Gurrí

Gurrí er aðstoðarritstjóri Vikunnar og annáluð fyrir smekk sinn fyrir ljúffengu eðalkaffi. Hún hefur komið víða við í fjölmiðlum á löngum ferli og lætur sér fátt óviðkomandi. Gurrí er í hópi vinsælustu bloggara landsins.
Gurrí

Gosvefmyndavél í óbeinni ...

Getur einhver útskýrt fyrir mér af hverju vefmyndavélin á Grímsfjalli sendir út myndirnar sínar sem olíu á striga?“ (Úlfur Eldjárn á Facebook). Þessi setning færði beiskar hugsanir mínar í orð í gærkvöldi. Vissulega hefði verið gaman að fá beina útsendingu frá mögulega væntanlegu eldgosi í Bárðarbungu, ég viðurkenni það fúslega. En sem vefmyndavélanörd hélt ég að vélar á borð við þessa fyrirfyndust ekki lengur ... nema á antíkmörkuðum. Ný mynd er tekin á tíu mínútna fresti og ekki er hægt að "rífressa" myndina til að fá nýja, heldur þarf að fleygja þeirri gömlu og ýta aftur á hlekkinn til að komast inn í nýju myndina. Samt var á Mbl.is: Sjáðu Bárðarbungu í beinni ... en þetta er alveg tíu mínútum frá því að vera í beinni útsendingu. Sumar vélar, eins og þær í Hirtshals sem uppfæra sig sjálfkrafa á tíu sekúndna fresti, hafa kennt mér hógværð og þolinmæði og þroskað mig mikið andlega þegar þarf að fylgjast með skipaumferð. Og það segir mér að þessi Bárðarbunguvél muni breyta persónuleika mínum. Ég vona samt að Veðurstofan sé með alvöruvefmyndavél. Á svona tímum sé ég alltaf eftir því að hafa ekki orðið jarðvísindamaður.

Mynd/málverk: Bárðarbunga í morgun.

Viðbót kl. 15.04: Míla sýnir nú Bárðarbungu í beinni útsendingu. Bestu þakkir fyrir það. (mila.is)

Athugasemdir

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá. DV áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg. Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.