Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Rauðhærði riddarinn ...

Í kringum Írska daga hér á Akranesi (óveðursdagana í byrjun júlí) fór að sjást gulbröndóttur og hvítur köttur hér við Langasand. Ég hélt að hann ætti heima hér í húsinu en spáði samt lítið í það. Svo fóru að koma athugasemdir um hann á sérstakri Skagasíðu á Facebook. Að hann væri nánast of vinalegur (svangur) við baðstrandargesti, fólk óttaðist að aka á hann á bílastæðinu á hlaðinu hjá mér og allt í þeim dúr. Enn kveikti ég ekki á perunni. Það var ekki fyrr en nú fyrir rúmri viku sem ég sá hann sitja á steini nálægt þeim stað þar sem fólk gefur fuglum (t.d. krummum í vetrarhörkum og mávum í sumarhörkum), þvo sér og leggjast til svefns að ég fattaði að hann var líklega á vergangi. Ég fór út og tók smákattamat með (og myndavél). Hann var örlítið styggur fyrst en þáði matinn og klapp. Ég prófaði að setja mynd af honum á Facebook-síður um víðan kattavöll en án árangurs, enginn kannaðist við hann. Við tókum hann inn seinna sama dag. Ekki auðvelt, hann var skelfingu lostinn og þaut hræddur um íbúðina í leit að útgangi. Keli og Krummi voru lokaðir inni í svefnherberginu mínu á meðan hann var að róast. Fyrstu tvo dagana hélt hann meira og minna til á bak við leisígörl, einkastólinn minn.

Þar sem heimilið er vitabíllaust var ekki hægt að fara með köttinn til að athuga hvort hann væri örmerktur og ætti einhvers staðar eiganda sem biði tárvotur eftir honum. En Facebook býr yfir svo miklum möguleikum. Mikil dýrakona, Helga Möller, barnabókahöfundur með meiru, bauðst til að ná í mig í vinnuna á miðvikudaginn, sækja með mér köttinn og koma honum til dýralæknis í bænum. Þar var Guðbrandur, já, ég kalla hann það, skoðaður, sprautaður og hreinsaður en ekki reyndist hann vera örmerktur. Búið var að gelda hann. Dýralæknirinn sagði Guðbrand heilsugóðan og giskaði á að hann væri tveggja til þriggja ára gamall. Svo kom Davíð frændi (með kattaofnæmi) og skutlaði okkur heim á Skagann. Nú, í þessum skrifuðu orðum, liggur Guðbrandur makindalega á lopateppi í leisígörl. Hann hættir sér ekki mikið út úr vinnuherberginu því Keli þarf svolítið að sýna hver ræður á heimilinu. Þetta hefur þó allt farið fram af nokkuð fágaðri kurteisi, sama og ekkert hvæst og urrað.

Guðbrandur gæti alveg verið frá Akranesi en það er líka möguleiki á því að hann hafi farið upp í bíl hjá einhverjum og fengið far á Skagann og sé jafnvel frá Króksfjarðarnesi eða Ísafirði. Ef einhver saknar þessa fallega og símalandi sjarmatrölls bíður hann eiganda síns hér á Skaganum. Samt skrítið að eigandinn hafi ekki auglýst eftir honum eða kíkt á kattholt.is, þar sem Guðbrandur er auglýstur undir Fundnir kettir. Kannski er eigandinn útlenskur og veit ekki hvernig kattabjargarnetið virkar á Íslandi ... Hver veit. Einhver hlýtur að sakna þessa rauðhærða riddara.

Mynd: Guðbrandur hjálpaði mér að vinna um verslunarmannahelgina. Ekkert útstáelsi á þessum bænum.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.