flug fram undan og ég ætlaði ekki að sofa eina sekúndu og hafa þannig af mér lúxusinn. Um það bil korteri eftir flugtak heyrði ég karlmannsrödd segja: "Fyrirgefðu, er þetta sæti upptekið?" Ég leit upp og sá Halldór fjanda benda á sætið við hliðina á mér. Það gat alls ekki verið svo ég leit niður í smástund og síðan aftur upp. Jú, þetta var hann og hafði blekkt frænku sína svona svakalega. Hann hafði falið ferðatöskuna sína vel í bílnum, lagt í skammtímastæði og gert allt sem hann gat til að háaldraða frænkuna grunaði ekkert. Hann sat í "sætinu mínu", aftur í hjá alþýðunni í flugtaki og lét smátíma líða áður en hann gerði vart við sig. 

Það var ekki leiðinlegt að hafa frænda með, hann kann á búðirnar og sá til þess að nyti afmælisgjafarinnar út í ystu æsar. Hann sendi mig í fótsnyrtingu í Walmart, 10 dollara klippingu á sama stað, sá til þess að ég keypti vetrarúlpu (110 dollarar) og -skó (19 dollarar!) en það síðastnefnda bjargaði gjörsamlega komandi hálkuhryllingi og öðrum veðurskelfingum sem geta gert líf strætófarþega að algjöru víti þegar þeir hlaupa á milli vagna. Það var ansi gaman að vera í Bandaríkjunum á Þakkargjörðardaginn. Kalkúnninn var afbragð og líka sætkartöflumúsin sem Tom bjó til. Það sem Íslendingar kalla sætar kartöflur kallast öðru nafni ytra, eða yam, og þykja helst til of sætar, tjáði Elfa mér. Þessar þrjár vikur liðu allt of hratt en vá, hvað ég ætla að reyna að láta ekki líða tólf ár á milli heimsókna til Elfu og Toms aftur. Það vill reyndar alltaf (tvisvar) svo skringilega til að þegar ég fer til Elfu kostar dollarinn yfir 100 krónur svo kannski ætti ég að bjarga gjaldeyrismálum íslenskra Ammríkufara og sleppa því að ferðast þangað.

Það var mikið afrek í sjálfu sér að hafa komist inn í Bandaríkin með efnavopn, eða súrsaðan hval og harðfisk. Mér fannst ég ekki hafa logið neinu þegar ég sagðii tollverði ytra að ég væri bara með íslenskt sælgæti - því Elfa veit ekkert betra en þetta ... Hún vildi ekki að ég færði henni hefðbundið sælgæti, fiskbúðing eða slíkt en mig minnir að hún hafi fengið Ora-grænar. Of kors.

Litli bærinn sem við vorum í (Conway, í tæplega klukkutíma fjarlægð frá Seattle) er varla nema ein gata. Þar mátti þó finna þrjár antíkverslanir, eitt pósthús, einn pöbb, tvær bensínstöðvar (sitthvorumegin) og svo hinum megin við bensínstöðina fjær, var verslun sem seldi "gras" ... en Washingtonríki hefur lögleitt marjúana án nokkurs vesens. Þetta var virðuleg búð og mjög snyrtileg og allt öðruvísi en ég hafði ímyndað mér. Við hliðina á húsinu okkar var slökkvistöð og svo keyrðu vörulestir fram hjá mjög reglulega sem var ógurlega spennandi. Ekki má gleyma muse-inu sem Elfa og Tom reka í gamalli hlöðu á landareigninni en þar er flutt lifandi tónlist allar helgar. Þetta var algjör dýrðarferð.

Það er ferlega gott að vera í sumarfríi á þessum árstíma, finnst mér. Vonandi fæ ég þó væna haustlægð áður en ég sný aftur til vinnu. Mikið brim og svona ... Reyndar kom sumarlægð á afmælisdaginn minn en þó var mjög góð mæting í afmælið, líka frá Reykjavík þrátt fyrir hviður á Kjalarnesi. Eftir að milli 40 og 50 yfirhafnir voru komnar á fatahengið mitt gafst það upp og hrundi niður á gólf ... Nokkrum dögum seinna prófaði ég að skella því með skrúfunum í götin og það tollir enn. Ég hef laumast til að skella einum og einum trefli á það, ásamt tveimur úlpum. Annars hef ég verið að taka íbúðina í gegn eftir að ég varð einbúi. Grisja bækur og fatnað sem Búkolla nytjamarkaður nýtur góðs af. Les þó og hekla eftir bestu getu. Það má ekki eyða fríinu sínu í eintóm húsverk - þau geta verið stórhættuleg og ég fékk að kynnast því í sumar. Fljótlega eftir að ég fór að taka bækurnar mínar í gegn (í júlí) fékk ég einhvers konar ofnæmi. Kveikjan var mildur sólbruni á handarbökum eftir að ég sat úti á svölum með bók í hönd. Við tók hryllingstími; að vakna á nóttunni til að kæla handarbökin, sofa í stól með viftu sem blés á hendurnar og annað slíkt þar til Telfast (ofnæmislyf) fór að virka en fyrir nokkrum dögum, þegar ég drattaðist loks aftur til læknis, sagði ofurlæknirinn minn, Dorota, að þetta væri rykofnæmi. Ekki katta- eða kaffiofnæmi sem var mikill léttir.

Mynd: Á leið til Seattle.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.