Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Kattarþjófur ... óvart

Eins og hann fór vel við húsgögnin ...
Eins og hann fór vel við húsgögnin ...

Skömmu eftir hádegi í dag fékk ég símtal. Kurteis og indæll maður var á línunni og sagði mér að móðir hans stæði fast á því að kötturinn sem hún sá mynd af í nýjasta Skessuhorni væri hennar. Þetta væri hann Gulli, „villiköttur“ sem hún hefði haft í fæði og húsnæði síðustu átta árin.

Konan býr skammarlega nálægt mér ... svo nálægt að ég kem út úr þessu sem hinn versti kattarþjófur og búin að halda Gulla (Guðbrandi) í stofufangelsi í rúman mánuð. Mér til afsökunar hef ég kannski það að talað var um hann á Facebook sem flækingskött. Gulli er bara köttur sem fer sínar eigin leiðir, vingjarnlegur við alla og nennti eflaust ekki heim á klukkutíma fresti til að éta. Ekki skrítið að hann hafi orðið pattaralegur hér, nægur matur og algjört hreyfingarleysi.

Nokkrum mínútum eftir símtalið birtist myndarmaður sem reyndist vera jafnaldri minn og skólabróðir úr æsku. Ég tróð Guðbrandi í búr og maðurinn fór með hann heim til móður sinnar. Ekki löngu síðar kom hann aftur með tómt búrið og ég dró hann inn í kaffi og bauð honum sæti í leisígörl. Gulli varð víst voða sáttur við að komast heim, montinn, var orðið sem maðurinn notaði, og móðir hans varð einnig mjög glöð. Hún hafði verið viss um að hann væri allur þegar hann hætti skyndilega að koma heim. Ég skammaði manninn fyrir að hafa verið svona óduglegur við að mæta á reunion árgangsins okkar, við skemmtum okkur yfir fyrsta marki Swansea (Gylfi átti auðvitað stoðsendinguna) og spjölluðum heilmikið saman. Ég bað hann enn og aftur afsökunar á því að hafa rænt kettinum frá móður hans en hann hló bara. Rómantískir vinir mínir á Facebook eru nú handvissir um að Gulli verði stjúpmágur minn ... 

Við erum greinilega allt of fljót á okkur að afskrifa prentmiðlana ... Netið gerði ekkert gagn því hvorki konan né sonur hennar eru á Facebook. Það var bara elsku Skessuhorn sem virkaði. Allt er gott sem endar vel. Ég mun sakna Guðbrands en er yfir mig ánægð með að Gulli hafi komist heim. 

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.