Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Hamfarablossinn eyðilagður

Keli er ógnvekjandi í augum Guðbrands.
Keli er ógnvekjandi í augum Guðbrands.
"Hamfarablossi aldraðrar frænku minnar verður slíkur að ég mun heyra ópin ofan af Skaga á þeirri sekúndu sem gos hefst."
"Hamfarablossi aldraðrar frænku minnar verður slíkur að ég mun heyra ópin ofan af Skaga á þeirri sekúndu sem gos hefst."

Alltaf er ljúft að vera í sumarfríi, líka þegar brjálað er að gera, eins og núna. Skjálftahrinan kom á besta tíma fyrir náttúruhamfaranördið en þeim versta fyrir jólagjafaheklið. Það þarf nefnilega mjög reglulega að rífressa vedur.is, lesa ýmis skrif (Ómar, Jón Frímann o.fl.), fylgjast með fréttum og ekki síst rýna í vefmyndavélar. Þótt Bárðarbunga 2-vefmyndavélin hjá Mílu hafi dottið úr fókus í dag, kíki ég samt á hana af og til, aðallega til að athuga hvort hún sé komin í lag. Á laugardaginn þegar gervigosið, sem var nú samt í alvöru, hófst, kl. 14.10, sat ég í bíl með Halldóri fjanda og það hafði algjörlega af mér spennuna við að sitja við tölvuna og fylgjast með þessu í beinni. Broddi bjargaði miklu.

Ég hef ekkert ferðast í sumarfríinu mínu, bara skroppið í bæinn með strætó nokkrum sinnum. Við Hilda systir ákváðum að skella okkur í Reynisfjöru núna á sunnudaginn kemur og hlökkuðum báðar mikið til, enda komin mörg ár síðan við ferðuðumst saman síðast. Kemur þá ekki í veðurfréttum að fellibylur, eða leifar hans, sé væntanlegur á sunnudaginn. Mér finnst reyndar alveg þess virði að fara fyrir stórar og flottar öldur en óvíst er að hviður við fjöll leyfi slíkt. Systur minni finnst líka leiðinlegt að keyra í hvassviðri svo við bíðum bara eftir betra veðri.

Í gær var skemmtileg frétt á mbl.is um bandarískan mann sem björgunarsveit bjargaði af skeri við Gróttu. Orðrétt stóð í fréttinni: „Maðurinn var mjög illa búinn, í snjóþvegnum gallabuxum og strigaskóm.“ Ég gat ekki stillt mig um að deila þessu á feisbúkk með yfirgengilegri hneykslan á klæðaburði mannsins en umræðurnar þar snerust fljótlega um hvort snjóþvegnar gallabuxur væru komnar í tísku eða ekki ... Langt síðan ég hef skemmt mér svona vel yfir frétt ... sem tískulögga Smartlands hlýtur að hafa haft puttana í. Ég gleymi því seint þegar ein vinkona mín sagði við mig einhvern tíma á síðustu öld að fólk væri eiginlega hætt að ganga í svona buxum ... og benti á buxurnar sem ég var í. Eftir það hef ég ekki getað litið snjóþvegnar (steinþvegnar) gallabuxur réttu auga, alveg sama hvort þær koma í tísku aftur ... held ég.

Guðbrandur köttur er hér enn. Hann er orðinn pattarlegur enda borðar hann ansi vel. Ég vona bara að hann hætti að vera svona hræddur við Kela, þá verður allt miklu skemmtilegra hjá honum. Hann þarf svo sem ekki að kvarta. Hann á mjúkt lopateppi, er með sjávarútsýni og svo er herbergisþjónustan með miklum ágætum. En hvernig er hægt að týna kettinum sínum og reyna ekki með öllum ráðum að hafa uppi á honum? Sjáum til hvort Skessuhorn dagsins í dag geri eitthvað ... (Myndin var tekin í gær eftir að Keli vakti Guðbrand af værum blundi)

Myndin af Gosríði: Halldór fjandi setti þessa mynd á feisbúkk hjá sér og merkti mig inn á hana. Eftirfarandi texti hans sem fylgdi myndinni er lýsandi fyrir það sem ég þarf að þola: „Ég þarf ekki að hanga yfir vefmyndavélum eða lesa á jarðskjálftamæla til að vita þegar byrjar að gjósa. Hamfarablossi aldraðrar frænku minnar verður slíkur að ég mun heyra ópin ofan af Skaga á þeirri sekúndu sem gos hefst.“ (Svo eyðilagði frændi fyrir mér hamfarablossann)

P.S.: Af Feitletruðum og fögrum: Katie er nýbúin að eignast barn með Bill sínum og heldur að hún hafi gert mistök með því að verða ófrísk. Barnið vill ekki brjóstið og hún upplifir gífurlega höfnun. Brooke, systir hennar, er líka í sárum eftir að Ridge yfirgaf hana og það nokkrum vikum eftir að þau endurnýjuðu heitin. Hún skrökvaði einhverju að honum til að vernda dóttur sína, Hope, sem er held ég líka í ástarsorg eftir að hún hafnaði Liam Billssyni sem nú er farinn að vera aftur með Steffí Ridgedóttur. Tilvonandi tengdafaðir hennar, Bill, gerði allt sem í hans valdi stóð til að stía þeim í sundur og það tókst með lygum, svo Hope hætti við að giftast stóru ástinni sinni. Stefanía, amma flestra í þáttunum, er orðin veik á nýjan leik. Svo bárust mér þær fréttir á feisbúkk að Ridge væri orðinn hýr sem gerir þetta allt svo miklu meira spennandi. Fer hann að vera með löggunni í LA, meinafræðingnum eða einhverjum öðrum? Ég verð að fara að fylgjast betur með. Lygin í Brooke tengist víst Deacon sem var einu sinni trúlofaður dóttur hennar, Bridget (hvar er hún nú?) en Brooke stakk undan henni og varð ófrísk eftir Deacon sem er pabbi hennar Hope.

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.